02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3182 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg skal aðeins kvitta með örfáum orðum fyrir síðustu ummæli hv. þm. Str. (TrÞ). Annars sagði hann ekki neitt í þessari síðustu ræðu sinni, sem hann hafði ekki sagt áður.

Það er náttúrlega fjarstæða, að það sje nokkurt vantraust á Landsbankanum, þó að menn vilji koma á fót seðlabanka, sem sje í samræmi við þá reglu, sem í langflestum ríkjum Norðurálfunnar er fylgt um seðlabanka. Það er að segja, að hann sje sjálfstæð stofnun, sem hafi sitt stofnfje frá ríkinu og ekki annað. Þó að til sjeu undantekningar, þá er þetta þó tilhögunin í langflestum ríkjum Norðurálfunnar.

Jeg hefi gert grein fyrir því áður, að það er munur á því, hvort ríkisvaldið fær heimild til þess að ábyrgjast tilteknar skuldbindingar fyrir bankann, eða hvort ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum hans.

Hv. þm. Str. sagðist fyr á þinginu vilja láta þingið segja til um það, í hvaða ábyrgðir ríkissjóður gangi fyrir Landsbankann. En hvað á slíkt að þýða, ef ríkissjóður er hvort sem er ábyrgur fyrir öllum skuldum bankans? Bankastjórnin getur þá ein skuldbundið ríkissjóðinn, því að það stendur í lögunum frá 1885, og hefir staðið í öllum þeim frv., sem hafa komið fyrir þingið, að bankastjórnin hefir fult vald til þess að taka lán fyrir hönd bankans. Í þessu er því alger mótsögn, að vilja fyrst heimila bankastjórninni ótakmarkað vald til lántöku á þeim grundvelli, að ríkið beri ábyrgð á öllu, en vilja þó láta þingið segja sinn vilja í lagaformi í hvert skifti.

Hv. þm. (TrÞ) var að tala um það, að bankastjórnin gerði ráðstafanir í bankanum í ríkisins nafni. Slíkt hefi jeg nú aldrei heyrt, og það er ekkert í frv., sem gefur bankastjórninni tilefni til að koma fram í nafni ríkisins, heldur í nafni Landsbankans.

Þá reyndi hv. þm. að vjefengja það, að ríkissjóði væri ekki ætlað að græða á bankanum. Hann virtist þó fallast á það með sparisjóðsdeildina, enda ríkissjóði ekki ætlað að leggja honum til meiri tryggingu en hann hefir þegar gert. Hvað snertir seðlabankann, þá er það svo, að þegar varasjóður er kominn yfir 4 miljónir, fær ríkissjóður 3/4, en varasjóður 1/4 af Því, sem fram yfir verður. En þetta er ekki meira en uppbót fyrir áhættu ríkissjóðs og vaxtatap af stofnfje því, sem hann á að leggja bankanum til. Það getur farið svo í mörg ár, að ríkissjóður fái ekki neitt, og það er svo fyrir sjeð, að hann fær aldrei meira en 6%, meðan varasjóðurinn ekki er orðinn 4 milj. kr. Þegar þessi ákvæði eru tekin í samhengi, er ekki hægt að tala um, að verið sje að stofna til gróða fyrir ríkið. Ætti jeg sem fjrh. að velja um, mundi jeg hiklaust kjósa það fremur, að ríkissjóði væru trygðir bara vextirnir.

Jeg er þess vegna algerlega á gagnstæðri skoðun við hv. þm. Str. um það, hvort hjer sje um gróðafyrirtæki að ræða fyrir ríkið.

Um úttektina á bankanum skal jeg fyrst geta þess, að jeg setti hana alls ekki í samband við rannsóknina 1909. En jeg hefi um þetta bent á eitt fordæmi, sem er hliðstætt, og það var það mat, sem fór fram á Íslandsbanka samkv. 1. frá 1921, áður en ríkissjóður legði fje í bankann. Þá var stjórninni heimilað að leggja hlutafje íbankann eða veita honum lán. Það var því alveg sjálfsagt, að mat færi fram, áður en það gæti orðið, á hag bankans. Það hlýtur að vera misminni hjá háttv. þm. Str., að jeg eða mínir flokksmenn hafi verið á móti því, að þetta mat færi fram. Það var samþykt alveg mótmælalaust á þinginu 1921.

En það kom upp úr þurru síðar, að það átti að fara að setja nýja rannsókn á hag Íslandsbanka, og því var jeg mótfallinn, af því að ekkert tilefni var til slíkrar rannsóknar þá, og hún hefði því aðeins orðið til að vekja tortrygni á bankanum.

Má vera, að hv. þm. eigi við þetta, en þá var engin ástæða til rannsóknar, eins og jeg hefi sýnt fram á, en nú er ástæða til þess að því er Landsbankann snertir. Nú verður að meta hag Landsbankans, til þess að hægt sje að sjá, hvort hann getur byrjað með óskertu stofnfje.

Alt ódæðið í till. var það, að í staðinn fyrir að stjórnin átti, eftir frv., að skipa matsmennina, þá var ætlast til þess í till., að hæstirjettur tilnefndi þá. Jeg get nú ekki sjeð, að það sje neitt ódæði að leggja þetta til, þó að jeg vitanlega geti fallist á það með hv. þm. Str., að núverandi stjórn væri vel trúandi til að velja mennina vel.

Jeg get því ekki fallist á, að hjer sje um neitt ódæði að ræða, og því síður tilræði af hv. 1. þm. G.-K. (BK) gagnvart Landsbankanum. Hitt verður háttv. þm. Str. að virða mjer til vorkunnar, þó að jeg greiði atkv. eins og hv. 1. þm. G.-K., þegar svo stendur á, að við erum á sama máli um eitthvert atriði.