27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2869 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob Möller:

Jeg býst við, að ef jeg seldi hæstv. atvrh. hús mitt að veði fyrir því, að jeg gerði eitthvað, en ekkert yrði úr framkvæmdum, að hann þættist hafa heimild til að taka það endurgjaldslaust, og þýddi ekkert fyrir mig að fara í stjórnarskrána mjer til hjálpar. Um þetta þarf heldur ekki að deila; þetta vita allir.

Hæstv. ráðh. komst svo óþægilega í mótsögn við sjálfan sig í síðustu ræðu sinni, að mig stórfurðaði á því. Hann viðurkendi sem sje, að ekkert væri rannsakað, hve mikið þurfi til þess að starfrækja fyrirtækið. Hann viðurkennir það, sem jeg altaf hefi haldið fram, að það sje órannsakað, hvað hægt sje fyrir fjelagið að gera og hvað borgi sig að gera. Jeg vona, að hann mótmæli ekki, að hann hafi sagt þetta. Ef þetta hefði verið rannsakað, þá hefði þetta alt verið sýnt með tölum.

Allir voru undrandi, að jeg skyldi láta mjer koma til hugar, að hæstv. ráðh. og hv. frsm. bæru fram mál, sem þeir hefðu ekki þrautrannsakað. En svo kemur þessi játning frá hæstv. atvrh., sem allir heyrðu, sem sje að kostnaðurinn megi vel vera 100 milj. — það sje órannsakað! Svo segir hann, að jeg haldi, að í fjelaginu sjeu þeir fáráðlingar, að þeir ætli að veita straumnum frá orkuverunum til Reykjavíkur án þess að vita til hvers. Nú viðurkennir hann, að svo sje. Þeir ætla að selja strauminn hverjum, sem hafa vill, en ætla sjer ekkert sjerstakt annað með orkuna. Svo að í fjelaginu eru slíkir fáráðlingar, að þeir vita ekki einu sinni, hverjir geta keypt orkuna. Þetta sýnir, að alt er bygt í lausu lofti og staðfestir aðeins mál mitt. Þeir bjóða út virkjun og fá fje til þess frá öðrum löndum án þess þó að ætla sjer nokkuð sjerstakt fyrir með orkuna. Vel má vera, að þeir geti eitthvað fengið upp úr krafsinu. — Það var nýlega haldinn fundur um þetta mál hjer í bænum. Málið átti þar einn formælanda, og hann sagðist leggja mjög mikla áherslu á, að fjelagið færi á hausinn!

Hið sama finst mjer koma fram hjá hæstv. atvrh. Enn get jeg ekki verið hæstv. atvrh. sammála um ábyrgðina. Hann veit, hvernig þetta hefir verið í Noregi, og þó að þeir, sem kröfðust fjár frá norska ríkinu, fengju ekkert aftur, er óvíst, hvernig mundi fara hjer. Að vísu ná þessar kröfur engri átt. En þess ber að gæta, að þegar þeir, sem kröfurnar gera, hafa voldug ríki að bakhjarli, þá er ekki gott fyrir smáþjóð eins og okkur að standa á móti, þegar kröfurnar eru bornar fram af stjórnum hlutaðeigandi ríkja, jafnvel þótt ranglátar kröfur sjeu. Það ræður ekki altaf sanngirni eða rjettlæti. Þá sagði hæstv. atvrh., að ekki mætti ætla þinginu það að framlengja frestinn 1. maí 1929. Það eru sömu líkur til þess og að sjerleyfið verði veitt nú. En líkurnar eru sáralitlar til þess; að úr þessu verði, þó að það sje vilji 2/3 þm. Sama máli verður að gegna 1929, þó að fresturinn verði veittur af 2/3 hlutum þings.