16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3263 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Mjer þykir bera undarlega við, að leitað skuli afbrigða frá þingsköpum um brtt. á þrem þskj., en enginn flm. kveður sjer hljóðs. Jeg tel mjer þó skylt að segja fáein orð um sumar þær till., sem fyrir liggja, og skal taka þær eftir röð eins og þær liggja fyrir.

Brtt. 1.a á þskj. 606 fer fram á, að nafni bankans sje breytt og heiti Þjóðbanki, í stað Landsbanki. Þetta ákvæði kom til nákvæmrar íhugunar milli mín og Landsbankastjórnarinnar áður en málið var lagt fyrir þingið 1925. Jeg hafði áður farið fram á, að nafninu væri breytt, en bankastjórnin taldi á því svo mörg tormerki, að jeg fjelst á það og hreyfði því ekki frekar. Jeg vona, að þetta nægi, án þess jeg fari að gera grein fyrir þeim mörgu ástæðum bankastjórnarinnar gegn því, að bankinn skifti um nafn, og vænti þess, að brtt. verði ekki samþykt. Á sama þskj. er önnur brtt. að efninu til, sem er gamall kunningi hjer í þinginu. Hún fer fram á, að opinberir sjóðir, sem handbært fje hafa á sjóðvöxtum, skuli geyma það í Landsbankanum eða útibúum hans, nema öðruvísi hafi verið ákveðið í stofnskrám eða skipulagsskrám.

Jeg veit ekki, hvað á að leggja upp úr því, að aðallega sjeu nefndir opinberir sjóðir, en samskonar till., sem áður hefir fram komið, nefnir opinberar stofnanir og opinbera sjóði. Jeg vil aðeins benda á það, að það má ekki samþykkja svona ákvæði í bankalögunum vegna ríkissjóðs. Það getur valdið þeim vandræðum, að fjrh. eigi ekki annars úrkostar en að brjóta slíkt ákvæði. Er því algerlega rangt að setja stjórnina í slíka klípu. Ef ríkissjóður þarf að fá lán, en þarf ekki að nota það alt í svip, þá er það sett í þann banka, sem veitir lánið, og tekið út jafnóðum og þarf að nota það, en það er ekki rjett að taka það strax alt út úr hinum lánveitandi banka.

Brtt. á þskj. 611, frá hv. þm. Str. (TrÞ), fer fram á það, að að minsta kosti helmingur verðbrjefaeignarinnar skuli vera í jarðræktarbrjefum, en þó eiga þau að vera öðruvísi útbúin en lög og reglugerð ræktunarsjóðsins leyfa, því að það er svo fyrir mælt í brtt., að það skuli „með samningi við stjórn ræktunarsjóðs Íslands ákveðnir vextir af þeim brjefum, þó eigi hærri en 1/2% yfir sparisjóðsvexti eins og þeir eru á hverjum tíma.“

Ef gert er ráð fyrir svipuðum sveiflum á verði verðbrjefa hjer eins og annarsstaðar, þá þarf stöðugt að gefa út nýja flokka jarðræktarbrjefa í hvert sinn sem almennir vextir breytast eitthvað, til þess að brjefin geti verið nákvæmlega í nafnverði, og verður ekki unt að láta nafnvexti brjefanna standa á 1/2 eða heilum af hundraði, heldur verður að nota brot þar á milli, máske sitt brotið hvern mánuðinn. Jeg hefi talað við bankastjóra Landsbankans um þetta, og álíta þeir till. ómögulega. Það er ekki hægt að fara þannig að til þess að ákveða um þessi brjefakaup. Það er algerlega óframkvæmanlegt að einskorða það, að verðið skuli vera nafnverð, enda er sú leið hvergi farin og vextir slíkra brjefa eru altaf látnir standa á heilum eða hálfum %, en það, sem víkja þarf til þar frá, er gert á söluverðinu. Sjóður, sem hefir brjef með 5% vöxtum, vill heldur selja þau á 98% heldur en að gefa út nýjan flokk með 5–6% vöxtum. Er engin ástæða til þess að binda þannig hendur bankaráðsins um þetta. Það á að ráða því, hvaða brjef bankinn kaupir, enda ætti að vera óhætt að trúa því fyrir þessu eins og öðru, er lýtur að rekstri bankans, þar sem bankinn er skyldur að kaupa jarðræktarbrjef fyrir 100 þús. kr. á ári í 13 ár enn. Jeg legg því til, að brtt. á þskj. 611 verði feld.

Brtt. á þskj. 612, frá hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og hv. þm. Barð. (HK), fer fram á það, 1. liður, að bankaráðið geti „einnig veitt fráförnum aðalbókara, aðalfjehirði og fjehirði og ekkjum þeirra eftirlaun af fje bankans eftir sömu reglum“, en þó eru þeir undanskildir þeirri skyldu að greiða í eftirlaunasjóð bankans. Er sú till. ekki í samræmi við löggjöfina alment um slík eftirlaun, þar sem öllum embættismönnum undantekningarlaust er gert að skyldu að greiða í lífeyrissjóð. Er því engin ástæða til að undanþiggja þessa menn slíkri skyldu eða skipa eftirlaunum þeirra með sjerstökum hætti. Er öðru máli að gegna með bankastjórana, sem ráðnir eru upp á uppsögn. Ráðningarkjör þeirra eiga ekki við, þar sem heimtuð er greiðsla í lífeyrissjóð, en það er alger óþarfi, að taka þá menn, sem í brtt. eru taldir, út úr og hlífa þeim við að láta af mörkum í eftirlaunasjóð bankans, úr því að aðrir starfsmenn bankans eiga að gera það, eins og t. d. útibússtjórarnir.

Brtt. á þskj. 613, frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), er að nokkru leyti bergmál af till., sem áður hefir komið fram, sjerstaklega fyrri liðurinn. Hann er um það, að „bankaráðið skuli fylgjast með um rekstur bankans í öllum starfsgreinum hans. Skal formaður bankaráðsins framkvæma fyrir þess hönd daglegt eftirlit með stjórn bankans“. Er þetta orðrjett eins og 1. mgr. brtt., sem feld var við 2. umr. og var frá sama hv. þm. og 2 meðflm. Það getur verið, að hæstv. forseti sjái sjer fært að bera þessa till. upp, þar sem meira fylgir með henni. Er með þessum lið brtt. tekin af hinum bankaráðsmönnunum skyldan til þess að hafa eftirlit með rekstri bankans, og tel jeg af þeim ástæðum ekki rjett að samþ. þann lið, því jeg sje ekki, að ástæða sje til nje heppilegt að undanþiggja þá skyldunni til eftirlits.

Með seinni liðnum á þskj. 613 er felt niður það ákvæði, að gerðabók bankaráðsins skuli lögð fyrir fjárhagsnefndir Alþingis. Er jeg hræddur um, að þetta verði til þess að vekja ágreining í hv. Ed. Sje jeg enga ástæðu til þess, að till. þessi verði samþ., enda hefir ekkert það komið fram í umr., er sje svo mikilsvert, að frv. þurfi að breyta þess vegna. Hinsvegar er vissara að afgreiða frv. hjeðan til hv. Ed. þannig, að hún geti gengið að því óbreyttu.