13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3239 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg veit ekki, hvort það hefir komið nógu skýrt fram í ræðu minni, það sem jeg vildi sagt hafa um ábyrgð ríkissjóðs á stofnfje bankans. En um stofnfje hans fer vitanlega eftir mati úttektarmanna, hve mikið ríkissjóður leggi til. Þess vegna mátti ekki leggja þann skilning í orð mín, að þeir menn, sem nú eiga sparifje í bankanum, ættu ríkissjóðsábyrgð á öllu því fje, sem liggur í bankanum um aldur og æfi.

Þá spurði hv. þm. (ÁÁ), hvers vegna sparisjóðsdeild gæti ekki breytt sínum innlánsvöxtum eftir vild, svo sem henni þætti þurfa til þess að verjast óeðlilegu aðstreymi innlánsfjár. Það er af því, að sparisjóðsdeildin getur ekki gert sjer neinn mannamun um sína innlánsvexti. Það liggur í allri tilhögun sparisjóðsstarfsemi, að þar verður að vera föst regla um innlánsvexti, svo að allir, sem láta fje sitt þar inn upp á sömu skilmála, t. d. upp á það að mega taka það eftir svo og svo marga daga, fái sömu vexti á sínum tíma. Það er ekki framkvæmanlegt fyrir sparisjóð, sem hefir 30 milj. lnnstæðufje, að fara að gera stóra breytingu á vöxtum á allri þeirri fúlgu fyrir það, að hann fær svo sem 1/2 milj. meira eða minna. — En seðlabankinn hefir eftir starfrækslu sinni aðra aðstöðu, því að hann getur haft mismunandi innlánsvexti fyrir hvern sinn viðskiftamann, eins og honum býður við að horfa. Þótt fje manna sje síðast tekið á hlaupareikning fyrir 2–3%, þá getur seðlabankinn í dag neitað að borga þeim nokkra vexti, sem koma með innlán, og það án þess að þurfa neitt að breyta innlánsvöxtum á fje, sem fyrir er í seðlabankanum. Þessi mismunur er það, sem gerir seðlabankanum mögulegt með sinni vaxtapólitík að verjast innlánsfje, eða draga það til sín, eftir því sem við á. En þetta getur sparisjóður ekki gert, og þar af leiðandi ekki sparisjóðsdeild bankans. Það liggur í allri tilhögun slíkra stofnana.