27.04.1927
Efri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3129 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Mjer láðist áðan að geta þess, að í frv. hefir komið fram till., sem var feld við 2. umr. Skrifstofan hefir sent fjölritaða leiðrjettingu á því, svo að þetta kemur rjett við 3. umr. inn í frv.

Jeg hefi heyrt skýringu hæstv. forsrh. (JÞ) á þskj. 439, og borið mig saman við meiri hl., og felst á till. að öllu leyti eins og þær liggja fyrir. Tel jeg óþarft, að jeg fari að skýra till., þar sem hann er búinn að því.

Jeg veit ekki, hvort jeg á að eiga við að svara hv. þm. að þessu sinni. Það er búið að ræða þetta mál svo mikið, og hefir þó flest af því, sem sagt hefir verið, ekki snert málið nokkurn skapaðan hlut, svo sem ræða hv. 1. landsk. (JJ). Er það leiðinlegt að þurfa að tala um alt annað en það mál, sem liggur fyrir, og jeg geri það aldrei, nema jeg sje neyddur til að svara einhverju, sem hv. 1. landsk. blandar inn í.

Við ræðu hv. 1. landsk. er annars ósköp lítið að segja. Hann er óánægður með, að þetta komist inn í lögin, sem koma á. En dálítið þótti mjer það kynlegt, er hann sagði, að hann hefði viljað hafa sem best eftirlit með bankanum. Jeg veit ekki annað en að meirihl.-till. gangi út á það að gera eftirlitið betra. Það hlýtur að vera einhver misskilningur hjá hv. þm. — Jeg hefi skýrt það við 2. umr., að bankaráðsmenn ættu að teljast sem stjórnarmenn, því að þá er gert ráð fyrir, að bankaráðsmaður sje á fundum með bankastjórninni. Það hefir verið strikað út. Þetta hefði gert bankaráðsstjórnina sjálfstæðari.

Þá var talað um, að samkomulag yrði ekki eins gott. Það getur eins orðið gott samkomulag, þótt gott eftirlit sje með bankanum. Jafnvel strangt eftirlit skapar ekki óvináttu, ef það er rjettsýnt. Hver sæmilegur bankastjóri sættir sig við það.

Svo kvartaði hann yfir því, að við ýttum undir minni hl. að gera ágreining. Það er alls ekki. Þetta eru t. d. alt ákvæði í Noregsbankalögunum. Það er heldur hitt, að minni hl. getur oft haft rjettara fyrir sjer en meiri hl., og er þess vegna betra að geta skotið ágreiningnum undir æðra vald. Sjerstaklega er það, þegar meiri hl. vill samþ. að veita einhver hæpin lán eða gera einhverjar vafasamar ráðstafanir; þá á minni hl. að geta áfrýjað til æðra valds. Í því felst einhver besta trygging fyrir bankann.

Þá er dagbókarhaldið, sem honum fanst óskaplega mikil skriffinska. Meðan jeg var bankastjóri, var fyrirskipað af stjórninni að halda dagbók og að sjálfsögðu fundarbók. Þar var skrifað alt, sem lánað var, og stjórnarráðið fjekk svo bókina til yfirlits einu sinni á viku. Þetta er skriffinskan, sem hann talaði um. Meiri hl. skiftir þessu í þrjá parta. Það er vitaskuld, að þegar á að greina 3 sjálfstæðar deildir, eins og frv. ætlast til, þá á hver deild að hafa sína bók fyrir sig. Af þessum blöðum er svo það, sem gerist á hverjum degi, fært inn í bók daginn eftir; hvort sú bók er ein eða þær eru þrjár, gerir ekki neinn mun.

Þá talaði hv. þm. (JBald) um, að ábyrgðin ljettist. Það ljettist ekki nein ábyrgð á bankastjórunum. Þeir eru gerðir svo sjálfstæðir, að það hlýtur að falla á þá næg ábyrgð. Í öllu falli verður ekki siglt fram hjá ábyrgðarleysisskerinu með landsbankanefnd og bankaráði, því að með því fyrirkomulagi gæti bankastjórnin skotið sjer undan ábyrgð miklu fremur. Þvert á móti er með þeirri skipun, sem við ætlumst til, hægt að finna, hvar ábyrgðin liggur, af því að bankaráðið á að skýra Alþingi frá því, sem gerist.

Hæstv. forsrh. hefir svarað því, sem hv. þm. (JBald) sagði um endurkaup á viðskiftavíxlum Íslandsbanka. Það leiðir af sjálfu sjer, að ekki er ætlast til, að Landsbankinn kaupi annað en góða víxla, sem standi sem trygging fyrir því, sem lánað er út á þá. Þá er sama, hvort Íslandsbanki er góður eða slæmur, ef einungis víxlarnir eru góðir og tryggir.

Úr því að eftirlitsmaður banka og sparisjóða hefir nýlokið rannsókn á Íslandsbanka, hví á þá að fara að rannsaka hann á ný? Ef hv. 5. landsk. ber það traust til þessa eftirlitsmanns, sem hann virðist hafa, með því að hann vill fela honum einum að meta hag Landsbankans fyrir úttekt hans í hendur bankaráðsins, þá er ekki sýnileg, jafnvel ekki frá hans sjónarmiði, nein skynsamleg ástæða til þess að fara fram á þetta. — Annað þarf jeg ekki að segja um athugasemdir hv. 5. landsk.

En þá koma brtt. hv. 1. landsk. til sögunnar. Eins og hv. deildarmenn muna, lagði hann það til við 2. umr. þessa máls, að Landsbankinn keypti svo og svo mikið af jarðræktarbrjefum við nafnverði. Nú fer hann enn fram á, að bankanum sje gert að skyldu að hafa að minsta kosti helming verðbrjefaeignar sinnar í jarðræktarbrjefum. Við þetta er það fyrst að athuga, að stórtjón getur af hlotist að kaupa svo mikið af einhæfum verðbrjefum, og annað það, að ekki er víst, er stundir líða fram, að hjer verði til nokkur lánsstofnun, er heiti jarðræktarsjóður. Má búast við, að honum verði steypt saman við ríkisveðbankann, sem ekki hefir enn tekið til starfa. Er þá leitt að sjá slík ákvæði í seðlabankalögum, að bankinn skuli kaupa jarðræktarbrjef, sem þá eru engin til.

Meiri hl. getur því ekki fallist á þessa brtt.

Jeg held jeg geti ekki verið að fara út í þá takmörkuðu ábyrgð ríkis á bankanum. Hæstv. forsrh. hefir svarað öllu því viðvíkjandi svo rækilega, að jeg bæti þar ekki um. En jeg vildi aðeins benda á, að það er dálítið annað fyrir ríkissjóð að standa í óbeinni ábyrgð fyrir 5 milj. eða beinni ábyrgð fyrir 60–70 milj. kr. Það er mikill munur. Nú er það vitanlegt, að 60 milj., eða þó ekki væri nema partur af þeirri upphæð, væri ríkissjóði langsamlega ofvaxið að inna af hendi, ef til ábyrgðar kæmi. Ef landið hefir siðferðilega ábyrgð til þess að bæta tjón þetta, þá er dálítið annað að lögskipa, að það skuli gera það, eða hafi frjálsar hendur að semja við skuldheimtumenn bankans og ríkissjóðs.

Ef ríkissjóður hefði staðið í ábyrgð fyrir sparisjóði Árnessýslu hjer um árið, hefði ekki verið um neinn afslátt að ræða; sparisjóðsinnieigendur hefðu krafist að fá sitt fje að fullu útborgað úr ríkissjóði. En af því að svo var ekki, var hægt að semja og láta sparifjáreigendur tapa 25% af innstæðu sinni.

Mjer finst það svo afskaplega óskylt mál og utan við efnið að fara að tala hjer um kaupfjelagsskap, að jeg held jeg gefi það alveg frá mjer. En jeg get sagt hv. 1. landsk. það, að jeg get gefið honum nóg dæmi utanþings fyrir því, að hin almenna samábyrgð er harla lítils virði og allsendis óbankahæf sem trygging. Það hefir ekki reynst hægt að ganga að henni með lögsókn og fjárnámi hjer á landi. (JJ: Hvers vegna var ekki gengið að Einari Þorgilssyni í Fiskhringnum?). Það veit jeg ekki um. Jeg hafði ekkert með það að gera. En það er ekki sambærilegt við bankahæfa ábyrgð, þótt „privat“- manni, sem ekki hefir þessa ábyrgð, sje gefið eftir við gjaldþrot. Hann verður að berjast áfram á eigin spýtur og getur ekki hlaupið til annara og beðið þá að hjálpa. Því er ekki nema eðlilegt, að þeim sje gefið eftir, sem ekki hafa þessa tryggingu. En hinsvegar um kaupfjelögin, er þau verða gjaldþrota og ekki er gengið að ábyrgðarmönnunum, þá sýnir það, að þessi almenna samábyrgð dugir ekki þegar til á að taka. Það er ekki hægt að fá skuld borgaða með þeirri tryggingu. Við skulum taka t. d. Kaupfjelag Reykjavíkur, sem Landsbankinn gefur eftir 50%. Hvers vegna nýtur fjelagið slíkra kjara? Er það svo nauðsynlegur þáttur í verslunarlífi bæjarins, að vert sje að Landsbankinn gefi því eftir skuld þess? Hjer ríkir fullkomin samkepni á sviði verslunar, svo að eina ástæðan fyrir tilveru þess er viðleitni til þess að skapa skjólstæðingum atvinnu. Hvers vegna er ekki tekið til samábyrgðarinnar? Hví er ekki gengið að mönnum í bænum og úti um alt land? Það er af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt. Tryggingin er einskis virði. Jeg nenni ekki að elta ólar við. hv. 1. landsk. um þetta atriði frekara, enda skoða jeg það utan við málefnið nú. En á öðrum stað og tíma skal jeg skýra málið betur fyrir hv. þm., ef hann vill taka við skýringum og leiðbeiningum í alvöru og færa sjer þær í nyt. Það þýðir ekki að segja til þeim mönnum, sem rangsnúa og misnota þá fræðslu, sem þeir fá.

Jeg man ekki eftir fleiru, er jeg þurfi að taka fram. Sem sagt, ef uni málið eitt hefði verið rætt, væri engum örðugleikum bundið að festa hendur á efni. En þegar blandað er saman óskyldum málum, blaðrað út í bláinn um keisarans skegg, ef jeg mætti svo segja, þá verður maður þreyttur á að hlusta á slíkt og nennir ekki að eltast við það.