25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3352 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg hefi raunar ekki mjög miklu að svara, og því síður, þar sem hæstv. forsrh. er ekki enn mættur á fundi, en við hann átti jeg helst erindi. Jeg geri þó ráð fyrir, að hann komi fljótlega og honum verði þá borið það, sem jeg vildi við hann segja.

Hæstv. ráðh. tók fram, að þó ekki hefði náðst samkomulag í nefndinni, hefði ekki verið ástæða til, að meiri hl. slakaði á kröfum sínum meðan ósjeð væri, hvernig byr málið fengi í þinginu. En ef þetta á við um meiri hlutann, þá má líkt segja um minni hlutann.

Hæstv. ráðh. kannaðist við það, sem jeg hjelt fram um ákvæði 4. gr. frv., um að kjördæmakosnir þingmenn skuli kosnir til 6 ára, í stað 4, að það væri skerðing á íhlutunarrjetti kjósenda. En hann sagði, að þeim væri bætt þetta upp að nokkru leyti með því að stytta tíma hinna landskjörnu. Jeg held nú, að þetta sjeu dálítið viðsjárverð hnífakaup. Hjer er um alt aðra aðilja að ræða. Allir, sem yngri eru en 35 ára og kosningarrjett hafa, verða fyrir þessari skerðingu, en þeir fá enga uppbót í kjöri hinna landskjörnu. Því tel jeg þetta varhugaverð hnífakaup, enda býst jeg við, að hæstv. ráðh. beri þetta fram fremur til að mýkja og milda en að hann hafi trú á, að hjer sje aðeins um skifti að ræða, sem ekki geri svo mikið til. Jeg verð að halda fast við þá skoðun mína, að breytingin á 4. gr. sje tvímælalaus skerðing á kosningarrjetti manna, enda hefir hæstv. ráðh. viðurkent, að svo sje. Jeg lít svo á, að það sje enginn ávinningur að stytta kjörtímabil landskjörinna þingmanna, enda hefir ekki heyrst, að það væri fram komið af þeirri ástæðu, að það ættu að vera sárabætur fyrir hina skerðinguna. Því hefir verið haldið fram, að þetta væri gert af sparnaðarástæðum, til þess að láta fara saman kjördæmakosningar og landskjör, En jeg tel mjög vafasamt, að kjósendur sækist eftir þessum sparnaði. Hinsvegar verð jeg að líta svo á, að breyting sú, sem gerð er á landskjörinu, sje svo mikilvæg, að þinginu beri vel að gæta þess, hvað það missir, áður en það tekur gilda þessa uppbót, sem hæstv. ráðherra var að tala um.

Þá mintist hæstv. ráðh. á, að þegar gengið væri inn á þá braut að hafa þing aðeins annaðhvert ár, væri ekki rjett, að kosningar færu fram 4. hvert ár, því að þá sætu þingmenn ekki nema 2 þing. En þarna er hæstv. ráðh. að leiða menn út á skakka braut. Það á ekki að miða við þingafjöldann, heldur kjörtímalengdina. Því tvennu má ekki rugla saman. Það hefir verið gert ráð fyrir aukaþingum, og í hjarta okkar erum við víst fúsir á að láta okkur detta í hug, að þau geti orðið nokkuð oft. Munurinn er þá aðeins sá, að ekki verður háð fjárlagaþing nema annaðhvert ár. Við þetta sparast nokkur tími og kostnaður á Alþingi, en lenging kjörtímabilsins hefir fyrir því alveg sömu afleiðingar. Á kjörtímabili því, er frv. gerir ráð fyrir, geta vel orðið 6 þing, þó að ekki sjeu nema 3 fjárlagaþing. Því verður ekki með neinum rökum neitað, að þarna er um talsverða skerðing á kosningarrjettinum að ræða.

Þá skildi jeg ekki vel, hvað hæstv. ráðh. var að fara, þegar hann talaði um látlausar kosningar eða kosningar á hverju ári. Jeg veit ekki til þess, að til árlegra kosninga komi nema óvenjumikil vanhöld sjeu á landsk. þm. En þó að gera megi ráð fyrir, að fyrir landskjöri verði oftast eldri menn, sje jeg ekki ástæðu til að halda, að svo mikil vanhöld verði á þeim, að oft þurfi að kjósa þess vegna. Hitt er rjett, að kosningar til landskjörs og kjördæma fara ekki saman eftir núgildandi stjórnarskrá. En það kom einmitt til tals í nefndinni, þó ekki fengist um það samkomulag, að með því kjörtímabili, sem nú er, væri hægt að samræma hvorartveggja kosningarnar. Galdurinn er ekki fólginn í öðru en því að fastákveða, hvenær reglulegar kjördæmakosningar skuli fara fram, og ákveða svo, að kosningar eftir þingrof skuli aðeins gilda þar til reglulegar kosningar eiga að fara fram. Þetta var rætt í nefndinni, og þótti mjer rjett að láta það koma hjer fram, til þess að hv. þingdeild og þeir, sem lesa kunna Alþt., þurfi ekki að halda, að minni hl. hafi verið alveg ósveigjanlegur í þessu máli.

Þá kom hæstv. ráðh. að 5. gr. og kvað sig furða á því, að minni hlutinn legði til, að hún yrði feld niður. Jeg skal játa, að minni hl. hefir látið í ljós, að hann teldi óviðunandi fyrirkomulag, að ganga þyrfti til kosninga á landskjörnum manni, ef varamaður væri líka fallinn frá. En jeg tók það fram í framsöguræðu minni, að lagt væri til, að greinin fjelli niður vegna þess, að hún næði líka til kjördæmakosninga að því er Reykjavík snertir. Minni hl. mun standa við það, sem hann hefir áður látið í ljós að því er snertir landskjörið. Annars lít jeg svo á, að þetta sje hægt að laga með kosningalögunum. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) lítur svo á, að þingið sje bundið við þá túlkun, sem áður hefir verið á þessu ákvæði gerð. Jeg skal ekki leggja dóm á það. En jeg held, að ef ekki verður talið, að hjer sje um bindandi fordæmi að ræða, megi vel samrýma þetta við stjórnarskrána.

Þá komst hæstv. ráðh. að þeirri niðurstöðu af niðurlagi ræðu minnar, að jeg mundi ekki vera ófús til samkomulags, og það gleddi sig. En hæstv. ráðh. verður að gæta þess, að um samkomulag getur ekki verið að ræða nema báðir aðiljar slaki til. Mjer dettur í hug, að hugsanlegt væri, að við hefðum hnífakaup á 4. og 5. gr., jeg fjellist á 5. gr., ef hann vildi láta 4. gr. falla. Annars hefi jeg áður bent á hugsanlega leið til samkomulags. Hann var yfirleitt mjög hógvær í garð minni hl. og viðurkendi, að það, sem jeg hjelt fram, væri þó a. m. k. á nokkrum rökum bygt.

Loks sagði hæstv. forsrh., að hann vildi ekki, að inn í frv. kæmust neinar breytingar, sem orðið gætu því að falli, en jeg held, að nú sjeu einmitt nokkur þessháttar ákvæði í frv. Ef hæstv. landsstjórn er ant um að koma á samkomulagi, þá á hún að fara að till. okkar í minni hl. En samkomulag, sem byggist á því, að minni hl. gangi óskorað að öllum till. hv. meiri hl., getur ekki orðið, enda er það ekkert samkomulag.

Að síðustu vil jeg geta þess, að jeg mun ekki greiða atkv. með brtt. einstakra þm., af þeim ástæðum, sem jeg hefi þegar tekið fram. Þar fyrir tel jeg t. d. till. hv. þm. Snæf. (HSteins) sönnu nær en till. hæstv. landsstjórnar. En verði þessi till. samþykt, er jeg þess fullviss, að hún verður frv. að falli, og á því vil jeg ekki bera ábyrgð.

Nú get jeg látið staðar numið að sinni. Mun jeg sjá til, hvað setur um það, hvort ástæða verður til að taka til máls á ný.