14.02.1927
Efri deild: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3285 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Kristjánsson:

Þótt það þyki stundum ekki viðeigandi að eyða miklum tíma við 1. umr. mála, þá álít jeg, að það sje afsakanlegt, þegar um annað eins stórmál og þetta er að ræða. Það er síst úr vegi, að menn láti nú þegar í ljós skoðanir sínar á því, því að þar getur komið fram eitt eða annað, er nefndinni þætti ástæða til að taka til íhugunar.

Jeg hefi heyrt því fleygt, að þær tillögur, er komið hafa fram til stjórnarskrárbreytinga á síðustu árum, hafi verið svo, að þeim hafi ekki fylgt mikil alvara. Þó skal jeg ekki leggja neinn dóm á það. En það verð jeg að segja, að þær brtt., er hjer liggja fyrir, eru ekki til mikilla bóta, að mínu áliti. Hið eina, sem virðist hafa við nokkur rök að styðjast, er brtt. um fækkun þinga. Af henni gæti stafað nokkur sparnaður, ef hún kæmist í framkvæmd. En þó tel jeg hana ekki mjög mikilsverða, því að búast má við, að þing verði oft að halda á hverju ári, því að altaf geta komið fram knýjandi ástæður til þess að kalla þing saman. Og það hafa ekki heldur verið færð nóg rök að því, að af þessari brtt. geti orðið nægilegur sparnaður til þess að vega móti því, sem við breytinguna myndi tapast, ef hún kæmi til framkvæmda.

Eitt er það þó, sem mjer fellur vel í geð, að í frv. er ekki gert ráð fyrir ráðherrafækkun. Jeg veit ekki, hvernig menn geta látið sjer detta þá fásinnu í hug, að við getum komist af með einn ráðherra. Það er að mínum dómi alveg óhugsandi. Einn ráðherra — það er sama sem engin stjórn, að maður segi ekki, að það yrði óstjórn, því að verksvið stjórnarinnar hefir aukist svo gífurlega hin síðari ár. Það veitir síst af því, að ráðherrar sjeu þrír. Einn þeirra hefir fallið frá á síðastl. ári, annar getur veikst og hinn þriðji þyrfti að vera á ferðalagi í útlöndum. Þá væri í óefni komið. Við slíku er mörgum sinnum hættara, ef ráðherra er ekki nema einn, enda eru og ráðherrastörfin svo margbrotin, að óhugsandi er, að einn maður geti komist yfir þau, svo viðunandi sje. Þess vegna getur það varla komið til mála, að ráðherrum sje fækkað.

Jeg álít enga knýjandi ástæðu til þess, að nú sje farið að breyta stjórnarskránni. Hinsvegar býst jeg við því, að sú alda sje nú vakin úti um land meðal kjósenda, að það sjeu talin meðmæli með þingmannaefnum, ef þeir telja sig því fylgjandi, að fækkað sje þingum. Þó býst jeg við, að víða sjeu menn svo pólitískt þroskaðir, að þeir sjái, að þetta fyrirkomulag, sem frv. fer fram á, er stórt spor aftur á bak. Hefi jeg því enn þá von, að kjósendur muni bráðlega átta sig á því, að krafan um fækkun þinga og ráðherra er ekki samrýmanleg þeim kröfum, sem þjóð á framfaraskeiði verður að gera til sjálfrar sín.

Það getur verið, að þessi skoðun mín sje ekki í samræmi við skoðun flokksbræðra minna. Jeg hefi enn ekki talað neitt við þá um málið, og hefi jeg því aðeins talað frá mínu eigin sjónarmiði.