23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3094 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Það er aðeins stutt aths. Hin langa ræða hv. 1. landsk. var öll endurtekning á fyrri ræðu hans, sem jeg hafði svarað svo rækilega, að ekki stóð steinn yfir steini. Hv. þm. sagði, að jeg hefði verið orsök bankarannsóknarinnar. Þetta var jeg búinn að afsanna. Þá sagði hann, að jeg hefði reynt að koma sökinni á saklausa menn, og einnig það hafði jeg sannað, að var rangt. Ekki vantar staðhæfingarnar. Ennfremur sagði hv. þm., að jeg hefði ekki átt að taka við bankastjóraembættinu. Hvers vegna ekki? Gat jeg ekki sótt um það starf eins og hver annar? Launin voru heldur ekki 24 þús. þá. Nei, þau voru 6 þús. og engin dýrtíðaruppbót öll stríðsárin, svo að ekki græddi jeg á skiftunum, því að verslun mín gaf meiri arð þegar jeg fór frá henni.

Þá sagði hv. þm., að Tryggvi Gunnarsson hefði sagt, að það væri hans álit, að jeg hefði verið hvatamaður rannsóknarinnar. En við hvað styðst það álit? — Þá sagði hann, að kassinn hefði verið talinn. En hvað kom það málinu við? Það er venja þegar skift er um bankastjóra. Jeg veit heldur ekki til, að neitt hafi vantað í kassann, enda hjelt jeg engu slíku fram. Nei, það var önnur óregla. Ennfremur sagði hann, að Tryggvi hefði kastað í mig lyklunum. Hvað sannar það, þegar hann hjelt, að jeg væri orsökin í frávikningu hans? Þá sagði háttv. þm., að jeg hefði komið lúalega fram við þennan vin minn og velgerðamann, Björn Jónsson. En hann var vinur minn, en ekki velgerðamaður. Jeg hafði ekkert af honum þegið. Þá átti jeg að hafa verið svo vanþakklátur að sveigja að Birni heitnum Jónssyni. Ef jeg hefi sveigt að honum látnum, sem jeg neita að hafa gert, þá hefði það verið alveg í samræmi við aðferð hv. 1. landsk. sjálfs. Hvað oft hefir hann ekki skammað dauða saklausa menn? Jeg vil nú leyfa mjer að lesa hjer upp, með leyfi hæstv. forseta, aftur það, sem jeg las upp í dag, svar mitt fyrir rannsóknarrjettinum, og er þar eitt vitni í þessu máli:

„Jeg hafði ekki, svo jeg muni, nein afskifti af því, að bankarannsókn var hafin. Jeg latti þess, að gæslustjórunum yrði vikið frá, sökum óeirða, sem af þeirri frávikningu mundi stafa, og er prófastur Jens Pálsson í Görðum vitni til þess, að svo gerði jeg“.

Hjer er eitt vitni, sem var á þingi ásamt Birni Jónssyni, er jeg bar þennan vitnisburð. Mundu þeir ekki hafa gert athugasemd við framburð minn, ef hann hefði verið rangur?

Báðir lifðu nokkur ár eftir þetta og kom hvorugur þeirra fram með mótmæli gegn framburði mínum. Hjer er því fullsannað, að jeg var ekki hvatamaður þess, að rannsóknin fór fram, heldur aðrir. Og 18 ár eru nú liðin síðan þessi framburður minn kom út á prenti, og hefðu því allir getað komið fram með mótmæli, ef jeg hefði ekki sagt satt. Það er því sannað, að alt, sem hv. 1. landsk. hefir sagt í þessu máli, er ekki annað en hinn venjulegi uppspuni hans, sem áður hefir orsakað hina eftirminnilegu till., sem samþ. var hjer í deildinni í fyrra. Alveg er mjer sama um, hvort haldið er áfram að kenna mjer um frávikninguna og rannsóknina. En skýra vildi jeg þó frá því sanna um þetta áður en jeg skildi við þingið.