23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3019 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Háttv. 4. landsk. (MK) gerði landsbankanefndina sjerstaklega að umtalsefni. Hann vísaði í fordæmi frá Svíþjóð og sagði, að þar væru 48 þingmenn í bankanefnd. Jeg verð nú að segja það, að mjer finst það dæmi ekki vel valið til þess að sýna það, að okkar Alþingi eigi ekki að hafa þessi störf með höndum. Mjer finst einmitt, að vegna þess, að okkar þingsamkoma er svo fámenn, þá sje síður ástæða til þess að hafa þennan 15 manna millilið milli hennar og bankaráðsins.

Hv. þm. (MK) talaði einnig um það, að sú skoðun kæmi fram í frv., að aðgreina bæri hið pólitíska vald og peningavaldið í landinu og vildi líta svo á, að það væri vantraust á þinginu. — En þetta er ekki rjett, og má benda á dæmi úr okkar eigin stjórnarskipun. Þar er reynt að aðgreina dómarastörf og þingstörf með því að banna dómurum hæstarjettar að sitja á þingi. Það þykir holt fyrir þjóðfjelagið, að slík verkaskifting eigi sjer stað. Svipaður hugsunarháttur liggur til grundvallar fyrir þeirri stefnu að draga bankana út úr deilumálum á þingi, þar sem flokksböndin skifta mönnum í flokka í málum, jafnvel þar sem ekki er um rjettmætan og eðlilegan skoðanamun að ræða.

Þá hefir bæði þessi og aðrir hv. þm. gert að umtalsefni brtt. hv. meiri hl. við 60. gr., um skipun nefndar, sem á að framkvæma úttekt á Landsbankanum. Mjer er það alveg óskiljanlegt, hve mikið hv. andmælendur gera úr þessari till. í stjfrv. er gert ráð fyrir, að stjórnin láti fram fara úttekt á þankanum í hendur bankaráðsins. Þetta er í raun og veru það sama og brtt. hv. meiri hl. fer fram á. Efnisbreyting á frv. er hún aðeins að því leyti, að hún gerir ráð fyrir, að hæstirjettur skipi mennina í nefndina, en stjfrv. ætlast til þess, að stjórnin geri það. Jeg geri ráð fyrir, að flestir mundu verða því fegnir að vera lausir við að skipa mennina. Jeg get sagt það fyrir mig, að mjer líkar það stórum betur. Því að það gæti vel farið svo, ef það væri pólitísk stjórn, sem skipaði þá, að það yrði notað gegn henni, ef niðurstaðan yrði önnur en einhverjir kynnu að óska.

Hv. 1. landsk. (JJ) bar till. saman við till. þá, sem borin var fram í hv. Nd. 1923 um skipun nefndar til þess að rannsaka hag Íslandsbanka. En þetta er ekki sambærilegt. Aftur á móti er til annað dæmi, hliðstætt þeirri úttekt, sem hjer á að fara fram, og það er sú úttekt á Íslandsbanka, sem ákveðin var með 5. gr. laga 31. maí 1921, um seðlaútgáfu og hlutafjárauka Íslandsbanka. Þá stóð svipað á eins og hjer. Þá var ætlast til þess, að Íslandsbanka yrði lagt til nýtt fje, eins og hjer er gert ráð fyrir, að ríkið leggi Landsbankanum til nýtt fje. Og það þótti þá sjálfsagt að fá fulla vitneskju um hag stofnunar, sem átti að leggja almannafje í, og datt engum í hug, að það gæti valdið tortrygni á bankanum. Alveg sama tilefni er nú til þess að láta rannsókn fara fram á hag Landsbankans, og sú rannsókn getur ekki valdið neinni tortrygni. Það var fimm manna nefnd, sem samkv. þessum lögum átti að framkvæma úttekt Íslandsbanka, og af því að um hlutafjelag var að ræða, var ákveðið, að skipun nefndarinnar væri þannig hagað, að ríkisvaldið tilnefndi 2 menn, Íslandsbanki 2 og hæstirjettur oddamann. Þegar um er að ræða stofnun, sem ríkið á eitt, er vitanlega ekki hægt að fara þessa sömu leið um nefndarskipunina, en mjer finst ekki óeðlilegt, að höfð sje sama aðferð nú um nefndina alla og þá var um skipun oddamanns, þ. e. a. s., að hæstirjettur tilnefni mennina. Mjer þykir ekki nema eðlilegt, og það hefir öllum þótt, sem um málið hafa fjallað, að þetta sje framkvæmt á einhvern annan hátt en að fela bankaeftirlitsmanninum það, enda er verkefni þessarar nefndar dálítið annars eðlis en starf hans. Verkefni hennar er að meta eignir bankans til þess að vita, hve mikið ríkissjóður þarf að leggja fram til þess að stofnfjeð verði 5 milj. Af því niðurstaða þessa mats sker úr, hve mikið ríkissjóður verður að leggja fram, er sjálfsagt að tryggja sem best, að matið verði rjett og ekki óhagstæðara ríkissjóði en vera þarf. — Jeg læt þetta nægja til svars við aðfinslum, sem fram hafa komið við brtt. meiri hlutans og sem að efni til hafa líka beinst á móti ákvæðum frv. um þessa úttekt á bankanum, þó að andmælendur hafi kannske ekki gert sjer það ljóst.

Þá skal jeg næst víkja að því, sem hv. 4. landsk. (MK) og hv. 1. landsk. (JJ) hafa sagt um brtt.

Hv. 1. landsk. ber fram brtt. þess efnis að setja nýja grein í frv. á eftir 51. gr., þar sem ákveðið sje, að Landsbankinn skuli hafa einkarjett til að ávaxta fje opinberra sjóða og ríkisfje, er opinberir starfsmenn hafa undir höndum. Mjer þykir undarlegt, að þessi till. skuli koma fram frá hv. 1. landsk., og ekki síður, hvernig hún er fram borin. Mjer þykir undarlegt, að hún skuli koma fram frá honum nú, þar sem milliþinganefndin í bankamálum tók ekki slíka till. upp, og hafði þó tilefni til þess, þar sem um svipuð ákvæði var fjallað. Enn undarlegra þykir mjer, hvernig hún er borin fram. Það stendur nefnilega í 51. grein ákvæði um sama efni. Hún mælir svo fyrir, að „fje ófullráða manna og almannastofnana má setja á vöxtu í bankanum“. Eftir till. hv. 1. landsk. á þessi grein að standa, en svo á í næstu grein að koma ákvæði um, að slíkt fje skuli geyma í bankanum. Þetta ber vott um allmikla hroðvirkni hjá hv. þm., sem ekki er öldungis óvenjuleg. Þetta ákvæði, sem hv. þm. stingur upp á, ætti að koma í stað 51. greinar, en ekki á eftir henni, úr því að honum hefir snúist hugur síðan hann starfaði í milliþinganefndinni og vill koma því inn. En hún hafði gildar ástæður til að taka þetta ákvæði ekki upp, og þær ástæður eru enn ríkari eins og frv. er nú úr garði gert. Eftir frv. skiftist bankinn í aðskildar deildir, seðla- og sparisjóðsdeild. Háttv. þm. stingur upp á að setja þetta ákvæði í kafla, sem fjallar um bankastarfsemina alment. Nú er gert ráð fyrir í frv., að á sínum tíma verði sparisjóðsdeildin greind frá seðlaútgáfunni. Fyr en það er gert höfum við ekki skipað seðlaútgáfu okkar á sama grundvelli og aðrar Norðurlandaþjóðir. Það hefir verið töluvert rætt um nauðsyn þess að losa seðlabankann við sparisjóðsfje, og þó að stjórninni hafi ekki þótt kleift að skipa málunum á þann veg þegar í stað, hefir hún viljað byggja frv. svo, að þetta gæti komist á þegar það þætti tímabært. En hvað á þá verða um þetta fje, sem samkv. þessari brtt. á að standa í bankanum? Eftir orðanna hljóðan og aðstöðu greinarinnar ætti það að standa í seðlabankanum, því að þetta ákvæði getur ekki átt við sparisjóðsdeildina nema meðan hún stendur undir sömu stjórn og seðlabankinn. En ef bankamálum okkar þokar í sömu átt hjer og annarsstaðar, þá yrði svona ákvæði alveg óþolandi fyrir þessa sjóði, því að seðlabanki verður að nálgast það meir og meir að greiða mjög lága, og stundum enga, vexti af innlánsfje. Jeg held, að þetta ákvæði geti ómögulega átt við í frv., að minsta kosti ekki á þessum stað. Ef bankanum væru veitt þessi forrjettindi, yrðu þau a. m. k. að vera bundin við sparisjóðsdeild hans. Þá fengi þó fjeð að vera kyrt, þegar bankinn skiftist í seðlabanka og sparisjóð. En það er eitt, sem verður að gæta að við setningu þessarar löggjafar, sem sje það, að svo sje frá henni gengið, að hún verði til eflingar og stuðnings annari heilbrigðri sparisjóðsstarfsemi í landinu. Það er ranglátt að banna með lögum, að sjóðir, sem gefnir hafa verið til almenningsþarfa og sjerstaklega eru tengdir við aðra landshluta en Reykjavík eða þá staði, sem Landsbankinn hefir á útibú sín, megi ekki starfa í þeim hjeruðum, sem þeim upphaflega var ætlað. Jeg álít það eitt þýðingarmesta atriðið í framþróun peningamálanna, að þessir sparisjóðir geti fengið að þroskast sem mest, og við verðum að forðast að láta hinar stærri peningastofnanir hjer í Reykjavík sjúga utan af landinu það fje, sem eftir eðlilegum lögum á að starfa annarsstaðar en hjer. En mjer finst þessi till. hv. 1. landsk. stefna að þessu, að draga frá öðrum hjeruðum fjármagn, sem þeim ber með rjettu að halda. Þá finst mjer og till. þessi bera vott um það, að hv. 1. landsk. sje ekki búinn að átta sig á, hver eðlisbreyting er gerð á Landsbankanum um leið og hann er gerður að seðlabanka. Það er skakt að líta svo á, að þar á eftir sje honum gagnlegt að draga að sjer sem mest af innlánsfje landsmanna. Ef innlánsfje heldur áfram að safnast hjá seðlabankanum, leiðir af því, að hann verður að taka að sjer áhættu gagnvart fyrirtækjum, sem heppilegra er, að einkabankar taki að sjer. Það er ilt, að seðlabanki þurfi að lána mikið fje til áhættusamra fyrirtækja, þó að ekki sje hægt að koma í veg fyrir það með lögum. Öll starfsemi, sem miðar að því að draga peninga frá öðrum peningastofnunum til Landsbankans, gerir honum erfiðara að starfa á rjettum grundvelli sem seðlabanki.

Þá skal jeg minnast örlítið á það, sem hv. 5. landsk. (JBald) sagði viðvíkjandi ákvæðinu um þingsetu bankastjóra. Hann fjell frá, sem rjett var, að halda því fram, að þessir bankastjórar, og sjerstaklega bankastjórar Íslandsbanka, yrðu að hafa rjett til þingsetu samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar um embættismenn.

Nú vildi hann byggja á þeim almennu ákvæðum, að ekki megi meina þeim mönnum þingsetu, sem uppfylli kjörgengisskilyrðin. En þetta er skilið á annan veg, t. d. af stjórn Landsbankans. Hún hefir talið sjer heimilt að meina útibússtjórum sínum þingsetu, og það er alveg rjett á litið hjá henni. Það er ekki um annað að ræða en samning, sem kveður svo á, að vilji útibússtjórinn fara á þing, verði hann að láta af stöðu sinni og annar að taka við. Að taka þetta ákvæði í lög þýðir ekki annað en það, að ríkisstjórninni er með lögum uppálagt að hafa slík ákvæði í samningunum við þessa menn, þegar þeir eru ráðnir eða skipaðir til starfsins. Hverjum einstaklingi er frjálst að setja slík skilyrði, þegar hann ræður menn til einhvers starfs, — og hve miklu fremur ætti þá ekki sjálfu löggjafarvaldinu að vera heimilt að gera slík ákvæði?

Þá er jeg kominn að því, sem háttv. 5. landsk. kallaði versta drauginn, brtt. við 1. gr. frv., sem kveður skýrt á um það, hve víðtæk ábyrgð ríkissjóðs fyrir þessa stofnun skuli vera. Hann talaði um þetta sem nýmæli, sem ekki hefði fyr komið fram. Jeg vil benda á það aftur, sem jeg hefi áður tekið fram, að samkv. frv., sem lágu fyrir þingunum 1924 og 1925, bar ríkissjóður ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans fram yfir stofnfje sitt. Hið fyrra var samið af núverandi stjórn Landsbankans, svo að hún á fyrstu uppástunguna um þetta. — Ástæðan til þess, að jeg hefi borið fram þessa till. nú, er ekki sú, að jeg álíti, að samkvæmt frv. óbreyttu beri ríkissjóður ábyrgð á skuldbindingum bankans fram yfir stofnfje. Andmælendur mínir hafa heldur ekki í rauninni haldið því fram. Hv. 1. landsk. notaði þau orð, að ríkið bæri siðferðilega ábyrgð á því, að innleggjendur töpuðu ekki fje sínu. Það er alt annað, og þá ábyrgð getur hann borið eins fyrir því, þó að þetta sje samþ. En einn af prófessorunum við lagadeild háskólans hefir látið í ljós þá skoðun, að ríkissjóður bæri ábyrgð á öllum skuldbindingum allra þeirra fyrirtækja, sem hann er einn eigandi að.

Gagnvart þessari lögskýringu, sem jeg álít ekki rjetta, finst mjer sjálfsagt að ákveða beinlínis, að ábyrgð ríkissjóðs skuli vera takmörkuð við hans framlag. Mjer finst hafa farið illa fyrir hv. andmælendum þessarar till. að því leyti, að þetta mál er búið að vera til afgreiðslu hjer áður á þinginu og þeim orðið það á þá að halda fram alveg gagnstæðri skoðun. Það var upplýst, að ríkisstjórnin hefir talið sjer heimilt að taka ábyrgð á erlendum lánum fyrir Landsbankann með sjerstöku ábyrgðarskjali í hvert skifti. Því var þá haldið fast fram af hv. 1. og hv. 5. landsk., að þessi skoðun stjórnarinnar væri röng. Hún hefði ekki heimild til að ábyrgjast slík lán. Það sjá nú allir, að ef ríkissjóður er ábyrgur hvort sem er fyrir skuldbindingum Landsbankans samkvæmt skoðun Ólafs prófessors Lárussonar, þá er það fjarstæða, sem ekki er orðum að eyðandi, að ríkisstjórninni sje óheimilt að láta það í ljós við lánveitendur með sjerstöku ábyrgðarskjali. Þessir hv. þm. hjeldu því fram þá, að til þess þyrfti sjerstaka lagaheimild í hvert skifti. Af hendi fjhn. Nd. var frv. um heimild handa ríkisstjórninni til að ábyrgjast lán fyrir Landsbankann borið fram í því formi, sem andmælendur mínir hafa á þessu máli, að ríkisstjórninni væri heimilt að ábyrgjast slík lán með ábyrgðarskjali. Vegna þeirra andmæla, sem fram komu út af þessu, bar jeg fram brtt. við upphaflega frv., sem fór fram á, að slík ábyrgð skyldi ekki veitt 190 nema eftir sjerstakri lagaheimild í hvert sinn. Þetta var samþykt, eins og kunnugt er. Fyrst sú regla var tekin, að hafa skyldi tæmandi heimildir í þessu efni, þá er engri stjórn leyfilegt þar á eftir að ábyrgjast slík lán, nema með sjerstakri lagaheimild. Mín brtt. segir bara það, sem þegar er búið að samþykkja hjer, að til þess ríkið ábyrgist svona lán verði að koma sjerstök lagaheimild til.

Í því, sem hv. 1. landsk. sagði um málið, var eitt atriði, sem honum hafði verið bent á af stjórn Landsbankans, sem rjett er að taka til athugunar.

Það má segja, að trygging sú, sem bankinn á að fá samkvæmt frv., skiftist öðruvísi en trygging sú, sem honum hefir verið lögð til hingað til. Og þó að ríkissjóður sje ekki ábyrgur fyrir skuldbindingum bankans, þá hefir hann lagt honum fje samkvæmt lögum frá 1885. Það fje, ásamt innskotsfje því, sem bankanum hefir verið lagt samkvæmt lögum frá 1913, er til tryggingar fyrir innlánsfje því og sparifje, sem menn hafa lagt inn í bankann. Ríkissjóður getur ekki gert kröfu um endurgreiðslur á þessu fje, fyr en öðrum skuldbindingum bankans hefir verið fullnægt. Það er vitanlega sjálfsagt, þegar þessi nýja skipun verður gerð, að taka ekki frá sparisjóðsdeildinni þá tryggingu, sem hún nú hefir að lögum. Jeg vil lýsa því yfir, að verði brtt. mín við 1. gr. samþykt, þá mun jeg bera fram við 3. umr. brtt. í þá átt, að seðlabankinn beri ábyrgð á sparisjóðsfjenu með sömu upphæðum, sem ríkið til þessa hefir lagt bankanum óskiftum, en nú eiga að koma í hlut seðlabankans. Slíkt ákvæði á heima í síðasta kafla frv., þar sem eru ákvæði til bráðabirgða. Þetta vænti jeg að nægi til þess að kveða niður þann ugg, sem vakinn hefir verið upp gagnvart sparisjóðsfjenu. Hitt eru öfgar hjá háttv. 1. landsk., að það hafi verið hættulegt fyrir Landsbankann, að till. þessi kom fram. Hún hefir komið fram áður í ýmsri mynd og ekki skaðað bankann.

Þá get jeg ekki látið því ósvarað, sem háttv. 1. landsk. bar á mig, að jeg hefði gefið nefndum hjer í deildinni skipun um að draga störf sín sem mest, og mun hann þar aðallega hafa átt við fjvn. Þetta verð jeg að lýsa með öllu tilhæfulaust. Jeg hefi ekki á einn eða annan hátt reynt að tefja fyrir störfum nefnda í þinginu, hvorki fyrir störfum fjvn. þessarar deildar eða annara nefnda. Jeg get alls ekki látið mjer detta í hug, við hvað háttv. þm. hefir átt með þessu; hann hefir þó venjulegast einhverja átyllu fyrir sleggjudómum sínum, en hjer verður hún ekki fundin. Það eina, sem jeg gat látið mjer detta í hug, að hann hefði fyrir átyllu, var það, að einu sinni var haldinn fundur í deildinni frá kl. 4–7 síðdegis, en það er sá tími, sem fjvn. er vön að starfa á. Spurði jeg því forseta um þetta, en hann kvaðst hafa gert þessa ákvörðun sjálfur, aðeins borið þetta undir fjvn. og hún ekkert haft á móti því fyrir sitt leyti. Það var ekki einu sinni svo, að þetta mál væri til umræðu þá, heldur mál, sem fór út úr deildinni með atkvæði okkar beggja, hv. 1. landsk. og mínu. Jeg verð því að vísa þessum aðdróttunum algerlega á bug.

Þá leyfði hann sjer að hafa þau orð um andstæðinga sína í þessu máli, að þeir „töluðu um það af gnægð sinnar fávisku“. Mjer finst satt að segja ekki sitja á þessum háttv. þm. að vera að tala um fávisku annara í þessu máli, því að hvergi hefir fáviska í því komið berlegar í ljós en hjá honum sjálfum. Þrátt fyrir alla þá miklu borgun, sem hann hefir fengið úr ríkissjóði til þess að kynna sjer það, var hann ekki betur að sjer en svo, að hann var að leita fordæmis í Njálu um það, hvernig hann ætti að greiða atkvæði í því. Jeg verð því að segja, að þeir, sem ekki eru vitrari en það, að vera að leita upplýsinga í Njálu í þessu Landsbankamáli, ættu síst að vera að tala um fávisku hjá öðrum.