23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Jakob Möller:

Jeg skal ekki vera langorður. Mjer finst ekki verulegu máli skifta, hvenær lögin ganga í gildi. Jeg vildi gjarnan gera það fyrir hæstv. atvrh. (MG) að greiða atkvæði móti þessari till., að láta lögin ganga í gildi 1. júlí. Jeg get ekki sjeð neitt verulegt á móti því.

Þessari brtt., sem meiri hl. sjútvn. ber fram, vildi jeg mæla mjög eindregið í gegn. Mjer finst óviðfeldið og alveg óskiljanlegt, þegar verið er að bera fram lagafrv. um að takmarka innflutning erlends verkafólks, þá skuli jafnframt leyfður alveg ótakmarkaður innflutningur á verkafólki í sveit. Mjer finst þetta vera að gefa sjálfum sjer utanundir, þar sem farið er í till. þvert ofan í tilgang frv. Hinsvegar er í frv. heimild til að leyfa innflutning útlendra verkamanna, og jeg get ekki gert mikinn mun á því umstangi, sem það hefði í för með sjer að fá slíkt leyfi, og á því að hlíta eftirliti að því er heilsufar snertir. Það aukna umstang, sem leiðir af leyfinu í hvert skifti, skiftir engu máli, En ef eftirlit með heilsufari á að verða örugt, þá er einmitt nauðsynlegt, að aðrar hömlur sjeu á innflutningnum. Mjer verður fyrir að skilja þessa till. á þann hátt, að hjer sje á ferð hálfbarnalegur metingur af hálfu sveitanna út af heimild til þess að ráða útlenda menn á skip, og vilji menn fá þessa ívilnun fyrir sveitirnar sem einhverskonar uppbót fyrir ívilnun sjávarútvegsins. Það er þó gengið alt of langt; það er heimtuð ótakmörkuð heimild, en takmörkuð er hún fyrir sjávarútveginn.

Jeg er þess vegna ráðinn í að greiða atkv. móti þessari brtt. En frv. mun jeg þó greiða atkv., — en miklu ófúsari, ef brtt. nær framgangi.