23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Hjeðinn Valdimarsson:

Það Það er vitanlegt, að meiri hl. sjútvn. hefir yfirleitt verið á móti slíkum lögum, sem orðuð eru í frv., þó að menn segist vilja mæla með þessum breytingum, sem hjer eru fram komnar. En það kemur fram í brtt. algerlega öfug stefna við frv. Frv. er fram komið til þess að vernda atvinnu Íslendinga á Íslandi, að atvinna sje ekki veitt útlendum mönnum, nema þegar ekki er kostur á íslenskum mönnum. Þær undantekningar, sem frv. gerir, eru einmitt um fáa vísindaeða kunnáttumenn, sem þarf til aðstoðar við að koma fyrirtækjum á fót eða starfrækja þau á meðan færir menn eru ekki til í landinu sjálfu, en brtt. hv. meiri hl. er sú, að láta algerlega annan stærsta atvinnuveginn verða utan við lögin. Landbúnaðurinn á eftir brtt. að geta dregið til sín eftir vild erlendan vinnukraft. Ekkert ákvæði er heldur sett til þess að takmarka, að sá vinnukraftur, sem þannig kynni að koma, streymdi síðan til sjávarins. Þá liggur beinast við, að lög þessi verði ekki annað en pappírslög. Það kom greinilega í ljós, hvað það er, sem í raun og veru vakir fyrir þeim háttv. flm. brtt., og það er sannarlega einkennilegt að heyra slíkar ástæður frá gömlum sjálfstæðismanni. Það virðist svo sem hann álíti, að það nauðsynlegasta, sem hægt sje að gera fyrir íslenskan landbúnað, sje að flytja inn erlendan verkalýð, — ekki sökum þess, að ekki er nóg til af innlendum verkalýð, heldur vegna þess, að hann álítur hægt að fá það fólk ódýrara. Jeg vil benda hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á það, að það myndi skammgóður vermir að flytja hingað Norðmenn og Svía, því að ef samtök verkalýðsins ná til sveitanna, — sem þau yfirleitt alls ekki gera ennþá, — þá myndu þau ná til aðfluttra Norðmanna og Svía, sem flestir mundu hafa verið í verkalýðssamtökum í heimalandi sínu.

Jeg held aftur á móti, að þeirra þjóða menn myndu lítið flytjast hingað. Bændur, sem þyrftu að fá ódýr erlend vinnuhjú, myndu auðvitað flytja inn Pólverja. Það er sá vinnukraftur, sem notaður er í allri álfunni til landbúnaðar, þar sem sóst er eftir ódýrum vinnukrafti. Það voru Pólverjar, sem fluttir voru til Danmerkur, áður en sjerstaklega var farið að stemma stigu fyrir því, og Pólverja eru Frakkar nú að flytja inn til að vinna við landbúnað.

Jeg er þeirrar skoðunar, að ef ekki er átt við með þessari brtt. gersamlega að ónýta tilgang frv., — ekki ætlast til að flytja hjer inn í stórum stíl verkafólk, — þá sje heimildin í 4. gr. nægileg. Ef einstakir menn þurfa af sjerstökum ástæðum að fá útlendan mann til þess að kenna landbúnaðaraðferðir, eða að fá útlendar vinnukonur til þess að kenna börnum sínum mál, þá er hægt að fá undanþágu hjá atvinnumálaráðuneytinu.

Jeg vil aðeins segja fáein orð viðvíkjandi svari hæstv. ráðh. (MG) um þessa brtt. Hann kvað það ókurteisi gagnvart öðrum þjóðum að setja tímann of skamman, þangað til lögin ganga í gildi. Jeg verð að álíta, að það beri ekki neina nauðsyn til þess að draga framgang þessa máls á langinn. Lögin ættu að geta gengið í gegn næsta hálfan mánuð, og tíminn til 1. júlí er nægur fyrir útlendinga að kynnast þessum lögum. Þær verksmiðjur norðanlands, sem flytja inn útlenda verkamenn, hafa þau sambönd hjer á landi, að eigendur myndu fljótt fá að vita um þetta. En þótt lögin gengju í gildi strax — sem brtt. ætlast þó ekki til — þá liggur engin ókurteisi í því. Það er samkv. þeirri reglu, sem fylgt er í löndunum í kring, þegar ný lög eru samþykt um útlendinga. Að minsta kosti hefir svo verið farið að í Þýskalandi og Englandi. Sje jeg ekki, að nein þjóð hefði ástæðu til að amast við þessu.

Hæstv. atvrh. gat þess, að ef leita ætti álits Alþýðusambands Íslands um innflutning verkamanna, þá væri engu síður ástæða til að leita álits sambands atvinnurekenda hjer í bænum. Fyrst og fremst er nú ekkert allsherjarsamband atvinnurekenda, sem hægt er að leita álits til. Í öðru lagi munu fá þau tilfelli, að útlendingar komi hingað án þess að hafa vísa vinnu, m. ö. o. án þess að atvinnurekendur standi á bak við og óski innflutnings á þeim, og þá fæst umsögn hlutaðeigandi atvinnurekenda með umsókninni. En þar sem frv. er sjerstaklega vegna þeirra íslendinga, sem stunda slíka vinnu í landinu, þá virðist ekki nema sjálfsagt að leita álits þeirra.

Hæstv. atvrh. (MG) gat þess í þessu sambandi, að auðvitað yrði venjulega neitað um leyfi, og það er rjett, að ekki yrði mælt með leyfum, meðan innlendir verkamenn gætu unnið verkin. En annars er engin ástæða að halda, að verkamenn eða samband þeirra myndu amast við að taka erlenda verkamenn, þegar ekki er kostur á íslenskum.

Jeg verð að segja, að jeg álít töluverða bót að frv. eins og það kemur frá hæstv. stjórn, en sjerstaklega með þessari brtt., sem jeg flyt, og þeirri, sem við hv. 2. þm. Eyf. (BSt) flytjum báðir. En ef farið væri að bæta við þeirri grein, að lögin giltu ekki nema fyrir sjávarsíðuna, þá veit jeg ekki, hvers virði frv. færi að verða.