23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Hjeðinn Valdimarsson:

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagði það, að hann væri með brtt. aðallega vegna bænda, en jeg sje ekki, að um þetta efni þurfi að hafa sjerstaka löggjöf fyrir landbúnaðinn og aðra fyrir sjávarútveginn. Sje nauðsynlegt að tryggja Íslendingum vinnuna á sjónum við landið, þá er það ekki síður nauðsynlegt um vinnuna í landi við sjávarsíðuna og í sveitunum. En komi straumur erlendra verkamanna upp í sveitir, þá verður ómögulegt að varna því, að þeir fari líka að vinna við útgerðina, nema með því að hneppa þá í þrældóm til sveita, sem væntanlega er ekki tilgangurinn. Þeir, sem vilja vernda atvinnu íbúa þessa lands og af sannfæringu fylgja frv. þessu, ættu því að vera á móti þessari stórkostlegu skemd á því.

Hjer hefir verið talað um, að gott væri að fá hingað verkamenn frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Jeg hefi ekki mikla trú á því, að úr þessu verði. í þessum löndum er hinu sama að gegna og hjer, að fólkið streymir úr sveitunum til kaupstaðanná til að leita sjer þar atvinnu, og er því sama eklan á vinnufólki í sveitum þar sem hjer. En þeir Norðmenn og Svíar, sem ekki vilja vinna í sveitum í heimalandi sínu, mundu varla vera óðfúsir að vinna að sveitavinnu á Íslandi. Spurningin yrði því aðallega sú, hvort heppilegt væri að flytja inn í landið ódýrasta landbúnaðarvinnukraft álfunnar, úr austur- og suðurhluta hennar, en það hygg jeg að sje ekkert keppikefli nema með takmörkunum þeim, sem settar eru í 4. gr. frv.

Hæstv. atvrh. (MG) var að hóta þinginu einhverju af hálfu Norðmanna út af því, ef þessi lög gengju í gildi 1. júlí. Hann hefir þar sjálfsagt haft Krossanesverksmiðjuna í huga, en jeg hjelt nú satt að segja, að hann hefði látið kúga sig svo af því fyrirtæki áður, að hann gæti nú látið staðar numið og talað sem minst um undanhald vegna þess.