22.04.1927
Efri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg ætla ekki að tala um brtt. 2. minni hl. (JJ). Brtt. fyrri minni hl. (JBald) eru á þskj. 363, og er þá fyrst að telja, að við 12. gr. er brtt. samhljóða brtt. meiri hl., svo að vitanlega er jeg þar sammála. Þá er b-liður brtt., að orðið „þá“ í 1. línu síðari málsgr. falli niður, sem er líka í sambandi við brtt. meiri hl.

Þá er við 14. gr. 2 stórir liðir, sem hv. þm. (JBald) óskar eftir, að settir sjeu inn í frv.; a: „Að endurkaupa góða viðskiftavíxla af öðrum bönkum“. En þetta þarf ekki, þar sem bankinn hefir heimild til þess samkv. frv. að kaupa af öðrum bönkum. En þetta kemur víst til af því, að hann vill fella niður 68. grein og bæta úr því með því að setja þetta inn í 14. grein. En ef 68. grein fellur burt, hefir bankinn leyfi til að kaupa hvaða víxla, sem vera skal. Ákvæðið er því alóþarft.

Þá er undir b-lið að veita lán gegn ábyrgð bæjar-, sýslu- og sveitarfjelaga, venjuleg lán. Yfir höfuð er öll ábyrgð á lánum útilokuð frá seðlabankakaflanum. En hinsvegar geta bæjar- og sveitarfjelög fengið eins árs víxil, gegn veði, og sömuleiðis sýslufjelög. En jeg þekki það vel til sem gamall bankastjóri, að bæjar- og sveitarfjelög þurfa að taka lán til lengri tíma. Slíkt getur ekki staðist um seðlabanka; enda er bankinn tvískiftur, og geta þá sveitarfjelög og sýslufjelög fengið lán hjá sparisjóðsdeildinni. Það verður kannske með dálítið hærri vöxtum, en þar verða þau þó að fá lán sín.

Þá eru við 28. gr. tveir nýir liðir. Þarna er komið í sparisjóðsdeildina, og því gæti tillaga hans um að veita lán gegn ábyrgð bæjar-, sýslu- og sveitarfjelaga átt vel við. En nú stendur í frv., þegar búið er að telja upp, hvað sparisjóðurinn má versla með, að hann annist að öðru leyti venjulega sparisjóðsstarfsemi. Þetta er einmitt venjuleg sparisjóðsstarfsemi, að lána sveitar- og bæjarfjelögum. Því er óþarft að taka þetta upp. Þó hefir meiri hl. ekkert á móti till.

Þá kem jeg að 37. gr., að 1. og 2. málsgr. skal orða svo, sem segir í brtt. Hv. 5. landsk. vill láta alla bankastjóra hafa jafnt vald og jöfn laun. Jafnt vald eiga þeir að hafa samkv. brtt. meiri hl. við 44. gr.; er í þeirri brtt. gert ráð fyrir, að minni hl. skuli áfrýja til bankaráðs um ágreiningsatriði, ef hann vill aðeins skrifa ágreiningsatriðið í gerðabókina, og gildir þetta um alla bankastjórana jafnt. Fyrir því verða þeir jafnir að völdum; það er alveg skýlaust. En þar sem talað er um í brtt., að aðalbankastjóri skuli hafa að minsta kosti viðtæka þekkingu og reynslu í viðskiftamálum, þá eru slíkir menn fágætir og alls ekki líklegt að geta fengið þá fyrir 12 þús. kr. laun. Því má búast við, að þá menn yrði að taka úr arðvænlegri stöðum. Þess vegna held jeg sje rjettara að halda sjer að stjfrv. eins og það var. Þetta starf er fyrir reynda kunnáttumenn, svo sem kemur fram í umsögn bankastjóra við Noregsbanka og fylgir minnihl.-áliti, á bls. 60. Hann er að tala um að koma rekstri bankans á sem tryggasta braut og setur skýrt fram þessa kröfu um bankastjórana:

„Verður þá um leið sú krafa enn ákveðnari, að í stjórn bankans verði aðeins valdir menn vel kunnandi, samviskusamir og óháðir — ekki talsmenn fyrir ákveðna flokka eða stefnur, heldur þeir bestu menn, sem landið á völ á“.

Jeg viðurkenni að vísu, að þessi krafa er rjettmæt; en þá verð jeg að segja, að það er mjög vafasamt, að hægt sje að fá slíka menn fyrir 12 þús. króna laun. Jeg álít rjett, að bæði stjórn og þing hafi álit þessa bankastjóra í huga, hvenær sem þarf að skipa bankastjóra, hvort heldur við Landsbankann eða Íslandsbanka.

Jeg geri ráð fyrir, að brtt. við 42. gr. sje meinlaus, og vil ekki mæla á móti henni sjerstaklega, enda er hún nokkuð í samræmi við meirihl.-till.

Næst er brtt. við 43. gr. um að setja bankastjórunum erindisbrjef. Hann vill hafa það eitt í staðinn fyrir það, sem er í frv. sjálfu. Þetta á þá að gilda sem ákvæði um verkaskiftingu. Hann vill sleppa eiginlegu ákvæði um verkaskiftingu. En það hefir staðið í bankalögunum frá því a. m. k. 1919, að stjórnin hefir heimild til að skifta störfum milli bankastjóranna. Mjer þykir sjálfsagt að hafa í lögum, að bankaráðið skifti verkum milli bankastjóranna, þegar ástæða þykir. Þess vegna get jeg ekki fyrir hönd meiri hl. fallist á þessa till.

Næst er við 44. gr„ að 1. málsgrein orðist svo: „Framkvæmdarstjórnin hefir æðstu stjórn allrar daglegrar starfsemi bankans, eftir nánari fyrirmælum reglugerða bankans og ákvörðun bankaráðs“. Jeg sje nú ekki betur en að þetta starfsvið felist í brtt. meiri hl. og sje því ekki ástæða til að breyta þessu að neinu leyti.

Svo er b-liður, að 3. málsgrein skuli orða svo: „Framkvæmdarstjórnin heldur fundi á hverjum starfsdegi, ef málefni liggja fyrir til úrlausnar. Formaður bankaráðsins tekur þátt í þessum fundum, en hefir ekki atkvæðisrjett. Stjórna bankastjórar fundum til skiftis. Afl atkvæða ræður úrslitum“.

Fyrri partur þessarar greinar er óþarfur, vegna þess að í brtt. meiri hl. er það einmitt sagt, hvenær bankastjórnin eigi að halda fundi. Þeir eiga að halda fundi, þegar henni þykir ástæða til, en annars ekki. En meiri hl. mun vera á móti þessu, að formaður bankaráðsins taki nokkurn þátt í fundum bankastjóranna, nema þeir æski þess sjálfir; því að samkv. till. meiri hl. er ætlast til þess, að bankastjórnin sje alfrjáls og óháð af bankaráðinu, þegar um veitingu lána er að ræða og þesskonar. Því mun meiri hl. leggja á móti þessari till.

Að þeir stjórni bankanum til skiftis, er ekki ástæða til, því að jeg geri ráð fyrir, að störf aðalbankastjóra sje helst að kalla saman fundi og halda reglu í bankastjórninni. Annað verður ekki hans valdsvið eftir till. meiri hl.

Þessi till. virðist því alveg óþörf; það, sem þýðingu hefir, felst í till. meiri hl.

Svo er 2. málsliður 3. málsgreinar: „Undirskrift eins bankastjóra og formanns bankaráðsins undir fundargerðina er full sönnun þess, sem gerst hefir á fundinum“.

Eins og jeg skýrði frá í ræðu minni um daginn, þá er sú regla annarsstaðar, að allir bankastjórar skrifi undir fundargerðabókina, til þess að þeir sjeu fullkomlega ábyrgir fyrir því, sem gert er. Jeg get sagt það frá minni bankastjóratíð, að við skrifuðum allir undir, þegar fundir voru haldnir. Það er bein venja í bönkum, bæði um fundarbækur og dagbækur, að allir bankastjórarnir skrifi undir.

Þá er aðeins orðabreyting við 46. grein. Jeg hygg hún geri engan mun; enda er svo um allar þessar till., að undantekinni brtt. við síðustu málsgr. 44. gr., að þær eru eftir meirihl.-till. Það er mismunur á orðalagi um sama efni.

Niðurstaða mín er því sú, að þessar till. sjeu þýðingarlausar að því leyti, að þær bæta ekki frv. að neinu leyti.

Næst er, að eftir 52. gr. komi ný grein, svo hljóðandi:

„Allar opinberar stofnanir og opinberir sjóðir, er hafa handbært fje á sjóðvöxtum, skulu geyma það í Landsbankanum eða útibúum hans, nema öðruvísi sje ákveðið í stofnskrám eða skipulagsskrám. Sama er um ríkisfje og embættisfje, er opinberir starfsmenn hafa með höndum“.

Þetta er það sama og hv. 5. landsk. áður bar fram, að allir sjóðir sjeu háðir því að leggja fje sitt í Landsbankann. — Jeg ætla ekki að fara að ræða um þetta, því hæstv. forsrh. hefir skýrt það vel og rækilega í dag, hvílíkt feikna óhagræði það mundi gera sparisjóðum úti um land, ef þetta yrði samþ.

Þá er 60. gr. Hv. 5. landsk. vill láta úttekt á bankanum fara þannig fram, að ráðherra láti eftirlitsmann bankans framkvæma hana. Annaðhvort hlýtur að liggja til grundvallar fyrir þessari till. of mikið þekkingarleysi á því, hvað starf þetta er mikið, eða þá skortur á ábyrgðartilfinningu. Háttv. 5. landsk. veit þó, að mat á auðvirðilegasta húskofa er ekki tekið gilt, nema að minsta kosti tveir menn meti. Og oft er matinu ekki treyst, en áfrýjað til yfirmats. En þetta mat, sem hjer á að fara fram, er fullnaðarmat, sem ekki verður áfrýjað. Því verður þessi nefnd að vera skipuð að minsta kosti 5 mönnum. Það er ekki einungis til þess að fá tryggingu fyrir rjettu mati að skipa hana svo mörgum mönnum, heldur er það vegna þess, að matið er svo umfangsmikið og stórt á bankanum og útibúum hans, að færri en 5 menn mundu ekki geta annað verkinu á þeim tíma, sem nefndinni er ætlaður. Þetta verk útheimtir svo mikinn kunnugleika, að það er óhugsandi að finna hann nægan hjá einum einstökum manni. Það þurfa fleiri menn að leggja sinn kunnugleika saman. Jeg hefi sjálfur reynt, hvað útheimtist til þessara hluta.

Þegar nefndin til að meta Íslandsbanka var valin 1921, þótti ekki nægja færri en 5 menn. Verulegir kunnáttumenn í þessari grein eru fáir. Til þess útheimtist svo margt. Menn verða að læra af reynslunni. Til dæmis geta fátækir menn verið bestu viðskiftamennirnir.

Jeg hefi orðið var við, að einstökum þingmönnum er mjög illa við, að mat fari fram, og þykir mjer það leitt, af því að jeg veit, að ekki síst í frumbýlingslandi eins og okkar veltur svo mikið á, að þjóðin hafi fullkomið eftirlit með þeim stofnunum, sem fara með fje landsins. Þegar jeg var bankastjóri og verið var að ónotast við bankann, eins og gerist, þá óskaði jeg þess í þingræðu, að Landsbankinn væri reglubundið rannsakaður fimta hvert ár. Jeg vissi, að ef rannsókn væri látin fara fram, gætu allir verið ánægðir. Það var því ekki einungis bankans vegna, heldur engu síður mín vegna. Gamall málsháttur segir: „Það gerir hvern góðan, að geyma vel sitt“. Jeg held, að hann eigi hvergi betur við en hjer. Allar opinberar stofnanir verða að standa undir stöðugu, ströngu en rjettsýnu eftirliti. Ef þingið vantar þrek til þess að tryggja það, erum við ekki færir um að stjórna okkur sjálfir.

Hv. annar minni hluti nefndarinnar (JBald) hefir gert brtt. við 62. grein um að síðasti málsliður fyrri málsgreinar falli niður. Já, hv. 5. landsk. er illa við nafnið aðalbankastjóri. En ef þessi tillaga yrði samþ., yrði að breyta á mörgum stöðum í frv. Meiri hluti nefndarinnar getur ekki fallist á þessa tillögu.

Loks kemur brtt. við 68. grein, um að greinin falli niður. Bæði háttv. 5. landsk. og hv. 1. landsk. vilja afnema skyldu bankans til þess að „diskontera“ fyrir Íslandsbanka. Háttv. 5. landsk. vill fella niður alla greinina, en hv. 1. landsk. skiftir sínum till. í tvent. Í 4 ár hefir líkt ákvæði staðið í frv. og enginn amast við því. Í fyrra var því breytt dálítið til hagræðis fyrir Íslandsbanka. Íslandsbanki á að fá þessar sárabætur sjer til styrktar fyrstu árin eftir að hann er búinn að missa seðlaútgáfuna. Nú er hagur bankans lakari en þá, og ætti því að vera meiri ástæða til að láta þau hlunnindi standa. Þessi hlunnindi eru ekki einungis veitt bankanum sjálfum, heldur miklu fremur viðskiftamönnum hans. Í áliti sænska bankastjórans, sem jeg tel mikilsverðasta álitið frá útlöndum, segir svo á bls. 51: „Landsbankinn fær einkarjettinn til seðlaútgáfu og tekur við honum smátt og smátt. Sami banki tekur sömuleiðis smámsaman við þeim útlendu viðskiftum og þeim verslunarvíxlaviðskiftum, sem Íslandsbanki nú hefir. Í staðinn lætur Landsbankinn Íslandsbanka eftir sparisjóðsviðskifti sín, og fær hann (Íslb.) væntanlega einnig að reka veðdeild — —“. Af þessu sjest, að bankastjórinn telur ekki annað holt fyrir Ísland en að Íslandsbanki fái smámsaman sparisjóðsfje Landsbankans um leið og hann dregur inn og afhendir Landsbankanum seðla sína. Bankastjórinn sjer rjettilega, að það mundi trufla minst atvinnulíf í landinu, að báðir bankarnir gætu haldið jafnvægi sínu. Hv. þm. vita, að fallið hefir snúist alveg við. Sparisjóðsfje Íslandsbanka hefir streymt til Landsbankans um leið og Íslandsbanki hefir innleyst seðla sína. Það á illa við að fara að leggja til nú, að bankinn missi þessi hlunnindi í 68. gr. í nefndinni var talað um þetta á þeim grundvelli að stytta tímann úr 20 árum í 10 ár. Jeg sagði hv. 5. landsk., að mjer þætti það sanngjarnt og fjellist á það. Vona jeg, að mjer sje óhætt að segja það sama fyrir hönd meiri hlutans. Ef brtt. kæmi um þetta frá hv. 5 landsk., býst jeg við. að meiri hlutinn fjellist á hana.

Þá er jeg búinn að svara brtt. hv. 5. landsk. Jeg veit ekki, hvort jeg á að vera að lengja umr. með því að tala um það, sem hann sagði, aukreitis. Það er tæplega ástæða til þess, því að flest af því, sem hann sagði, er margbúið að segja áður. T. d. ásakaði hann Íhaldsmenn fyrir að hafa ekki á sínum tíma samþ. rannsókn á Íslandsbanka árið 1923. Þá hafði nýlega farið fram rannsókn, nefnilega 1922, og þess vegna var engin ástæða til nýrrar rannsóknar. Skal jeg því ekki eyða tíma í að tala um það.

Eins og kunnugt er, vilja bæði hv. 1. landsk. og hv. 5. landsk. halda Landsbankanefndinni og hv. 1. landsk. hefir fært fram sjerstakar ástæður fyrir því, en meiri hluti nefndarinnar er á móti, eins og sjest á nál. Hv. 5. landsk. talaði um, að bankaráð Íslandsbanka væri sett sem fyrirsvarsmenn bankans, það er að segja nokkurskonar meðmæli fyrir bankann. Þetta er rjett. Í því felast nokkurskonar meðmæli; þar eru hátt standandi menn, eins og t. d. forsætisráðherrann. En hjer eru líka fyrirsvarsmenn, það er að segja bankaráð, sem ættu að vera eins góðir fyrirsvarsmenn og þessir Íslandsbankaráðsmenn. En bestu meðmælin og það, sem vekur mest traust hjá almenningi, er góð stjórn og rjettsýn stjórn.

Loks fann hv. þm. (JBald) að því, að mennirnir ættu að vera utanþingsmenn. Okkur þótti tryggilegra að hafa ekki menn, sem daglega eiga í pólitískum erjum, ýmist á þingi eða utan þings, í þessu stórpólitíska landi.

Þó að jeg sje nú búinn að svara hv. 5. landsk., hugsa jeg, að hann sje ekki ánægður með það og þurfi enn að berja í borðið, en jeg vil unna honum þess.

Þá kem jeg að brtt. hv. 1. landsk. á þskj. 364. Fyrsta brtt. er samhljóða fyrstu tillögu hv. 5. landsk. og meiri hlutans, svo að um hana er enginn ágreiningur.

Önnur brtt. er við 29. grein. Sú tillaga hefir áður mætt eindregnum mótmælum, einnig frá nefndinni. Það er alveg óhugsandi að skylda nokkurn banka til þess að kaupa verðbrjef hærra verði en gangverði.

Þriðju brtt. sjer meiri hlutinn enga bót í, en álítur einmitt hollast, að einn kunnugur maður sje í bankaráðinu fram yfir kjörtímabil hinna. Einmitt aðalmaðurinn þarf að vera lengst, til þess að skapa festu.

Í 4. brtt. leggur hv. 1. landsk. til, að vald hæstv. stjórnar til að víkja bankastjóra frá skuli upphafið. En slíkt vald verður stjórnin að hafa, meðan ríkið sjálft á bankann. Það er engin leið að losa bankann undan ríkisvaldinu, meðan hann er eign ríkisins. Bankinn mundi tapa í áliti, og ef farið yrði að svifta ráðherra valdi sem þessu, þá er annað vald, sem líka þarf að afnema, nefnilega banna seðlaútgáfuna.

5. brtt. er í samræmi við brtt. hv. 5. landsk. um, að opinberar stofnanir og sjóðir skuli geyma fje sitt í Landsbankanum. Jeg ætla að láta hjá líða að tala um þessa brtt., þar sem hæstv. forsrh. hefir fyllilega svarað henni í dag, og jeg treysti mjer ekki til þess að gera það betur. En tillaga þessi hefir komið fram áður í hv. Nd. og verið feld þar. En sem sagt voru rök hæstv. forsrh. svo skýr og ljós, að jeg hefi þar engu við að bæta.

6. brtt. er í algerðu samræmi við brtt. meiri hlutans, og er því í sjálfu sjer óþörf.

7.brtt. er við 62. gr., um að aðalbankastjóra skuli ráða, er tvö sæti hafi losnað í bankastjórninni. Jeg skil ekki, hvaða þýðingu þetta hefir. Mjer finst þessi tillaga bæði meinlaus og gagnslaus. Þegar bankastjórarnir hafa jafnt vald, er ekkert keppikefli að fresta valinu svo lengi. Mjer stendur alveg á sama, hvort þessi tillaga er feld eða samþykt.

8. brtt. er við 68. gr. og er fyrri hluti hennar samhljóða tillögu hv. 5. landsk., sem jeg hefi svarað. En um seinustu málsgreinina er það að segja, að mjer finst mjög óeðlilegt að lofa bankastjórum Íslandsbanka að sitja á þingi, en ekki Landsbankastjórum. Það er ósamræmi, sem jeg get ekki felt mig við. En jeg hefi ekki haft tækifæri til að bera þetta upp við meðnefndarmenn mína.

Hvort jeg á að leggja út í að svara öllu, sem jeg hefi skrifað upp eftir hv. 1. landsk. (JJ), er jeg ekki fullráðinn í. Hv. þm. sagði, að jeg væri farinn að sætta mig við þessa leið vegna erlendu álitanna. Nei, það er ekki vegna þeirra, heldur vegna hins, eins og jeg tek fram í nál., að engin leið er að koma fram frv. um sjerstakari banka.

Háttv. þm. talaði ákveðið um, að líkur væru til, að gull yrði ekki framvegis í umferð. Jeg get ekki tekið undir það, því að mjer er fullkunnugt um, af hvaða ástæðu gull hefir verið í umferð undanfarið í stóru löndunum. Það er viðurkendur sannleikur meðal fjármálamanna, að því dýrari sem gjaldeyrir eins lands sje, því sparsamari verði þjóðin. Það er því venjan, að þar sem gullmynt er í umferð, verður þjóðin sparsöm. Þess vegna er í öllum bönkum t. d. í Þýskalandi og Englandi boðið fram í gulli, er útborgun fer fram; sem sje er altaf spurt, hvort fólkið vilji heldur gull eða seðla. En jeg verð að segja í sambandi við þetta, að jeg álít, að þó að við hefðum gull í umferð, þá mundi það ekki gera Íslendinga sparsamari þjóð. Til þess verður vöruskiftaverslun og lánsverslun einnig að hverfa. Þegar þessi atriði eru komin í lag, má fyrst vænta þess, að þjóðin verði sparsöm.

Það má vel vera, að þetta geti komið að liði í Svíaríki, því að Svíar eru róleg þjóð og líta ekki á þessa hluti með pólitískum augum. En það, sem „passar“ fyrir land með 6 milj. íbúa, getur orðið til skaða fyrir jafnfámenna þjóð sem okkur. Jeg vil því ráða hv. deildarmönnum til að halda sig að brtt. meiri hlutans og fella þetta niður.

Þá veit jeg ekki, hvað hv. 1. landsk. hefir meint með því að vera að benda á, að fram hafi komið um aldamótin 1900 frv. um að leggja Landsbankann niður. Ef háttv. þm. eignar mjer þetta frv., þá er það misskilningur, því að jeg býst við, að hann eigi við frv., sem fram kom á þinginu 1899, en það var ári áður en jeg kom á þing.

Þá talaði hann um, að nefnd þessi væri nauðsynleg til þess að vera skjólgarður fyrir bankann. Í þá átt held jeg, að nefnd þessi gerði ekki meira gagn fyrir bankann en þó að hengd væru á veggi hans stór auglýsingaspjöld. Það er aldrei nema rjett, að bankinn þarf að hafa skjól, en það má ekki vera ofið úr pólitískum vef, heldur eins og í Svíaríki, myndað úr rólegum og stiltum fjármálamönnum. Hann benti á, að jeg mundi minnast þess, að bankinn þyrfti skjól, því að svo stormasamt hefði verið kringum mig, meðan jeg hafði stjórn hans á hendi. Þetta er rjett. En jeg minnist þess ekki, að bankann sjálfan vantaði skjól; um hann ljeku engir stormar í þá tíð. Heldur var það jeg sjálfur, sem þurfti skjóls með. Um mig bljesu stormarnir.

Meðal annars benti hann á grein Lárusar Jóhannessonar í Morgunblaðinu nýlega, sem sönnun þess, að bankinn þyrfti skjól fyrir árásum manna. Jeg hefi lesið grein þessa og sje ekki annað en hún sje hlutlaus rannsókn á málinu. Og jeg fyrir mitt leyti felli mig við þá niðurstöðu, sem hann kemst að. Get jeg því felt mig við brtt. hæstv. forsrh. um að takmarka það, hve langt ríkissjóður ber ábyrgð á Landsbankanum. Enda fanst mjer hæstv. ráðherra færa svo skýr rök fram fyrir till. sinni, að þeim verði ekki í móti mælt. Felli jeg mig betur við þetta álit Lárusar Jóhannessonar en álit prófessors Ólafs Lárussonar, sem nefndin leitaði til. Jeg hefi nú borið till. hæstv. ráðherra undir meðnefndarmenn mína í meiri hlutanum, og vilja þeir fallast á hana.

Hefi jeg svo ekki meira að segja að þessu sinni og vænti þess, að þar sem jeg er orðinn maður gamall og lúinn, þá verði jeg ekki látinn standa lengur en þörf gerist í þessum þreytandi umræðum.