23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3086 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi reynt í umr. um þetta mál að halda mjer eingöngu við málefnið, og af því að jeg ætla mjer að halda þeirri reglu áfram, mun jeg ekki fara mikið út í ræður þeirra hv. 1. og 5. landsk. (JJ, JBald).

Hv. 5. landsk. er eiginlega búinn að gefa upp alla vörn að því er snertir staðhæfingu hans um stjórnarskrárbrotið, sem er í því fólgið að láta sömu reglu ná til stjórnskipaðra bankastjóra Íslandsbanka og gildir samkv. frv. um bankastjóra Landsbankans. Það var líka ólíklega til þeirrar staðhæfingar stofnað, og þess vegna ekki von, að endingin yrði góð. Síðasta þrepið, sem hann reyndi að fóta sig á, var það, að það væri nú að vísu hægt að gera eins og Landsbankinn hafði gert viðvíkjandi útibússtjórunum, með því að setja ákvæði um það í samningana, að þeir yrðu að gefa sig alla við bankastjórastörfunum og mættu ekki verja tíma sínum til þingsetu eða annara starfa, ef þeir væru ekki alþm., þegar þetta ákvæði væri tekið í samning. Hv. þm. ljet eins og hann hjeldi, að þannig hefði verið ástatt, er Landsbankinn tók þessa reglu upp. En þegar Landsbankinn tók upp þessa reglu, þá voru þó tveir af útibússtjórum hans þm. Samt sem áður bannaði bankastjórnin þeim sem öðrum að sitja á þingi, með þeirri afleiðingu, að þeir urðu að velja um, hvort þeir vildu heldur sleppa stöðunni eða þingmenskunni. Annar valdi stöðuna, en hinn þingmenskuna. En nú stendur svo á um alla bankastjórana, er regla þessi á að ná til, bankastjóra Landsbankans og hina stjórnskipuðu bankastjóra Íslandsbanka, að enginn þeirra er þm. Þess vegna er engum þeirra bægt frá starfi, sem hann nú hefir, ef ákvæðið verður tekið upp. Hitt veit jeg ekki, hvort þeir eru í stjórn einhverra atvinnufyrirtækja, sem sama grein bannar. En jeg hygg, að það sjeu ekki svo mikil brögð að því, að það verði tilfinnanlegt, þó að regla sú verði upp tekin, er frv. fer fram á. Ef það er ekki brot á stjórnarskránni að taka þá reglu upp gagnvart útibússtjórunum, að þeir megi ekki sitja á þingi, þá er það heldur ekki gagnvart bankastjórunum.

Jeg heyrði ekki byrjunina á ræðu hv. 1. landsk., en mjer hefir verið tjáð, að hann hafi verið með málalengingar miklar um samkomulagið, sem hefir orðið í þessu máli milli mín og hv. 1. þm. G.-K. (BK). Jeg veit það, að eitt af því, sem hv. 1. landsk. verður að telja með sinni margvíslegu mæðu á þingi, er einmitt þetta samkomulag, eða með öðrum orðum það, að hv. 1. þm. G.-K. hefir fallist á að vinna að frv. þessu á þeim grundvelli, sem það nú er á, og leggja fram lið sitt til þess að það mætti verða sem best úr garði gert. Það er vitanlegt, að hv. 1. landsk. hefir eytt eigi alllitlu af tíma sínum til þess að afla sjerskoðun sinni í þessu máli fylgis, og ef honum hefði tekist að fá hv. 1. þm. G.-K. á sitt band, þá hefði kveðið við annan tón hjá hv. 1. landsk. í garð aldursforseta þingsins (BK) en nú hefir raun á orðið. Eins og jeg hefi sagt áður, er það ófrávíkjanleg regla hjá hv. 1. landsk. að dæma menn ekki eftir málavöxtum, heldur eftir því, hvort þeir eru honum þægur ljár í þúfu á hinum pólitíska ferli hans eða ekki. Hann ber lof á flokksmenn sína, en last á andstæðinga sína. Og af því að þetta er orðið alkunnugt, eru allir hættir að taka mark á lofi hans og lasti.

Af því, sem jeg heyrði háttv. 1, landsk. segja viðvíkjandi málinu, vil jeg aðeins henda á lofti ummæli hans um það, að stjórn Landsbankans gæti ráðstafað fje hinna opinberu sjóða í rjetta deild. Það mundi sett í sparisjóðsdeildina, sem þar ætti að vera, og það í seðlabankann, sem samkvæmt eðli sínu gæti staðið með hlaupareikningskjörum, sem þó er sjaldgæft, að fyrir komi. En þar skýst hv. þm. yfir. Ef sparisjóðsdeildin yrði nú skilin frá bankanum, þá væri ekkert rúm fyrir fje, sem á að standa á sparisjóðskjörum, í Landsbankanum. Sú stjórn, sem þá er yfir seðlabankanum, hefir engin umráð yfir fje sparisjóðsdeildarinnar. Þetta sýnist benda á það, að hv. þm. hefir ekki áttað sig til fulls á frv. Hann sagði, að það væri nýstárleg kenning, að seðlabanki ætti ekki að sækjast eftir sparisjóðsfje. Jeg gæti nú ekki búist við því, að það væri nýstárlegt fyrir mann, sem hefir látið svo mjög í ljós ánægju sína yfir þingmenskuhæfileikum sínum og háttv. 1. landsk. gerði í nýlokinni ræðu. Það hefir þó um fátt verið talað meira hjer en einmitt þá skoðun, að það væri jafnvel hættulegt fyrir seðlabanka, eins og hv. 1. þm. G.-K. hefir haldið fast fram, ef að honum safnaðist sparisjóðsfje, sem hann væri skyldur að taka á móti. Jeg verð að segja það, að það er og hefir verið mikið rjett í þessari skoðun hv. 1. þm. G.-K., enda hefi jeg reynt, eftir því sem núverandi ástand bankamálanna leyfir, að taka tillit til skoðana hans í frv. því, er hjer liggur fyrir, um algera aðgreiningu á seðlabanka og sparisjóðsdeild. Háttv. 1. landsk. kallaði þetta nýstárlega kenningu, og kemur þar ekki fram sú þekking á þessu máli, sem jeg hefði getað vænst eftir þeirri lýsingu, sem hann gaf áðan af þingmenskuhæfileikum sínum.

Þá sagði hv. 1. landsk., að það væri mótsögn hjá mjer, er jeg hjeldi því fram, að ríkissjóður bæri ekki ábyrgð á skuldbindingum Landsbankans, en hinsvegar væri ríkisstjórninni heimilt að ganga í ábyrgð fyrir lánum þeim, sem bankinn tekur. En það getur hún ekki lengur, eftir þeim lögum, sem samþykt hafa verið á þessu þingi. Jeg veit ekki, hvort jeg má hjálpa upp á skilning hv. 1. landsk. í þessum efnum með því að taka dæmi úr daglegu lífi, sem hann ber skyn á. Háttv. 1. landsk. mun ekki halda því fram, að jeg beri ábyrgð á skuldbindingum hans, en hinsvegar mun hann ekki mótmæla því, að jeg hafi leyfi til að ganga í ábyrgð fyrir hann. Og eins var með ríkissjóð gagnvart Landsbankanum, þangað til nýju lögin um þetta voru sett. Jeg held, að hv. þm. ætti heldur að bera þetta fram einhversstaðar annarsstaðar, þar sem honum yrði ekki svarað, en ekki hjer, þar sem hann má vita, að honum verður svarað samstundis og vitleysur hans leiðrjettar. Þá mintist hv. þm. á það, sem jeg sagði um trygginguna fyrir sparisjóðinn, og sagði, eins og hv. 5. landsk. sagði líka, að jeg hefði gert ráð fyrir því að koma með brtt. við 3. umr., sem mundi gerbreyta brtt. minni á þskj. 398.

Þetta er nú alveg misskilningur. Brtt. á þskj. 398 sviftir Landsbankann engum þeim tryggingum, sem hann nú hefir. En það eru önnur ákvæði í stjfrv. sjálfu, sem gera það að verkum, að sparisjóður Landsbankans nýtur ekki tryggingar af stofnfje seðlabankans. Sú brtt., sem jeg gerði ráð fyrir að flytja við 3. umr., gengur út á það að breyta þessum ákvæðum frv., sem gera ráð fyrir, að sparisjóðurinn hafi ekki aðra tryggingu á bak við sig en varasjóð sinn.

Báðir þessir hv. þm., hv. 1. og hv. 5. landsk., hafa sagt, að jeg hafi kannast við, að ríkissjóður bæri siðferðilega ábyrgð á Landsbankanum. Um þetta hefi jeg ekkert sagt, en jeg get sagt það nú. Þessi siðferðilega ábyrgð er vitanlega engin lagaábyrgð, en þegar hjer er talað um siðferðilega ábyrgð ríkissjóðs gagnvart Landsbankanum, þá getur meiningin ekki verið önnur en sú, að það geti verið sanngjarnt, ef sparisjóðurinn verður fyrir miklu tapi, að landið hlaupi undir bagga og bæti innstæðueigendum upp tapið. — Um slíkt, hvort þetta gæti verið sanngjarnt eða rjett, er ómögulegt að segja fyrirfram; það fer eftir málavöxtum.

Jeg skal nefna eitt tilfelli, sem mjer þætti ekki sanngjarnt, að ríkið bætti innstæðueigendum tap. Það er, ef svo ólíklega skyldi fara, að lögleitt yrði að stýfa hina íslensku krónu. Að stýfa krónuna væri það sama og að taka allmikinn hluta af eignum allra þeirra, sem eiga kröfur á Landsbankann; kröfur, sem þeir geta ekki heimtað að fullu nú, en á sínum tíma, þegar Landsbankinn verður skyldaður til að innleysa seðlana. — Ef sú óhamingja á að henda þetta land, að gjaldeyrir okkar verði stýfður með stórtapi fyrir innstæðueigendur, þá álít jeg það ekki siðferðilega skyldu ríkisins að bæta þeim upp mismuninn á seðlagildi og gullgildi, sem hafa fje sitt geymt í Landsbankanum, fremur en öðrum. Þetta læt jeg nægja sem dæmi um það, að það er mjög varhugavert að slá fastri fyrirfram nokkurri almennri reglu um það, hvort ríkinu beri skylda til að bæta innstæðueigendum upp tap, sem þeir kunna að verða fyrir. Enda er það heldur ekki það, sem hjer liggur fyrir gagnvart frv., hvort við eigum í framtíðinni að gera siðferðilega ábyrgð gildandi gagnvart ríkissjóðnum, heldur hitt, að ákveða hina lagalegu ábyrgð hans. Jeg álít það alveg óviðeigandi að láta það vera vafa og lögskýringum undirorpið, hve langt ábyrgð ríkissjóðs nái fyrir skuldbindingum slíkrar stofnunar, einkum þar sem athygli almennings hefir nú verið leidd að þessu atriði á sama tíma og við höfum til meðferðar lagafrv. um bankann hjer í þinginu.

Jeg get nú látið útrætt um þetta af minni hálfu. Hv. 1. landsk. hefir nú gengið út, svo að hann heyrir ekki mál mitt, og skal jeg því ekki fara langt út í viðskifti hans við hv. 6. landsk. (JKr) og hv. 1. þm. G.-K. (BK). — Jeg vil þó segja það út af hinu frámunalega sjálfshóli hv. þm. (JJ) og sjálfsáliti í samanburði við hv. 6. landsk., að mjer fanst ræða hans vitna á móti honum. — Hv. 6. landsk. hjelt stutta ræðu, en nokkuð kröftuga í garð hv. 1. landsk., að gefnu tilefni, því að hann hafði vaðið upp á hv. 6. landsk. með rakalaus og óverðskulduð ámæli. Það er auðvitað altaf leiðinlegt að þurfa að setja ofan í við þm. eins og hv. 6. landsk. gerði við hv. 1. landsk., en maður verður að afbera það. — Hv. 1. landsk. svaraði nú aftur og ljet eins mikið frá sjer í garð andstæðings síns, en munurinn var sá, að honum tókst það alt miklu miður. — Auk þess notaði hann, eins og hans er vandi, svo miklar málalengingar og þurfti svo langan tíma til að koma út úr sjer lítilli hugsun, að það var lítt bærilegt að hlusta á það. — Einkum verður þessi aðferð hv. þm. óþolandi, þegar hjer við bætist, að þetta er ekkert sjaldgæft, heldur daglegt brauð hjer í deildinni, og verður þess vegna til slíkrar tafar fyrir þingstörfin, að þess eru ekki dæmi í sögu þingsins.