25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3337 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg get tekið undir það með hv. umboðsmanni frsm. meiri hl. (JóhJóh), að jeg sje ekki ástæðu til að vera langorður, því að nefndarálit þau, er hjer liggja fyrir, sýna, hvernig nefnd þeirri, sem efri deild skipaði í þetta mál, hefir komið saman.

Um viðskifti nefndarhlutanna meðan þeir störfuðu saman var að mestu rjett skýrt frá hjá hv. frsm. meiri hl. Þó skal það tekið fram, að minni hl. gerði margítrekaðar tilraunir til þess að fara inn á einhverja þá leið, sem hægt væri að sameina sig um, en það var með öllu árangurslaust. Jeg get þessa hjer, til þess að ekki sje hægt að segja eftir á, að minni hl. hafi viljað leggja stein í götu málsins. Að sjerstök ástæða er til að taka þetta fram nú, eru afdrif stjórnarskrármálsins hjer í deildinni 1924. Jeg býst við, að flestir muni eftir þeirri atkvgr. Flokkarnir kendu svo hver öðrum um að hafa felt málið.

Að samkomulag tókst ekki, þrátt fyrir tilraunir minni hl., var af því, að hjer var um töluverðan stefnumun að ræða. Eins og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) tók fram, var samkomulag um 3 fyrstu gr. frv., en þegar að 4. gr. kom, fór samkomulagið út um þúfur. Um hana var ekkert samkomulag að fá. Þó að grein þessi sje ekki nema fáein orð, þá felur hún í sjer eigi að síður mikla stefnubreytingu, sem snýr að kjósendum landsins, og eins og grein þessi er orðuð nú, þá er gengið aftur á bak stórt spor frá því, sem nú er. Fyrst er farið fram á að lengja kjörtímabilið um 1/3. Það er því óneitanlega skerðing á íhlutunarrjetti kjósendanna; það er þar með verið að byrja á að tálga utan af kosningarrjettinum. Hvar endað verður, er ekki gott að segja.

Það er öldungis víst, að þetta atriði á engin ítök hjá kjósendum landsins, og jeg er þess fullviss, að engin stjórnarskrárbreyting gengur fram, er hefir ákvæði í þessa átt. Enda þótt grein þessi sje ekki nema fáein orð, þá felur hún samt í sjer annað en lenging kjörtímabilsins. Í henni felst líka, að kjörtímabil hinna landskjörnu þingmanna skuli stytt, að þingrof skuli einnig ná til þeirra og kosning þeirra fara fram jafnhliða kjördæmakosningum. Í nál. minni hl. er vikið að því, að hjer sje um algerða stefnubreytingu að ræða. Það er horfið frá því, sem aðallega vakti fyrir, þegar ákvæði þetta var sett inn í stjórnarskrána, að þeir landskjörnu ættu að vera stöðvun í þinginu, sem sumir hafa nefnt kjölfestu þingsins. Á þetta drap háttv. frsm. meiri hl. og vildi halda því fram, að kjölfestan af þeim landskjörnu væri hin sama og gert hefði verið ráð fyrir. Jeg skal fúslega viðurkenna, að jeg tel dálitla tryggingu í því, að þeir, sem kosningarrjett hafa til landskjörs, eru þó altaf 10 árum eldri en þeir, sem hafa almennan kosningarrjett. Á því að mega vænta, að meiri festa sje í kosningunni. En aðalþungamiðjunni finst mjer kastað fyrir borð með því að láta þingrof ná til þeirra, og úr því að kosning þeirra á að fara fram á sama tíma og hinar almennu kosningar, þá virðist mjer komið nærri því að athuga, hvort ekki sje þá eins rjett að afnema landskjörið með öllu. Jeg skal ekki bera á móti því, að hinir landskjörnu þingmenn geti eitthvað bætt upp hina ranglátu kjördæmaskipun, en að hve miklu leyti, skal jeg ekki fullyrða. En sem sagt, það má vel vera, að þeir bæti að einhverju leyti upp misrjetti það, sem jafnaðarmenn verða að líða sökum hinnar ranglátu kjördæmaskiftingar, því að jeg býst við, að hv. frsm. meiri hl. hafi einmitt haft þá fyrir augum, er hann var að tala um þetta.

Hv. frsm. meiri hl. taldi upp þær ástæður, sem rjettlæta þessa breytingu á landskjörinu, sem stungið er upp á í 4. gr. frv., og talaði aðallega um sparnaðinn, sem af henni myndi leiða fyrir kjósendur. Jeg skal játa það, að kjósendur eyða ekki dagsverki til kosninga, ef þeir eru aldrei kvaddir til þeirra. En hví má þá ekki alveg eins veita þeim sparnaðinn enn þá víðtækari, með því að láta kjósa aðeins á 20 ára fresti? Nei, þessi ástæða er öldungis óframbærileg hjá hv. frsm. meiri hluta og ekkert upp úr henni leggjandi. Hún bendir aðeins í þá átt, að rýra eigi kosningarrjettinn. Og jeg get fullvissað hv. frsm. meiri hl. um það, að þessi umhyggja hans fyrir kjósendum er alveg óþörf.

Það er ýmislegt fleira, sem taka mætti fram viðvíkjandi 4. gr. En jeg veit ekki, hvort það svarar kostnaði að rekja það sundur nákvæmlega, eða nánar en jeg er búinn að gera, því að jeg geri ráð fyrir því, að svo sje um hnútana búið, að frv. gangi fram í þeirri mynd, sem meiri hlutinn gefur því, og að till. minni hl. verði ekki teknar til greina nje samþyktar. Mjer þykir trúlegt, ef stjórninni er alvara með þetta mál, að hún haldi utan um atkvæði flokksmanna sinna og láti málið sigla út úr deildinni. Jeg ætla því ekki að auka á óþarfamælgi þá, sem hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) mintist á að ætti sjer stað á hinum síðustu og verstu tímum. Jeg kæri mig heldur ekki um að halda málinu áfram lengra á þann hátt að færa rök fyrir till. minni hl. Sem sagt tek jeg ekki til mín þessa sneið um óþarfamælgi, og þótt jeg kynni að eiga þar sneið, þar sem háttv. þm. var að tala um óþarfamælgi, þá læt jeg mjer það í ljettu rúmi liggja, þótt einhverju sje til mín beint af því tægi, því að hingað er jeg kominn til þess að gera grein fyrir skoðunum mínum. Og meðan jeg fer ekki út fyrir það svið, er ekki rjett að tala um óþarfamælgi. Jeg get þessa af því að hv. þm. Seyðf. lá á hjarta að koma þessari sneið að við þetta tækifæri. (JóhJóh: Þessi deild átti ekki sneiðina, heldur háttv. Nd.). Það situr ekki á okkur hjer í þessari deild að vera að setjast í dómarasæti yfir hv. Nd.

Háttv. þm. Seyðf. gat þess, að brtt. minni hl. væru óþarfar. Það getur vel verið; jeg hefi enga löngun til að þrátta um það við hv. þm. Seyðf. En þessar till. okkar í minni hl. eiga áreiðanlega fordæmi í þingsögunni. Það getur vel verið, að þær þurfi ekki að koma til atkvæða. En með því að koma fram með þessar brtt. lítum við svo á, að minni hl. hafi gert grein fyrir því, hvernig frv. eigi að líta út. Hafi þetta verið óþinglegt, átti ekki hv. þm. að vera að fetta fingur út í þetta eftir á, heldur benda okkur á það. En þar sem hann gerði það ekki, þá var þessi aths. hans óþörf, því að vegna minni hl. var sjálfsagt að koma fram með þessa brtt.

Þá ætla jeg að víkja að 5. gr. frv. Hún kveður svo á, að ef þm. deyr, sem kosinn hefir verið hlutfallskosningu, þá skuli koma í hans stað varamaður sá, er við á í hvert skifti. Það, sem minni hl. hafði að athuga við þetta, var það, að þetta á einnig að ná til Reykjavíkurþingmannanna. Við álítum, að í hvert skifti og sæti losnar í Reykjavík, eigi kjósendurnir að velja þm. í það þingsæti á sama hátt og tíðkast í öðrum kjördæmum. Hinsvegar hefir minni hl. litið svo á viðvíkjandi brtt. við 5. gr., um að falli landskjörinn þm. frá, þá þurfi ekki kosning að fara fram svo lengi sem eftir er einhver varamaður á þeim lista, að þessi breyting sje í sjálfu sjer rjettmæt. En hann lítur svo á, að þetta geti komið með breytingu á kosningalögunum. En meiri hl. getur ekki fallist á þetta og ber fyrir sig „praksis“. En jeg sje ekki annað en þessu atriði megi koma fyrir í kosningalögunum. Verið getur, að hv. þm. Seyðf. sjái hjer betur, þar sem hann er lögfræðingur. En þótt þessi skilningur hans væri rjettur, þá mætti samt breyta 5. gr. síðar, og jeg áskil minni hl. rjett til þess að koma fram með brtt. við 3. umr. um þetta atriði og ef til vill fleiri. Ef á að breyta stjórnarskránni á annað borð allmikið og það er meiningin að breyta meiru en því, að þing skuli haldið annaðhvert ár, þá vil jeg halda leiðinni opinni. Við minnihutamenn álítum það vera þá fyrstu breytingu, sem nokkur hluti þjóðarinnar óskar eftir. Og það er vissa fyrir því, eins og flokkum er nú háttað í þinginu, að þetta er sú eina breyting, sem samkomulag næst um, og ef þm. er nokkur alvara með þessa breytingu, þá verður að varast að hnýta mikilli lest aftan í hana, sem valdið getur því, að frv. nái ekki fram að ganga.

Jeg er sammála hv. þm. Seyðf. um, að af þingafækkun mundi leiða sparnað, en hitt er jeg ekki eins sannfærður um, að takast mætti að spara aukaþingin. Jeg get bætt því við, að jeg er ekki sannfærður um, að þetta fyrirkomulag, þótt á komist, yrði til langframa. En samt má spara allmikið, enda þótt þing væri haldið á hverju ári, ef fjárlagaþing er aðeins annaðhvert ár.

Loks skal jeg aðeins geta þess, að mikið hefir hv. þm. Seyðf. þótt við liggja, því að hann endaði ræðu sína með því að skora á stjórnina að duga nú nefndinni, þar sem frsm. væri bilaður. Jeg er viss um, að stjórnin dugir nefndinni í þessum sökum sem öðrum. Læt jeg svo staðar numið að sinni.