14.02.1927
Efri deild: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3278 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Um ástæðurnar fyrir þessu frv. get jeg að miklu leyti vísað til aths., sem prentaðar eru með frv. Eins og háttv. þdm. muna, voru hjer árin 1923 og ’24 á ferð frv. til stjórnskipunarlaga um breytingar á stjórnarskránni. Síðan hefir oft verið á málið minst, bæði í blöðum og á þingmálafundum. Virðist mega ætla, að töluvert almenn sje óskin um a. m. k. eina breytingu á stjórnarskránni: að fjárlög sjeu gerð fyrir tvö ár í senn. Gera menn sjer þá vonir um, að venjulega þurfi þá ekki þinghald nema annaðhvert ár, enda þótt allir viðurkenni, að komið geti fyrir, að kalla þurfi saman aukaþing. Ástæðurnar, sem fram eru bornar fyrir þessu, eru aðallega tvær. Önnur er sparnaður sá, sem af þessu leiðir fyrir ríkissjóð. Hin ástæðan er sú, að þingmálin mundu geta fengið betri undirbúning, ef lengra væri milli þinga. Stjórnin er þeirrar skoðunar, að þessar ástæður sjeu gildar og beri að taka þær til greina. Álítur hún því, að stjórnarskráin eigi að vera þannig, að þing megi hafa annaðhvert ár og setja fjárlög fyrir tvö ár í senn.

Stjórnin hefir viljað hafa frumvarpið þannig, að taka ekki í það þau ákvæði, sem eftir atkvgr. 1923 og ’24 mætti helst vænta, að yrðu því að falli, en hinsvegar viljað taka upp þau ákvæði, sem hún hefir sjeð, að samkomulag var um, enda þótt hún væri þeim sjálf ekki sjerlega fylgjandi.

Þannig er tekið upp ákvæði, sem samþ. var í Nd. 1923 með fylgi allra flokka, að ákvæðinu um að halda reglulegt þing annaðhvert ár megi breyta með einföldum lögum, og fjárlagaþing verði þá aftur á hverju ári.

Hin önnur höfuðbreyting, sem frv. fer fram á, snertir landskjörið og byggist á því, að heyrst hafa háværar raddir um annmarka á því. Það þykir of kostnaðarsamt og umstangsmikið að þurfa að stofna til kosninga um land alt fyrir eina 3 þm., og jafnvel fyrir einn þm., eins og var í haust. Ennfremur er það haft á móti landskjörinu, að kjörtímabilið er tvöfalt að lengd á við þjóðkjörna þm. Þessi regla sætti einkum mótspyrnu í þessari hv. deild árið 1924, þegar farið var fram á að lengja kjörtímabil þjóðkjörinna þm. upp í 6 ár. Var þá stungið upp á að halda reglunni og hafa kjörtímabilið 12 ár fyrir landskjörna, en það þótti með rjettu of langur tími.

Til þess að koma hæfilegu skipulagi á þetta, er hjer lagt til, að landskjörnir og kjördæmakjörnir þingmenn sjeu kosnir til jafnlangs tíma, 6 ára, og þingrof nái einnig til hinna landskjörnu.

Þá er ennfremur lagt til í frv. að orða ákvæðið um varamenn þannig, að ekki þurfi að einskorða kosningalögin við það, að varamenn sjeu ekki fleiri en kosnir þm., eins og nú er, heldur megi orða þau þannig, að næsti maður sje jafnan tiltækur, meðan nokkur er eftir á listanum.

Þá er enn eitt, að kjörtímabil þeirra hv. landsk. þm., sem kosnir voru árið 1922, og þess, sem kosinn var í haust, rennur út 1. júlí 1930. Nú hefir verið talað um það að halda 1000 ára afmæli Alþingis hátíðlegt, m. a. með því að halda þingfund á Þingvöllum það ár. Má telja líklegt, að það verði háð á svipuðum tíma og forðum, og eru þá allar líkur til, að þingfundur verði einmitt um þetta leyti, nálægt 1. júlí. Sýnist stjórninni ilt að þurfa að eiga í kosningum um sama leyti, og er jafnvel vafamál, hvort þingið getur haldið áfram að vera fullskipað eftir 1. júlí, þar til búið er að telja atkvæði frá kosningunum. Þykir því að öllu athuguðu æskilegt að hliðra sjer hjá kosningum um þennan tíma. Fyrir þessu er sjeð með því að gera ráð fyrir, að kosningar fari fram 1931, og sje því lengt um eitt ár kjörtímabil þessara þm., en annara landsk. þm. stytt um 3 ár.

Jeg hefi nú gert grein fyrir þeim tveim aðalatriðum, sem frv. fer fram á að breyta, og gæti því í raun og veru lokið máli mínu. Þó þykir mjer rjett að minnast á eitt atriði, sem var í frv. 1923 og ’24, en stjórnin hefir ekki tekið upp að þessu sinni, og það er fækkun ráðherra.

Á þingunum 1923 og ’24 var talað um fækkun ráðherra. En svo gott samkomulag, sem virtist vera milli flokkanna um þinghald annaðhvert ár, reyndist ómögulegt að komast að samkomulagi um þetta, og eftir því sem sjeð verður af þingtíðindum, hefir þetta átt drjúgan þátt í því, að frv. 1923 náði ekki fram að ganga. Stjórnin hefir því ekki viljað taka upp till. um 1 ráðherra, sakir þess, að hætt var við, að það yrði frv. að fótakefli. En þótt stjórnin láti þetta liggja milli hluta, er ekkert sagt um það, hvort hún telji heppilegt að hafa ráðherra fleiri eða færri.

Í öðru frv. 1924 var talað um að hafa tvo ráðherra. Stjórnin álítur, að til þess þurfi ekki stjórnarskrárbreytingu og það sje heimilt eftir gildandi lögum. Hefir einnig verið svo þrisvar á fáum árum, að ráðherrar hafa aðeins verið tveir. Er álit núverandi stjórnar, að til þess sje full heimild.

Að umræðu lokinni vil jeg leyfa mjer að óska, að kosin verði 5 manna nefnd í málið.