22.04.1927
Efri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2978 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

20. mál, Landsbanki Íslands

Jóhann Jósefsson:

Jeg hefi undirskrifað nál. á þskj. 362 með fyrirvara. Mjer þykir því hlýða við 2. umr. þessa máls að gera nokkra grein fyrir helstu atriðunum í afstöðu minni til þess, að því er fyrirvara minn snertir.

Áður en jeg vík að því, vildi jeg leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. 4. landsk. (MK), sem veittist að flestöllum brtt. meiri hl. nefndarinnar á nefndu þskj.

Hann kvað svo á um brtt. meiri hl., er snerta störf bankaráðsins, að hann teldi þar stigið spor aftur á bak frá því, sem nú er. Mjer skildist svo, sem hv. þm. (MK) aðhyltist í þessu efni frvgr., sem meiri hluti nefndarinnar hefir lagt til, að breytt yrði. Í þeirri grein er það ákveðið, að formaður bankaráðsins skuli hafa á hendi daglegt eftirlit í bankanum. Brtt. sú, er meiri hl. nefndarinnar færir fram, er þannig, að ætlast er til, að formaður bankaráðsins ásamt öðrum bankaráðsmanninum framkvæmi þetta daglega eftirlit. Ef það er rjett skilið hjá mjer, að hv. þm. (MK) aðhyllist frvgr., þá er það ekki rjett út frá hans sjónarmiði, að með till. meiri hl. nefndarinnar, sem fer fram á það, að breytt verði afskiftum bankaráðsins af bankanum í áttina við það eins og var meðan gæslustjórarnir störfuðu, sje spor aftur á bak. Bankaráð er bankanum holt, enda hefir stjórn Landsbankans oft farið fram á það, að slíkt bankaráð yrði skipað, þó ekki nákvæmlega eins og bankaráð Íslandsbanka. Mjer heyrðist á ræðum þeirra hv. þm., sem töluðu hjer síðast, að þeim kæmi öllum saman um það, að bankaráð Íslandsbanka væri ekki nema nafnið tómt og að slíkt fyrirkomulag væri ekki æskilegt fyrir Landsbankann. Það liggja nú ekki fyrir aðrar till. um þetta en frá meiri hl. nefndarinnar og svo ákvæðið í frv., svo að hv. 5. landsk. verður að halla sjer að öðruhvoru, till. meiri hl. eða ákvæði frv. Jeg álít, að það fari í rjettari átt, að bankaráðið starfi á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í till. meiri hl. og í frv., en ekki eins og bankaráð Íslandsbanka starfar. Hv. 4. landsk. sagði, að hann sæi sjer ekki fært að fylgja frv., ef till. meiri hl. um þetta atriði yrði samþ. Það er ljóst, um svo mikið mál og þetta er og svo margar brtt., sem fram hafa komið við frv., að þeir hv. þm., sem vilja binda enda á það að koma seðlaútgáfunni vel fyrir og fá Landsbankanum útgáfuna í hendur, að þeir verði að sætta sig við ýms ákvæði, enda þótt þau gangi að einhverju leyti í aðra átt en þeir hefðu frekast á kosið. Jeg hefi altaf frá því fyrsta, að mál þetta kom hjer inn á þingið verið því fylgjandi eins og það er í höfuðdráttunum í frv. því, sem hjer liggur fyrir. Jeg álít það nauðsynlegt, að þetta þing geti bundið enda á málið. Það fór eins og jeg og fleiri hjeldu fram á þinginu 1925, þegar talað var um það að skipa milliþinganefnd til þess að gera endanlegar till. um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar, að vitanlega mundu till. þeirrar nefndar ekki verða svo einróma, að ekki yrði um þær deilt eftir á. Nú er það líklegt, í hvaða mynd, sem frv. þetta verður samþ. á þessu þingi eða öðru þingi, að reynslan mundi sýna það, að breyta þyrfti lögunum á síðari þingum. Það er því ekki loku fyrir það skotið, að breyta mætti einstaka atriði fyrirkomulagsins, ef reynslan sýndi, að það væri ekki heppilegt.

Jeg hefi gert athugasemd við hál., vegna þess að jeg er því ekki fyllilega sammála í öllum atriðum. Og hið sama get jeg sagt um einstaka frvgr., sem ekki hefir verið breytt eða brtt. eru við á öðrum þskj.

Þau atriði, sem jeg er ekki sammála meiri hl. nefndarinnar um, er þá fyrst að telja ákvæðið um bankastjórnina. Meiri hl. hefir að vísu fallist á fyrirkomulag bankastjórnarinnar eins og það er í frv. og milliþinganefndin hefir lagt til að það yrði, — þar á meðal, að einn bankastjóranna skuli vera aðalbankastjóri. Þó hefir hv. frsm. meiri hl. tekið það fram í framsögu, að ekki sje til þess ætlast, að bankastjórarnir hafi misjöfn völd, enda þótt einn þeirra sje nefndur aðalbankastjóri. Jeg get tekið undir það með hv. frsm., að jeg lít svo á, að rjettast sje, að bankastjórarnir væru jafnir að völdum, en jeg tel það ekki koma nógu greinilega fram í frv., þar sem talað er um, að aðalbankastjóri hafi „æðstu stjórn“ bankans á hendi. Er af þessum orðum ekki hægt að álykta annað en að sá maður verði að hafa meiri völd en hinir bankastjórarnir. Hallast jeg frekar að hinu fyrirkomulaginu, sem er líkast því, sem brtt. hv. 5. landsk. fer fram á, að allir bankastjórarnir sjeu jafnir að völdum og beri því jafna ábyrgð á stjórn bankans. Hv. frsm. meiri hl. hefir tekið það fram, að hann liti svo á, að það ætti þannig að vera í framkvæmdinni, en frvgr. bendir ótvírætt í hina áttina.

Það hefir verið mikið talað um úttektina á bankanum, og meiri hl. hefir komið fram með brtt. við 60. gr. frv. Nú hefir hv. 5. landsk. einnig komið fram með brtt. við þá gr. En þó að jeg sje að sumu leyti samþykkur þeirri till., þá verð jeg þó að fallast á þær ástæður, er hv. frsm. meiri hl. flutti fyrir till. meiri hl., að úttektin er svo umfangsmikið starf, að það er ofætlun einum manni að framkvæma það. Í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkisstjórnin láti fara fram úttekt á bankanum í hendur bankaráðsins. Jeg er þeirrar skoðunar, að það sje nægilega greinilega orðað í 60. gr. frv., þó að jeg hinsvegar kannist við, að það sje of mikið starf einum manni. En frvgr. útilokar það engan veginn, að stjórnin skipi til þess svo marga menn, sem með þarf. Það er auðvitað, að þessi úttekt, sem á að sýna hinn sanna hag bankans eins greinilega og unt er, er í því fólgin meðal annars að meta kröfur hans á skuldunauta hans, en slíkt álit verður altaf háð því ástandi, sem ríkir á þeim tíma, er matið fer fram. Það, sem í dag er rjett metið eftir atvikum, getur með breyttu árferði og breyttri afkomu manna haft annan svip síðar, án þess að sagt verði með sanni, að matið hafi verið rangt. Jeg álít því, að ekki sje hægt að tala um slíka úttekt sem þessa sem fullnaðarmat, því það er á hverjum tíma mjög erfitt að gera.

Þá hefir talsvert verið rætt um endurkaupaskyldu Landsbankans á víxlum Íslandsbanka samkvæmt 68. gr. frv. Eftir þau orð, sem fjellu í nefndinni, þá bjóst jeg við því, að koma myndi fram brtt. við þessa grein frv. frá öðrumhvorum hinna nefndarmannanna. Jeg skal taka það fram, sem hv. frsm. meiri hl. þegar hefir lýst yfir, að meiri hl. var fús til þess að ganga inn á þá breytingu á gr. að stytta tímann, sem endurkaupaskyldan á að vera gildandi á.

Jeg hefi nú gert nokkra grein fyrir því, að hverju leyti og af hvaða ástæðum jeg hefi ekki getað fylgt öllum brtt. meiri hl., og skal jeg því ekki fara nánar út í það. En jeg mun síðar við umr. og við atkvgr. sína, hverjum till. jeg treysti mjer til að ljá fylgi mitt.

Að endingu vil jeg taka það fram, að jeg legg mikla áherslu á það, að mál þetta verði sem fyrst afgreitt út úr þessari hv. deild, því jeg held, að hv. Alþingi ætti að geta lagt síðustu hönd á frv. nú, og þar með bundið enda á það, hvernig haga á fyrirkomulagi seðlaútgáfunnar.