23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3064 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Það hafa nokkrir af andstæðingum mínum talað síðan jeg tók síðast til máls; hefi jeg því töluverðu að svara, og það því fremur, sem mjer vanst ekki tími í síðustu ræðu minni að gera athugasemdir við nál. háttv. meiri hl. sem skyldi, meðal annars sökum þess, að jeg varð að leiðrjetta sögulegan misskilning hjá hv. frsm. Verð jeg því að fara lítilsháttar út í þessar athugasemdir nú.

Allar till. hv. meiri hl. ganga í þá átt að veikja eftirlit þingsins með bankanum. Hann getur ekki fallist á það fyrirkomulag, sem reynst hefir svo vel í Svíþjóð. Þetta er þeim mun undarlegra, þar sem fylgismenn hæstv. stjórnar og fulltrúar hennar í bankanefndinni, þeir Sveinn Björnsson sendiherra og Magnús Jónsson alþm., hafa báðir fallist á þetta skipulag. Er það því ekki af flokkslegum ástæðum, sem hv. meiri hl. þarf að vera á móti því.

Þá ætla jeg að snúa mjer að 18. brtt. meiri hlutans, og vil jeg ganga út frá henni eins og frsm., hv. 1. þm. G.-K. (BK), skýrði hana, að hún sje miðuð við skipulagið, en ekki við einstaka menn, eins og aðstoðarmaðurinn, hv. 6. landsk. (JKr), ljet óspart í ljós. Þessi tillaga, að bankaráðsmennirnir skuli kosnir af þinginu, en ekki vera þingmenn, miðar augljóslega í þá átt að minka vald þingsins yfir bankanum. Auk þess er það slæmt fyrir bankann að hafa ekki kunnuga menn í þinginu, til þess að standa á móti illum sendingum, er til hans verður væntanlega stefnt eins og á undanförnum árum. Þá kemur það undarlega, að formaður bankaráðsins skuli mega vera þingmaður, því að það er beinlínis sagt, þar sem svo er ákveðið, að hinir 4 bankaráðsmenn skuli vera utanþingsmenn. Það er því engu líkara en hinn frægi þingmaður, hv. 6. landsk. (JKr), hafi samið þetta. (BK: Þetta má laga til 3. umr.). Það er alveg óþarfi. Þetta mun eiga að vera svona meðan íhaldið er í meiri hluta, því að það sýnir gegndarlausa hlutdrægni og barnalega hefnigirni. Þá kemur viskan ekki síst í ljós, þegar farið er að lýsa því, hvernig bankaráðsmenn þessir eigi að starfa. Þeir eiga að halda einar þrjár fundarbækur, með mikilli skriffinsku. Fundarbækur þessar á svo aftur að leggja fyrir fjhn. þingsins. En manni verður á að spyrja, hvaða þýðingu það hafi, þegar þingið er orðið svo spilt, að engum þingmanni er trúandi til að eiga sæti í samkundu þessari.

Þá hefir hv. meiri hl. lagt mikla stund á að fella úr stjfrv. það, sem tekið hafði verið upp úr nál. milliþinganefndarinnar, að bankinn skuli bókfæra, hve mikið fje gangi til hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Nú hefir annar endurskoðandinn gefið skýrslu um þetta, og kom þá í ljós meðal annars, að af nýju veðdeildarflokkunum hafa 5% gengið til sveitanna, en 95% til bæja og kauptúna. Það er því ekkert undarlegt, þó að íhaldsmenn vilji láta taka þetta ákvæði út úr bankalögunum, svo hægt sje að dylja það, hve smánarlega lítið af lánsfje bankans gengur til landbúnaðarins. En þetta er stórt atriði og því undarlegt, ef hv. meiri hl. tekst að stinga því svefnþorn.

Þá hefir hv. frsm. sjálfur sennilega orðað þá brtt., að aðalbankastjóri skuli hafa verslunarmentun og reynslu í viðskiftamálum. Þetta er sjálfsagt, og ekki aðeins að hann hafi slíka þekkingu, heldur allir bankastjórarnir. En til fróðleiks fyrir hv. frsm. vil jeg segja honum, hvernig einum frægasta bankastjóra Englandsbanka, sem nú er nýlátinn, hefir verið lýst.

Það er sagt, að hann hafi verið fræðimaður, rithöfundur, skáld, fjármálamaður og hagfræðingur. Svo er lýst nánar hinni almennu mentun hans, sem hv. frsm. skilur ekki, að sje æskilegur eiginleiki á bankamanni, að hann skilji hið háa og fína í lífinu. Því þegar hann, hv. frsm., lýsir því, hvernig bankastjóri eigi að vera, þá gefur hann altaf smámynd af sjálfum sjer. Úr skósmíðavinnustofunni, gegnum búðarkompurnar og áfram upp í bankastjórastöðuna. Það er því síst að undra, þó að vísindunum sje gert lágt undir höfði hjá hv. frsm. og þeim, sem að honum standa, því að af lýsingu hans á mentunarástandi bankastjóranna er auðsjeð, að sál hans skilur ekki, að slíkir menn þurfi að hafa sem fjölbreyttasta mentun til að skilja breytilegar þarfir þjóðlífsins, og að þar er æfingin úr dúka- og skinnabúðinni lítill partur.

Þá eru margir, sem „kritisera“ alla skriffinskuna, sem hv. meiri hl. vill hafa, og jeg vona, að hv. frsm. fái ekki slag yfir spillingunni, þó að jeg segi honum frá því, að t. d. Georg Ólafsson bankastjóri telur það hreinustu fjarstæðu, ef halda ætti skriflega dagbók yfir hverja brennivínsbullu, sem kemur í bankann og biður um víxil og fær nei. (BK: Þetta var gert í minni tíð). Það má vel vera, en sem betur fer, þekkir heimurinn aðra og hærri bankafræði en hv. frsm. meirihl.

Þá er á bls. 10 í nál. hv. meiri hl. skrítin grein, sem ber vott um hrossakaup hæstv. forsrh. og háttv. frsm. meiri hl. Hæstv. ráðherra hefir fundið, að það var dálítið ankannalegt að kjósa í bankaráðið nú á þessu þingi, þar sem lögin öðlast ekki gildi fyr en um næstu áramót. En fyrir hv. frsm. meiri hl. hefir vakað endurspeglun frá 1909. Rannsókn með miklum krafti, til þess að sýna, hve bankanum hafi verið illa stjórnað. Vill hann því fá rannsóknarnefnd, sem starfi fram yfir næstu áramót. En það kemur aftur í bága við hagsmuni hæstv. forsrh., að lögin ganga ekki í gildi fyr en á næsta ári, því að hann veit ekki, hversu hinir pólitísku hundadagar hans verða margir, að minsta kosti treystir hann þeim ekki lengur en til næsta þings. Leggur hann því mikið kapp á, að kosið verði í bankaráðið nú þegar, til þess að geta komið skjólstæðingum sínum í það. Svona lágt er þá undir loftið hjá þessum andlegu bræðrum.

Jeg mun síðar tala við hv. 6. landsk. (JKr) um hinar merkilegu tillögur hans. En af þessari merkilegu grautargerð, sem þeir fjelagar, meiri hl. fjárhagsnefndar, hafa starfað að, kemur það í ljós, að alt rekur sig á annars horn, alt er vanhugsað og verður feðrum sínum til óláns.

Það hefir verið bent á það áður, hve mikið lítillæti það væri hjá stjórninni að þakka hv. frsm. meiri hl. fyrir meðferðina á frv. þessu, enda þótt hann hafi gert alt, sem hann hafði vit og mátt til að snúa því til verri vegar, og það jafnvel svo, að hv. þm. Vestm. (JJós) hefir fundið sig knúðan til þess að skrifa undir nál. með grimmum fyrirvara. Er því grunur minn sá, að hjer verði leikið greipilega á hv. frsm. meiri hl., því ef hv. þm. Vestm. snýst á móti rannsókninni og hæstarjettarfarganinu, gengur hv. frsm. slyppur frá, en stjórnin fær sínu framgengt. Fær hann þá ekkert þakklæti annað en það, að klappað verði á öxl honum fyrir að jeta alt ofan í sig, sem hann hefir haldið fram á undanförnum þingum um nauðsyn seðlastofnunar. Þegar maður minnist á sættargerð þessara gömlu fjandmanna, hv. 1. þm. G.-K. og hæstv. forsrh., er ekki laust við, að menn minnist þeirra tíma, er þeir deildu sem óðast um járnbrautarmálið, og jafnframt þess álits, sem þeir höfðu þá hvor á öðrum. Verður sætt þeirra ekki lýst betur en með því að minna á fjelagsskap Hrapps og Þráins, og þær afleiðingar, sem Hákon jarl spáði vinfengi þeirra.

Þá vil jeg víkja að ræðu hæstv. forsrh. Hann talaði um, að nauðsyn bæri til að hafa tryggilegt mat á bankanum. Jeg verð nú að segja, að mjer finst það dálítið hart fyrir stjórnina að ganga fyrir þann ætternisstapa, að ganga inn á þessa rannsókn, aðeins til þess að þóknast einum andstæðingi sínum. Minnir þetta hugarfar dálítið á lýsingu, sem ferðamaður nokkur, er ferðast hafði um vist íhaldskjördæmi, gaf, að svo væri fólkið beygt þar, að það smeygði sjer á rönd út og inn um dyrnar, en kynni ekki að ganga um að sið frjálsra manna. Hjer er hið sama að gerast. Hæstv. stjórn er að smeygja sjer á rönd inn um kofadyr hjá einum af sínum æstustu fjandmönnum.

Þá var hæstv. forsrh. að bera upp á mig hroðvirkni viðvíkjandi brtt. um opinberu sjóðina. Um þetta ætti hann sem minst að tala, þar sem brtt. sú, sem hann kom fram með í gær, var svo óformleg, að hann varð að lofa að gerbreyta henni við 3. umr.

Viðvíkjandi opinberu sjóðunum má taka það fram, að þeir hafa staðið í Landsbankanum síðan 1918, og hefir það ekki mætt mótstöðu nema frá þeim, sem viljað hafa bankanum illa. Brtt. þessi var samþ. í neðri deild í fyrra, og finst mjer því vafalaust, að hún verði samþykt þar aftur.

Þá hjelt hæstv. forsrh. því fram, að þetta ákvæði gæti ekki staðið í sjerrjettindakaflanum; en mjer finst það hvergi geta staðið nema þar, því jeg get ekki búist við, að stjórn Landsbankans sje svo önnum kafin, að hún geti ekki ráðstafað þessu fje í rjettar deildir.

Þá taldi hann það ógagnlegt fyrir Landsbankann að hafa mikið sparifje. En þetta er gagnstætt því, sem Íslandsbanki vill, og sömuleiðis gagnstætt því, sem þeir menn vilja, er stofna vilja nýjan banka hjer, því að hvorirtveggja vilja fá slíka peninga. Hjer liggur líka önnur dýpri ástæða á bak við, sem hæstv. forsrh. skilur ekki, að því meira fjármagn, sem bankinn hefir yfir að ráða, því meira húsbóndavald hefir hann um fjármál landsins. Það er því mesta glapræði af hæstv. forsrh. að vilja rýja Landsbankann sparifjenu.

En öðru máli er að gegna um það, að landsstjórnin geti tekið lán úti í löndum. Það stafar meiri hætta af því að taka margra milj. dollara lán í Ameríku heldur en þó að nokkur þús. króna lán væri útvegað innanlands handa bankanum.

Þá gaf hæstv. ráðh. (JÞ) í skyn, að hann vildi ekki auka traust bankans, og hann hefir þrásinnis sagt, og jeg held jafnvel hjer í deildinni í vetur, að hann vildi ekki, að Landsbankinn hefði það segulmagn, að hann drægi mjög mikið af sparifje þjóðarinnar til sín. Að því leyti vill hann veikja traust hennar á bankanum, til þess að fjeð leiti burt. Jeg hefi heyrt komið með þá getgátu, að hæstv. ráðh. væri ekki mjög fús á að koma af fjárlögunum, og að minsta kosti gæti það litið svo út, þegar nefndin hafði ekki fundi hjer í tvo virka daga, sumardaginn fyrsta og annan virkan dag til, eða að minsta kosti er ekki hægt að sjá aðra skynsamlega ástæðu til þess. En svo hefi jeg sjeð hjer í dag undirskriftaskjal frá fleiri aðkomuþingmönnum um það, að skora á forsetana að flýta störfum þingsins, svo að minsta kosti ætlast þeir ekki til þess, að fjárveitinganefnd Ed. tefji störf sín, þó að hæstv. stjórn kunni máske að óska þess.

Þá vil jeg benda hæstv. ráðh. á það, að hann fjekk næg tilboð í fyrra um hjálp til þess að koma málinu áfram, en hann vildi þá enga hjálp þiggja, svo að nú má hann sjálfum sjer um kenna, ef nú er þyngra undir fæti, vegna þeirra fleyga, sem hann hefir sett inn í frv.

Þá sagði hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) fáein orð og vildi afsaka það, að fjvn. hefði ekki starfað í tvo daga, og þá kom fram, að það er rjett, sem jeg sagði, að hjer hafa fallið niður fundir, sem vitaskuld hlaut að vera á ábyrgð stjórnarflokksmanna, sem eru í meiri hluta í öllum nefndum.

Svo var tilgátan, sem hv. þm. skaut fram, að honum þættu fundir langir. Það kemur fyrst til af því, að hjer hafa verið stór mál til meðferðar, og það er ekki rjett af hv. þm. að miða mjög álit sitt um þingstörf við getu sína, þó að hann gerist nú svo gamlaður, að hann sje lítt fær um að starfa að afgreiðslu mála og ræðugerð. Þar fyrir má hann ekki álasa hinum, sem betur duga til þeirra starfa. Jeg vil aðeins benda hv. þm. Seyðf. á það, að það má nokkuð marka kunnugleik hans og dugnað á þingi af því, að hann hefir aldrei verið við neitt stórmál riðinn í sínu langa þingstarfi; hann hefir ekki tekið þátt í neinu nema venjulegum atkvæðagreiðslum. Hinsvegar mun hann allfær um að eta og drekka í veislum til gagns og heiðurs þjóð sinni, og þar mun hann hafa komist hæst í opinberum aðgerðum. Það skapandi líf hefir algerlega farið fram hjá honum. Því er það, að jeg, með minni stuttu þingreynslu, býst ekki við að þurfa að vera kvíðinn fyrir samanburði um það, hvað jeg hafi lagt til skapandi mála, en aðfinningar hans eru líka kvartanir rófulausa refsins, sem fann mestan sársauka af því, sem hann vantaði í samanburði við fjelaga sína.

Þá reyndi hv. þm. að finna einhverja brú á milli þeirra tveggja dóma, sem jeg hafði nefnt til að sanna, hve mannanna vegir væru órannsakanlegir. Hv. þm. sagði, að það væri sjálfsagt að sýkna mann, sem rjeðist með grimd á kaupfjelögin og sem sannaðist á, að hefði sagt alt ósatt; sagði, að það væri sjálfsagt að sýkna hann, af því að þetta hefðu verið almennar stofnanir, en aftur hefði verið sjálfsagt að sekta fyrir „kritik“ á einstök firmu, þó að slíkt hefði ekki skaðað þau. Þetta var einmitt yfirlýsing, sem jeg ætlaði að fá fram, og jeg býst við, að það geti kannske orðið undirstaða til nýrrar málsmeðferðar hjer á þingi. Því hefir verið haldið fram af mönnum, sem leigðir hafa verið til að afflytja kaupfjelögin, að það sje lögum samkvæmt að stunda þá iðju, því að þau sjeu almennar stofnanir og opinber eign. Mun marga fýsa að vita, hvort málinu er í raun og veru svo varið, að stærstu fjelög landsins, kaupfjelögin, miljónafyrirtæki, sjeu rjettlaus að lögum gagnvart rógburði vondra manna, sem hata þau, eða þá manna, sem keyptir eru til þess að afflytja þau. Ef þetta er rjett, þá er það sjálfsögð skylda Alþingis að gera lög til að tryggja þetta, og jeg get sagt það eins og það er, að mjer var þessi yfirlýsing bæjarfógeta kærkomin, því að hún skapar grundvöll til að byggja á kröfu um, að samvinnufjelögin fái aukna rjettarvernd. Það myndi hvergi líðast nema hjer, að háttsettur dómari hjeldi því fram, að samvinnufjelög væru rjettlaus, því að það er vitanlegt, að slík fjelög eiga að njóta fullkomlega sama rjettar eins og einstaklingsfirmu eða hlutafjelög. En jeg vil vonast til þess, að hjer sje aðeins um lögfræðilegt gat að ræða hjá dómaranum, en um leið vil jeg benda á, hve hörmulegt það er, að þessi maður skuli eiga að dæma flesta dóma á landinu, líklega 600–800 á ári; maður, sem gengur út frá svo siðferðilegri fjarstæðu, hlýtur að vera mjög þunnur í lögum.

Þá kem jeg að hvítvoðungi þessarar háttv. deildar, hv. 6. landsk. (JKr). Hann byrjaði, eins og rjett var, á því, sem lítið var, og vildi reyna að styðja sína húsbændur, en skaða Landsbankann með því að reyna að verja þessa fjarstæðu, að Landsbankinn mætti ekki halda þeim hlunnindum til opinbers geymslufjár, sem hann hefir haft síðan 1919. Til þess vildi hann fá aukið fje handa bankanum. Það er gott og blessað, en hvar og hvernig á að fá það fje? Er það sennilegt, þegar búið er að rýja hann að öllu, að hann geti þá veitt öllu landinu sparisjóðslán? Nei, svo best getur hann það, að hann sje ríkur og voldugur.

Þá kom hv. þm. með það atriðið, sem jeg held, að sje merkilegast af öllum þeim vitleysum, sem hv. þm. hefir verið við riðinn á þessu þingi, og er þar þó af miklu að taka, því að eins og kunnugt er, er hann orðinn frægastur allra þeirra þingmanna, sem setið hafa á hinu endurreista Alþingi Íslendinga, fyrir það að hafa drepið sína eigin tillögu og gengið á móti sínu áhugamáli. Hv. þm. segir nefnilega hvorki meira nje minna en það, að tvö atriði í frv., sem hæstv. stjórn vill láta samþykkja, sjeu hefndaratriði, miðuð við andstæðinga sína í þinginu. Nú vita menn það, að hæstv. stjórn hafði sett eitt atriði inn í þetta frv. til þess að hindra, að einn andstæðingur hennar, Sigurður Eggerz, gæti setið á þingi. Það er vitanlegt, að hæstv. forsrh. ber kala til þessa bankastjóra Íslandsbanka, sem hefir verið honum óþægur ljár í þúfu, og þá líklegast helst með því, að hann tók af hæstv. ráðh. tvö embætti, sem hann hjelt, að hann sjálfur myndi fá tækifæri til að veita. Þetta getur hæstv. ráðh. aldrei fyrirgefið, og þess vegna seilist hann til að fara að elta þennan mann með persónulegri hefndarlöggjöf. Jeg veit ekki til, að það þekkist í íslenskum lögum, að nokkur stjórn hafi leyft sjer að búa til lög til þess að hefnast á andstæðingum sínum. Jeg reyndi að gera þingsetubann bankastjóra og útibússtjóra löglegt með því að koma þessu atriði í stjórnarskrána, en hæstvirt stjórn vildi heldur ólög en lög, svo að flokksmenn hennar voru látnir fella þetta. En svo bætist það við, að stjórnarflokkurinn segir fyrir munn þessa þingmanns síns, að það sje öðru atriði bætt við, sem sje persónuleg löggjöf, til þess að hindra það, að einn andstæðingur þeirra komi í 2 nefndir, sem skipa á eftir lögum þessum.

Hv. þm. (JKr) og hæstv. landsstjórn dettur það í hug að miða löggjöf landsins við hefnd á einstaka menn. En svo, þegar þessi lítið veraldarvani maður er búinn að segja satt og rjett frá um þetta, það sem hann hugsar, þá er formaður nefndarinnar látinn jeta þetta ofan í sig fyrir hans hönd. Það sýndist rjettara að láta þessa persónu sjálfa gera þetta; það hefði að minsta kosti ekki verið honum ósamboðnara en þessi óvenjulegi uppskurður á ambáttinni á Sauðárkróki. En vegna þeirra manna, sem ekki hafa heyrt ræðu hv. þm., vil jeg geta þess, að hv. þm. segir, að af því að hann álíti mig svo hættulegan mann, ef jeg kæmist í þessa úttekt á bankanum, hafi hann lagt það til, að þetta væri haft svona. Jeg býst við, að hv. þm. hafi ætlað að gera mjer þetta til vansa, en það er hinn mesti heiður fyrir mig. Fyrst það, að jeg var líklegur til, eftir þessu, að geta komist inn í matsnefndina. Til þess hefði jeg þurft að fá andstæðing minn, hæstv. forsrh., til þess að útnefna mig til þess starfs, en jeg býst ekki við, að hæstv. ráðh. játi, að jeg hafi neitt verið að bera víurnar í það, enda býst jeg tæplega við, að hæstv. ráðh. ljeti mig eða nokkurn annan stjórnarandstæðing hafa það. En hv. þm. þorir samt ekki að samþykkja stjfrv., af því að hann býst við, að jeg geti dáleitt hæstv. ráðh. til þess að hleypa mjer að þessum kjötkatli. Hv. þm. hefir áður haldið því fram, að hann skoðaði mig sem Kleppsmat, hefir að vísu ekki sagt, að jeg ætti að vera þar, en hefði þó það heilsufar, sem gæfi mönnum rjett til að vera þar. En jeg hefi ekki beðið þennan hv. þm. um læknisskoðun og hefi einu sinni sagt honum, að jeg myndi heldur leita til annars læknis, ef jeg þyrfti einhvers með. En nú vil jeg reyna að taka þetta eins og hv. þm. talaði það, og geri þá ráð fyrir, að hann meini það, að jeg sje veikur með þeim hætti, sem gerir mönnum ómögulegt að vinna að opinberum málum, og þá held jeg, að það mundi vera eitt, sem leiddi af því, nefnilega það, að jeg væri ákaflega hættulaus. Þó að jeg væri 1. landsk., þá myndi jeg líklega greiða atkvæði með stjórninni eins og hv. 6. landsk., eða ef jeg væri í nefndinni, þá myndi jeg vera eins aðgerðalítill eins og hv. 6. landsk. er, sökum algers skorts á þekkingu til að taka þátt í opinberum málum. En svo mikið barn er hv. 6. landsk., að reyna að halda því fram, að jeg geti ekki sökum heilsubilunar tekið þátt í neinum störfum, en er samt svo hræddur við mig af ástæðu, sem leiðir af miklum hæfileikum, að hann vill varna því, að jeg komist í bankaráðið, jafnvel þótt jeg væri þar í minni hluta. Hv. þm. hefir svo mikla trú á mjer, að hann heldur, að jeg geti látið stjórn og þing skipa mig í trúnaðarstöður, og í viðbót við þetta er hv. þm. samt svona dauðhræddur við mig, þar sem jeg væri kominn í nefnd og væri í minni hluta, að hann getur eiginlega ekki með neinu móti hugsað sjer að hafa mig þar. Þó að þetta sje nú alt svo mikill barnaskapur, að það eigi ekki sinn líka, þá get jeg ekki stilt mig um að taka það á þeim grundvelli, sem hv. þm. talar það, og geri jeg þá ráð fyrir, að hv. þm. viti, hvað hann segir, og að jeg megi þá gera sömu kröfur til hans eins og fólks alment, en þá verður niðurstaðan þessi, að jeg, sem hv. þm. segir, að sje algerlega óhæfur til að taka þátt í opinberum málum, hefi samt getað unnið mjer svo mikið álit hjá honum, að hann þorir ekki að hleypa mjer í nefnd, þar sem jeg er í minni hluta, af ótta fyrir því, að jeg muni sigra flokksbræður hans, sem þó eru þar í meiri hluta. Jeg neyðist þess vegna til að taka það „forbehold“ í þessu efni, að óska, að hv. þm. hafi ekki svo yfirdrifnar hugmyndir um mig, en vil þó taka það fram, að þetta er ekki nýtilkomið hjá hv. þm., því að við áttumst við á fundi norður í Skagafirði vorið 1925. Vorum við þar ræðumenn hvor af sínum flokki, og þegar við höfðum háð þann leik eitthvað í tvo tíma, þá segir hv. þm. við sveitunga sína, að þetta tjái ekki lengur, því að hann skoði sig sem dverg hjá risa, þar sem jeg sje. Maðurinn var ófullur, því að þó að hv. þm. sje með því, að aðrir embættismenn sjeu fullir, þá drekkur hann víst ekki sjálfur. En hv. þm. fann þarna til vanmáttar síns og var svo hreinskilinn að lýsa yfir því fyrir sveitungum sínum, sem honum bjó í brjósti. En svo lítill gat þessi andstæðingur minn verið, að þessi samanburður yrði ekki mikið hrós. Hv. þm. var eiginlega svo æstur í dag, að jeg vil ekki hafa eftir þau fúkyrði, sem hann viðhafði, en aðeins benda á eitt, af því að geðvonska hans bitnaði á mönnum, sem hv. þm. hefir engan rjett til að kasta steini að. Hv. þm. fór niðrandi orðum um þá ungu menn, sem eru í mínum skóla og hafa verið það. Jeg vil taka það fram, að það er undantekning, ef úr samvinnuskólanum hafa komið annað en þroskaðir og nýtir menn, menn, sem hafa unnið dyggilega að sínu námi og komist fult svo langt eins og menn frá öðrum skólum með álíka námi. Það hefir verið viðurkent af mönnum, jafnvel þeim, sem langar til að segja ósatt um mig, að lærisveinar mínir hafi verið fyrirmynd að reglusemi, áhuga og dugnaði. Það er fyrst og fremst af því að þessir menn koma yfirleitt frá myndarlegum heimilum, en líka nokkuð af því, að jeg hefi gert harðari kröfur til þeirra um siðferðilega karlmensku en háttv. þm. gerir til embættisbræðra sinna. Jeg hefi hvatt þá til að lifa gagnstætt því, sem hv. 6. landsk. vill leyfa embættismönnum að gera. Þeir mega fyrir honum drekka eins og þeir vilja. En það gera ekki mínir lærisveinar. Annars er það dæmalaus níðingsskapur, sem kemur fram á hinum þrálátu árásum íhaldsmanna og íhaldsblaða á nemendur samvinnuskólans. Í engu öðru landi er til svo auðvirðilegur flokkur, að hann beiti pólitískri ofsókn við námssveina, aðeins til að svala vanmáttugri gremju á kennurum þeirra.

Jeg kenni í brjósti um þennan mann, sem hefir verið kosinn á þing með fleiri atkvæðum en nokkur íslendingur. En nú er svo komið, að skrifararnir gefast upp við að rita á blað hugsanagraut hans, og flokksbræður hans skjálfa á beinunum, ef þeir sjá hann kveðja sjer hljóðs, því þeir vita, að hann verður sjer til minkunar í hvert skifti, sem hann opnar munninn. Þegar hann er í forsetastólnum, er hann svo aumur, að hann veit ekki, hverjum hann á að gefa orðið. Hann gefur orðið alt öðrum manni en beðið hefir um það. Og við atkvgr. verður altaf að sækja hinn eiginlega forseta, svo að ekki fari öll fundarstjórn út um þúfur. Þótt óveðrin og ófærar ár hafi borið þennan mann inn í þingið, þá datt samt engum í hug, að fram kæmi sá vanmáttur hjá honum, sem raun ber vitni um, svo að jeg býst tæplega við, að hann verði borinn á gullstóli út úr deildinni aftur. Mjer er sagt, að hann hafi lofað samherjum sínum því, að þetta skyldi verða eina þingið, sem hann sæti á. Jeg vildi styðja þennan ásetning hans, því að með þessu gerir hann hæfileg skil vanmætti sínum.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. G.-K. (BK), sem hefir haldið langa ræðu, sem ber þess merki, að hann er að setja upp sitt pólitíska skip. Hann var að reyna að sanna, að það hefði verið rjett, sem hann sagði, að 3 tilteknir menn hefðu komið af stað bankafarganinu 1909. Hann þurfti að rjettlæta hina ófyrirgefanlegu ásökun á Björn Jónsson, heilsubilunina, og ekki síst þurfti hann að sanna það, að sjálfur hefði hann ekkert verið við brottreksturinn riðinn, því að hann flutti málið inn í deildina til þess að hreinsa sig og varð því að koma með sannanir fyrir sakleysi sínu. Hann hjelt langa ræðu, en alveg efnislausa.

Jeg ætla fyrst að taka innganginn að ræðu hans, er hann segir, að allar kosningar á Alþingi hafi mistekist. Þetta er harður dómur af manni, sem lengi hefir setið á þingi og hefir verið kosinn ráðherra. En þetta er fjarstæða, sem ekki getur staðist, nema hann eigi við þá kosningu, þegar Sjálfstæðisflokkurinn tilnefndi hann sem ráðherra 1916.

Þá svaraði hann hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), sem benti á, að ekki væri heppilegt að hafa þá menn í bankaráðinu, sem mjög væru skuldugir bankanum, eða einhverja braskara. En það þótti hv. 1. þm. G.-K. ekki ískyggilegt. En jeg býst við því, að það væri miður heppilegt, ef fjárvingulsmenn og svikarar yrðu settir í bankaráðið til þess að gæta heilbrigðs fjármálalífs í landinu. (BK: Flokkarnir sjá um það). En þar sem hv. þm. álítur þá svo spilta, að kosningin hljóti að mistakast, þá er rjett að taka það fram, að þeir, sem kosnir væru, mættu ekki vera skuldunautar bankans. En meiri hl. hefir enga tillögu gert um þetta. Jeg hygg, að hjer liggi fiskur undir steini, að hann hugsi til sjer nákominna manna, sem geti komið til greina með að ná kosningu í bankaráðið, og geti svo þaðan haft áhrif á gang bankans til hagsmuna verslun sinni.

Þá kom hv. þm. með sín einu „rök“, að jeg væri kommúnisti, af því jeg varði minningu Björns heitins Jónssonar. Jeg óska nú, að hann vildi skýra samband þess að vilja ekki láta rýra virðingu látins heiðursmanns við það að vera byltingamaður. Þar sem þetta á að vera röksemd, þá skora jeg á hann að koma með einhverja grein eða ritgerð eftir mig, þar sem jeg sje að mæla með byltingu. Geti hann það ekki, þá ber að skoða þetta sem máttlaus gremjuorð rökþrota manns. En sjálfur ætti hann að athuga það, að hann hefir verið viðriðinn þá einu byltingu, sem gerð hefir verið hjer á landi, er bankarannsóknin á hendur Tryggva Gunnarssyni fór fram. En samt hefir mjer ekki dottið í hug að fara að óvirða kommúnista úti í löndum með því að bendla þá við hann. En hvað byltingarstarfsemi áhrærir er hv. 1. þm. G.-K. eini kommúnistinn hjer á landi, og um aðra hefir ekki vitnast.

Síðan kom þessi hv. þm. að sýknu sinni, eða öllu heldur sekt frá 1909. Jeg bið menn að athuga, hvernig það er undirkomið. Hann kastaði því fram, að Sveinn Björnsson og 2 lögfræðingar hefðu komið af stað bankarannsókninni með heilsubiluðum ráðherra. En vegna þess, hversu almannarómurinn fordæmir þetta, þá vakir það fyrir hv. þm. að nota síðasta þingið, sem hann situr á, til þess að hreinsa sig af áfellisdómi almennings, og það því fremur, sem enginn hinna hlutaðeigandi manna er hjer í þinginu til þess að geta þorið hönd fyrir höfuð sjer. Einn er dáinn og annar úti í Danmörku. Þess vegna er þessi ásökun þm. alveg óafsakanleg. Jeg benti á, að mjer hefði verið kunnugt um, að fyrst og fremst hefði Sveinn Björnsson verið á móti þessu fargani, og þar sem hann er fjarstaddur, vil jeg segja það, að hann er maður, sem fremur vill vinna með lagi en byltingu. Hann hefir áreiðanlega beitt áhrifum á föður sinn í gagnstæða átt við „kommunistann“, sem hvatti til byltingar. Um hina tvo er mjer kunnugt, að þeir áttu engan þátt í þessu. Annar starfaði í rannsóknarnefndinni, en vissi ekki þessar ráðagerðir fyr en rannsóknin var ákveðin. Það eru því alt ósannindi, sem hv. þm. segir, enda hefir hann ekki komið með skugga af sönnunum fyrir máli sínu, engin opinber skilríki, er sýndu það, að hann segði satt. En þar sem hann fór sem köttur í kringum heitt soð framhjá kjarna málsins, þá verð jeg að endurtaka það, að hann var sjálfur eini maðurinn, sem hafði hagnað af bankafarganinu. Hann vildi verða bankastjóri og ráðherra síðar.

Eins og hv. þm. reyndi að túlka þetta, á það að hafa verið svo, að veikur ráðherra er undir áhrifavaldi sonar síns og tveggja annara lögfræðinga. Þessir menn reyna að ná valdi yfir bankanum á þann hátt, að þeir koma svo ár sinni fyrir borð hjá ráðherranum, að hann fyrirskipar rannsókn, rekur bankastjórann og gæslustjórana frá 6 vikum áður en þeir áttu að fara samkvæmt lögum.

Það hefði nú verið auðveldara fyrir þessa menn að fá ráðherrann til þess að veita sjer embættin heldur en að fá hann til þess að reka úr bankanum aðra eins menn og Tryggva Gunnarsson, Eirík Briem og Kristján Jónsson. En það, að enginn þeirra varð bankastjóri, en að hv. þm. segir, að þeir hafi viljað verða það, sýnir, að hann segir ósatt, því að þessir menn voru það þroskaðir að aldri og visku, að betra hefði verið að setja þá í embættin heldur en þann mann, sem settur var.

Svo gefur hv. þm. þá skýringu, að hann hafi ekki viljað embættið, en svo hafi ráðherrann þrábeðið sig, og seinast hafi hann gert það fyrir hann. Það hefði nú verið nær fyrir hann að hindra ráðherra í að gera þetta en að fara inn í vegtyllu, sem hann vildi ekki, en aðrir færari menn gátu tekið að sjer. Þetta getur ekki skilist öðruvísi en svo, að hjer sje verið að skálda upp sögu, til að hylja sekt sína og koma skömminni á saklausa menn. (BK: Hefir hv. þm. gleymt rannsókninni?). Í plaggi því, sem hv. þm. las upp, er ekkert um það, að þessir 3 menn hefðu komið rannsókninni af stað. Það er aðeins nú á gamalsaldri, þegar hv. þm. veit, að hann á að fara að taka þátt í lífinu hinumegin, að hann vill fara að hreinsa sig af ávirðingum sínum. Þá vill hann koma sekt á saklausa menn.

Hv. þm. tók oft fram í ræðu sinni, að rannsóknin hefði verið rjettmæt. En hvaða ástæða er þá til þess að áfellast ráðgjafa Björns Jónssonar eða hann sjálfan fyrir það að láta hana fara fram? Hann gerði þá skyldu sína. Hið eina, sem hann viðurkennir, er, að það hafi verið of hvast úr hlaði riðið. Hvað hefði nú verið eðlilegra en að hv. þm. hefði sagt við vin sinn, er bauð honum bankastjóraembættið: Illir menn hafa verið að verki með þjer, settu einhvern þeirra í embættið. — Nei, hv. þm. var tilbúinn í stöðuna. Hann var á leið heiman að frá sjer, þegar sendimenn ráðherra mættu honum, þar sem hann var að ganga áleiðis að bankanum til að taka þar við lyklavaldinu. Það var mikil fórnfýsi að vilja fara inn í bankann undir þessum kringumstæðum, hefði hann álitið rangt að farið. Hann hefði þá átt að styðja að því, að Jón Gunnarsson færi inn í eldinn.

Jeg vil þá draga netið enn fastar að hv. þm. í fyrstu ræðu minni las jeg upp eftir Kristjáni Jónssyni úr þingræðu frá 1911, að 15. okt. 1909 hefði komið til hans vildarvinur ráðherra og stunið mæðulega — þá veit maður hver það var — og sagt sjer, að það myndi koma á daginn, að þeir yrðu reknir. Lárus H. Bjarnason framkvæmir svo rannsókn og segir þar það, sem jeg las í dag, og þarf ekki að endurtaka það hjer.

Þegar jeg las þetta, var hv. þm. búinn að gleyma því, sem gerðist 1911. (BK: Jeg sagði, að Kristján Jónsson hefði fyrst trúað því, að jeg ætti sökina, en síðar hefði hann alveg fallið frá því). Það, að hv. þm. man nú 1927 atvik, sem hann sagðist ekki muna við rannsóknina 1911, er sönnun fyrir því, að hann hefir verið að skrökva. Hann er sannanlega tvísaga í framburði sínum, og það sannar fullkomlega sekt hans.

Það þarf ekki framar vitnanna við, að hv. þm. er sá eini, sem græddi á öllu þessu. Brottrekstur Tr. Gunnarssonar var þáttur í grimmilegri og blindri valdabaráttu hv. 1. þm. G.-K.

Jeg býst við, að jeg geti látið liggja í milli hluta, hvaða skoðun Kristján Jónsson dómstjóri hafði á málinu. en svo mikið get jeg þó sagt, að hann heldur ræðu 1911, tveim árum eftir að þetta gerðist, og er auðheyrt, að hann gefur fyllilega í skyn, að hv. 1. þm. G.-K. hafi um brottreksturinn vitað. Jeg veit ekki, hvort hv. 1. þm. G.-K. hefir tekist að sannfæra hann um það gagnstæða eftir 1911. (BK: Það er annað að vita og annað að vera orsök). En þegar hv. þm. hefir einu sinni sagt ósatt í þessu efni, þá verður honum ekki trúað. (BK: Jeg hefi aldrei sagt ósatt í þessu máli). Jeg skrifaði í dag eftir honum þessi orð: „Jeg vissi, hvað átti að gera“. (BK: Það er alt annað). En jeg get glatt hv. þm. með því, að það eru fleiri rök á móti honum en fram eru komin.

Næst reyndi háttv. þm. að sanna sýknu sína með því að vitna í skjöl frá 1911, þar sem hann bar það fyrir rannsóknarnefndinni, að hann hefði ekki óskað eftir brottrekstrinum, og svo barnalegur er hv. þm. orðinn, að hann heldur, að slík staðhæfing frá sakborningi hafi einhver sönnunargildi. Þess er þá líka fyrst að geta, að það, sem rannsóknarnefndin 1911 átti að gera, var ekki að rannsaka, hverjir hefðu verið ráðunautar ráðherrans, heldur að safna glóðum elds að höfði þessa veika manns, sem bar lagalega ábyrgð á brottrekstrinum, til þess að koma ábyrgð á hendur ráðherra. Undirspil hv. þm. í þessu máli dróst inn í rannsóknina sem aukaatriði hjá mönnum, sem voru sömu skoðunar og Kristján Jónsson og Lárus H. Bjarnason. Og jeg er ekki í neinum vafa um, hverjum á betur að trúa.

Þá kemur nú eitt vitni, sem ekki hvað síst er vert að taka tillit til, en það er sá maðurinn, sem fyrir brottrekstrinum varð, Tryggvi Gunnarsson. Það á nú sæti á Alþingi sá maður, sem ber nafn Tryggva heitins og mátti heita fóstursonur hans og honum mjög handgenginn. Hann hefir tjáð mjer í dag, að Tryggvi Gunnarsson hafi altaf, er hann mintist á þetta mál, sagt, að hann væri ekki í vafa um, að sá maðurinn, sem hann teldi, að eingöngu bæri ábyrgð á brottrekstrinum, væri eftirmaður hans í bankanum. Sá hv. þm., sem tvísaga hefir orðið í vörn sinni. Það er enn hægt að sanna með vottum orð þau, er Tr. Gunnarsson mælti, er hann fleygði lyklunum í eftirmann sinn, og jeg hefi tilfært í fyrri ræðu minni. Má staðfesta þau með eiði, ef hv. þm. óskar þess. (BK: En hvað sannar þetta?). Jeg býst við, að af öllum, sem heyrðu þessi orð, hafi enginn skilið það betur en hv. þm., er hann tók við lyklunum, að þau voru alvöruþrungin bölbæn þess manns, sem hann hafði hrakið saklausan út úr bankanum. Og það hefir nú viljað svo til fyrir kaldhæðni örlaganna, að hv. þm. varð að fara burt úr bankanum nokkuð hastarlega, og minning hans þar lýsir ekki fram á veginn. (BK: Jeg fór fríviljugur). Hafi það verið, getur skeð, að endurminningin frá orðum hins fráfaranda bankastjóra, er hann kastaði lyklunum, og tilfinningin um það, hvernig hann hafði aflað sjer stöðunnar, hafi átt sinn hlut í því. Og nú vill hann nota síðustu dagana, sem hann situr á Alþingi, til þess að reyna að þvo af sjer endurminninguna um hina sorglegu daga. Á honum rætast hin viturlegu orð Einars Benediktssonar: „Því gleymskunnar hnoss ei hlotið fær neitt hjarta, sem gleymsku þráir“.

Jeg get ekki komist hjá því, úr því að minst hefir verið á Tryggva Gunnarsson og gerður samanburður á þessum tveim mönnum, manninum, sem rekinn var burt og sem nú fylgir sú virðing, sem aldrei mun gleymast, og eftirmanni hans, sem tók við lyklunum með þeim fyrirmælum, sem svo greinilega hafa ræst. Annars mun lengi minst sem einhvers hins ágætasta Íslendings. Hinn gleymist um leið og hann fellur frá, nema að því leyti, sem hans verður minst sem eins af þátttakendum í nokkrum hneykslanlegum málum, eins og bankafarganinu 1909.

Að síðustu gerði hv. þm. sjer þann óleik að lesa upp, kannske eftir minni, part úr endurminningum sínum um pólitíska samtíðarmenn sína, og jeg játa, að þessi klausa, sem fól í sjer lífsspeki hans, var ekkert annað en ómenguð vitleysa. Jeg held, að það væri æskilegt, að hv. þm. ljeti ekki geyma þetta skjal of lengi. Það mundi heppilegra fyrir flesta samtíðarmenn hans að vita, hvað hann ber þeim á brýn. Því að jeg held, að sá maður, sem á til það drengskaparleysi að geta nítt látinn velgerðamann sinn, eins og þessi maður hefir gert við Björn Jónsson, sje eins líklegur til að segja margt ósatt og skemmilegt um þá, sem fjær honum standa.