02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg finn ekki ástæðu til þess að fara ítarlega út í það, að hve miklu leyti ríkissjóður hefir borið ábyrgð á skuldbindingum Landsbankans að undanförnu. En vegna þess, að hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og hv. 4. þm. Reykv. (HjV) komu inn á þetta atriði, þá skal jeg gera grein fyrir skoðun þeirra lögfræðinga, sem jeg hefi borið mig saman við um þetta mál og eru ekki ómerkari heldur en sá prófessor, sem um málið hefir skrifað. Þessir lögfræðingar segja, að samkvæmt 1. 1885 sje Landsbankinn sjálfstæð stofnun, sem fær lítið fjárframlag úr ríkissjóði, mig minnir 10 þús. kr., í eitt skifti fyrir öll, og svo lán, sem greitt er með seðlum, þó miljón króna. Svo eru í lögunum sett þau ákvæði, að ef stofnunin verður gerð upp, þá hafi kröfur allra innstæðueigenda forgangsrjett og ríkissjóður fær ekki seðlaskuldina greidda nema afgangur verði, þá er allar aðrar skuldir eru greiddar. Þessir lögfræðingar halda því svo fram, að lögin beri það með sjer, að ákvæði þeirra um viðskifti bankans við ríkissjóðinn eigi að vera tæmandi, og því sje ríkissjóður ekki frekar ábyrgur fyrir bankann samkvæmt þeim lögum en þau sjálf tilgreina beinlínis og jeg hefi skýrt frá.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta atriði málsins. En að því leyti, sem vísað hefir verið í skoðanir fyrverandi stjórna og núverandi stjórnar, að þær hefðu talið sjer heimilt að ganga í ábyrgð fyrir rekstrarlánum Landsbankans, þá vil jeg segja það, að mjer sýnist ekki rjett að bera þá skoðun fram sem röksemd fyrir því, að ríkissjóður sje ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum Landsbankans. Það er hreinasta fjarstæða. Stjórnin hefir aðeins viðurkent, að þörf hafi verið á því, að ríkisvaldið gengi í ábyrgð fyrir tilteknum lánum bankans, en hún hefir talið það spursmál, hvort hún þyrfti að leita lagaheimildar til þess í hvert sinn.

Því hefir nú verið haldið fram, að ríkissjóður sje ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum Landsbankans, bæði þeim, sem hann hefir tekið ábyrgð á, og hinum, er hann hefir ekki ábyrgst. Þetta er þveröfugt við það, sem á sjer stað annarsstaðar innan þjóðfjelagsins. Hv. 1. þm. Reykv. er t. d. ekki í ábyrgð fyrir skuldbindingum háttv. 4. þm. Reykv., en hann hefir heimild til þess að taka á sig slíka ábyrgð með sjerstökum gerningi, ef hann vill. Stjórnin hefir álitið, að þessi væri afstaða ríkissjóðs til Landsbankans, og á þennan skilning hefir hv. Ed. fallist, því að í 1. gr. frv., eins og það kemur frá henni, segir svo í 3. málslið:

„Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans umfram stofnfje það, sem hann leggur seðlabankanum samkvæmt 5. gr., nema sjerstaklega sje ákveðið með lögum“.

Með þessu er það skýrt tekið fram, að ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans, en getur með lagaheimild gengið í ábyrgð fyrir skuldbindingum hans, eða sjerstökum flokkum skuldbindinga.

Hv. 4. þm. Reykv. tók landsverslun sem hliðstætt dæmi við Landsbankann, en það er ekki rjett, því að um hana er engin hliðstæð löggjöf við Landsbankalögin, og alls ekki tæmandi um, hver sje afstaða ríkisvaldsins til landsverslunar.

Jeg er sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að lagasetning sem þessi getur ekki orðið til þess að rýra traust bankastofnunarinnar út á við. En ef menn halda það, þá getur það ekki stafað af öðru en því, að bankanum sje ekki lagt til nægilega mikið stofnfje. En jeg hygg, að honum sje ætlað sæmilega mikið stofnfje í samanburði við veltuna og þegar allar kringumstæður eru teknar til greina. Jeg ætla, að 5 milj. kr. stofnfje gefi bankanum það traust, sem þörf er á. Jeg skil það ósköp vel, að hv. 4. þm. Reykv. vill endilega, að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum Landsbankans, því að með því sjer hann opna leið til þess, að öll peningamálastarfsemi í landinu sogist í hendur ríkisins. Þetta er alveg í samræmi við stefnu hans flokks. Það er augljóst, að ef einn sparisjóður, svo sem sparisjóður Landsbankans, hefir ríkisábyrgð á bak við sig, þá fer svo, hvenær sem erfiðir tímar koma, að þá leitar innstæðufje frá öðrum stofnunum til þessarar einu, sem ríkissjóður er skjólgarður fyrir. Þetta lamar allar aðrir peningastofnanir og getur ekki leitt til annars en þess, að Landsbankinn með útibúum sínum verði eina peningastofnunin, er fær fje til ávöxtunar. En það hygg jeg, að enginn vilji nema jafnaðarmenn, að draga alla áhættu peningaverslunarinnar yfir á ríkið. Og þeir, sem ekki vilja stíga það stóra spor, mega ekki draga merg úr þeim sparisjóðum, sem nú eru að rísa upp og reyna að verða lyftistöng framfara, hver í sínu hjeraði, því til þess að þeir geti náð þeim tilgangi sínum, verða þeir að njóta jafnrjettis við aðrar peningastofnanir.

Vegna þess að þetta er 1. umr. um málið, skal jeg ekki fara neitt út í einstök atriði, svo sem um vörslu opinbers fjár í Landsbankanum, víxlakaup hans o. s. frv., en minnast lítið eitt á þær aths., er hv. 1. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv. gerðu út af því, að sami maður gæti ekki verið í senn bankastjóri og alþingismaður. Hv. 1. þm. Reykv. komst svo að orði, að það væri óvarkárlegt af mjer að halda fast við þetta ákvæði, því að það væri til þess að tefla málinu í tvísýnu og hætta á, að því yrði vísað frá samkv. þingsköpum. Þetta ákvæði stóð í frv. milliþinganefndarinnar upphaflega, en það stóð ekki í frv. þeim, sem stjórnin lagði fyrir þingið 1924 og 1925. Milliþinganefndin tók það upp hjá sjer að bæta þessu ákvæði inn í frv., og það gekk í gegnum allar 3 umr. í þessari hv. deild í fyrra. Þessi grein, sem ákvæðið er í, var borin sjerstaklega undir atkv., eins og aðrar greinir frv., og þá kom hvorki forseti nje þdm. auga á, að ákvæði hennar færi í bág við stjórnarskrána. Jeg held líka, að þau ummæli, sem fallið hafa um þetta atriði utan þings og innan, að 42. gr. frv. komi í bág við stjórnarskrána, sjeu sprottin af því, að í stjfrv. er tekið upp ákvæði, sem stjórninni þótti sjálfsagt og eðlilegt, að hið sama skuli ganga yfir hina stjórnskipuðu bankastjóra Íslandsbanka eins og Landsbankastjórana. Jeg hygg, að það sjeu niðurlagsákvæði 64. gr. frv., sem hafa komið öllum þessum umræðum á stað. Það er ekki nema eðlilegt, að jeg haldi fast við 42. gr. frv., því að engar brtt. komu fram við hana í hv. Ed., nema brtt. mín á orðalagi hennar, sem var gerð til þess að sýna það ljóslega, að það var ekki meiningin að taka kjörgengi af neinum, heldur að takmarka hóp þeirra manna, sem geta orðið bankastjórar, eins og meining milliþinganefndarinnar var. Greinin er alveg óbreytt að efni eins og hún var í frv., sem stjórnin lagði fyrir þingið, og eins og milliþinganefndin vildi hafa hana. Mig þarf því ekki að saka um það, þótt jeg haldi fast við hana, þar sem jeg hefi ekki haft ástæðu til að taka afstöðu til neinnar brtt. við hana.

Það getur að vísu verið álitamál, hvort rjett sje að aðskilja þingstörf og bankastjórastörf, þótt það sje álit milliþinganefndarinnar og jafnvel núverandi Landsbankastjórnar, sem hefir gert þær kröfur til útibússtjóra sinna, að þeir hjeldu ekki áfram þingsetu fram yfir kosningar. Og það er margt, sem mælir með því að að skilja þessi störf, en jeg þarf ekki að taka það upp hjer. Það má líka hafa það í móti þessu ákvæði, að ekki sje úr jafnmörgum hæfum mönnum að velja í bankastjórastöðu, ef ekki má grípa til alþingismanna. En eigi að setja þetta skilyrði um Landsbankastjóra, þá hlýtur það ákvæði líka að eiga að ná til hinna stjórnkosnu bankastjóra Íslandsbanka samkvæmt afstöðu ríkisvaldsins til hvors bankans.