03.05.1927
Neðri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forseti (BSv):

Því hefir verið beint til forseta úr ýmsum áttum, að þau atriði sjeu í frv. þessu, er mættu valda, að því yrði vísað frá, og er þá einkum átt við 42. gr. og 64. gr. Krafa um úrskurð þegar í stað um það, hvort frv. verði frá vísað eða eigi, hefir komið frá hv. form. fjhn. (KIJ), sem málið mundi eiga að fara til. Það er nú að vísu rjett athugað, að nauðsyn er fyrir nefndina að vita um það nú þegar, ef málinu yrði með öllu frá vísað. En þar sem þetta er heill lagabálkur og þær tvær greinir, sem frávísun gætu valdið, eru eigi í órjúfandi sambandi við frv. í heild, hygg jeg, að mönnum mundi þykja hart aðgöngu, að því væri öllu vísað frá þegar í stað. Auk þess er það fyllilega á valdi hv. deildar að ráða þá bót á frv. við 2. umr., að ekki geti komið til frávísunar. Af þessum ástæðum vil jeg ekki koma í veg fyrir, að málið fái athugun í nefnd, einkum er jeg hygg, að hún geti gert þær ráðstafanir, er taka af allan vafa um þessi atriði. Verði frv. eigi breytt við 2. umr., mun nánari ákvörðun tekin síðar.