27.04.1927
Efri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3105 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi leyft mjer að bera fram þrjár brtt. á þskj. 439.

Fyrsta brtt. er við 42. gr. og fer fram á að breyta orðalagi þeirrar greinar þannig, að það verði bert, að hún fer ekki fram á neitt, er stríðir í móti ákvæðum stjórnarskrárinnar. Einstaka menn hafa þóst geta skilið frvgr. svo, að tilteknum borgurum þjóðfjelagsins væri bönnuð þingseta. Hafa þeir lagt þetta upp úr orðalaginu í upphafi greinarinnar, er hljóðar svo: „Bankastjórar mega ekki vera alþingismenn“.

Það er óefað, að hvorki milliþinganefndin nje stjórnin hefir skoðað þetta svo, að það ætti að svifta nokkurn mann kjörgengi, heldur einskorða val bankastjóra svo á hverjum tíma, að þeir væru ekki teknir úr hópi þingmanna. Það er aðeins þetta orðalag, sem valdið hefir ágreiningi, og get jeg fallist á, að það sje ekki heppilegt eins og það er í frv., því að meiningin var aðeins sú, að takmarka rjett bankaráðsins um val bankastjóra, en ekki að takmarka kjörgengisrjett manna nje rjett kjósenda til að velja sjer þingmenn. Jeg sting því upp á, að orðalaginu í upphafi greinarinnar verði breytt svo: „Alþingismenn mega ekki vera bankastjórar“. Og vegna þess, að það kemur betur við að byrja nýja málsgrein þar á eftir, hefi jeg vikið dálítið við orðalaginu á því, sem á eftir fer, en það er ekki heldur nein efnisbreyting. Jeg vona, að enginn hv. þdm. geti nú haldið því fram, að greinin, svo orðuð, stríði í móti stjórnarskránni, hverja skoðun sem þeir annars kunna að hafa á því, hvort rjett sje að aðgreina bankastjórastörf og þingsetu. Þá kemur breyting á 44. gr., og fer hún fram á það, að fastir starfsmenn, sem unnið hafa hjá bankanum, hafi sama rjett til lífeyris og styrks eins og þeir, sem ráðnir verða eftir að lög þessi ganga í gildi og að þeim sje greitt það af fje bankans. Er þetta ákvæði borið fram vegna tilmæla núverandi starfsmanna bankans. Fanst mjer rjett að verða við þeirri málaleitan eins og hjer er gert. Er þetta svipað eins og með lífeyrissjóð embættismanna. Sjóðurinn á að nægja fyrir þá, sem byrja að leggja í hann þegar þeir taka við stöðu í bankanum, en fyrir hina, sem lengi hafa unnið í bankanum og leggja því lítið í sjóðinn áður en starfsþrek þeirra er úti, er það rjett, að þeir fái slíka uppbót sem hjer er farið fram á.

Þá er 3. brtt., við 56. gr„ að aftan við hana bætist ný grein um skifti seðlabankans og sparisjóðs. Það er gert ráð fyrir því í greininni, að varasjóður bankans skiftist til helminga milli þessara deilda, og er það bygt á því, að nálægt helmingur af veltufje bankans verði lagður hvorri deild. Eins og getið var um við 2. umr. málsins, þá fer sparisjóðurinn varhluta af skiftunum hvað aðrar tryggingar snertir, þar sem 5. gr. gerir ráð fyrir því, að innskotsfje ríkissjóðs verði fengið seðlabankanum sem hluti af stofnfje hans. Þess vegna hefi jeg borið fram þessa till. um, að seðlabankinn beri ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðsdeildar, sem nemur innskotsfje ríkissjóðs, þangað til varasjóður sparisjóðsdeildarinnar hefir náð fullum 10% af innstæðufjenu. — Þetta ákvæði er miðað við sparisjóðslöggjöf okkar, er mælir svo fyrir, að þegar vafasjóður sparisjóðs hafi náð 10 megi verja úr honum til annara þarfa en sjóðsins sjálfs. Löggjafarvaldið hefir samkv. þessu álitið það nægilega trygt að hafa 10% varasjóð til þess að sparisjóðurinn geti staðið á eigin fótum. Jeg hefi borið þetta ákvæði undir stjórn Landsbankans, og hún hefir fallist á, að rjett sje að hafa það þannig.

Jeg vil leiða athygli að því, að það mun vera prentvilla í varatillögu meiri hlutans, að komma stendur á eftir 1927, en þar á að vera punktur, og byrjar svo nýr málsliður: „Þegar eftir að lög þessi öðlast gildi, skipar ráðherra“ o. s. frv.