14.02.1927
Efri deild: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3298 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg þarf ákaflega litlu að svara hv. 5. landsk. (JBald). Jeg get alls ekki búist við því í máli eins og hjer liggur fyrir, að hann eigi neina samleið með núverandi stjórn. En jeg get búist við, að hann vilji hafa stjórnarskrá þess ríkis, þar sem hans stefna á að blómgast, alt öðruvísi en mjer og okkur þykir rjett og hentugt.

En þótt hann hafi þannig alt aðrar skoðanir, þá gefur það honum engan rjett til þess að vera að drótta því að öðrum, hvorki þeim, sem nú eru á þingi, eða voru áður, eða núverandi stjórn, að það sje verið með skollaleik eða „filmun“, sem hann svo kallaði, í slíkum málum. Þeim ummælum vísa jeg alveg til baka og tel þau vera best komin heima hjá honum sjálfum.

Um það, hvort þetta muni leiða til raunverulegrar fækkunar á þingum, sýnast skoðanir nokkuð skiftar. Hv. 5. landsk. hjelt fram, að það myndi ekki verða, og vísaði til reynslunnar, sem sje aukaþinganna frá árunum 1912 –1920. Þetta getur tekið sig nokkuð líklega út, ef ekki er litið á neitt annað en tölu aukaþinganna, sem háð voru á þessu tímabili, en ekki litið á ástandið, sem þá var. En jeg vil benda á, að það voru tvær sjerstakar ástæður, sem gerðu það að verkum, að mörg aukaþing urðu á þessu tímabili. Önnur ástæðan var heimsstyrjöldin, með öllu því umróti, sem af henni leiddi og náði líka til okkar. Og maður vonar, að slíkir utanaðkomandi viðburðir komi ekki fyrir á hverjum mannsaldri, — svo að jeg segi ekki of mikið.

En þar með eru fallnar í burtu þær ástæður til aukaþinga. Þótt ekki sje alt komið í samt lag eftir ófriðareftirköstin, þá sýnist mjer þó miða það áfram og að þjóðlífið sje komið það áleiðis í samt lag aftur, að maður geti gert sjer vonir um, að eftir örfá ár muni algerlega falla í burtu sú aukaþingaþörf, sem stafaði af þessum viðburðum beinlinís.

Þegar nú litið er á það, hve fljótt sú þingafækkun, sem hjer er farið fram á, í rauninni mun koma til framkvæmda, eftir því sem til er stofnað í frv. sjálfu, þá sýnist mjer, sem við verðum að gera ráð fyrir, að þing sje háð öll árin til og með 1930. Jeg sje ekki, að komist verði hjá þinghaldi 1928, þó að þetta frv. verði samþ. Reglulegt þing yrði að koma saman til þess að setja fjárlög 1929. Og 1930 geri jeg ráð fyrir, að það komi saman vegna hátíðarinnar. 1931 yrði svo reglulegt þing.

Svo að satt að segja á sú þingafækkun, sem leiðir af frv., ekki að koma svo fljótt fram hvað það snertir, að þingsamkomum fækkar, en kemur fljótt fram í því, að þingið annaðhvert ár verður aukaþing, þ. e. a. s. á þessu tímabili yrði þingið 1930 aukaþing.

Jeg fyrir mitt leyti tel alveg fyllilega ástæðu til þess að ætla, að eftir 1930 verði afleiðingar heimsstyrjaldarinnar svo um garð gengnar, að af þeim orsökum verði ekki sjerstök þörf fyrir aukaþing. En hin önnur ástæðan til aukaþinga á tímabilinu frá 1912–1920 var sú, að við vorum að koma stjórnarfari landsins í alt annað horf heldur en það var í áður. Og það þarf ekki að rekja frekar hjer. Það voru bæði breytingar fyrir 1918 og sú mikla breyting, sem varð með sambandslögunum 1918, sem kölluðu eftir aukaþingum. Jeg geri ráð fyrir, að þegar búið er að laga þá smíðagalla, sem menn hafa fundið á smíð okkar stjórnarskipunarlaga við þá breytingu, — eins og farið er fram á í frv. — þá muni ekki heldur af þeim ástæðum koma fram kröfur eða þörf fyrir aukaþing á næstunni. En hinsvegar er það ekki nema eðlilegt, að í smíð stjórnarskrár, sem gerð var á öðrum eins óróatímum eins og voru 1918 — stjórnarskrár, sem átti að grípa í sig eins miklar breytingar á stjórn eins og þá varð — kæmu fram einhverjir agnúar, sem þyrfti að laga jafnskjótt sem reynslan væri búin að benda mönnum á þá.

Hv. 5. landsk. mintist á ýms einstök atriði. Hann sagði, að ekki þyrfti að breyta stjórnarskránni vegna ákvæða um varamenn við landskjör, en það er einmitt það, sem þarf að gera, vegna þess, að það er þegar búið að slá föstum þeim skilningi á 28. gr., að varamaður sje aðeins einn á hverjum lista, ef einn aðalmaður hefir náð kosningu á listanum. Þá mintist hv. þm. á ráðherralaun og talaði um, að tveir ráðherrar mundu skifta á milli sín launum hins þriðja. Þetta er rangt. Hjer er fylgt sömu reglu og venjulegt er, þegar maður er settur til að þjóna öðru embætti með sínu eigin, að greidd eru hálf önnur laun. Ríkissjóði sparast því hjer hálf ráðherralaun.

Hv. 4. landsk. (MK) þarf jeg ekki að svara. Um það geta auðvitað verið skiftar skoðanir, hvort nauðsynlegt sje að halda þing á hverju ári, og það er rjettmætt, að hver færi rök. fyrir sinni skoðun á því efni. Jeg hefi því ekkert við það að athuga, þó að hv. 4. landsk. vilji helst hafa þing árlega.

Þá kem jeg að hv. 1. landsk. (JJ). Ræða hans var ærið óskipulega flutt að vanda. Hann hljóp þetta þrisvar og fjórum sinnum úr því, sem hann var að tala um, og kom svo að því aftur. Það er því óhægt að fylgja hv. þm. nema úr verði óhæfilegar málalengingar, en jeg vil ógjarnan taka hann mjer til fyrirmyndar í því efni.

Hv. þm. talaði um skrípaleik í sambandi við þetta mál. En hans ræða var mestöll átakanlegt dæmi þess, hvernig talað er um mál, þegar á að gera það að skrípaleik. Þá er ekki verið að vega ástæður með og móti; nei, undir eins er spurt: Eru nú andstæðingarnir ekki með þessu að „spekúlera“ í flokkshagsmunum fyrir sjálfa sig? — Jeg álít, að stjórnarskráin og breytingar á henni sje svo mikilvægt mál, að þjóðin eigi heimtingu á, að slíkt mál sje rætt með rökum og fullu velsæmi. En fulls velsæmis kalla jeg, að ekki sje gætt, þegar notuð eru slík orð, sem hv. 1. landsk. viðhafði. Hann talaði um „auðvirðilegar blekkingar“, „hræsni“, „bjánalegan loddaraleik“ o. s. frv. Jeg fylgi ekki hv. þm. inn á þessar brautir.

Hv. þm. kom þó inn á einstaka atriði, sem snerta málið. Jeg vísa aftur þeirri ákæru hans, að jeg hafi skýrt rangt frá viðvíkjandi ákvæði um fækkun ráðherra í frv. frá 1924. Jeg hefi nefnt frv. frá 1923, að mótstaða gegn fækkun ráðherra hafi átt mikinn þátt í að fella það frv. Jeg hefi ekki sett ráðherrafækkunina í heitt samband við frv. frá 1924, og hefi því frá engu rangt skýrt um það frv.

Jeg var satt að segja hissa á að heyra hv. 1. landsk. endurtaka hugsunarvillu, sem var leiðrjett fyrir hann á síðasta þingi. Hann ámælti þá Jóni Magnússyni fyrir að hafa myndað þriggja manna stjórn, þar sem hann sjálfur væri fylgjandi því að hafa aðeins einn ráðherra. Eins og öllum heilvita mönnum ætti að geta skilist, verður sá, sem myndar stjórn, að haga sjer eftir gildandi stjórnarskrá án tillits til sinna persónulegu óska um breytingar á þeim ákvæðum. Um hitt var jafnan skoðanamunur milli mín og Jóns Magnússonar, að jeg hjelt því fram, að samkvæmt stjórnarskránni væri leyfilegt að hafa 2 ráðherra, en hann leit svo á, að ekki væri rjett að mynda stjórn með færri en þremur, þótt atvik gætu valdið því, að þeir yrðu um stundarsakir færri. Jeg skildi það af allri ræðu hv. 1. landsk., að fyrirhugað er að nota þá átyllu til að stytta þessu frv. aldur, að farið er fram á 6 ára kjörtímabil. Það er svo sem sjálfsagt, að þeir, sem ekki vilja ganga að þessu, greiði atkvæði samkvæmt því. En þegar hv. þm. (JJ) fer að bjóða mjer að vera með frv., ef jeg vilji falla frá hinu og öðru, þá skal jeg segja honum það, að hann er á skökkum stað að bjóða atkvæði sitt sem verslunarvöru. Jeg greiði atkvæði eftir því, sem mjer sýnist rjettast, og það mundi enginn áfella hann, þótt hann gerði eins, án tillits til þess, hvort jeg vildi kaupa atkvæði hans.

Jeg skal ekkert fara út í það, sem hv. þm. talaði um afstöðu og atkvæðagreiðslu hjer í deildinni um frv. frá 1924. Jeg átti ekki sæti þá í þessari hv. deild og er því ekki fullkomlega fær um að gefa upplýsingar í því efni. En hv. þm. má vita það, að ákaflega margir eru á annari skoðun en hann ljet í ljós um það, hvað því frv. hafi orðið að falli. (JJ: Hverjir drápu það?). Hv. 1. landsk. kennir það þeim, sem feldu það síðast. Aðrir kenna það þeim, sem settu í það fleyginn næst á undan. Jeg geri ekki upp á milli þess, hvort rjettara er.

Það hefir verið borið fram hjer, bæði af hv. 1. landsk. og hv. 5. landsk., að þessi uppástunga, að láta landskjör fara fram 1931, væri gerð til þess að lengja kjörtímabil tveggja íhaldsmanna, sem nú eru á þingi, til þess að afla íhaldsstjórninni meira þingfylgis en henni ber. Mjer hafði satt að segja ekki dottið í hug, að þetta kæmi fram. Breytingin lengir líf hv. 1. landsk. um eitt ár, en styttir minn tíma um 3 ár, svo að jeg hefði síst haldið, að ákvæði, sem felur þetta í sjer, yrði skoðað sem „spekulation“ frá minni hálfu. En eitthvert ákvæði varð um þetta að gera. Jeg er ekkert á móti því, að þessu ákvæði sje breytt, t. d. að kosningar verði látnar fara fram haustið 1930. Þá yrði ekki lengdur kjöraldur neins núverandi þingmanns. Það er ekkert aðalatriði fyrir mjer, hvort kosið yrði 1930 eða 1931. En það þótti sanngjarnt, að næsta kjörtímabil yrði 4 ár og svo fylgdu þeir landskjörnu með. Ef menn vilja heldur, að í haust sje kosið til þriggja ára, þá hefi jeg ekkert á móti því.

Jeg get varla álitið rjett að eyða tíma þingsins í að svara hv. 1. landsk. því, sem hann var að tala um afstöðu Íhaldsflokksins til kosninga. Hann gekk út frá því, að Íhaldsflokkurinn gengi aldrei til kosninga nema til þess að tapa. Honum hefir nú samt ekki gengið svo illa það sem af er. Íhaldsflokkurinn hafði ekki gengið til kosninga sem slíkur fyr en í Gullbringu- og Kjósarsýslu við aukakosningarnar í jan. 1926, og þar sigraði hann greinilega. Næst gekk hann til kosninga við landskjörið 1. júlí og fjekk þá langhæsta atkvæðatölu. Kosningin til landskjörs fyrsta vetrardag var sú þriðja. Hvernig fór þá? Íhaldsflokkurinn fjekk 3000 atkvæðum fleira en um sumarið. Og þó hv. 1. landsk. reyni að kenna um hríðarveðri, fær hann fáa til að trúa, að það hafi valdið fjölgun atkvæðanna íhaldsmegin. Þá fóru fram aukakosningar á 4 þm. í þrem kjördæmum sama dag. Íhaldsflokkurinn hjelt þar öllu sínu, svo að eftir þeirri reynslu, sem hingað til hefir fengist, er lítil stoð fyrir þá skoðun, að Íhaldsflokkurinn eigi víst að tapa við allar kosningar. En það kann að vera illa gert að taka þessa huggun frá hreldum sálum, sem kannske hafa lítið annað til að hugga sig við.