23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3038 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

20. mál, Landsbanki Íslands

Ingvar Pálmason:

Það eru aðeins örfáar brtt., sem jeg finn ástæðu til að minnast á sjerstaklega. Um hinar aðrar brtt. mun jeg láta nægja að sýna afstöðu mína til þeirra við atkvgr. Jeg vil þá fyrst víkja fáeinum orðum að brtt. hæstv. fjrh. Hann hefir fært sem aðalástæðu fyrir henni, að ef þessi ákvörðun væri ekki tekin, þá væri Landsbankanum gefinn einkarjettur yfir sparisjóðsfje landsmanna yfirleitt, þar sem hann einn allra banka og sparisjóða hefði ríkistryggingu fyrir sparisjóðsfje sínu; afleiðingin af því mundi verða sú, að sparifjeð mundi streyma frá öðrum stofnunum til Landsbankans. Við þm. utan af landi höfum verið brýndir með því, að við skyldum alvarlega athuga, hverjar afleiðingarnar mundu verða fyrir sparisjóðina úti um landið. Við þessu er það fyrst að segja, að sparifjáreigendur hafa hingað til litið svo á, að ríkið bæri ábyrgð á Landsbankanum, og þessi skoðun hefir ríkt í meðvitund fólksins, hvort sem hún er rjett eða röng, og virðist það ekki hafa valdið því, að menn legðu fje sitt fremur inn í Landsbankann eða útibú hans en hina smærri sparisjóði. Það, sem ræður mestu um það, hvar menn leggja sparifje sitt inn, hvort heldur í sparisjóð einhvers kauptúns úti á landi eða í Landsbankann í Reykjavík, er ekki einungis baktrygging þeirrar peningastofnunar, sem fjeð er látið inn í, heldur aðallega stjórn fyrirtækisins. Sje stjórn sparisjóðsins góð, þá láta menn hvern eyri þangað, því að þar geta þeir fylgst betur með þeirri stofnun, sem þeir láta aura sína í. Jeg sje því ekki, að vegna hinna smáu sparisjóða úti um land sje nauðsynlegt að setja þetta ákvæði inn í bankalögin. En þar sem till. gengur í þá átt að rýra traust Landsbankans í augum þeirra manna, sem átt hafa þar innstæður í þeirri trú, að ríkisábyrgð stæði á bak við, þá hlýtur þetta ákvæði að verða bankanum skaðlegt á þann veg, að miklar líkur eru til, að sparifjeð mundi of ört dragast frá honum og til annara banka, enda er engin fjarstæða að álykta, að til þess sjeu „refirnir skornir“. Jeg held líka, að till. sje óþörf, þar sem hæstv. ráðherra hefir viðurkent, að ríkið beri „móralska“ ábyrgð á skuldbindingum bankans. Og jeg býst líka við, að meiri hluti nefndarinnar hafi slíkt hið sama á meðvitundinni. Einnig er það víst, að meiri hluti þjóðarinnar lítur þannig á málið.

Hjer liggja fyrir ýmsar smábrtt. frá meiri hl. fjhn., sem ekki hafa verið gerðar að umtalsefni. Eru þær flestar lítilfjörlegar, en ganga allar í þá átt að rýra traust bankans og bankastjórnar. Þetta meðal annars sýnir, í hve mikla lúsaleit hefir verið farið til þess að gera Landsbankann tortryggilegan. Sem dæmi þess, hve lítilfjörlegar sumar brtt. háttv. meiri hl. geta verið, vil jeg aðeins nefna 24. brtt. b-lið, við 3. og 4. mgr. 44. gr. frv., sem er um það, að framkvæmdarstjórar bankans skuli rita allar ályktanir, sem gerðar eru á fundum þeirra, í fundarbók. En hvaða meining er í því að skipa svo fyrir með lögum, að bankastjórarnir skuli halda bók um allar lánssynjanir sínar, þó að einhver komi t. d. með 50 kr. víxil og fái hann ekki keyptan af einhverjum ástæðum? Hvaða vit er í þessu? (BK: Það hefir verið gert í mörg ár í bankanum). Þó að það hafi verið gert í mörg ár, þá er það jafnóþarft að fyrirskipa það í lögunum engu að síður. Ef nokkurt vit væri í þessu, þá ætti líka að tilfæra í fundarbókinni ástæðurnar fyrir synjunum. Þetta er svo smásmugulegt atriði, að jeg sje enga ástæðu til þess að lögskipa það. Það hefir orðið mikill ágreiningur út af 5. brtt. á þskj. 364, um það, að allir opinberir sjóðir skuli geymdir í Landsbankanum eða útibúum hans. Og gegn þessu hafa menn fært þá ástæðu, að með þessu væri spilt fyrir sparisjóðum úti um land; sjerstaklega gerði hv. 6. landsk. (JKr) mikið úr þessari ástæðu. Jeg veit ekki betur en að ákvæði um þetta sje í lögum og hafi verið það alllengi, og síðan það varð að lögum hefi jeg ekki vitað til þess, að það hafi orðið sparisjóðum úti um land til hnekkis, auk þess sem jeg veit, að sparisjóðir úti um landið sækjast ekki eftir að taka á móti fje embættismanna til geymslu yfir stuttan tíma, sem þeir setja þar á hlaupareikning. Jeg held, að þeir sparisjóðir, sem lifað hafa undir þessum lögum síðan þau gengu í gildi, og því hafa ekki haft leyfi til að taka á móti þessu fje opinberra stofnana og sjóða, hafi þrifist vel engu að síður. Er þetta hið sama og kom fram í röksemdunum fyrir brtt. hæstv. fjrh. Það er aðeins grýla á okkur þingmenn utan af landi. Jeg held því, að ekki sje rjett að greiða atkv. með þessari brtt., eða 9. brtt. á þskj. 363, sem er samhljóða henni. Ákvæðið, eins og það hefir verið í lögum síðan 1919, er Landsbankanum til styrktar, en sparisjóðirnir hafa komist og komast af án þessa fjár. Það voru aðallega þessar brtt., sem komu mjer til þess að standa upp. — Eftir ræðu hv. 6. landsk. skil jeg ekki í því, að meiri hl. fjhn. og meiri hl. hv. þdm. geti fallist á brtt. um það að fella úr frv. ákvæðið um Landsbankanefndina og setja í frv., að þm. megi ekki eiga sæti í bankaráðinu. Þetta ákvæði er, að því er háttv. 6. landsk. hefir lýst yfir, sett vegna eins ákveðins manns. Og dettur mjer ekki í hug, að af þeirri ástæðu fáist nokkur deildarmanna til að fylgja till. En hvað sem segja má um deilurnar milli þessara tveggja manna, þá verður ekki annað sagt en að pólitíski hitinn sje orðinn nokkuð mikill, þegar vegna eins einstaks manns er verið að setja í lagafrv. ákvæði, er hlýtur að verða til þess að vekja vantraust á þingmönnum í heild. Jeg tel því ómögulegt eftir þessa röksemdafærslu hv. 6. landsk. að greiða brtt. atkv.

Umr. eru orðnar svo langar um þetta mál, að jeg tel ekki rjett að lengja þær um skör fram. Jeg hefi hjer tekið fram það, sem mjer þótti sjerstaklega vert að minnast á áður en til atkvæða væri gengið. Jeg tel brtt. hv. meiri hl. yfirleitt til hins lakara og sumar til stórskemda á frv.; sjerstaklega er jeg mjög hikandi að greiða nokkurri þeirra atkvæði, þótt meinlausar kunni að sýnast, eftir að hafa heyrt yfirlýsingu hv. 6. landsk. um eina brtt., því að það má búast við, að svipaðar hvatir liggi á bak við fleiri þeirra.