23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Ólafur Thors:

Jeg verð að byrja á því að lýsa yfir, að mjer þykir það létt, ef hv. 1. þm. Rang. (KIJ) hefir misskilið mig svo, að hann hafi haldið, að jeg væri að kasta hnútum að sjer. (KIJ: Það vaf enginn misskilningur!).

Hv. þm. Str. (TrÞ) þótti það óviðeigandi, að sjútvn. skyldi leyfa sjer að koma fram með brtt. viðvíkjandi landbúnaði. Það sá nú að vísu á í ræðu hans, að hann hafði ekki hlustað á ádrepu mína. Hann mintist á sjerstök mál, sem voru til umr. á þingi í fyrra. Jeg get frætt hv. þm. (TrÞ) á því, að jeg var andvígur tveim af þeim þrem málum, er hann gat um.

Um andstöðu hans gegn útlendingum er það skemst að segja, að hann er sá þm., er lengst hefir gengið í því að bjóða afsal frumburðarrjettarins. Á jeg þar við tilboð hans til Norðmanna um að breyta fiskiveiðalöggjöfinni. Hv. þm. ætti því aldrei að minnast á slíkt ári kinnroða.

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) ljet svo, sem meiri hluti sjútvn. væri á móti frv. En þetta er rangt. Nefndarmenn vildu allir, að frv. næði fram að ganga, enda þótt nefndin klofnaði um vissar brtt., er fram komu. Hv. þm. (HjV) hefir og haldið því fram hjer í dag, að ef brtt. meiri hl. sjútvn. næði fram að ganga, þá mundu aðallega verða fluttir hjer inn Pólverjar og annar óþjóðalýður, og þetta væri ekki annað en lævísleg tilraun til þess að ná í ódýran vinnukraft handa togurunum. Þetta er svo fávíslegt, að það er ekki svara vert. Jeg veit satt að segja ekki, hvernig færi á þeim togara, þar sem væru eintómir Pólverjar. Þeir, sem þekkja vinnubrögðin á togurunum, brosa að fávísi hv. þm. (HjV), er hann talar um, að útgerðarmenn muni sækjast eftir Pólverjum í því skyni. Nei, útgerðarmenn mundu heldur falast eftir íslenskum sjómönnum, enda þótt þeir væru margfalt kaupdýrari.