02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

20. mál, Landsbanki Íslands

Jakob Möller:

Jeg hefi ekki breytt þeirri skoðun minni í þessu máli frá síðasta þingi, að rjettast væri að setja á stofn sjerstakan seðlabanka. En jeg býst ekki við, að við, sem vorum því fylgjandi þá, tökum nú það ráð upp að koma með sjerstakt frv. í þá átt, því að það virðist tilgangslaust, þar sem mál þetta er nú búið að ganga gegnum hv. Ed. og var afgreitt þaðan með miklum meiri hl. atkv., og gegnum þessa hv. deild fór það í fyrra, sömuleiðis með fylgi flestra deildarmanna.

Hvað efni málsins snertir, hefi jeg ekki mikið um það að segja nú. En jeg verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. forsrh. (JÞ) skuli hafa viljað tefla þessu máli, sem jeg veit, að hann leggur áherslu á, í þá tvísýnu, að því verði vísað frá, þar sem það kemur fram í því formi, að vafi getur leikið á, að heimilt sje að taka það til meðferðar. Þannig er nefnilega ástatt um frv. þetta, að í 42. gr. þess er svo ákveðið, að alþingismenn megi ekki vera bankastjórar.

Í frv. eins og það var lagt fyrir þingið var ákvæði þetta orðað svo, „að bankastjórar mættu ekki vera alþingismenn“. En það hefir vitanlega alveg sömu merkingu, þó að setningunni sje snúið við.

Nú er það öllum vitanlegt, að í 30. gr. stjórnarskrárinnar er svo ákveðið, að allir þeir, sem kosningarrjett eiga til Alþingis, sjeu og kjörgengir. Þó með þeirri undantekningu, að dómarar, sem ekki hafa umboðsstörf á hendi, eru ekki kjörgengir. Það er því augljóst, að ekki er hægt að svifta bankastjórana kjörgengi með ákvæði í einföldum lögum. Nú er svo ákveðið í 27. gr. þingskapanna, að hvert það lagafrv., sem feli í sjer till. um breytingu á stjórnarskránni, skuli í fyrirsögninni nefnt frv. til stjórnskipunarlaga. Að öðrum kosti ber forseta að vísa því frá. Það var nú þegar augljóst, að frv. þetta bar ekkert slíkt með sjer í fyrirsögninni, og finst mjer því harla undarlegt hjá hæstv. forsh., að hafa frv. þetta þannig orðað, að til mála geti komið að vísa því frá.

Hæstv. ráðherra vill nú kannske skjóta sjer undir það, að frv. þetta hafi verið til meðferðar hjer í fyrra, og þá hafi engin aths. verið við það gerð hvað þetta snerti. Mjer til afsökunar skal jeg taka það fram, að þar sem jeg var á móti öllu málinu í heild, þá athugaði jeg ekki svo nákvæmlega hverja einstaka grein, að mjer gæti ekki skotist yfir sjerstök atriði; auk þess gafst mjer ekki tími til að koma fram með brtt.

Jeg verð að taka undir það með hv. 4. þm. Reykv. (HjV), að þessi breyting, sem gerð hefir verið á 42. gr. frv., að setja „alþingismenn mega ekki vera bankastjórar“ í staðinn fyrir „bankastjórar mega ekki vera alþingismenn“, bjargar þessu máli á engan hátt, því að það er augljóst, að með sama hætti mætti svifta alla starfsmenn ríkisins kjörgengi, með því að setja slíkt ákvæði inn í launalögin. Hvers vegna var þetta ekki gert með dómarana, að svifta þá kjörgengi með einföldum lögum? Vitanlega af því, að ekki hefir annað þótt fært en að hafa ákvæði í stjórnarskránni um það, hverjir ekki væru kjörgengir. Þetta ákvæði um dómarana í stjórnarskránni tekur því af allan vafa um það, að hægt sje að svifta menn kjörgengi með ákvæðum í einföldum lögum. Breyting þessi, að „alþingismenn megi ekki vera bankastjórar“, er alveg þýðingarlaus. Hún felur í sjer hið sama og fyrra ákvæði þessarar greinar, að bankastjórar verði að segja af sjer starfi sínu, ef þeir vilja verða alþingismenn, alveg eins og dómarar verða að gera, vilji þeir verða alþingismenn. Það liggur því í hlutarins eðli, að þetta kemur í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Leyfi jeg mjer því að skjóta því til hæstv. forseta að taka 27. gr. þingskapanna til athugunar í sambandi við þetta atriði.

Þá er annað atriði, sem jeg finn ástæðu til að fara um nokkrum orðum. Það er sú breyting, sem gerð var á frv. í Ed„ eftir till. hæstv. forsrh. (JÞ), þar sem svo er ákveðið, að ríkissjóður beri ekki ótakmarkaða ábyrgð á bankanum. Jeg vil nú alls ekki áfellast hæstv. ráðh., þó að hann vilji takmarka þessa ábyrgð, og jeg tel það ekki varða eins miklu eins og þeir tveir hv. þm„ sem töluðu síðast, ljetu í ljós. En að hjer sje ekki breytt frá því, sem áður var, nær engri átt. Um þetta atriði hafa skoðanir þingsins að undanförnu verið mjög á reiki, en þó bendir öll framkoma þess í þá átt, að það telji ríkissjóð bera ábyrgð á bankanum. Má því til sönnunar benda á till., sem jeg bar fram á þinginu 1923 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast lán fyrir bankann. Var henni vísað frá með þeim forsendum, að ríkisstjórnin hefði ótakmarkaða heimild til þess að ábyrgjast lán fyrir bankann. En þessa heimild gat stjórnin ekki haft nema í stofnlögum bankans frá 1885, ekki þó fyrir neitt sjerstakt ákvæði laganna, heldur af þeirri ástæðu, að Landsbankinn sje ríkisstofnun, sem ríkissjóður á að bera ótakmarkaða ábyrgð á. Í lögunum er sem sje ekkert ákvæði, er takmarki ábyrgð ríkissjóðs. Það er aðeins ákveðið, hve mikið rekstrarfje bankanum skuli lagt, en eins og allir vita, er hægt að stofna fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð, enda þótt stofnfje og rekstrarfje sje takmarkað. Ef ábyrgð ríkissjóðs hefði verið takmörkuð með bankalögunum 1885, þá hefði ríkisstjórnin aldrei mátt ganga í ábyrgð fyrir bankann umfram það, nema hún fengi til þess sjerstaka heimild í hvert skifti.

Það er rjett hjá hv. 4. þm. Reykv. (HjV), að það gildir hið sama um afstöðu ríkissjóðs til Landsbankans eins og afstöðu hans til landsverslunarinnar. Ríkissjóður hlýtur að bera fulla ábyrgð á báðum stofnununum. Þetta hafa þeir einmitt sjeð, sem andvígastir hafa verið landsverslun, því að þeir hafa haldið því fram, að ríkissjóði væri stofnað í hættu með landsverslun.

Sem sagt, ríkissjóður hefir stofnað Landsbankann án þess að takmarka sína ábyrgð, og eins og einstakir menn bera fulla ábyrgð á fyrirtækjum sínum, ef þeir takmarka hana ekki beinlínis, eins hlýtur að vera um ríkissjóð gagnvart Landsbankanum. Og það er einmitt sterk sönnun fyrir því, að þessu sje þannig farið, að ríkisstjórn hefir gengið í ábyrgð fyrir lánum bankans.

Jeg skal ekkert um það segja, hve hættulegt það kunni að vera fyrir Landsbankann, að ábyrgð ríkissjóðs sje takmörkuð. En jeg er ekki eins myrkfælinn við það eins og hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Eins og stendur er fjárhagsástandið erfitt, og telja þessir hv. þm., að það geti verið hættulegt þess vegna að takmarka ábyrgðina nú. En með því fje, sem nú á að leggja Landsbankanum, finst mjer, að bankastofnunin hljóti að njóta mikils trausts í samanburði við aðrar stofnanir og kjör þjóðarinnar í heild sinni. Þetta atriði kemur að vísu til rækilegri athugunar á öðru stigi málsins, og er því óþarfi að fara frekar út í það að sinni.