13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3238 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

20. mál, Landsbanki Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg ætla ekki að fjölyrða um málið að þessu sinni, en aðeins benda á tvent í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. (JÞ) sagði.

Hið fyrra er það, sem hann benti á, að með lögum þessum væri tekin ábyrgð á öllu innstæðufje í Landsbankanum. Það var skoðun meiri hl. milliþinganefndarinnar í bankamálum, að þessi ábyrgð ætti sjer ekki stað eftir lögunum frá 1886.

En hvernig stendur þá á því, að svo auðveldlega hefir gengið að fá hv. þm. til þess að samþ., að ríkið taki ábyrgð á lánum bankans, og það ár eftir ár og á verstu tímum, sem yfir bankann hafa gengið? Það stendur svo á því, að á bak við slíkar samþ. liggur það, að þjóðinni beri siðferðiskylda til að ábyrgjast um lán bankans að því leyti, að hann geti staðið við skuldbindingar sínar.

Hitt atriðið, sem jeg vildi spyrjast fyrir um, er það, hvers vegna sparisjóðsdeildin getur ekki breytt sínum innlánsvöxtum, úr því seðladeildin getur það. Ef þetta hvorttveggja er rjett, þá skilst mjer, að ekkert vald sje til, sem geti ráðið því, hve mikið fje streymir að bankanum. Jeg hafði litið svo á, að sparisjóðsdeildin hefði vald til þess að haga vaxtakjörum eftir þörfinni, til að draga fje að eða frá bankanum — og svo er það! Staðreyndum er ekki vert að neita.

Fólk er ekki vant við vaxtabreytingar hjer eftir sömu reglum og sumstaðar annarsstaðar. Vaxtabreytingar hafa hingað til farið eftir því hjer, hvort bankarnir tapa eða græða. Og þegar hjer kemur sparisjóðsdeild, sem veit, að hún á ekki að draga að sjer alt sparifje landsmanna, þá hygg jeg, að henni mundi fljótt takast að temja menn við þetta fyrirkomulag.