13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

20. mál, Landsbanki Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg hefi ekki mörgu að svara hæstv. forsrh. Hann gat þess, að hann gæti ekki fyrir sitt leyti gengið inn á brtt., og hv. Ed. hefði heldur ekki fallist á að heimila seðlabankanum að veita lán gegn ábyrgð sýslu- og sveitarfjelaga, og það væri vegna þess, að slík lán væru oft löng og því ekki hentug fyrir seðlabankann sem slíkan. En þar sem gert er ráð fyrir, að seðlabankinn geti veitt löng lán undir öðru formi, þ. e. a. s. með því að gefa út skuldabrjef, þá ætti það ekki að útiloka hitt. Og sveitar- og bæjarfjelög hjer á landi, t. d. Reykjavík, taka ekki svo lítið af bráðabirgðalánum. Með þessu er verið að neyða Reykjavík og aðra kaupstaði, sem slíkra lána þurfa með, til þess að ganga fram hjá seðlabankanum og taka lán með verri kjörum en seðlabankinn býður. Þar sem nú bankinn er opinber stofnun og tryggingin, sem á bak við er, sú besta, sem hægt er að gefa, fyrir utan ríkissjóðsábyrgð, þá finst mjer þessi meinbægni satt að segja ástæðulaus.

Viðvíkjandi b-lið 1. brtt., við 14. gr., sagði hæstv. forsrh. ekki annað en það, að háttv. Ed. hefði þóknast að hafa það svo, að taka upp í 14. gr. tæmandi upptalningu á þeim bankastörfum, er seðlabankinn skyldi annast. En hjer er þá aðeins skoðanamunur, sem jeg skal ekki fara lengra út í, því að jeg álít ýms störf hagkvæm fyrir bankann, sem eru þó ekki talin upp í 14. gr.

Hæstv. forsrh. sagði, að sjer virtist ekki hætta á hlutdrægni, þótt landsstjórnin skipaði endurskoðendur, þar sem þeir ættu aðeins að vera bókhalds- og reikningsendurskoðendur. Ef svo er, þá má eins búast við, að þeir menn, sem Alþingi kysi til þessara hluta, væru heldur ekki skipaðir með hlutdrægni. Því að báðar þessar stofnanir, Alþingi og landsstjórn, standa að því leyti jafnt að vígi, að hvortveggja er pólitísk.

Spurningin er sú, hvort Alþingi á að hafa rjettinn eða landsstjórnin, hvort endurskoðendurnir eiga fyrst að svara til saka fyrir Alþingi eða stjórninni. Það finst mjer líka í samræmi við anda frv. að öðru leyti, að Alþingi kjósi endurskoðendur, þar sem gert er ráð fyrir, að það fylgist með gangi bankans.

Hæstv. forsrh. gat þess, að þetta frv. hefði legið fyrir mörgum þingum, og því væri rjett fyrir háttv. þingmenn núna fyrir kosningarnar að sýna kjósendum, að þeir gætu lokið afgreiðslu þess. Jeg álít einmitt rjett að bíða fram yfir kosningar. Ýms atriði frv. eru svo vanhugsuð, að dómur kjósenda mun vera mjög misjafn um þau, t. d. það, að opinbert fje skuli ekki þurfa að ávaxtast í Landsbankanum og ábyrgð ríkissjóðs á sparifje bankans falli burt. Hvorttveggja er gert til þess að veikja banka ríkisins, í því skyni að gera lífvænlegra fyrir einkabanka, sem hjer kynni að rísa upp. Raunar er það ekki óttinn við ábyrgðina, sem veldur þessu. Það hefir komið í ljós í orðum hæstv. forsrh., að hann býst við, að ábyrgð ríkissjóðs muni gera það að verkum, að fje muni frekar leita til Landsbankans en annað, og bankinn fái þannig betri aðstöðu en aðrir bankar. Við það er óttinn. Með öðrum orðum: hæstv. stjórn er með frv. og brtt. sínum að veikja ríkisstofnun gagnvart einstakra manna fyrirtækjum. Sá skoðanamunur, sem um þetta er, býst jeg við, að mundi hafa ekki lítið að segja við næstu kosningar. Verður ekki annað sjeð en það sje ábyrgðarhluti fyrir stjórnina að vilja knýja lögin fram, ekki síst, ef hún ætlar sjer að ná yfirráðum í bankanum um lengri tíma en næsta kjörtímabil.