27.04.1927
Efri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3143 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

20. mál, Landsbanki Íslands

Ingvar Pálmason:

Mjer þótti tryggara að bera fram þessa fyrirspurn til hv. meiri hl. áður en jeg færi lengra. Svarið hefir staðfest skilning minn á 42. gr. frv. En jeg lít svo á, að eftir að búið er að koma bankanum í það horf, sem þessi lög mæla fyrir, sje full þörf á, að samskonar ákvæði og hjer er um að ræða gildi líka um bankaráðið. Jeg sje ekki, að nein vandkvæði geti verið á að koma því í framkvæmd, þó að það standi ekki í bankalögum nágrannalandanna. Mjer skilst, að ef bankastjórar og starfsmenn mega ekki hafa skuldbindingar við bankann, þá sje rjett, að sama gildi um bankaráðið. Jeg leyfi mjer því að bera fram brtt. við 42. gr., þess efnis, að á eftir „bankastjórar“ komi „bankaráðsmenn“. Breytingin er ekki önnur en þessi. Jeg vænti þess fyllilega, að hv. deild kannist við, að brtt. mín sje á rökum bygð. Einnig vona jeg, að hæstv. forseti, taki hana til greina, þó að hún komi fram skriflega. Það hlýtur að vera afsakanlegt, þar sem brtt. frá nefndarhlutunum og hæstv. fjrh. var ekki útbýtt fyr en á fundinum.

Jeg skal ekki orðlengja þetta frekar, en leyfi mjer að afhenda hæstv. forseta brtt. mína.