16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3268 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

20. mál, Landsbanki Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Það voru aðeins örfá orð út af brtt. minni á þskj. 611. Eins og hv. þm. munu kannast við, þá er till. þessi samhljóða samskonar till., sem jeg flutti á síðasta þingi. Sú till. var rækilega rædd þá, og tel jeg því ekki ástæðu til að vera margorður um till. að þessu sinni. Jeg vil með till., að það komi í ljós við atkvæðagreiðsluna um hana, hvernig hv. þm. snúast við þeirri sjálfsögðu kröfu landbúnaðarins, að hann verði ekki afskiftur af fje því, sem atvinnuvegum landsins er ætlað. Menn vita það, að það sem af er þessari öld og um lengri tíma, þá hefir landbúnaðurinn verið afskiftur í þessu efni, og sú umbót, sem fjekst með ræktunarsjóðnum, er allsendis ófullnægjandi. Vil jeg í því sambandi minna á það, að nú er ræktunarsjóðurinn peningalaus. Bændur geta ekki fengið lán til húsabygginga. Að helmingur verðbrjefaeignarinnar sje í ræktunarbrjefum með 1/2% hærri vöxtum en sparisjóðsvextir eru á hverjum tíma, það tel jeg ekki nema sjálfsagt, og ætti sú till. að fljúga í gegn, því þetta er til stórbóta, hvort heldur er frá sjónarmiði landbúnaðarins eða bankans. Það er alveg einsdæmi, að þjóðbanki setji nálega alt fje sitt fast í víxlum, í stað þess að setja mikinn hluta þess fastan í slíkum verðbrjefum. Hæstv. forsrh. lagðist á móti till. nú eins og í fyrra. Voru mótbárur hans æðiveigalitlar nú eins og þá. Hann taldi það óframkvæmanlegt að ákveða vextina eins og gert er í till., en þetta er vel hægt að framkvæma með því að gefa út sjerstök brjef og láta það ákvæði fylgja, að vextirnir skuli vera 14% hærri en sparisjóðsvextir. Það eru til mörg hlutabrjef, þar sem ekki stendur á, hverjir vextir skuli af þeim vera, en það er ákveðið á aðalfundi. Að þetta gangi gegn reglugerð ræktunarsjóðs, er engin mótbára. Ákvæði till. leiðir aðeins til nýrra samninga við ræktunarsjóðinn. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri órjettmætt að vantreysta bankastjórunum í þessu efni. En eins og hingað til hefir gengið, þá er það beinlínis skylda að vantreysta öllum bankastjórum og bankaráðum þar sem landbúnaðurinn á hlut að máli.

Um aðrar till. skal jeg ekki fjölyrða. Það eru liðnir 4 tímar síðan við fengum að sjá frv. eftir breytingu þess við 2. umr. Ef það verður farið eins að nú við 3. umr. eins og við 2. umr., þá er þetta mál alt hið mesta flaustursverk, því umr. hefir verið hespað af eftir að fjárlögin voru afgreidd og þingmenn voru farnir að búast til heimferðar.