12.02.1927
Efri deild: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2876 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það má segja um þetta frv., að það sje gamall gestur hjer í þinginu, þó að vísu ekki í þeirri mynd sem það nú hefir. Frv. er að mestu leyti eins og samnefnt frv., sem afgreitt var frá hv. Nd. undir þinglokin í fyrra. Af því að málið fjekk svo rækilega meðferð þá í þeirri deild, þótti rjettara að leggja það nú fyrir þessa deild. Jeg ætla ekki að gefa tilefni til þess, að miklar umræður þurfi að verða við þessa 1. umr., aðeins í örfáum orðum lýsa aðaldráttum frv. Frv. fer fram á að gera seðlabanka úr nokkrum hluta af Landsbankanum. Þessum seðlabanka skal leggja 4 milj. kr. í stofnfje, eða 2 milj. kr. í viðbót við það, sem þegar er ákveðið, að ríkið leggi Landsbankanum. — Þetta er í sem fæstum orðum sú úrlausn á seðlabanka, sem frv. fer fram á. Skal jeg svo ekki fleira segja við þessa umr. án tilefnis, en leyfi mjer að leggja til, að frv. sje vísað til fjhn.