27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2866 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla ekki að vera margorður. Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) sagði, að hjer væri áhugi mikill fyrir virkjun Sogsins og að það mál væri komið langt áleiðis. Ekki færir hann þó önnur rök fyrir máli sínu en þau, að margir bæjarbúar sjeu meðmæltir virkjun Sogsins, að nefnd í bæjarstjórn hafi haft málið til meðferðar og stjórnin látið rannsaka vatnsmagn Sogsins. Þetta er þó dálítið annað en að virkja Sogið, og er jeg mjög hissa á, að hv. 4. þm. Reykv. skuli halda því fram, að aðeins vanti herslumuninn til þess að koma þessu í framkvæmd. Þá sagði háttv. 4. þm. Reykv. um daginn, þegar þetta mál var til umr., að eftir væri að útvega fje til virkjunarinnar, og það getur tekið töluverðan tíma að fá það. En Reykjavíkurbæ gæti vantað rafmagn áður en þetta kæmist í framkvæmd.

Þá segir hann, að annað fjelag gæti komið og sótt um sjerleyfið næsta ár. Jeg veit ekki um það, en verið gæti, að næsta þing vissi þá, hvort nokkuð verður úr þessu, og gæti þá ef til vill samið við það fjelag.

Þá segir hv. 1. þm. Reykv., að jeg hafi misskilið sig út af þeirri hættu, sem hann talar um. Þessu þarf jeg ekki að svara; jeg hefi alls ekki misskilið hann, en hann er altaf jafndauðhræddur, þótt hann hinsvegar vilji halda því fram, að ekkert verði úr framkvæmdum þessa máls.

Ekki er þó gott fyrir hann að samrýma það, að halda þessu tvennu fram. Þá segir hann einnig, að ekki muni aðeins þurfa 40 miljónir króna, heldur 100 miljónir. Þetta getur vel verið, ef alt væri framkvæmt í einu, en það hefir aldrei verið tilætlunin, því að þetta er ekki sú aðferð, sem fjelagið ætlar að hafa, heldur ætlar það að vinna smátt og smátt og selja orku meðal annars einstökum mönnum.

Hv. 1. þm. Reykv. heldur einnig, að því er hann segir, að engin iðjuver verði reist og engin saltpjetursvinsla verði. Heldur hann, að fjelagið leggi 40 milj. kr. í orkustöð án þess að nota kraftinn? Hann hlýtur þá að halda, að í fjelaginu sjeu brjálaðir menn. Jeg get ekki verið hv. þm. sammála um, að að fjelaginu standi þeir fáráðlingar, að þeir kasti út 40 milj. kr. til þess að leiða orkuna til Reykjavíkur, en noti hana svo ekki. Þá segir hv. þm., að hæstv. forsrh. vilji sem minst um þetta mál tala. Hann á ekki sæti í þessari deild og hefir þar að auki ekki borið fram þetta mál. En hann hefir talað í hv. Ed. og rak þar aftur staðhæfingar hv. 5. landsk. (JBald), sem eru þær sömu og hv. 1. þm. Reykv. kemur með. Nú skulum við segja, að svo færi, sem hv. þm. vill vera láta, að fjelagið notaði ekki kraftinn, en bygði aðeins orkuver. Er það þá svo slæmt fyrir okkur? Í sjerleyfinu eru ákvæði um, hvernig þá fer, og járnbrautina verður þó altaf búið að leggja áður. Það er alveg hættulaust, jafnvel þótt fylgt sje hugsanagangi hv. 1. þm. Revkv.

Hv. þm. er hræddur um, að fjelagið fái frest með að byrja á járnbrautarlagningu 1. maí 1929. Þetta sýnir, að hann er ekki alveg trúlaus á fyrirtækið. Og eflaust álítur hann þingið varkárara en svo, að það gefi frest frá þessum tilsetta tíma nema því aðeins, að miklar líkur sjeu fyrir því, að járnbrautin verði lögð.

Hann heldur því fram, að ef járnbrautin með öllu, sem henni er tilheyrandi, væri sett að veði, þá gæti fjelagið mist hana endurgjaldslaust. Jeg býst við, að ef hann setti hús sitt að veði, gerði hann sjer það ekki að góðu að láta taka það endurgjaldslaust. Enda tel jeg slíkt brot á stjórnarskránni.