23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3093 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það er misskilningur hjá hæstv. forsrh., að jeg sje fallinn frá þeim skilningi mínum á ákvæðum 47. gr. frv., að þau brjóti í bága við stjórnarskrána. Hæstv. ráðherra veit líka vel, að það eru margir fleiri en jeg, sem líta svo á þetta mál. Hann hlýtur líka að sjá, að það er nokkuð annað, að einstakir menn geri samning með sjer um einhver atriði eða að þingið sjálft setji lög um þau.

Til þess að geta sett lög um þetta þarf að breyta stjórnarskránni. Það eru 2–3 ákvæði í frv., sem koma í bága við stjórnarskrána og þingsköpin. Og til þess að breyta stjórnarskránni þarf alveg sjerstaka aðferð. Það þarf t. d. að vera tekið skýrt fram í frv., að það sje um breyting á stjórnarskránni. — Hæstv. forseti á ef til vill enn eftir að fella úrskurð um þessi atriði. Úrskurður hans í gær gefur tilefni til að halda, ef atkvgr. fer að óskum hæstv. ráðh., að þá muni á ný falla úrskurður. Hæstv. ráðherra segir auðvitað, að vel megi samþykkja þetta nú, vegna þess að enginn af bankastjórum Landsbankans eigi sæti á þingi. En nú veit hann, að við Íslandsbanka er maður bankastjóri, sem verið hefir þm. og sem hefir leitað eftir þingmensku síðastl. ár, og heyrst hefir, að hann muni gera það í haust.

Nú vildi jeg fá að heyra frá hæstv. ráðh., hvort hann ætlar sjer þá, ef þetta verður samþykt, að framkvæma ákvæði laganna á þann hátt, að víkja þeim bankastjórum frá, er ekki kynnu að vilja beygja sig í þessu efni. Jeg vildi annars beina því til hæstv. ráðherra, hvort honum sýndist ekki að taka brtt. sína á þskj. 398 aftur til 3. umr. og láta hana verða samferða till. þeirri, sem hann hefir boðað viðvíkjandi tryggingu sparisjóðs Landsbankans. — Að svo mæltu skal jeg ljúka máli mínu. Það yrði of langt, ef jeg færi inn á ný atriði málsins.