23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Klemens Jónsson:

Það var fjarri mjer að ætla að taka þátt í þessari umræðu, en hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) rjeðst alveg að ófyrirsynju á mig á þjösnalegan og óþinglegan hátt, og því verð jeg að svara nokkrum orðum.

Hv. þm. (ÓTh) var víst gramur út af því, hvernig meiri hluti nefndarinnar leit á þetta mál, en hann verður, þótt ungur þm. sje, að sætta sig við það að sæta andmælum. Hann má ekki búast við því, að hann geti komið öllu fram, sem hann vill, og síst hafði hann ástæðu til að draga mig inn í umr., þar sem jeg hafði ekkert sagt í málinu. En úr því að jeg er nú staðinn upp, þá vil jeg lýsa yfir því, að jeg fylgi breytingum nefndarinnar á þskj. 167.

Jeg get ekki láð bændum það, þótt þeir reyni að fá sjer útlendan vinnukraft, þegar hinn íslenska vinnukraft þrýtur. Og jeg get ekki tekið undir það, sem aðrir hv. þm. hafa sagt, að hjer sje um sjerstaka hættu að ræða vegna innflutnings Pólverja, því það þarf enginn að óttast, að Pólverjar verði nokkurntíma fluttir hingað inn, hvorki til vinnu hjá bændum eða annarar vinnu. Þetta er ekkert annað en óþarfa grýla, sem sumir hv. þm. eru að leika sjer að að leiða inn í þingið.