27.04.1927
Efri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3116 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg hafði ekki búist við, að frv. kæmi nú til umræðu, og því hafði jeg mína einu brtt. ekki tilbúna þvo snemma, að henni yrði útbýtt í fundarbyrjun. Jeg á sem sagt í prentun eina brtt., sem jeg hefi breytt nokkuð frá 2. umr., og vona jeg, að hún komi mjög bráðlega til útbýtingar. Hún er um það, að helmingur af verðbrjefum þeim, sem sparisjóðurinn á til tryggingar, skuli vera í jarðræktarbrjefum. Er nú ekki tiltekið neitt um vexti af brjefunum, eða að þau skuli keypt við nafnverði, eins og var í brtt. minni, sem feld var við 2. umr. Þetta er gert með það fyrir augum, að ekki sýnist ósanngjarnt, að jarðræktin fái þessi hlunnindi, því að ræktunarsjóður er mjög takmarkaður að fjármagni og erfitt að afla honum þess. Þeir, sem nú verða á móti þessu, geta ekki verið það af öðru en því, að þeim þyki of mikið lagt til jarðræktarinnar með till. minni, og að þeim virðist það of mikil hlunnindi fyrir ræktun landsins að fá þennan markað handa brjefunum.

Um brtt. hv. meiri hl. er fátt að segja. Það eru flest orðabreytingar, sem gera eiginlega hvorki til nje frá. Þó sýnist hv. meiri hl. gera ráð fyrir því, að tillagan um rannsókn á bankanum nái ekki fram að ganga. Jeg verð nú að segja, að mjer finst það ekki skifta svo mjög miklu máli. Það munar ekki um einn blóðmörskepp í sláturstíðinni, segir máltækið. Eins má segja hjer, að það munar engu, hvort einni vitleysunni fleira eða færra er komið inn í frv.; þær eru svo margar fyrir. Ef frv. verður samþ. á þessu þingi í nokkuð svipaðri mynd við það, sem það hefir nú, hlýtur að verða alveg óhjákvæmilegt að breyta því mjög bráðlega aftur. Í þessari deild hafa komist inn í frv. ýmsar brtt., sumar ómerkilegar og lítilsverðar, en sumar, sem grípa mjög inn í alt starfslíf bankans og eru runnar frá óvinum bankans utan þings og innan. T. d. má nefna brtt. hæstv. forsrh., sem hjer var samþ. við 2. umr. með loforði um, að henni yrði aftur breytt eða hún lagfærð við þessa umr. Þessi brtt. var borin fram út af ómerkilegri blaðagrein frá manni, sem hefir hag af því, að traust bankans sje sem allra minst. Þetta er ágætt dæmi um það, hve lítið þarf til þess, að stjórnin hlaupi til og geri brtt. við sitt eigið frv. — Áður hefir verið lýst nokkuð afstöðu annara aðilja, sem fengu brtt. samþyktar við 2. umr., til bankans. Bæði af mjer og þeim sjálfum, einkum einni persónu, sem gert hefir hjer játningar, hefir verið sýnt fram á hugarþel þeirra til Landsbankans. Verði frv. samþ. eins og það er nú, verður óhjákvæmilegt að láta innan fárra ára fara fram á því höfuðhreingerningu, til að þvo burtu grómið, sem þessi hv. deild hefir látið þar eftir. — Jeg held, að það verði ágætt að fá atkvgr. um rannsóknartill. Ef hv. meiri hl. tekur hana aftur, mun jeg taka hana upp á ný, til að sjá, hve margir af óvinum bankans eru svo hjartahreinir, að þeir fylgi till. jafnvel á flóttanum.

Þá kem jeg að brtt. hæstv. forsrh. á þskj. 439. Það má segja með sanni, að honum verður bumbult af flestu. Í frv. meiri hl. milliþinganefndarinnar stóð það afarskiljanlega ákvæði, að Landsbankastjórar mættu ekki vera alþingismenn. Það kom ekki sjerstaklega til tals í nefndinni, hvenær þetta ákvæði ætti að koma til framkvæmda. Við vissum, að úr því að núverandi Landsbankastjórn hafði meinað útibússtjórum sínum þingsetu, þá mundi sjálf bankastjórnin ekki fara að sækjast eftir henni. Því get jeg verið alveg sammála þeim úrskurði, er hæstv. forseti hefir gefið út af þessu atriði. Aftur á móti var mjer það altaf ljóst, að það var brot á stjórnarskránni, sem hæstv. ráðh. fór fram á í frv. sínu, að tveir af núverandi bankastjórum Íslandsbanka yrðu sviftir leyfi til þingsetu. Því bar jeg fram brtt., sem raunar var ekki samþykt, um að láta ákvæðið ná til þeirra einna, sem kæmu á eftir núverandi bankastjórum bankans. Brtt. þessi var að efni til alveg í samræmi við úrskurð þann, sem hæstv. forseti síðan gaf um þann skilning, er hafa yrði á greininni í frv., svo að hún bryti ekki bág við stjórnarskrána. Hæstv. ráðh. hefði nú átt að una við ósigur sinn og ekki fara að bera fram nýjar fjarstæður. Það vita allir, að tilgangurinn með till. hans um Íslandsbankastjórana var sá einn, að reyna að bola frá þingsetu manni, sem honum er í nöp við. Og þótt jeg sje lítt sammála þeim manni í stjórnmálum og kæri mig lítið um að hafa hann á Alþingi, þá vil jeg þó ekki beita hann ólögum, fremur en aðra borgara landsins. Jeg hafði ráðlagt hæstv. ráðherra að koma þessu ákvæði inn í frv. það um breytingar á stjórnarskránni, sem hann er nú að brölta með í þinginu. En hann þáði ekki þessa ráðleggingu, heldur vill hann nú á ný höggva í hinn sama knjerunn og gera það með einföldum lögum, sem ekki er hægt öðruvísi en. með stjórnarskrárbreytingu. En hefndarlöngun hæstv. ráðh. gegn þessum eina manni er svo mikil, að hann gætir sín ekki. Hann vill endilega reyna að gera hið ólöglega löglegt, og ber nú fram brtt., sem bersýnilega hefir þann einn tilgang að fara í kringum úrskurð hæstv. forseta. Það er auðsjeð, að hæstv. ráðh. er ákaflega ant um, að þessi stjórnmálaandstæðingur hans sje ekki bæði bankastjóri og þingmaður. En til þess að hann geti hætt þessu árangurslausa vandræðabrölti, skal jeg benda honum á leið, sem hann getur farið í málinu og honum er eflaust mjög kært að vera mintur á. Mjer finst það sem sagt eðlilegast, að hann noti það vald, sem hann þykist hafa, og reki manninn úr bankanum. Það er langeinfaldast fyrir hann að svala þannig ofsóknarfýsn sinni. — Jeg held því, að jeg sjái ekki annan kost en að greiða atkvæði móti brtt. hæstv. ráðh. Það er þegar búið að ganga nægilega frá ákvæðunum um Landsbankastjóra, og yfirleitt að setja þau ákvæði, sem með þarf um þetta efni, í frv. Ef hæstv. landsstjórn á eitthvað útistandandi við einstaka menn, ætti hún að reyna að hefna sín á þeim utan þings, eða a. m. k. ekki í þessu frv. Því hefir verið hjer lýst af einum stuðningsmanni hæstv. stjórnar, hvernig frómir og ráðvandir menn fóru að 1909. Hví skyldi hæstv. stjórn ekki geta fetað í fótspor þeirra árið 1927?

Um 3. lið brtt. þeirrar, sem hæstv. ráðh. ljet samþykkja við 2. umr., ber enn að sama brunni; þar er verið að leitast við að gera við ólöglega löglegt. Það er auðsjeð, að hæstv. ráðh., sem búinn er að hafa afskifti af þessu máli árum saman, hefir ekki komið auga á það fyr en einn af aðstandendum Gyðingabankans benti honum á það, að ekki væri heppilegt, að Landsbankinn hefði of mikla tiltrú. Þegar þessi Gyðingaumboðsmaður hefir látið ljós sitt skína, hleypur hæstv. ráðh. til og fær frv. breytt eftir till. hans, Þegar honum svo er bent á það, bæði af merkum manni utan þings og einnig hjer í Alþingi, að þetta geti verið hættulegt fyrir bankann, reynir hann að klóra yfir þetta á ný með brtt. þeirri, er hann nú flytur. — Hæstv. ráðh. reynir að afsaka sig með því, að álit Ólafs prófessors Lárussonar hafi knúð hann til að gera þessa brtt. við frv. Ráðherrann athugar ekki, að úrslitaatriðið í augum Ólafs Lárussonar er ekki hin lagalega hlið þessa máls, heldur hin siðferðilega skylda ríkissjóðs til þess að láta menn ekki skaðast á viðskiftum við bankann. Hvernig sem hæstv. ráðh. reynir að snúa þessu, þá stendur það altaf fast, að alt eðli málsins og hugsunarháttur þjóðarinnar hlýtur að leiða til þess, að landið hlaupi ekki frá sínum eigin banka. Með þessu er aðeins verið að skaða Landsbankann, án þess að gera honum það „gagn“, sem honum mætti verða að því að mega hlaupa frá skuldbindingum sínum, eins og t. d. sparisjóðurinn á Eyrarbakka sællar minningar. Það væri alveg gagnstætt rjettlætistilfinningu þjóðarinnar, að ríkissjóður neitaði að ábyrgjast bankann. Og það væri alveg gagnslaust, því að eigingjarnar hvatir þeirra þúsunda manna, sem fje eiga í bankanum, — þótt ekki væri annað —, mundu með kosningum knýja fram ábyrgðina. En jeg geri líka ráð fyrir, að hæstv. ráðherra þætti það nóg, því að þá er búið að ná hinu göfuga markmiði hans, að rýra traust bankans. Honum liggur hitt í ljettara rúmi, hvort sú löggjöf, er hann byggir upp, verður nokkurntíma framkvæmd eða ekki. En í viðbót við hinar siðferðilegu kröfur, sem prófessor Ó. L. talaði um, þá er bankinn sú stofnun, sem ríkið á og rekur á sína áhættu og ábyrgð, og það hlýtur að verða til þess, að hvað sem öllum fyrirmælum líður, þá hlýtur ríkissjóður að verða svo nátengdur bankanum, að hann gæti ekki látið hann fara á höfuðið.

Þá vil jeg enn benda á rök, sem hæstv. ráðherra hefir sjálfur verið mest riðinn við að skapa á móti sjer. Það er það, að fyrir atbeina landsstjórnarinnar hefir bankinn nú alveg nýlega tekið það stærsta bankalán, sem tekið hefir verið hjer á landi, og fengið til ábyrgð ríkissjóðs. Það er vitanlegt, að bæði þessi og fleiri ábyrgðir haldast enn í mörg ár, og þær eru samtals margar miljónir. Þar sem landið á ennfremur samkvæmt frv. að leggja 5 milj. kr. fram í stofnsjóð fyrir eina deild bankans, þá er þetta í framkvæmdinni orðið alveg grunnmúrað, að bankinn er eign landsins, rekinn á ábyrgð þess. Hagur bankans og hagur landsins er svo samanfljettaður, að það er óðs manns æði að ætla, að hægt sje að láta part af þessari stofnun verða gjaldþrota og svíkja þá, sem hafa trúað parti af stofnuninni, um greiðslu á fje sínu, svo framarlega sem landið er nokkurs megnugt sjálft. Það er einmitt það heimskulega við það að samþ. till. að geði hæstv. ráðh. Því að jeg býst jafnvel við, að það skaðsamlega muni ekki reynast eins í framkvæmdinni, af því að það fávíslega er svo yfirgnæfandi. Jeg geri ráð fyrir, að öllum sje það ljóst, að þrátt fyrir þær tilraunir, sem hann gerir til þess að spilla áliti bankans, þá hafi hann með þeirri skuldasúpu, sem hann hefir hjálpað til að stofna bankanum í erlendis, manna mest gert til þess, að Landsbankinn veiði ekki skoðaður öðruvísi en að landið hljóti inn á við að bera ábyrgð á honum, fyrst það tekur ábyrgð á honum út á við.

Hv. 5. landsk. (JBald) sýndi fram á þá fjarstæðu að ætla ríkinu að tryggja seðladeildina á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í 3. lið till., svo að jeg ætla ekki að víkja að því.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þessi ráðstöfun hefði verið borin undir Landsbankann og jáyrði fengist. Jeg verð að segja, að jeg hefði mjög gaman af því, að þetta hefði verið svart á hvítu. Jeg segi eins og er, að jeg leyfi mjer að tortryggja, að hæstv. ráðh. segi rjett frá, þangað til jeg sje það svart á hvítu frá bankastjórunum, að þeir sjeu ánægðir með þessa ráðabreytni. Mjer er kunnugt um, að sá af bankastjórunum, sem hæstv. ráðh. þekkir líklega best, var mjög óánægður með till. hæstv. ráðh., þegar þær komu fyrst fram. Og það er sennilega til þess að bæta þau göt, sem sá bankastjóri sýndi hæstv. ráðh. fram á, að væru í greininni við 2. umr., sem hann hefir gert þetta mjög svo þýðingarlitla yfirklór. Sá bankastjóri ljet ótvírætt í ljós, að það gæti verið ákaflega mikil hætta fyrir bankann, ef alt í einu væri farið að kippa frá honum þeirri trú, sem þjóðin hefir á þeirri baktryggingu, sem hann hefir. — Það er í mesta máta álappalegt, að sá sami maður, sem tekið hefir margra miljóna lán erlendis með ríkisábyrgð, að hann skuli gerast svo frakkur að reyna að skapa möguleika til, að landar hans verði sviknir af þjóðbanka landsins, hinum sama og öll þjóðin tryggir út á við. Jeg vildi óska, að hann í þessu efni hefði fylgt þeim „móral“, sem hann hafði viðvíkjandi brotlegum togurum, þegar hann sagði, að útlendir togarar væru meira brotlegir en þeir innlendu; hann ætti að halda því fram, að Landsbankinn ætti ennþá síður að svíkja sína eigin landa en útlendinga.

Þá þótti mjer mjög gaman að þeim hamskiftum, sem hæstv. forsrh. hefir tekið. Það kom í ljós, að það vakir fyrir hæstv. forsrh. og fjrh. að geta yfirgefið þá skoðun, sem hann hefir talið sig halda fram um nokkur ár, og geta komist yfir á skoðun aðalandstæðinga í málinu. Hann virðist hugsa sjer þann möguleika, að fljótlega sje hægt að gera Landsbankann að tveimur ríkisstofnunum, seðlastofnun og Landsbanka. Þetta hefir nokkurnveginn haldist í jafnvægi við það, að þessir meðhaldsmenn seðlastofnunarinnar hafa aftur snúist yfir á skoðun hæstv. ráðh. Jeg vil benda á, að þessi tillíking, sem gerst hefir hjer undir vertíðarlokin, er ekki alveg einstök. Hið sama hefir orðið í járnbrautarmálinu, þar sem hv. 1. þm. G.-K. (BK) snerist talsvert. Hann var í nefndinni, sem fjallaði um málið, og lagði hann til, að samþ. yrði. Að minsta kosti klauf hann ekki nefndina. En svo hefir aftur hæstv. forsrh. í raun og veru snúist frá sínu gamla „principi“ og komist yfir á fyrri skoðun hv. 1. þm. G.-K., að engin járnbraut ætti að vera. Þetta er að láta Heródes og Pílatus hittast og mjög skemtileg endalok á þinglegum viðskiftum þessara manna.

Þá vildi jeg víkja fáeinum orðum að einni skýringu, sem kom fram við 2. umr. út af eldri og yngri rannsókn þessa máls. Það var kallað ósamkvæmni, þar sem jeg í fyrra fór fram á, að Alþingi fengi vitneskju um tvær uppgjafir, bæði frá Landsbankanum og Íslandsbanka, nefnilega á Ísafirði og hjá Nathan & Olsen, og svo hafi jeg ekki fylgt þessu fram. Jeg skal gefa þá mjög svo einföldu skýringu, er snertir annað, sem gert var um leið. — Hv. þm. (BK) ljet þess getið, að ástæðan til þess, að komið var með rannsókn á bankann nú, væri sú, að kaupfjelög myndu skulda þar eitthvað og þeirra trygging, samábyrgðin, hafi ekki reynst svo trygg; bankinn hafi stundum tapað einhverju. Nefndi hann fáein dæmi, en ekki nein ákveðin. En jeg hefi ástæðu til að halda, þangað til nefnd eru nöfn, að ósatt hafi verið það, sem hv. þm. sagði um þetta. Að minsta kosti skora jeg á hann að koma með nöfn og tölur snertandi slík kaupfjelög, svo að hægt sje að vita síðarmeir, hvort nokkur fótur sje fyrir þessu.

Nú vil jeg taka fram, áður en jeg kem að fyrirspurninni frá í fyrra, að það er ekki óeðlilegt, að smáupphæðir hafi tapast í einstöku samvinnufjelögum í kaupstöðum; en mjer er ekki kunnugt um nokkra lánsstofnun, sem hafi tapað neinu í viðskiftum við kaupfjelög í sveitum, og þar eru þau flest. Mjer skilst nú þetta hafa átt að sanna það hjá hv. þm., að fyrst eitthvað tapaðist hjá einhverju smáfjelagi, þá væri það höfuðsynd á hendur kaupfjelaga í heild og ætti sennilega að varða lánstraustsmissi. Jeg hefi áður getið þess, að kaupfjelögin í heild sinni yrðu að fá einhver fjármálahlunnindi hjá þjóðfjelaginu, til þess að vega á móti þeim miklu fjárhæðum, miljónum á miljónir ofan, sem kaupmönnum, útgerðarmönnum og bröskurum og svikurum af öllu tægi hafa verið gefnar. Til dæmis töpuðust 5 milj. á Fiskihringnum einum saman, og í honum eru sumir ríkustu kaupmenn bæjarins, svo sem fyrverandi samþingismaður hv. 1. þm. G.-K. (BK), Einar Þorgilsson, sem á enn skip og miklar eignir. Jeg segi þetta til þess, að hv. þm. geti komið með þau kaupfjelög, sem hann vill tortryggja. Það skulu koma nógir kaupmenn hjá mjer á móti, og það upp á nafn.

Þegar búið er nú að innleiða þann „praksis“ að gefa upp miljónir til kaupmanna í bæjum og útgerðarmanna og vinna tapið upp á löngum, löngum tíma með okurháum vöxtum á skilamönnum landsins, — þá vil jeg segja það, að það væri óforsvaranlegt að heimta af kaupfjelögum landsins, að þau óskuðu ekki undir neinum kringumstæðum eftir neinni uppgjöf. Er það svo mikið, þótt banki gefi eitthvað eftir einstöku kaupfjelagi, þegar bændastjett landsins hefir borgað hundruð þúsunda af tapi Fiskihringsins? Sá hugsunarháttur hv. 1. þm. G.-K. er ófær, að aldrei megi gefa upp samvinnufjelagi eins og öðrum, úr því að meðlimir þeirra hafa borgað okurvextina fyrir hina miklu óskilamenn í bæjunum. Sannarlega er það ekki furða, þótt fátæk fjelög, á Eskifirði og víðar, hafi ekki altaf staðið í skilum, þar sem kaupmenn þar og annarsstaðar hafa farið með hundruð þúsunda frá sömu lánsstofnun. Það er algerður misskilningur hjá hv. 1. þm.

G.-K., að þeir fáu meðlimir kaupfjelaga, sem hafa fengið einhverja smávægilega eftirgjöf, þurfi að bera nokkurn kinnroða. Ef borin væri saman aðstaða þeirra og hinna, sem jeg áður nefndi, og höfn birt, þá þætti mjer gaman að sjá framan í hv. 1. þm. G.K. hjer á Alþingi, þegar komið væri að uppgjöf til kaupfjelaga, og þegar tekinn væri Fiskihringurinn og kaupmenn í Borgarnesi, Loftur í Sandgerði. Sá kjósandi þessa hv. þm. fjekk 1/2 miljón gefna eftir í einu hjá Íslandsbanka.

Nei, það er áreiðanlega langbest fyrir hv. 1. þm, G.-K. að fara að eins og háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) í fyrra. Hann var fyrrum útibússtjóri á Ísafirði, þegar tapaðist nokkuð mikið á aðra miljón af landsins fje, en kom samt með fyrirspurn um, hvað einu tilteknu kaupfjelagi hafi verið gefið mikið eftir. Þegar sá hv. þm., sem bjó í þessu glerhúsi, kom með fyrirspurnina, kom jeg með aðra fyrirspurn, hvernig því væri varið um útibúið á Ísafirði, hvernig það væri með Nathan & Olsen, sem er einn af eigendum „Morgunblaðsins“, sem hefir flutt mestan andblástur gegn samvinnufjelögunum. Þá brá svo við, að hv. þm. N.-Ísf. dró inn klærnar og varð svo auðmjúkur, sem nokkur maður getur verið. Hann vissi, að um leið og hann færi að hreyfa þessu máli, yrði það grafið upp, hvernig landið hafði tapað mörg hundruð þúsundum á stjórn hans á útibúinu og hvernig skilamenn í landinu hafa orðið að reyta saman í okurvöxtum á 2. miljón til þess að borga það, sem hann sukkaði.

Það var þetta, sem olli því, að jeg sá ekki ástæðu til að hreyfa málinu frekar, þegar af því að það var búið að hafa sín áhrif, að jafna dálítið gúlana á þessum ófriðarsegg neðri deildar. En jeg er reiðubúinn hvenær sem háttv. andstæðingar mínir óska eftir að fá hreinlega gefin upp öll töp bankanna upp á nafn og ástæður tilgreindar, og vinna svo úr því. Mun jeg ekki óska eftir, að neinstaðar sje dregið yfir.

Svo vil jeg skjóta því um leið til hæstv. forseta, — til þess virkilega forseta, sem er hæfur til að stjórna og altaf verður að vera við atkvgr. og þegar yfir höfuð eitthvað þarf að gera, — að hann felli hjer úrskurð um nokkuð, sem kom fyrir við 2. umr. Einn þm., jeg ætla það væri hv. 6. landsk., ljet sjer um munn fara um nokkurn hóp ungra manna, að þeir væru „slefberar“, án þess að þeir væru á nokkurn hátt til umræðu eða þeirra siðferðisástand; enn síður að nokkur sönnun væri færð fram gegn þeim, nje að það væri hægt, því að þetta slordónaorðbragð var hjúpur utan um ómenguð ósannindi. Nú krefst jeg þess, að hæstv. forseti lýsi yfir því, hvort hann álíti orðið þinghæft, — hvort það megi fara að kalla nemendur í skólum yfirleitt óþokka og ódrengi. Mjer dettur vitanlega ekki í hug að gera það; en jeg vil gjarnan vita, hvort löghelgað sje að segja slíkt tilefnislaust. Ef ekki, þá óska jeg, að í úrskurði hæstv. forseta felist sú rjettmæta ásökun fyrir það, að þm. leyfir sjer slíkt viðvíkjandi fjarstöddum, saklausum mönnum. Það er nógu hart að þurfa að verja menn í gröfinni fyrir svokölluðum vinum þeirra, þótt ekki sje farið líka að beita svívirðilegum álygum á ungmennin í skólum landsins.

Um þetta frv. vildi jeg segja það, að það er orðið hið mesta afskræmi, vegna þess að vanhugsuðum till. hefir verið klastrað við aðalefnið. Það er gerð skipulagsbundin tilraun til þess að reka fje úr landinu frá Landsbankanum. Mjer dettur í hug, að fjórðungi bregði til fósturs. Það hafa orðið frægar tvær skepnur, sem eru nokkuð á vegum hæstv. stjórnar, sem mjer sýnist þetta frv. líkjast nokkuð nú orðið. Önnur skepnan er hinn ferfætti Dú-dú-fugl, sem það blað stjórnarinnar, sem ekki má nefna hjer í deildinni, sagði frá í fyrra og hlaut allmikla frægð fyrir. Sú kynjaskepna var fugl, sem ekki gat flogið, en var á fjórum fótum. Fyrir tilhlutun sömu vina stjórnarinnar bættist við í vetur annað kynjadýr, — fiðurfjeð. Það voru kindur — ferfættar náttúrlega — en með vængi. Og þessar tvær skepnur, sem hæstv. stjórn hefir svo að segja alið á sínu brjósti, þær sýnast mjer muni í raun og veru ekki vera fáránlegri vanskapningar heldur en frv. það um Landsbankann, sem samþ. var með 8 íhaldsatkvæðum við 2. umr. þessa máls.