22.04.1927
Efri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2964 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

20. mál, Landsbanki Íslands

Jeg skildi ekki, hvað hæstv. ráðh. meinti, er hann sagði, að á síðastliðnu ári hefðu gerst þeir hlutir, sem gerðu það að verkum, að Íslandsbanka væri þörf á meiri ró. Jeg vil fá skýringu á þessu, hvort það er af því, að einn bankastjóranna bauð sig fram til þings tvisvar. (Forsrh. JÞ:

Þrisvar). Ef hæstv. ráðh. meinar það, þá er það varhugavert að ætla að binda andstæðinga sína með lögum, að þeir megi ekki taka þátt í stjórnmálum. Ef flokkarnir tækju upp á þessu, byrjuðu þeir, eins og nú er komið á daginn, á bankastjórunum, næst tækju þeir endurskoðendur og eftirlitsmenn bankanna, svo endurskoðendur landsreikninganna, og svo koll af kolli. Á þennan hátt væri á mussolinskan hátt hægt að múlbinda alla pólitíska andstæðinga. Hvernig sem á þetta er litið, er hjer um stjórnarskrárbrot að ræða. Enda líta fjölmargir lögfræðingar svo á. Og jeg vil benda á úrskurð hæstv. forseta. Hann lýsir yfir því, að úrskurður sinn sje kveðinn upp með tilliti til þess, að fram sjeu komnar brtt. um að fella niður þau ákvæði, sem koma í bága við stjórnarskrána. En verði brtt. feldar, ætti hæstv. forseti að úrskurða aftur um þessi ákvæði.

Áður en jeg skilst við hæstv. ráðh., vil jeg minna á brtt. hans, sem er þess eðlis, að jeg þekki hann og flokksbræður hans illa, ef þeir hefðu ekki látið sitt daglega málgagn hrópa landráð og þess háttar, ef annaðhvort jeg eða hv. 1. landsk. hefðum borið þessa till. fram. Hv. frsm. meiri hl. felst á þessa till. En hvað felst í henni? Hún fer fram á, að sú yfirlýsing komist inn í lögin, að ríkið beri ekki ábyrgð á Landsbankanum, fram yfir fje það, sem fram er lagt. Það kom fram í öðru máli svipuð till. og þessi með svipaða yfirlýsingu. Það var í Titan. Till. var um, að þingið bæri enga ábyrgð á skuldbindingum fjelagsins. Af hverju spratt sú till. fram? Af því að þm. litu svo á, að það væri svo „dirty business“, sem það fjelag ræki, að best færi á því fyrir þinginu að þvo sig hreint af nokkru samneyti við það fjelag. En þessi till. hæstv. ráðh. felur það í sjer, að ríkið vilji þvo Landsbankann af sjer á sama hátt og Titan. En hvernig halda menn, að það verki út á við, ef alt í einu kemur fram till. um, að ríkið beri ekki ábyrgð á Landsbankanum? Og þótt lögfræðingar deili um ýms atriði þessu viðvíkjandi og þó finna megi ýms ummæli úr eldri Alþt. hinu til stuðnings, þá líta allflestir svo á, að ríkið beri a. m. k. móralska ábyrgð á skuldbindingum Landsbankans.

Og verði niður feld hin lagalega skuldbinding ríkisins á Landsbankanum, þá er sú móralska ábyrgð í rauninni líka farin. Mjer skilst nú, að stofnfjeð, sem ríkið leggur fram, fari til þess að tryggja seðlaútgáfu bankans, 4–5 milj. En eigi bankinn ekki neinn varasjóð, þá getur það orðið slæmt fyrir hann, að því verði slegið föstu í lögum, að ríkið beri ekki ábyrgð á bankanum. Þá fara menn ekki að taka sparisjóð hans fram yfir aðra sparisjóði. Enda lýsti hæstv. ráðh. (JÞ) því sem tilgangi brtt. sinnar að koma í veg fyrir það, að bankinn ætti svo öflugan bakhjarl sem ríkið, því að það gæti verið skaðlegt, vegna þess að slíkur banki gæti hæglega sópað til sín öllu sparisjóðsfje úr öðrum bönkum. Jeg er hræddur um, að hæstv. ráðherra hafi ekki athugað það, að með till. þessari er hann í raun og veru að gera meira en að svifta Landsbankann sparisjóðsfje, — því hvert fer það sparifje, sem t. d. nú yrði tekið út úr Landsbankanum? Jeg sje því ekki annað, hvernig sem jeg velti till. fyrir mjer, en að hún sje til skaða, bæði fyrir bankann og landið. Jeg vil skora á hæstv. ráðh. að taka hana aftur.

Maður gæti hugsað sjer, að ábyrgð ríkisins væri takmörkuð á Landsbankanum, en þó svo öflug, að allir vissu það, að ríkið stæði á bak við bankann.

Ríkisstjórnirnar hafa gengið í ábyrgðir fyrir bankann með þeirri skýringu, að landið ætti bankann. Þessi skýring er rjett, enda þótt rjettara sje, að þingið samþykki ábyrgðirnar í hvert skifti.

Þá vil jeg víkja að hv. frsm. meiri hl. fjhn. Hann hefir talað um till. mínar, og skilst mjer, að hann sje þeim andvígur vel flestum. Fyrstu andmælin voru gegn brtt. nr. 2 á þskj. 363. Hv. þm. áleit óþarft, að í frv. stæði, að seðlabankinn hafi rjett til að kaupa viðskiftavíxla. Mjer þótti rjett að hafa þessa upptalningu, þar sem þetta eru sjerstök viðskifti. En hv. frsm. lítur svo á, að þetta ákvæði sje óþarft, þar sem það var ekki siður í hans bankastjóratíð að endurkaupa víxla. (BK: Bankinn má kaupa víxla yfirleitt). En því má þá ekki taka það fram? Og þessi víxlakaup eru dálítið annars eðlis en kaup á algengum víxlum — eða hví er í 68. gr. frv. talað um endurkeypta víxla sjerstaklega? Það er af því, að ætlast er til, að betri kjör fáist á þeim víxlum, sem Landsbankinn á að endurkaupa af Íslandsbanka. Það er ekki óþarft að taka þetta fram, sjerstaklega ef 68. gr. frv. yrði feld niður.

Þá talaði háttv. frsm. á móti brtt., sem fer fram á það, að inn í 14. gr. komi ákvæði um, að veita megi lán gegn ábyrgð bæjar- og sýslufjelaga. Það er ekki útilokað, að þau geti fengið lán gegn einhverju veði, en jeg meinti, að ábyrgð bæjar- og sveitarfjelaga yrði talin jafngóð og veð, svo að þessi bæjar- og sveitarfjelög gætu fengið lán án þess að setja frekara veð en ábyrgð sína.

Jeg veit til þess, að kaupstaðir, t. d. Reykjavík, hafa tekið rekstrarvíxla hjá bönkunum, sem eru borgaðir upp á tilsettum tíma, en eru teknir af því að bæinn þraut rekstrarfje milli gjalddaga á opinberu fje til bæjarins. Af því að ekkert er á það minst í frv., að ábyrgð bæjar-, sýslu- og sveitarfjelaga sje tekin gild fyrir lánum í seðlabankanum, þá þarf að taka það fram í 14. gr. Menn, sem þekkja til um störf bæjar- og sveitarfjelaga, eins og t. d. háttv. þm. Vestm. (JJós) og háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh), ættu að geta skilið, að það er mikið óhagræði fyrir þau að vera svift þeim rjetti að geta fengið stutt lán hjá seðlabankanum. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að bankinn hefði venjuleg sparisjóðsstörf. En hvers vegna eiga ekki svo mikilvægar stofnanir í landinu sem bæjar- og sveitarfjelögin eru að njóta sömu kjara í þessum efnum og algengir kaupmenn? Því að sennilega verða vextir lægri hjá seðlabankanum. Hv. frsm. meiri hl. játaði það líka. Með því að fella till. mína gera háttv. þm. aðeins bæjar- og sveitarfjelögum erfiðara fyrir um viðskifti við bankann, eftir þeim skýringum hv. frsm. meiri hl., að þeir geti ekki fengið lán nema að leggja fram veð. (BK: Veð eða nöfn). Jeg álít þó, að það sje ekkert betra eða öruggara en ábyrgð bæjar- og sýslufjelaga. Sú ábyrgð verður að teljast nægileg, ef bankinn á annað borð hefir peninga til þess að veita lán. Annars eru auðvitað flest lán bæjar- og sýslufjelaga löng lán, en hitt kemur þó fyrir. Löngu lánin heyra undir sparisjóðsdeild bankans, og þar er hægt að taka lán, og jeg held líka, að þar nægi fullkomlega ábyrgð bæjar-, sveitar- og sýslufjelaga, eins og ákveðið er í lögum Íslandsbanka.

Háttv. frsm. meiri hl. hafði á móti till. minni um niðurfelling aðalbankastjórans og vísaði hann til till. meiri hlutans, þar sem ætlast er til, að bankastjórarnir hafi jöfn völd. Þeir eiga að geta gert ágreining, ef þeim ber á milli, segir hv. frsm. meiri hl., en það sýnir, að þeir eru jafnir að völdum. Jeg get þó ekki betur sjeð en að í till. meiri hl. sje gengið út frá því, að einn bankastjóranna sje aðalbankastjóri. (BK: Það er aðeins nafnbót). En hvað þýðir það? Það þýðir það, að hann á að vera æðri og meiri valdamaður en hinir. En ef þetta er ekki annað en nafnbót, þá er það bara ekki annað en hjegómi að vera að klína á hann því nafni, sem ekki er ætlað að meina neitt. Jeg hefi viljað fyrirbyggja, að það skapaðist í bankanum vald eins manns og að tveir bankastjórarnir gætu skotið sjer hjá störfum og ábyrgð og lagt það á herðar aðalbankastjórans. En háttv. frsm. meiri hl. verður að athuga það, að mínar brtt. eru við frv. stjórnarinnar, en ekki við brtt. hans. (BK: Jeg skildi það). Jeg miða þær við frv., og felli alstaðar burt ákvæðin um aðalbankastjórann, eða tek þau og orða um. Jeg játa, að í brtt. meiri hl. er ýmislegt, sem jeg get felt mig við, t. d. um störf bankastjóranna. Jeg álít líka rjett, að formaður bankaráðsins hafi engin afskifti af daglegum störfum bankans og skapi sjer þannig ekkert vald. En það er freistandi fyrir ráðríkan mann að blanda sjer inn í dagleg störf bankans, en þá verður aftur lítið úr eftirlitinu. Jeg vildi draga úr þessu ákvæði. Með brtt. mínum á þskj. 363, 4–8 hygg jeg, að öll ákvæði, er snerta aðalbankastjórann í frv., sjeu niður feld. En sumar brtt. mínar eru aðeins orðabreytingar í samræmi við aðalbreytinguna um að fella niður aðalbankastjórann.

Háttv. frsm. meiri hl. fann að þeirri brtt. minni, er snertir c-lið 43. gr., sem er um það, að ákvæðið um verkaskifting milli aðalbankastjóra og hinna bankastjóranna falli niður. Þetta leiðir af því, sem á undan er gengið, enda geri jeg ekki þann greinarmun á störfum bankastjóranna, sem háttv. frsm. meiri hl. vill vera láta. Jeg man nú ekki, hvort meiri hl. hefir gert brtt. við þetta. En sú breyting mín, sem hjer er gerð, leiðir til þess, að bankastjórarnir sjeu allir jafnir að völdum. En ef liðurinn stendur óbreyttur og meiri hlutinn breytir honum ekki, þá skilst mjer, að ekki verði hjá því komist að líta svo á, að aðalbankastjórinn hafi meiri völd en hinir.

Háttv. frsm. meiri hl. ætti að athuga c-lið 43. gr., hvort ekki þurfi að breyta honum, ef þeim tilgangi á að ná, sem hann vill ná með brtt. sínum. Jeg álít nægilegt að orða liðinn þannig: „að setja bankastjórunum erindisbrjef“. Með því móti er svo hægt að taka fram í erindisbrjefunum og í reglugerð, hvernig störfum er skift.

Háttv. frsm. meiri hl. mintist á 7. brtt. mína, sem er um það, að form. bankaráðsins taki þátt í fundum bankastjóranna. En hann ætti að athuga, hvernig það er í frv. Þar er honum líka ætluð afskiftasemi og starf í bankanum; hann á að greiða atkv., er bankastjórunum kemur ekki saman, og ræður atkv. hans úrslitum. (BK: Þetta fellur burt). Já, jeg veit það, að meiri hl. hefir komið fram með till. um að fella þetta burt. En þannig er það í frv., og jeg miða aðeins við það. Jeg vildi draga úr valdi form. og láta hann ekki hafa atkvæðisrjett, þó að hann sæti á fundum bankastjóranna. En þetta er ekkert ágreiningsatriði, því að við lítum báðir svo á, að bankaráðið eigi ekki að blanda sjer inn í daglega starfsemi bankans.

Háttv. frsm. meiri hl. vísaði til orða hæstv. forsrh., þar sem hann talaði á móti 9. brtt. minni, um sparisjóðsfje í Landsbankanum. Jeg hefi nú fært rök fyrir því, að landið er ekkert ver sett með að fá lán hjá öðrum bönkum, þó að opinberar stofnanir eða sjóðir geymi handbært fje sitt í Landsbankanum. Jeg held, að ef hjer væru fleiri bankar, þá mundu þeir yfirleitt ekki neita ríkisstjórninni um lán vegna þessa, ef hún fer fram á það. Aðrir bankar hafa enga heimtingu á því að hafa opinbera sjóði. Það á að hlynna að landsins eigin banka og hann á að fá flest eða öll þau forrjettindi, sem ríkið getur veitt honum. Ríkið á að efla hann eins og hægt er, til þess að hann verði færari um að leysa af hendi hin þýðingarmiklu verkefni sín, að vera seðlabanki, halda uppi gjaldeyri landsins og veita atvinnuvegunum nægan stuðning til þess að þeir geti gengið sæmilega. Það er nú líka svo, að Landsbankinn er sú peningastofnun, sem mest stendur á. Íslandsbanki hefir verið lengi að draga inn seðla sína, og allur hiti og þungi dagsins hefir því hvílt á Landsbankanum síðan 1920, sem sagt áður en hann hafði þá ábyrgð, sem þá hafði Íslandsbanki, að halda gjaldeyri landsins uppi. En það gerði Landsbankinn 1920, er Íslandsbanki brást, og hann var því fyllilega vaxinn. En sú hefði orðið afleiðingin, að alt hefði farið í kaldakol, ef hann hefði ekki verið betur staddur en Íslandsbanki.

Háttv. frsm. meiri hl. var mjög hógvær í ummælum sínum um brtt. mínar, enda hafði jeg ekki gefið neitt tilefni til ýfingar. En jeg get þó ekki neitað því, að mjer fanst það óþarfa ýfingar hjá honum, er kom að 60. gr. frv., eða að 10. brtt. minni. Hann kallaði það of mikið þekkingarleysi eða ábyrgðarleysi, að jeg vildi láta eftirlitsmann banka og sparisjóða framkvæma úttekt bankans. En hvernig víkur nú þessu við? Hver ætti hjer að vera kunnugastur og fljótastur að átta sig á þessu, ef ekki eftirlitsmaðurinn? Sá maður, er verið hefir að athuga og meta Landsbankann eða báða bankana og útibú þeirra nú undanfarið? Þar að auki er það honum mikill styrkur, að hann er nýbúinn að athuga Íslandsbanka. Sömu viðskiftamenn koma oft fyrir í báðum bönkunum. Enginn maður er því betur fallinn til þess en eftirlitsmaðurinn að framkvæma þessa rannsókn fljótt og ábyggilega. Það er því ekki þekkingarleysi að vilja leita þekkingarinnar þar, sem hún á að vera, hjá þeim manni, sem búinn er að athuga þetta: Það skiftir auðvitað ekki miklu, hvort bankaeftirlitsmaðurinn framkvæmir þetta sem einn þátt af starfi sínu eða hvort þessi úttekt kemur til að kosta um 10–20 þús. kr. En þegar verið er að fárast yfir 50 og 100 kr. brtt. við fjárlögin, þá væri þó ekki úr vegi hjá þeim sömu mönnum, að líta á sparnaðarhliðina. Jeg fyrir mitt leyti legg ekki mikið upp úr því, en mjer finst, að þessir svokölluðu „sparnaðarmenn“ ættu að gera það.

Háttv. frsm. meiri hl. sagði, að mat á húsi væri ekki gilt nema tveir menn framkvæmdu það. Það er auðvitað rjett, því að þetta mun vera hið venjulega. En hjer stendur sjerstaklega á. Við höfum völ á manni, sem verið hefir að athuga Landsbankann. (BK: Jeg sagði meira en þetta). Jeg skal koma að því síðar. En þetta mat er ekki í öðru fólgið en að ákveða, hve mikið stofnfje bankinn þarf. (BK: Og hversu mikils virði hann er). Háttv. frsm. meiri hl. sagði, að það yrðu minst 3–5 menn að framkvæma matið, því að það starf útheimti meiri kunnugleika en nokkur einn maður hefði. En þekkingin ætti þó að vera fyrir hendi hjá þeim manni, sem hefir athugað bankann. (BK: Enginn einn maður getur framkvæmt matið). Hví játar háttv. þm. (BK) þá ekki líka, að það sje þýðingarlaust að hafa einn mann til eftirlits við banka og sparisjóði? Mig minnir þó, að hann hafi sjálfur verið með í að samþykkja það. En ef einn maður getur verið eftirlitsmaður, þá getur hann ekki síður gert þetta.

Þá skal jeg víkja ofurlítið að brtt. meiri hl. við 60. gr. Þessi úttekt á bankanum á að fara mjög hátíðlega fram, því að það er ekki seilst skemra en alla leið upp í hæstarjett, og á hann að skipa menn í nefndina. Eftir orðalagi 28. brtt. meiri hl. á nefndin að rannsaka allan hag bankans, meta útistandandi skuldir, fasteignir og aðrar eignir hans. Hefði þessi till. eða till. sú, sem er á þskj. 398, komið úr annari átt en frá meiri hl., þá hefði það áreiðanlega verið kallað ofsókn á hendur bankanum. Jeg vissi ekki, hvert menn ætluðu að komast á þinginu 1923, er farið var fram á að fá að athuga tryggingar þær, sem Íslandsbanki hefði fyrir enska láninu. Þá var það kallað ofsókn og fjandskapur gegn bankanum. Og jeg man ekki betur en að háttv. frsm. meiri hl. tæki þá líka undir og syngi með. (BK: Þá hafði mat nýfarið fram). Jeg skal nú víkja að því síðar. En jeg hefi hjer fyrir mjer ummæli háttv. þm. Þar segir hann um till. og ræðu frsm. (EÁ), á bls. 356, með leyfi hæstv. forseta: „Þá kvartaði háttv. frsm. (EÁ) um, að þessi rannsókn væri skoðuð ofsókn. Það er mjög eðlilegt, því að hún er ekkert annað, eins og sýnt hefir verið fram á af öðrum“. Þá kallaði háttv. þm. það ofsókn. (BK: Af því að mat var nýafstaðið). En háttv. þm. veit þó, að þá voru slíkir breytingatímar. Þar að auki hafði ríkið lánað bankanum stórfje, meginhlutann af enska láninu, svo að það var ekki nema eðlilegt, að sú krafa kæmi fram, að þingið fengi að athuga tryggingar bankans og hag. Þó var þetta kallað ofsókn. Þetta þurfti ekki, sögðu menn, af því að rannsókn hafði farið fram. Þeir, sem framkvæmdu þessa rannsókn, komust að raun um, að bankinn ætti meira en hlutafje sitt og að brjef hans væru yfir 100 kr. virði, minnir mig. (BK: Það er ekki rjett. Þau voru metin á 91 kr.). Já, það er rjett, en bankastjórnin vildi telja þau meira virði. En á hvað eru brjefin metin nú? Þau standa víst í 40 kr. eða svo. Þó að þau sjeu „nóteruð“ svo í kauphöllinni í Danmörku, þá fer það venjulega nokkuð nærri lagi, en er kannske of hátt. Eftir fá ár komu í ljós hjá Íslandsbanka töp mikil, og það lítur ekki út fyrir, að rannsóknarnefndin hafi svo vel rækt þetta starf, að eigi megi út á það setja. Miklar breytingar urðu á bankanum á örstuttum tíma og hann stendur nú enn erfiðar en í fyrra og þarf bæði beinan og óbeinan stuðning frá ríkinu. Mjer hefir verið sagt, að þó að rannsókn hafi verið nokkuð ítarleg í hinum smærri atriðum, þá hafi þó margt stórt sloppið fram hjá athugunum þeirra. Nefndin taldi suma viðskiftamenn bankans vel sterka, sem nú eru horfnir og bankinn hefir stórtapað á. Hún hefir því ekki athugað nógu rækilega, og kannske hefði hún athugað betur, ef hún hefði haft kunnugleika eftirlitsmannsins viðvíkjandi viðskiftamönnunum og viðskiftum þeirra við hinn bankann. Ef nefndarmennirnir hefðu verið kunnugir viðskiftum Landsbankans, þá hefði málið verið á alt annan veg. — Jeg álít till. meiri hl. varhugaverða, af því að í henni felst, eða að minsta kosti má leggja hana svo út, að það kemur fram gagnvart Landsbankanum, sem hann ekki á skilið og hefði verið talið ofsókn gagnvart Íslandsbanka. Jeg tel þetta líka alveg óþarfa. Tilefni úttektarinnar er aðeins það, að þingið og bankaráðið vill fá að vita, hve mikið stofnfje ríkið á að leggja bankanum. Og það er trygt með till. minni, þar sem eftirlitsmanninum við banka og sparisjóði er falið þetta. Annars væri starf hans alveg óþarft og ekki til neins gagns.

Hv. frsm. meiri hl. talaði að lokum um 12. brtt. mína, um það, að feld yrði niður 68. gr. frv. um endurkaupaskylduna og það, sem margir líta á sem brot á stjórnarskránni — bannið gegn því, að hinir stjórnskipuðu bankastjórar Íslandsbanka eigi sæti á þingi. Um endurkaupaskylduna leit hv. frsm. svo á, að ákvæðið væri sett til hagræðis fyrir Íslandsbanka, en í því felst að rjettum hugsanareglum, að það sje til óhagræðis Landsbankanum. Enda er þetta kvöð á Landsbankanum um langan tíma. Jeg álít, að bankaráð og bankastjórn eigi að hafa óbundnar hendur um það, á hvern hátt þau vilja styðja Íslandsbanka, en að rangt sje að leggja þeim lagaskyldu á herðar í því efni. Það er ekki svo, að Íslandsbanki eigi neinn rjett að lögum til þessara endurkaupa Landsbankans á víxlum hans, enda mun það frá upphafi hafa verið tilætlunin, að Íslandsbanki útvegaði sjer sjálfur fjármagn til viðskifta sinna á móti seðlum þeim, sem hann dregur inn, en væri ekki algerlega upp á Landsbankann kominn í þeim efnum. Endurkaupaskyldan er svo mikil skuldbinding fyrir Landsbankann, þar sem hann verður að kaupa víxlana gegn lægri forvöxtum en aðra víxla, og skyldan auk þess á að hvíla á honum í 20–30 ár, að jeg álít, að þingið geti með engu móti forsvarað það að leggja þessa kvöð á Landsbankann.

Jeg skal ekki fjölyrða um síðari hluta 68. gr. frv., um að hinir þjóðskipuðu bankastjórar Íslandsbanka megi ekki eiga sæti á Alþingi. Jeg mintist á þetta atriði í upphafi ræðu minnar, er jeg svaraði hæstv. forsrh. Mjer finst það vera ljóst, þar sem ákvæði þetta gengur svo nærri stjórnarskránni — og verði till. mín um að fella ákvæðið niður feld — að þá hljóti úrskurður hæstv. forseta að falla á þá lund, að 2. málsgr. 15. gr. og síðari málsgr. 68. gr. og jafnvel 1. málsgr. 47. gr. skuli falla burt. En vegna þess að úrskurður hæstv. forseta er ekki fallinn til fullnustu, þá get jeg beðið, en jeg geri ráð fyrir því, að við 3. umr. verði málið tekið fyrir á ný, og það þá úrskurðað af hæstv. forseta.