23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg tók það fram í fyrstu ræðu minni, að jeg mundi fara nokkrum orðum um brtt. háttv. meiri hl. næsta sinn, er jeg talaði. Síðan hefir að nokkru leyti verið andmælt orðum mínum, sem voru sjerstaklega útskýring á því, hvað vakti fyrir milliþinganefndinni með till. hennar. Jeg mun að þessu sinni sennilega láta það sitja á hakanum að svara þeim andmælum, af því að jeg tel eigi, að rökum mínum hafi verið hnekt.

Það, sem einkennir bankamálið, eru fyrst og fremst ýmsar till. hv. meiri hl., og ekki síst brtt. sú, er hæstv. forsrh. bar fram í gær. Þessar brtt. eru mjög þýðingarmiklar og geta orðið ákaflega afleiðingaríkar, fyrst og fremst fyrir bankann, og e. t. v. geta þær haft áhrif til hins lakara á meðferð málsins hjer. Þessi 4 ár, sem málið hefir verið fyrir Alþingi, hefir gætt tveggja gagnólíkra strauma. Annarsvegar hefir verið tilhneigingin til þess að ráða málinu til lykta með almenna hagsmuni og heilbrigða skynsemi fyrir augum. Hinsvegar eru ýmsar sjerkreddur og tillit til sjerstakra hagsmuna. Hin eina brtt. hæstv. forsrh. og margar brtt. hv. meiri hl. eru einmitt mótaðar af þessu. En það gleðilega við meðferð málsins er, að á hverju ári hefir verið kveðið niður meira eða minna af þessum draugum. Ef svo kynni nú að fara, að málið fengi ekki framgang á þessu þingi, væri það eflaust af því, að mönnum þætti enn of mikið í frv. af þessari þungavöru, til þess að tilvinnandi væri að hraða framgangi þess. Jeg skal ekki segja, að svona fari, en mjer virðist hæstv. stjórn og hv. meiri hl. spila heldur ógætilega, ef þau óska, að málið gangi fram.

Fyrsta sendingin, sem hæstv. ráðh. vakti upp, voru stóru hlutirnir í hinum endurfædda Landsbanka. Hæstv. ráðh., sem þá var þm. Reykv., ætlaði að sjá þannig fyrir, að hinir fáu stóreignamenn hjer ættu helminginn af stofnfje bankans í upphafi, og þarf ekki að efa, að þeir hefðu þá fyr eða síðar náð honum öllum undir sig. Jeg vjek í gær að hættunni, sem vofði yfir bankanum um aldamótin. Hv. frsm. meiri hl. mótmælti ekki, að þá hefðu menn verið svo skammsýnir að vilja leggja bankann niður, en gat þess, að hann hefði þá ekki setið á þingi og ekki verið við málið riðinn. Jeg hefi aldrei haldið því fram, en hitt hlýtur hann að vita, að ef lesnar eru blaðagreinar frá þessum tíma, þá sjest, að hann stóð allnærri þeim mönnum, er stunduðu þessa óþjóðlegu iðju. Þegar menn voru fyrir fám árum svo óþjóðlegir að vilja afhenda erlendum peningamönnum bankamál landsins um heila öld, var ekki að kynja, þótt ýmsir hefðu beyg af stóru hlutunum. En nú er sú firra alveg kveðin niður.

Næsta firran var hin sjerstaka seðlastofnun, sem háttv. 1. þm. G.-K. fann upp á og hefir barist fyrir langri baráttu, sem nú hefir loks endað í algerri uppgjöf. Ef föst sannfæring hefir legið þarna að baki, verð jeg að telja það undarlegt, að nú tekur þessi háttv. þm. að sjer framsögu fyrir meiri hluta nefndarinnar, sem felst á það frv., sem sjálfur hann hefir talið örgustu fjarstæðu. Það er líka undarleg hæðni örlaganna, að nú er ausið yfir hv. frsm. lofinu frá hæstv. forsrh., sem frá upphafi hefir verið honum andstæður í þessu. En nú talar enginn um seðlastofnunina lengur. Hún er dæmd af hinum útlendu sjerfræðingum, sem málið hafa athugað, og af þjóðinni sjálfri. Við kosningar síðastl. sumar var hún gerð að aðalmáli af einum frambjóðanda, gömlum þingmanni, en dómur þjóðarinnar á málinu var sá, sem menn þekkja.

Þriðja grýlan er endurkaupaskyldan á víxlum Íslandsbanka. Hún er að vísu ekki alveg dauð enn, en þó er margt, sem bendir á, að sá draugur muni nú niður kveðinn. Fyrst er það, að hæstv. forsrh. lagði til, að endurkaupaskyldan skyldi standa um 20 ár, en hefir nú fallið frá, að hún þurfi að vera nema styttri tíma, og stuðningsmenn hans í hv. deild hafa einnig fallist á þetta. Þá hefir hæstv. ráðh., sem hefir mjög svo einlægan vilja á að gera þetta fyrir Íslandsbanka, játað, að þetta gripi mjög inn í seðlaútgáfurjettinn. Það er viðurhlutamikið að binda þannig hendur seðlabankans, sem áreiðanlega kemur til með að eiga nógu örðuga daga hvort sem er í baráttunni við hvikult gengi og fleiri örðugleika, þótt Íslandsbanki nái ekki tangarhaldi á honum að lögum. Þetta er nú einn versti agnúinn á frv., því að nái þetta fram að ganga, er þar með gerður samningur við einkafyrirtæki, sem ekki er hægt að breyta, enda þótt næsta þing kynni að sjá, að hann væri stórhættulegur.

Af hálfu hæstv. landsstjórnar er enn haldið fast við það að ráðast á Landsbankann og rjettindi hans til að geyma opinbert fje. Ekki hefir þó verið komið með neina skynsamlega ástæðu fyrir því, að þennan rjett eigi að taka af bankanum. Það er helst sagt, að það sje óheppilegt fyrir landið, sem aldrei geti fengið stórlán hjá Landsbankanum, að leggja ekki víðar inn fje sitt. En hvaða banki á að veita ríkissjóði lánin? Auk Landsbankans getur ekki verið um aðra að ræða en Íslandsbanka, því að allar tilraunir til að koma hjer upp braskarabanka hafa strandað. Síðast í vetur, þegar þrír Gyðingar voru keyptir hingað af gjaldþrota kaupsýslumönnum, varð niðurstaðan sú, að þeim leist illa á að stofna hjer banka og fóru við svo búið. En vesalings fjárvana kaupsýslumennirnir, sem þarna ætluðu að ná í lánsfje til að fljóta á næstu árin, sátu eftir með sárt ennið og fengu aðeins að borga brúsann. Jeg fæ ekki skilið, að Íslandsbanki, sem dregið hefir inn lán jafnvel frá bestu viðskiftavinum sínum, hafi nokkurt færi á því að lána landinu fje. — Það er í raun rjettri beinlínis ábyrgðarhluti að gefa mönnum þannig undir fótinn um að geyma annara fje á ótryggum stöðum. Enda eru þess sorgleg dæmi, að yfirvöld hafa misskilið þetta frelsi þannig, að þau hafa notað opinbera sjóði til að kaupa hlutabrjef, t. d. í Íslandsbanka, sem nú eru fallin niður í 30% eða minna af nafnverði, og verða ef til vill bráðlega algerlega einskis virði. Þetta fje á auðvitað að geyma á tryggum stað, annaðhvort í Landsbankanum eða Söfnunarsjóði. Sú óafsakanlega misnotkun, sem átt hefir sjer stað, er nægileg til að rjettlæta það, að þessi leiðbeining sje gefin. — Auk þess er það ákaflega eðlilegt, að landið vilji styrkja sinn eiginn banka með því að geyma fje sitt hjá honum. Samt vill hv. meiri hl. og hæstv. forsrh. fella niður þessa skyldu, bankanum sýnilega í óhag, enda þótt hv. Nd. setti hana inn í frv. í fyrra. Jeg veit ekki, hvort hæstv. ráðh. er að þessu til að egna hv. Nd. á móti sjer, því að það er vitanlegt, að hún setur þetta ákvæði inn aftur núna.

Þá hafa bæði hæstv. ráðh. og hv. meiri hl. lagt á móti því, að trygging bankans yrði að hálfu í jarðræktarbrjefum. Jeg sje ekki ástæðu til að fara um þetta mörgum orðum. Nú er ástandið þannig, að fje bankanna beggja er að mestu bundið í öðru en jarðrækt. Einnig þess vegna hafa bankarnir orðið fyrir miklum töpum á hinum ótryggari atvinnuvegum, eins og hv. frsm. meiri hl. tók rjettilega fram. Þó að ekkert af fjármagni bankanna sje þannig bundið í ræktun landsins, þá þykir hv. meiri hluta það of mikil hlunnindi, að helmingurinn af tryggingum bankans sje í jarðræktarbrjefum. En einmitt þessi breyting gæti orðið til þess að skapa töluverðan innlendan markað fyrir brjefin. Eftir skamma stund mundu 5 milj. króna hafa fengist fyrir brjefin á innlendum markaði. Bankarnir geta ekki varið fje sínu á tryggari hátt, og það er skylda landsins að hlynna að þessu.

Þá eru bæði hv. meiri hl. og hæstv. ráðh. sammála um að brjóta á móti reynslu annara þjóða um það, að Alþingi eigi að hafa tök á bankanum. Þeir vilja fyrst og fremst eyðileggja landsbankanefndina, þennan ódýra skjólgarð um bankann. Jeg tel það lítil rök í þessu máli, þótt háttv. frsm. meiri hl. segi, að Landsbankinn hafi aldrei kent kulda frá ríkisvaldinu, heldur aðeins hann, bankastjórinn, sjálfur. Jeg mun ekki að sinni fara út í, að hve miklu leyti hann kann þá að hafa unnið til þess kulda.

Það fanst einmitt í öllu, að Landsbankinn átti erfitt í samkepninni við Íslandsbanka. Hann fjekk fríðindi og hlunnindi á hlunnindi ofan. Í hans bankaráði sátu ráðherrar og þm., sem reyndust honum hjálparhella.

Jeg skal aðeins nefna lítið dæmi frá þinginu 1912. Þá varð mikil deila um það — fyrir forgöngu þessa háttv. þm. (BK) —, hvort Landsbankinn skýldi taka steinolíuverslunina í sínar hendur og heyja baráttu gegn hinum alræmda dansk-ameríska steinolíuhring. En hvernig fór? Meiri hl. þingsins treysti ekki Landsbankanum í þessu efni og vildi því ekki styðja bankastjóra hans í jafnsjálfsögðu starfi og hjer var um að ræða.

Af öllum þeim draugum, sem vaktir hafa verið upp til þess að spilla trausti Landsbankans, er þó sá einna illkynjaðastur, sem hæstv. fjrh. sendi hjer inn í deildina í gær. Á jeg þar við brtt. hans á þskj. 398, þar sem gerð er tilraun til að smeygja því inn í lögin, að ríkissjóður beri enga ábyrgð á skuldbindingum bankans, hvorki um sparisjóðsfje manna nje annað fje í veltu bankans. Verði þetta samþykt, svífur sparisjóður Landsbankans, um 20 miljónir króna, í lausu lofti. Bankinn er fátækur og sjóðir hans litlir. Mundi því strax koma í ljós, eftir að það er vitað, að engin ríkissjóðsábyrgð er fyrir sparisjóðsfjenu, að menn rifu út innstæður sínar og flyttu þær eitthvað annað. Og lenti þá Landsbankinn í sömu vandræðunum og Íslandsbanki, sem sagt er um, að komist hafi á kaldan klaka, þegar hann misti af sparisjóðsfjenu. Bankinn kennir um pólitísku braski, að svo er komið, þ. e. a. s., að umr. þær, sem orðið hafa um bankann bæði innan þings og utan, hafi orðið þess valdandi, að menn tóku út sparisjóðsfje sitt. En þetta er ekki af öðru en því, að menn bera. ekkert traust til bankans. Menn hafa um langan tíma ekki haft neina tiltrú til hans og þess vegna rifið út innstæðufje sitt. Og nú er svo komið, að bankanum er ekki viðbjargandi á annan hátt en að taka nýtt miljónalán í Ameríku með ábyrgð ríkissjóðs, sem þýðir vitanlega ekki annað en það, að Íslandsbanki er að koma á landið.

Það er því næsta óskynsamlegt af hæstv. fjrh. að vera að gera tilraun um að flæma sparisjóðsfje manna úr Landsbankanum, en sú verður afleiðingin, ef brtt. hans verður samþykt. Hann getur ekkert um það sagt, hvert farið verður með þetta innstæðufje. En svo mikið er þó víst, að menn fara ekki með það til Íslandsbanka; hann hefir ekki þá tiltrú eftir alt, sem á undan er gengið. Að þetta fje fari í íslenska sjóði, er tæplega að búast við. Og þá er síst fjarri sanni að álykta, að menn muni flytja það úr landi og koma því þar fyrir, sem þeir verða að álíta, að sje tryggilegast. En afleiðingin af þessu gæti orðið sú, að krónan lækkaði og að ný fjárkreppa og dýrtíð skylli yfir landsmenn.

Jeg þykist vita, að fyrir hæstv. fjrh. hafi ekki vakað það, að skaða Landsbankann með þessu. Heldur hafi hann hlaupið eftir einhverri flugu, sem stungið hefir verið að honum, eða þá að hann hafi ginið við grein, sem nýlega stóð í aðalstuðningsblaði hans og rituð var af ungum lögfræðingi og samherja hæstv. ráðh. En þessi málafærslumaður hefir, eins og kunnugt er, staðið í allnánu sambandi við Gyðinga þá, er hjer voru á ferð í vetur í þeim erindum að braska við að koma á fót nýjum banka hjer í Reykjavík. Ef sá banki kemst upp, er mögulegt að hugsa sjer, að eitthvað af sparisjóðsfje því, sem Landsbankinn missir af, lendi hjá þessum nýja banka. Þó er það ekki víst og fer eftir trausti því, er almenningur ber til þess banka.

Jeg geri ráð fyrir, að það sje ekki af illum vilja gagnvart Landsbankanum, heldur af vanhyggju, að hæstv. fjrh. fremur þetta glapræði, sem jeg tel mest allra hinna mörgu synda hans næst gengishækkunarráðstöfunum hans.

Og því fremur finst mjer þetta hastarlegt af hæstv. fjrh., þegar þess er gætt, að hann var búinn með gengisbraski sínu að koma fjármálum atvinnuveganna í það öngþveiti, eins og sjest á skýrslu þeirri um afkomu „Kveldúlfs“, sem birt var í öðru aðalblaði Íhaldsflokksins í vetur — Íslandsbanki á heljarþröminni, svo að hann verður að fá hjálp þingsins ár frá ári, og kreppan komin yfir ríkissjóðinn, svo að hann verður nauðugur viljugur að draga saman seglin og skjóta á frest um óákveðinn tíma ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum. — Þegar svona er komið, sem eingöngu verður að skrifast á syndalista hæstv. fjrh., þá á það að vera eina meðalið til bjargar að eyðileggja Landsbankann. Hann er eina fjármálastofnunin af þeim, sem ráðherrann hefir eitthvað yfir að segja, sem hæstv. ráðh. hefir enn ekki tekist að vinna svo á, að hann kæmist í sama fjárhagsöngþveitið og Íslandsbanki. En nú er röðin komin að Landsbankanum. Nú á að eyðileggja hann með brtt. hæstv. fjrh. á þskj. 398. Því þó að hún væri steindrepin strax, eins og jeg vona, að hv. deild geri, þá hlýtur hún að stórskaða bankann. Það er hægt að síma og verður símað út um landið og víðar, hvernig hæstv. fjrh. hins íslenska ríkis lítur á þetta mál. Þetta álit ráðherrans er komið fram í opinberu þskj. á hinu háa Alþingi, og hann getur aldrei svarið sig frá því. Erlendir lánardrottnar Landsbankans verða eflaust ekki mjög ginkeyptir fyrir þessu áliti fjármálaráðherrans íslenska, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans.

Það hafa altaf síðan 1899, þegar ganga átti milli bols og höfuðs á þjóðbanka okkar, fundist einhverjir menn, sem ekki hefir skort vilja til þess að eyðileggja hann. En það hefir altaf verið hægt að koma í veg fyrir það. En þetta glapræði, sem brtt. hæstv. fjrh. fer fram á, er áreiðanlega eitthvað það versta, sem fram hefir komið til skaða og álitsspillis Landsbankanum. Öll sú viðleitni hans um að leysa bankamálið á skakkan hátt hefir tafið fyrir því í 4 ár. Og nú hefir hæstv. ráðherra með bandalagi við háttv. 1. þm. G.-K. tekist að ganga svo frá frv., ef brtt. hans verður samþ., að eftir það er ekki hugsanlegt, að þjóðin verði ánægð með lausn þess. Hinsvegar er ósamræmi hjá hæstv. forsrh., eftir því sem sagt er, að hann hafi gefið þá skipun hv. formanni fjvn. þessarar hv. deildar að tefja störf nefndarinnar, svo að tími ynnist til að koma þessu máli fram, og hann gæti þá fengið aðstöðu til að útbýta bitlingum handa einhverjum gæðingum Íhaldsflokksins við þessa stofnun.

Þá ætla jeg nú að víkja frá þessari viðleitni hæstv. forsrh. um að tefja fyrir málinu og þinginu yfirleitt, og snúa mjer heldur að hinum heilbrigða þjóðarvilja, sem unnið hefir að því ár frá ári að kveða niður þá drauga, sem vaktir hafa verið upp til þess að eyðileggja Landsbankann. Þess vegna vona jeg, að hvenær sem þetta mál verður samþ., þá verði það gert með hag þjóðarinnar fyrir augum, en ekki vegna fjandskapar gegn einu og stærstu bankastofnun þjóðarinnar.

Þá kem jeg að einu atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. í sambandi við þá rannsókn, sem meiri hl. nefndarinnar ætlast til, að sett verði á bankann. Og er það þá aðallega tvent í því sambandi, er jeg mun gera að umtalsefni og drepa lítilsháttar á. Er það þá fyrst þetta 20 ára dæmi, sem hv. 1. þm. G.-K. tók til þess að sanna skoðun sína, að mjer skildist, um skaðsemi bankarannsóknarnefnda, sem reyndist þó (1909) ekki nógu sterk að hans dómi til þess að eyðileggja bankann. Hann vildi sanna nauðsyn þess, að hæstirjettur skipaði þessa rannsóknarnefnd, með því, að hjer hefði áður verið bankarannsóknarnefnd, sem hefði mislukkast, af því að hún var svo til orðin eins og hann lýsti.

Hann talaði um 4 menn í sambandi við þessa rannsókn og ætlaðist víst til, að á þeim skylli skömmin. (BK: Og heiðurinn líka). Nú, jæja, við skulum segja það. Hann nefndi 4 menn, sem við þessa rannsókn voru riðnir. (BK: Jeg nefndi þrjá menn). Já, þrjá venjulega menn og einn ráðherra, en það eru til samans 4 menn. Hann nefndi þrjá lögfræðinga, sem þá voru í bænum, þá Svein Björnsson, sem nú er sendiherra í Kaupmannahöfn, Magnús Sigurðsson, bankastjóra við Landsbankann, Magnús Arnbjarnarson og heilsubilaðan ráðherra. Að því er snertir þennan heilsubilaða ráðherra, þá ætla jeg að biðja háttv. þdm. að athuga sjerstaklega með gaumgæfni, hvað það hefir að þýða. (BK: Jeg sagði ekki „heilsubilaðan“, heldur talaði jeg um ráðherra, sem mist hefði heilsuna). Nú, jæja, við skulum þá fylgja því, enda skiftir það litlu, hvort ráðherrann sje talinn heilsubilaður eða hefir mist heilsuna.

Jeg ætla þá, þeirra manna vegna, sem nú heyra mál mitt, en ekki hinna vegna, sem sátu á þingi 1909, að víkja lítilsháttar að aðdraganda þeim, er bankarannsóknin 1909 átti. Eftir því sem Kristján Jónsson segir frá þessu máli undir umr. um skipun nýrrar bankarannsóknarnefndar á þinginu 1911, þá hafi Björn Jónsson, þáverandi ráðherra, sagt sjer (veturinn 1909), að hann ætlaði að láta framkvæma rannsókn á Landsbankanum. Segist Kristján Jónsson þá strax hafa varað ráðherra við að gera þetta og bent honum á, hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir bankann. En ráðherra skeytti því engu og skipaði rannsóknarnefnd á bankann, er Kristján Jónsson taldi þá þegar miður vel skipaða. Líður svo fram til 22. nóv. 1909, að tveir menn koma eftir skipun ráðherrans inn í Landsbankann og reka út úr honum bankastjórann sjálfan, Tryggva Gunnarsson, ásamt báðum gæslustjórum hans og setja inn Björn Kristjánsson, núverandi hv. 1. þm. G.K. Þetta er sá mikli brottrekstur úr bankanum, sem mest var talað um á sínum tíma.

Björn Jónsson, sem var foringi þess flokks, sem hv. 1. þm. G.-K. taldist til, skipaði ekki aðeins fyrir um bankarannsóknina, heldur ljet hann reka Tryggva Gunnarsson út úr bankanum og setja hv. 1. þm. G.-K. inn. Þess vegna er sanngjarnt að heimta það af þessum hv. þm. (BK), að hann segi ekki neitt það um þennan fallna flokksforingja sinn, er kasti rýrð á minningu hans.

Nú er rjett að geta þess, að hver einasti maður, sem hlutlaust hefir kynt sjer málið, kemst að þeirri niðurstöðu, að þessi rannsókn á bankann hafi verið hið mesta glapræði, sem nokkru sinni hefir verið framið, og brottrekstur Tryggva Gunnarssonar pólitísk ofsókn, sem aldrei mundi hægt að rjettlæta, enda varð þessi ráðstöfun banamein þess langstærsta stjórnarmeirihluta, sem verið hefir í landinu.

En nú rifjar hv. 1. þm. G.-K. upp þessa sögu og segir hana á þann hátt, að engum blandast hugur um, að hann sje að reyna að draga athyglina frá sjer með því að niðra ýmsum mönnum, sem handgengnir voru foringja flokksins, þessum heilsubilaða ráðherra, sem þrotinn var að kröftum og ekki sjálfs sín ráðandi, að sögn hv. þm. (BK).

Annars ætla jeg ekki að eltast við alt í frásögn hv. þm., en vil þó minnast tveggja manna, sem hann nefndi og mjer er kunnugt um, að hann hefir fyrir rangri sök.

Er þá fyrst að nefna Svein Björnsson, son ráðherrans, sem hjer er ómaklega ráðist á. Var Tryggvi Gunnarsson guðfaðir Sveins og þeir vinir alla tíð, bæði undan og eftir að Tryggvi var rekinn úr bankanum. Enda var Sveinn á móti þeirri ráðstöfun og taldi hana frá upphafi mjög hættulega og skaðlega fyrir föður sinn. Sveinn er mjög varfærinn maður, enda bendir alt til, að hann hafi ráðlagt föður sínum heilt og varað hann mjög við að gera þetta glapræði, sem vondir menn hvöttu hann til að gera og stóðu á bak við hann með slæmum áhrifum. Um annan manninn, Magnús Sigurðsson, núverandi bankastjóra, er mjer líka kunnugt um, að hann var einnig mótfallinn og átti engan þátt í því, sem gerðist 22. nóv. 1909, enda hafði hann látið það ótvírætt í ljós, að þessi ráðstöfun gæti orðið til þess að skaða bankann. Við þriðja manninn hefi jeg ekki talað, en heyrt hefi jeg, að hann hafi líka verið á móti brottrekstrinum 22. nóv.

Nú vil jeg benda á, að fyr og síðar hafa böndin borist að hv. 1. þm. G.K., að hann hafi verið pottur og panna í öllu þessu Landsbankafargani 1909. Það sje hann, sem staðið hafi á bak við nafna sinn, Björn ráðherra Jónsson, og það sje hann, sem með vondum áhrifum hafi ýtt þessum heilsubilaða foringja flokksins út í það glapræði, sem ráðstafanirnar 22. nóv. 1909 voru taldar að vera. Dylgjur hv. þm. um þessa þrjá lögfræðinga eru nú bornar fram til þess að draga fjöður yfir alt baktjaldamakk hv. þm. í þessu máli. Þess vegna er rangt að kasta skugga á minningu Björns Jónssonar í sambandi við þetta bankamál af manni, sem alþjóð veit og telur, að bera eigi alla ábyrgð af þeim mistökum og ófarnaði ráðherrans. Það mætti líka geta þess, að þessi sami maður, sem á lúalegan hátt reynir að ófrægja nafn látins vinar síns, hann er einmitt sá, sem græddi virðingu og metorð við þá breytingu, sem varð á Landsbankanum 22. nóv. 1909, en það er hv. frsm. meiri hl. (BK). Hann hafði mikið sóst eftir völdum áður, og þegar Íslandsbanki var stofnaður. gerði hann sjer glæsilegar vonir um bankastjórastöðu þar, en þær vonir brugðust. En þegar hann er kominn í þann stærsta meiri hluta, sem verið hefir í landinu, vaknar valdalöngunin aftur, enda kemur það á daginn, að honum hefir tekist að koma svo ár sinni fyrir borð, að það er hann, sem Björn Jónsson hefir á boðstólum í bankastjórastöðuna, þegar búið er að reka Tryggva Gunnarsson út. Og áreiðanlega hefði þetta aldrei komið fyrir, ef hv. þm. (BK) hefði ekki staðið þar að baki nafna sínum.

Annars vil jeg geta um lítið atriði í sambandi við þessa frávikningu. Þegar búið var að reka Tryggva Gunnarsson út úr bankanum, gátu trúnaðarmenn stjórnarinnar ekki lokið starfi sínu, af því að sá maður var þar ekki staddur, er taka átti við bankastjórastarfinu. Gengu þeir þá út úr bankanum og vestur Austurstræti. Úti fyrir Hótel Ísland hittu þeir hv. 1. þm. G.-K., sem virtist vera á austurleið. En hann fór sjer hægt, var feiminn og uppburðarlítill. Þó fylgdist hann með mönnunum til baka, var settur inn í bankastjórastöðuna, tók við yfirráðum þar og hafði þá stöðu á hendi í 9 ár.

Nú vil jeg spyrja hv. frsm. meiri hl., hvernig honum geti dottið í hug, að nokkur, sem til þessa máls þekkir, muni leggja trúnað á þau orð hans, að hann hafi ekkert um þetta vitað fyr en hann var slæddur upp á vesturtakmörkum Austurstrætis, leiddur austur í Landsbanka og settur þar inn sem húsbóndi.

En það er meira en almennar líkur, sem sanna hlutdeild hv. þm. í bankafarganinu 1909.

Jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkur orð úr ræðu, sem Kristján Jónsson háyfirdómari flutti á þinginu 1911 og prentuð er í Alþt. þess árs í 360. dálki B-deildar. Þar farast háyfirdómaranum orð á þessa leið:

„Jeg ætla hjer að segja frá dálitlu atviki, sem bar við þ. 15. okt. (þ. e. 1909). Þann dag kom til mín mikilsmetinn maður og vinur ráðherra. Hann varpaði mæðilega öndinni og segir, að þetta bankaþóf ætli að taka ljótan enda, því að ráðherra muni ætla að setja alla bankastjórnina af, líka gæslustjórana. Jeg svaraði aðeins, að jeg tryði því ekki. Nafn mannsins get jeg nefnt fyrir væntanlegri rannsóknarnefnd“.

Þetta er fyrsti framburður Kristjáns Jónssonar háyfirdómara. Hann nefnir að vísu ekki manninn, en það er vitanlegt, að það hefir verið Björn Kristjánsson, sem hann hefir átt við og sem hann segir, að hafi sagt sjer frá þessu máli, áður en frávikningin átti sjer stað. Síðar, á þinginu 1911, var skipuð rannsóknarnefnd í þetta má), og var Lárus H. Bjarnason, nú hæstarjettardómari, mjög framarlega í þessari rannsókn, og hann víkur svo að þessu aftur, hver þessi maður hafi verið, sem vitað hafi um frávikninguna fyrirfram, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr ræðu, sem hann flutti í Ed. 22. febr. 1911; það er í B-deild þingtíðindanna, 399.–400. dálki og hljóðar svo:

„Og víkur þá máli að afsetningunni 22. nóvember 1909, sem líklega hefir verið ráðin 15. okt. 1909. Að hún hafi verið ráðin þann dag, má marka af því, að háyfirdómari Kristján Jónsson hefir borið fyrir nefndinni, að þann dag hafi Björn Kristjánsson komið heim til sín og hafði B. K. gefið honum í skyn, að ráðherra mundi vera búinn að afráða að setja gæslustjórana af, og bætt við, að sjer þætti leiðinlegt að missa þá. Björn Kristjánsson mundi að vísu ekkert eftir þessu samtali, er hann var kallaður fyrir nefndina, jafnvel ekki er háyfirdómari minti hann á það, að hann hefði komið heim til sín í rökkrinu, og lýsti ítarlega öllu, sem þeim hafði farið á milli“.

Þetta kom sem sagt fram fyrir nefndinni og er viðbót við þær sannanir, sem jeg er áður búinn að færa fram, og hygg jeg, að það verði mjög erfitt fyrir hv. 1. þm. G.-K. að ósanna það, að hann hafi að minsta kosti vitað um það aðalafbrot, sem fremja átti í þessu máli, og viljað benda á það. (BK: Það er dálítið annað að vita um afbrot eða vera orsök í því). Hv. þm. segir, að það sje dálítið annað að vita um afbrot eða vera orsök í því, en því er nú miður fyrir hann, að það má heita sannað, að hann var einmitt potturinn og pannan í þessu.

Nú er það svo, að Kristján Jónsson háyfirdómari bar þetta tvisvar fram í rannsóknarnefndinni og tilgreindi bæði stund og stað. En hins vegar hefir maður sá, sem þetta var borið á, ekki neitað því, eins og hann hefði getað, ef þetta hefði ekki verið rjett, og jeg vil sjerstaklega benda á það, að þar sem Kristján Jónsson hefir verið dómstjóri hæstarjettar, og þar sem hv. þm. álítur, að þá hæstu visku og rannsókn í bankamálum megi fá með því að blanda hæstarjetti inn í þau, þá verður hv. þm. að játa, að Kristján Jónsson háyfirdómari er það hæsta vitni, sem hægt er að leiða fram. En vitnisburður dómstjórans er hjer mjög á móti bankastjóranum.

Háttv. þm. hefir nú gengið hjer í gildru. Nú játar þessi hv. þm., að hann hafi talað þessi orð við Kristján Jónsson, en segir, að það sje annað að hafa vitað um brottreksturinn eða hafa ráðið til verksins. Innskot hv. þm. er hjer sönnunin. Á þingi 1927 man hann eftir að hafa vitað 15. okt. um brottreksturinn, sem framkvæmdur var 22. nóv. En eins og jeg hefi sannað með orðum L. H. Bjarnasonar prófessors, þá segist Björn Kristjánsson fyrir rannsóknarnefnd Ed. 1911 ekki muna eftir þessum ráðagerðum. Í stuttu máli: Hv. 1. þm. G.-K. játar árið 1927, að hann muni eftir atviki frá 1909, sem hann fyrir rjetti 1911 fullyrðir, að hann muni ekki eftir. Hann er hjer orðinn tvísaga. Og eftir öllum málavöxtum er hjer komin fram þungvæg sönnun um sekt hans í brottrekstri Tr. Gunnarssonar, sem hann hjer hefir viljað koma yfir á aðra og saklausa menn. En er nú nokkuð líklegra, þar sem Kristján Jónsson segir, að hv. þm. hafi verið aldavinur ráðherrans, og þessi góði vinur ráðherrans er einmitt skipaður bankastjóri? Liggur þá ekki nærri að halda, að hv. 1. þm. G.-K. hafi verið aðalpotturinn og pannan í þessu atferli, enda uppsker hann mest af því?

En mjer dettur í hug, þegar jeg lít á þessa tilefnislausu málsvörn hv. 1. þm. G.-K. í þessu máli hjer í deildinni, að minna á eitt dæmi úr fornsögunum, sem allir þekkja, þegar Njálssynir og Kári höfðu, að tilhlutun Marðar Valgarðssonar, vegið Höskuld Hvítanesgoða. Vígið var hið mesta óhappaverk. Þá settu Njálssynir upp, að Mörður veitti Höskuldi líka sár, svo að hann væri í sök með þeim. En þegar hann tekur að sjer að verja málið og nefnir votta að benjum, þá lætur hann hjá líða að geta um eitt sárið, einmitt það sárið, sem hann sjálfur hafði veitt, og það gerði hann til þess að ónýta málið. Jeg held, að hv. 1. þm. G.-K. hafi farið hjer að eins og þessi vitri en ekki vandaði maður, Mörður Valgarðsson; hann hefir ekki nefnt votta að þeirri ben, sem hann sjálfur hefir vakið.

Jeg tel þess vegna, að jeg hafi jafnvel gert meira en skylda mín var til þess að upplýsa þetta gamla mál, en jeg get ekki varist þeirri skoðun, að þó að hv. 1. þm. G.-K. hefði ekki verið með í þessu atferli, þá hefði það samt verið skylda hans að vera ekki að draga þetta óhapp síns látna vinar, Björns Jónssonar ráðherra, inn í umræðurnar að ástæðulausu, og ef hv. þm. (BK) kennir nokkurs sársauka af því, sem jeg hefi sagt hjer, þá verður hann að viðurkenna, að úr því að vinur hans, Björn Jónsson, treysti honum í vandasömum efnum, þá átti hann það ekki skilið, að hv. þm. (BK) væri að ástæðulausu að halda á lofti höfuðósigri Björns Jónssonar.

Þetta dæmi, sem hv. þm. (BK) tók til að sanna skaðsemi bankarannsókna, hefi jeg nú rakið eins og það var og skýrt frá, hvert álit þjóðin hefir á því, og verð jeg að segja það, að þessi bankarannsókn reyndist að vera tilefnislaus, aðeins sprottin af fjandskaparástæðum við Landsbankann. Það er þess vegna óeðlilegt, að hv. þm. (BK), sem vill koma á rannsókn á Landsbankanum, skuli vera að draga þetta inn í umr., því að ekkert mælir frekar á móti því en þessi sögulega frásögn hv. þm. En úr því hv. þm. hefir kosið að draga þennan gamla atburð inn í umræðurnar að tilefnislausu, er ekki hægt að komast hjá því að minnast á eitt atvik, sem kom fyrir kvöldið 22. nóv. 1909 í hvelfingu Landsbankans. Fjendur Tr. Gunnarssonar vonuðu, að sjóðþurð mundi reynast í bankanum, ef talið væri snögglega. Sú sjóðþurð átti að rjettlæta afsetninguna. Um kvöldið seint var búið að telja. Þeir stóðu báðir í hinu daufa lampaljósi sinn hvorumegin í hvelfingunni, hinn mikli maður, sem verið var að reka, og hinn litli maður, sem var að taka við. Þegar sannreynt var, að engan eyri vantaði í sjóðinn, dró Tr. Gunnarsson stóra lyklakippu úr vasa sínum, kastaði henni fyrirlitlega að fótum eftirmanns síns og sagði: „Njóttu eins og þú hefir aflað!“

Tr. Gunnarsson vissi, hvernig eftirmaður hans hafði aflað lyklavaldanna í Landsbankanum og hann varð sannspár um, hversu fara myndi. Eftir 9 ár hröklaðist hinn lævísi eftirmaður úr bankanum, með lítilli virðingu og gaf sjer sjálfum þann vitnisburð, að hann væri öreigi. Annars voru þessir tveir bankastjórar merkilegar andstæður. Annar var mesti og athafnaríkasti framfaramaður sinnar samtíðar. Hann bygði brýr og vegi. Hann var frömuður vöruvöndunar og verslunarsamtaka almennings. Hann var faðir þilskipaútgerðarinnar og íshúsanna. Hann prýddi land sitt og bæ á margan hátt. Hinn var rótgrónasti afturhaldsmaður sinnar tíðar, fjandmaður pöntunarfjelaga, kaupfjelaga, Sambandsins, símans, járnbrautarinnar og þjóðbankans. Það var vel við eigandi, að slíkur maður hefir nú undir æfilokin afhjúpað sig gagnvart fortíð sinni eins og hv. þm. hefir gert í þessu máli.

Nú vil jeg víkja að rannsókninni eins og hv. þm. hugsar sjer hana, og vil jeg þá geta þess, að það kom bersýnilega fram í ræðu hv. þm. fullkomin óvild til bankans. Hv. þm. var að hlakka yfir því, að það hefði þurft að afskrifa mikið af töpum í bankanum nú á síðari tímum, en það hefði ekki þurft að gera í hans tíð, sem mun vera rjett, en gat þess ekki, að það var öðruvísi umhorfs í atvinnumálum landsins á árunum 1909–1918 heldur en síðan, og í öðru lagi vita menn það af mörgu, sem hefir komið fram hjá hv. þm., að hann bar altaf kala til Landsbankans, nema þegar hann var þar bankastjóri. Hann var fullkominn óvinur Landsbankans á þeim árum, sem verið var að koma Íslandsbanka á stofn, og hv. þm. veit það svo vel, að honum þýðir ekki að reyna að bera á móti því. Hv. þm. var einn af þeim mönnum, sem frekast gengu fram í því að koma Íslandsbanka á fót, og það eru til greinir í blöðum frá þeim tíma, sumar undir hans nafni, en sumar nafnlausar, en sem allir vita, að hv. þm. hefir skrifað, sem gengu í þá átt að styðja dráp Landsbankans. Þegar hv. þm. er að brjótast til valda í bankanum, þá verður sú mikla stjórnarbylting, sem jeg hefi nú sagt frá. Þá verður hv. þm. mótsnúinn Íslandsbanka um stund, meðan hann er bankastjóri Landsbankans, en þótt hann hafi síðan hann fór burtu úr bankanum haft laun þaðan, þá er það vitanlegt, að hv. þm. hefir verið mótgangsmaður bankans í orði og verki, og þarf ekki annað en minna á, að í þeim umtalaða pjesa, sem hv. þm. ritaði á móti kaupfjelögunum, gat hann ekki dulið óvild sína til bankans.

Grundvöllurinn að rannsóknarkröfu hv. þm. sýnist vera óvild við bankann, en hjá hæstv. ráðh. (JÞ) til að ganga inn á þessa fjarstæðu hjá hv. þm., þó að hann sje á móti henni, aðeins það, sem kallað er of mikil löngun í ráðherrasætin. Þess vegna eltir stjórnin þetta reikula stuðningsatkvæði sitt út í öfgar og vitleysu.

Ástæður til þessarar nýju rannsóknar á Landsbankanum virðast vera veikar, þegar á það er litið, að með bankalögunum gerist ekki annað en það, að landið afhendir sjálfu sjer banka, sem það altaf hefir átt og látið reka, og að bankinn tekur nú við seðlaútgáfurjetti, sem um stund hefir verið í höndum útlends banka fyrir tilverknað óþjóðlegra manna. Það dettur engum í hug, að þetta hafi í sjálfu sjer önnur áhrif en þau, að það geti oltið á nokkru um þær fjárhæðir, sem landið leggur til bankans, eftir því, hvernig hagur hans er. Ef bankinn, sem jeg þó ekki geri ráð fyrir, skuldar eina miljón króna fram yfir eignir, þá er það ekki annað en það, að landið verður að greiða þetta, og er þetta því ekki annað en áætlun, sem á að gera fyrir þingið, til þess að það geti betur ákveðið, hve mikið það þarf að leggja í stofnsjóð bankans á næstu árum. En hinsvegar, ef nokkuð er að marka þær röksemdir, sem þessir menn komu með árið 1923 gegn því að Íslandsbanki væri rannsakaður, þegar búið var að lána honum 6–7 milj. króna, sem menn vissu ekkert um, hvaða tryggingar væru fyrir, og slík rannsókn mátti með engu móti fram fara, vegna þess að það myndi spilla svo stórkostlega trausti manna á bankanum, bæði utan lands og innan, en nú er ekkert á móti því, að þessi rannsókn fari fram á Landsbankanum, þá er annaðhvort, að það hefir verið alveg ósatt, sem þessir menn sögðu 1923, og Íslandsbanki hefði þá verið skaðlaus af þeirri rannsókn, eða þá að íhaldsmenn eru nú vísvitandi að baka Landsbankanum stórtjón.

Á þessu þingi, árið 1923, þegar við Framsóknarmenn bárum fram kröfu um það að rannsaka hag Íslandsbanka, sem landið átti ekki, en hafði lánað stórfje og átti því kröfu til að fá nákvæmt yfirlit um hag hans, þá er komið fram með frv., sem átti að leysa þrautina um eftirlitið, nefnilega frv. um bankaeftirlitsmanninn. Þetta frv. mun núverandi bankastjóri við Íslandsbanka, Sigurður Eggerz, hafa samið upphaflega, en hann fjekk það í hendur nefnd í Nd., sem núverandi forsrh. var frsm. fyrir, og lýsti hann þá blessun sinni yfir því, að þarna kæmi lækningin, sem ætti að nota, þegar á lægi að vita, hvernig hagur einhvers banka stæði. Stallbróðir hans, núverandi atvrh., studdi mál hans og allur þeirra flokkur, og frv. kom svo til Ed. og hún afgreiddi það eftir að tveir þm. voru farnir heim, þeir Sigurður heitinn Jónsson og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Frv. var þá samþ. með öllum atkvæðum gegn tveimur, hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) og mínu. Þess vegna hefir að minsta kosti helmingur stuðningsmanna stjórnarinnar í þessari deild samþ. bankaeftirlitsmanninn, að viðhöfðu nafnakalli, á þinginu 1923. Þetta embætti hefir þá verið stofnað til þess að vera lækning í þessu efni, en nú, þegar þessi maður er búinn að skoða báða bankana og orðinn þeim þaulkunnugur, þá vill hv. frsm. meiri hl. ekki vera með því, að hann sje notaður, þar sem það þó einmitt stendur opið fyrir stjórninni að nota þennan mann. Nei, hv. frsm. meiri hl. vill ekki, að þessi embættismaður, sem hann hefir verið með til að skapa, til þess að hindra sjálfsagt bankaeftirlit, sje notaður. (BK: Hv. þm. skilur ekki, hvað það er að rannsaka hag banka). Jeg get vel verið samþykkur hv. þm. um það, að jeg skilji ekki hneykslisrannsókn eins og þá, sem fram fór árið 1909, og að hv. frsm. meiri hl. hafi meira vit á þeim en jeg, en jeg aftur á móti meira vit á heilbrigðum rannsóknum. (BK: Ekki heilbrigðum rannsóknum; það er ofsagt). Jeg hefi þess vegna mjög mikla ánægju af því að heyra. eftir þær mörgu rannsóknir, sem bankaeftirlitsmaðurinn hefir framkvæmt, hvaða rök íhaldsmenn geta haft fyrir því að stofna þessa sjerstöku rannsóknarnefnd, og jeg verð að segja það, að það er nokkuð beisk pilla, sem hæstv. ráðh. hefir orðið að gleypa fyrir að í í að halda vinfengi hv. 1. þm. G.-K., því svo djúpt lýtur hæstv. ráðh. í duftið, til þess að geta haldið vinfengi þessa manns í þær 3–4 vikur, sem þingið á eftir að sitja, svo mikið lætur hæstv. ráðh. lítillækka sig, til að fá að heita bráðabirgðaráðherra.

Jeg fæ nú ekki betur sjeð heldur en ef þessi samtök hæstv. fjrh. og hv. 1. þm. G.-K. á móti Landsbankanum ná fram að ganga, og ef þeir fara fram á, að áhugamál þeirra, rannsóknin. komist í framkvæmd og þeim tekst að svifta bankann þeirri tryggingu, sem almenningur trúir, að sje fyrir innlögum í hann, þá mundu þeir að öllum líkindum geta komið hag hans þannig fyrir, að Landsbankinn yrði ekki mjög vel fær til þess á næstu missirum að vera það fjöregg landsins í fjármálum, sem allir ætlast til, að hann sje. Og ef jeg mætti vitna aftur til Njálu, þá sýnist mjer, að þar sje fordæmi um það samband, sem er á milli þessara manna. Þegar Hrappur hafði lent í ósátt við Hákon jarl og gert mikið á hluta hans, leitaði Hrappur sem kunnugt er á fund Þráins, er hann var að leggja frá landi; kemur Hrappur til hans og biður hann fyrir fje að bjarga sjer undan reiði jarls, og lofar Þráinn því og felur hann í skipinu. Jarl kemur þar svo og spyr um Hrapp, en Þráinn segir þessum vini sínum ósatt, og þeir sleppa undan. En þegar þeir eru farnir, segir Hákon jarl þau viturlegu orð, að hann viti, að Hrappur hafi verið í skipinu og ekki sje því um að kenna vitsmunaleysi sínu, heldur sje það að kenna sambandi þeirra, sem þá muni báða draga til dauða. Nú vil jeg ekki spá því, að þetta samband þessara tveggja hv. þm. (JÞ og BK) muni draga þá til líkamlegs dauða, heldur muni það eiga góðan þátt í því að draga þá báða til pólitísks dauða.

Nú verð jeg þá að víkja að sjálfum framkvæmdunum á þessari rannsókn, till. hv. meiri hl. um, að hæstirjettur skuli útnefna mennina. Jeg hefi aldrei haldið, að þessi till. væri komin frá hv. 1. þm. G.-K., og tel jeg það honum til hróss, heldur muni hún vera komin frá öðrum manni í nefndinni, þeim reynsluminsta og að öllum líkindum þeim fávísasta í nefndinni um það, sem lýtur að slíkum efnum. Jeg get nefnilega sagt það, að í brtt. þeim frá hv. 1. þm. G.-K., er nefndin hafði til afnota, var gert ráð fyrir, að þingið sjálft tilnefndi þessa menn, og ef rannsókn átti að fara fram, þá var það vitaskuld þingið, sem átti að tilnefna þá, en það mun vera hv. 6. landsk. (JKr), sem hefir fundið upp þessa flugu, og svo fengið sjer reyndari og minna grannvitran mann, hv. 1. þm. G.-K., og aðra flokksbræður sína til þess að vera henni fylgjandi. Það er þá fyrst að segja um þessa till. að forminu til, að þar sem hjer er að ræða um stórkostlega íhlutun um fjárhagsmál landsins, þá er hlutleysi hæstarjettar í hæsta máta raskað með þessu. Það þarf svo sem engum blöðum um það að fletta, hvort það hefði þótt hæfa, að landsyfirrjettur hefði nokkuð verið riðinn við þá rannsókn, sem framkvæmd var á Landsbankanum árið 1909, hvort það hefði ekki þótt alveg óhugsandi, að landsyfirrjettur, sem þó var ekki hæstirjettur landsins, blandaði sjer inn í mál, sem um langt skeið var eitthvert hið viðkvæmasta mál í landinu. Nú er sú tilraun, sem hjer er verið að gera, sama eðlis eins og þegar Loki forðum kom mistilteininum í hönd hinum blinda guði Ásanna, og ljet hann skjóta honum að Baldri. Nú á að blanda hæstarjetti, sem á að vera blindur vegna rjettlætis, eins og rjettvísin er sýnd blind á öllum táknmyndum, inn í viðkvæmasta deilumálið hjer á landi og láta hann skjóta þessari eiturör inn í hjartarætur þessarar þjóðarstofnunar. Ef þessi rannsókn hefði fyrst og fremst ekki verið alveg tilefnislaus, hefði ekkert verið við henni að segja, en fyrir utan það er þessi aðferð óhafandi. En það háskalegasta við þetta er ef til vill það, að hjer á að gera hæstarjett, sem á að vera hafinn yfir allar daglegar erjur þjóðlífsins, að framkvæmdarvaldi í heitasta deilumáli þjóðarinnar, og auk þess vill hv. 1. þm. G.-K. nota hæstarjett hjer eins og hann notaði ráðherrann, vin sinn, farinn að heilsu, árið 1909.

Jeg mótmæli því, að hæstarjetti sje blandað hjer inn í, því að það kann að vera nóg, þó að ekki sje farið að bæta við þá erfiðleika, sem hæstirjettur hefir við að stríða.

Jeg býst við því, að það lokki hv. frsm. til að gleypa þessa flugu um hæstarjett, að hann telur sig hafa unnið sigra þar, t. d. þegar hann fjekk aðeins dæmd dauð og ómerk þau orð, sem hann hafði haft um samvinnufjelögin, en slapp við þungar sektir út af þeim. En úr því farið er að tala um óskeikulleik hæstarjettar, þá er rjett að benda á, að fyrir hafa komið atvik, sem sýna, að hann er eins og önnur mannanna börn og getur sjeð sig um hönd. Á síðustu missirum hafa þar verið kveðnir upp tveir dómar, sem allir vita, að benda til þess, að mismunandi ályktanir sjeu dregnar út af sömu staðreyndum. Til þess að gera hv. 1. þm. G.-K. þetta ljóst, skal jeg benda á, að jeg tek þetta ekki upp hjá sjálfum mjer, heldur er það skjalfest. Fyrra málið er það, að hæstirjettur sýknar hv. 1. þm. G.-K. af skaðabótakröfu fyrir margsamantvinnaðar árásir á 50 stofnanir hjer á landi og tilraunir um að tvístra algerlega samvinnufjelagsskapnum og fá fjelögin uppleyst. (BK: Eftir þessu er jeg mikill maður í augum hv. þm.). Já, mikill í afglöpum. (Forseti hringir).

Það sannaðist í málinu, að hv. þm. hafði gert margítrekaðar tilraunir um það, bæði leynt og ljóst, með undirróðri og í prentuðu máli, að fá S. Í. S. leyst upp, eða banna það með lögum, og hann bar það á stofnendur þess, t. d. annan eins mann og Hallgrím heit. Kristinsson, að þeim hefðu gengið til illar hvatir og að þeir verðskulduðu ekki tiltrú.

Hæstirjettur viðurkendi, að þetta o. m. fl. væru niðrandi ummæli, bæði um S. Í. S. og trúnaðarmenn þess, en það væri þó ekki sannað, að aðili hefði orðið fyrir neinu tjóni þess vegna — náttúrlega af því, að enginn hafði tekið orð hv. þm. trúanleg. Hæstirjettur vildi því ekki líta á tilverknaðinn, þar sem hann hafði ekki hepnast að tilætlun upphafsmanns.

Svo liðu nokkrir mánuðir. Þá kom fyrir annað mál, sem einn af eigendum Morgunblaðsins, Garðar Gíslason stórkaupmaður, hafði höfðað á hendur Tryggva Þórhallssyni fyrir greinir, sem birst höfðu í Tímanum frá ýmsum, um hrossaverslun hans. Voru það aðeins „kritiskar“ greinir og um það meðal annars, að þessi kaupmaður hefði ekki gefið nógu hátt verð fyrir hrossin. Þetta taldi hann, að hefði spilt fyrir hrossaverslun sinni og dregið úr tiltrú sinni. En við rannsókn reyndist það svo, að hann hafði engu tapað á þessu. Var því hjer nákvæmlega eins ástatt eins og um hið fyrra mál, sem jeg nefndi, og þó miklu minni sakir, því að það hafði aldrei verið um það talað að leggja verslun Garðars Gíslasonar niður, og ekki var hann heldur vændur um það, að hann hefði stofnað hana af illum hvötum.

Hæstirjettur komst að þeirri niðurstöðu, að greinirnar hefðu ekki skaðað hann, heldur mundi hann hafa grætt á þeim, ef þær hefðu orðið til þess, að hann hefði fengið færri hross en ella, því að tap varð á hrossaversluninni það árið. En samt ályktaði rjetturinn þveröfugt við það, sem hann hafði gert í fyrra skiftið, og segir nú, að tilraunin til þess að skaða verslunina sje nóg til þess að dæmdar sjeu skaðabætur fyrir. Þó var hæstirjettur ekki eins ósamkvæmur sjálfum sjer og undirrjetturinn, sem dæmdi eins í máli S. í. S. og hæstirjettur, en hafði fimmfalda sektarupphæðina til Garðars Gíslasonar móts við hæstarjett.

Jeg verð að láta hv. 1. þm. G.-K. vita það, að þessir tveir dómar eru svo, að hvorki leikir menn nje lærðir geta skilið, að neitt samræmi sje í þeim. Jeg held meira að segja, að það hafi komið fram í Morgunblaðinu viðurkenning á því, að hæstirjettur hafi sjeð sig um hönd eins og mannanna börn. (Forseti hringir). Já, það er nú ekki nýtt, að það er eins og komið sje við hjartað í hæstv. forseta, ef Morgunblaðið er nefnt, og sannast hjer það, sem mælt er, að ekki má nefna snöru í hengds manns húsi. En þó vil jeg nota tækifærið til þess að lýsa yfir því, að um flest annað, sem ber á góma, er hæstv. forseti mjög frjálslyndur. (Forseti: Eldhúsdagur er nýafstaðinn hjer í deildinni, og er ekki nú. Þess vegna vil jeg biðja hv. ræðumann að halda sjer við efnið).

Jeg varð að drepa á þetta, úr því hæstirjettur var dreginn inn í umr., en það er virðingarvert, að hæstv. forseti vill ekki láta minnast einu orði á Morgunblaðið hjer í deildinni. Tel jeg það að vissu leyti virðingarvert af hæstv. forseta að vilja ekki láta nefna neitt hjer í deildinni, sem er verulega ljótt.

Jeg hygg, að hv. frsm. geri hæstarjetti engan greiða með því að vilja draga hann inn í framkvæmdir á málefnum ríkisins. Því er nú einu sinni þannig háttað, að hæstirjettur stendur undir öðrum hæstarjetti — hæstarjetti almenningsálitsins, og við verðum að reyna að forðast það eins og heitan eldinn, að nokkur skuggi falli á hæstarjett í augum almennings. En í báðum þessum málum, sem jeg nefndi, gengur dómur hæstarjettar almennings í móti dómum hins „juridiska“ hæstarjettar, og er síst þörf að fjölga slíkum málum.

Jeg hefi nú sannað, að hvernig sem á er litið, þá er það tilgangslaust að vera að fyrirskipa rannsóknarnefnd, og slík rannsókn sýnist óþörf af hálfu þeirra manna, sem nú vilja koma henni á, því að í hitteðfyrra bjuggu íhaldsmenn til sjerstakt rannsóknarmannsembætti í þessu skyni í trássi við okkur Framsóknarmenn. En úr því þetta embætti er nú stofnað, þá viljum við nú gefa meiri hlutanum kost á því, að embættið fái að njóta sín. En hæstarjetti má ekki, sjálfs hans vegna, blanda inn í þetta mál, því að það yrði til þess, að mikið yrði deilt um óskeikulleik hans. Sjerstaklega vona jeg, að hv. frsm., sem nú er farinn að iðrast synda sinna frá 1909 og hefir játað, að þeir atburðir, sem þá gerðust, hafi verið blettur á þeim, er að þeim stóðu, fari nú ekki að stíga ofan í víxlspor fyrri ára, um það leyti sem hann er að setja sitt „pólitíska“ skip í naust.

Hefi jeg þá lokið að tala um hina almennu hlið málsins og kem þá að svörum hv. meiri hluta og mótmælum hans gegn till. mínum og athugasemdum við brtt. meiri hl. Vil jeg þá fyrst minnast á 1. og 3. brtt. Jeg get fallist á, að það sje gott að styrkja bankann með því að afla honum meira stofnfjár en frv. sjálft gerir ráð fyrir, en ekki að gulltryggingin sje hækkuð úr 1/3 upp í 40% Nú nýskeð hefi jeg talað við einn af hagfræðingum okkar, sem líka er bankastjóri, og hann kom með skýr mótrök gegn þessu og sagði, að það væri í raun og veru tilgangslaust að hækka gulltrygginguna. Ef menn vildu binda meira fje en frv. fer fram á, þá mundi síst veita af 5 milj. króna, en það sje stórt fjárhagsspursmál, hvort eigi að binda meira fje í gulli heldur en nauðsynlegt er. Og frá sjónarmiði okkar, sem álítum, að landið beri siðferðilega ábyrgð á öllum skuldbindingum Landsbankans, er ekki ástæða til þess að hafa gulltrygginguna mjög háa, þegar önnur og meiri trygging er á bak við. Það er einn af höfuðgöllunum á frv. og brtt. hæstv. fjrh., að hann vill svifta bankann ábyrgð landsins, og þá um leið þeirri tiltrú, sem hann nýtur, eins og Ólafur prófessor Lárusson heldur rjettilega fram. Vegna þessarar vantandi ábyrgðar verður að binda meira fje í gulli og varasjóði. Ef það verður ákveðið, að landið beri ekki ábyrgð á bankanum og skuldbindingum hans, þá er það ekki til annars en spilla trausti hans út á við, en þjóðin mun eftir sem áður telja, að hún beri að minsta kosti siðferðilega ábyrgð á öllum skuldbindingum hans. Hjer er því ekki nema um þetta tvent að ræða, hvort við eigum að skapa tortryggni gegn bankanum eða láta heilbrigða skynsemi ráða: að tryggja bankann, en láta hann þó ekki hafa meiri gulltryggingu heldur en Íslandsbanki hafði og reyndist nóg á eðlilegum tímum.

Jeg hleyp þá yfir margar þýðingarlitlar brtt. hjá hv. meiri hl. og kem að 15. brtt., um það, að í stað þess að skylda bankann til að eiga 1/3 af sparisjóðsfje sínu í tryggum verðbrjefum, skuli koma 15% fyrst í stað, sem svo skuli aukin svo fljótt, sem tiltækilegt er, upp í 30% . Það mun hafa vakað fyrir hv. meiri hl., að Landsbankanum yrði um megn að fá fljótlega trygg verðbrjef fyrir 1/3 af sparisjóðsfjenu. Reynslan er nú sú, að sparisjóðsfje beggja bankanna stendur að miklu leyti í áhættufyrirtækjum, og á mörgum þeirra hafa orðið veruleg töp. Jeg tel því sjálfsagt, að bankinn kaupi sem fyrst sem mest af verðbrjefum til tryggingar sparisjóðnum, og jeg ætlast til, að helmingur þeirra brjefa verði jarðræktarbrjef, og yrði það þá sá stuðningur, er bændum yrði veittur.

Jeg er þá kominn aftur að hinum veigameiri brtt. hv. meiri hl., en af því að jeg vil ekki þreyta hv. þdm. meira að sinni, og jeg á enn eftir mína 3. ræðu, þá ætla jeg að geyma mjer þangað til að svara hæstv. forsrh. og að gagnrýna hinar aðrar brtt. háttv. meiri hl. fjhn.