20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2877 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

20. mál, Landsbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Það hefir verið dregið í efa, að sum ákvæði í frv. því, sem hjer er til umr., geti staðist, vegna þess að þau fari í bága við stjórnarskrána. Hefir talsvert verið um þetta rætt bæði utan þings og innan, og nú í dag er í einu af blöðum bæjarins grein eftir einn af málflutningsmönnunum við hæstarjett, um það, að ábyrgðarákvæðið í 15. gr. frv. gangi í bága við stjórnarskrána. — Önnur ákvæði frv., sem talið er, að fari í bága við stjórnarskrána, eru 2. málsgr. 68. gr. og jafnvel ákvæðið í 47. gr. Ef svo er, að þetta sje rjett, þá verður að vísa frv. frá samkv. 27. gr. þingskapanna. Af því að það leikur vafi á um þessi atriði, þá teldi jeg sjálfsagt, að hæstv. forseti (HSteins) felli úrskurð um þetta.