25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3367 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. frsm. minni hl. (IP) bar það upp á mig, að jeg hefði viðurkent, að lenging kjörtímabilsins væri skerðing á rjetti kjósendanna. Jeg sagði, að það væri álitamál, hvort nokkuð væri rjettara að kjósa til 4 ára heldur en til 6 ára, og að á móti lengingu kjörtímabils hinna kjördæmakjörnu kæmi þá aftur stytting kjörtímabils hinna landskjörnu. Annars held jeg, að alstaðar sje álitið, að kosningarrjetturinn sje jafn, hvort heldur kosið er til 3 eða t. d. 7 ára. Þannig er t. d. kosið til 7 ára í Englandi, en í mörgum öðrum löndum til 3 eða 4 ára. Lengd kjörtímabilsins fer altaf eftir því, hvað þjóðunum sýnist rjettast og hentugast fyrir löggjafarstarfsemina. Jeg held því, að hvað kosningarrjettinn snertir, megi einu gilda, hvort kjörtímabilið er 4 eða 6 ár.

Það hafa fleiri en núverandi stjórn og Íhaldsflokkurinn látið sjer detta í hug að hafa þing annaðhvert ár og 6 ára kjörtímabil. Má þar til nefna tvo Framsóknarflokksmenn, sem báru fram brtt. við stjórnarskrárfrumvarpið á þinginu 1924. Fóru þeir fram á í till. sínum, að þing væri einungis háð annaðhvert ár og að kjörtímabilið væri lengt upp í 6 ár. Þetta voru þeir hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Í brtt. þeirra var líka farið fram á að afnema landskjörið, og fyrir afnámi þess voru færðar fram hinar sömu ástæður og nú, hversu mjög það væri kostnaðarsamt, og sló hv. 1. þm. Eyf. fram þeirri áætlun, að það myndi kosta 20–30 þús. kr. að koma hverjum einum þessara manna á þing. Hjá þessum kostnaði er sneitt með uppástungum stjfrv., að láta kosningar til landskjörs fara fram á sama tíma og almennar kosningar. En þá er samt eftir heimildin til að fjölga þm. aftur upp í 42, og jeg er ekki í nokkrum vafa um það, eins og öllu til hagar, að þá verður sú heimild notuð þegar í stað. Jeg er ekki að vekja deilur með því að sýna, á hverju jeg byggi það, en menn geta litið á atkvgr., sem fram fór í Nd. nýlega, en hún var um frv., sem borið var fram til þess að útvega Hafnarfjarðarkaupstað þingfulltrúa, er hann ekki hefir nú, en það eru slíkar kröfur frá mörgum kjördæmum, sem erfitt er að standa á móti, svo framarlega sem þess er krafist að gefa öllum jafna möguleika, og held jeg því, að sparnaður við afnám landsk. þm. muni ekki nást.

Jeg ætla ekki að ræða það við hv. frsm. minni hl., hvaða horfur sjeu til samkomulags, en mjer þykir það undarlegt, að hv. þm. skuli vera að bjóða mjer hnífakaup á 4. og 5. gr. Mjer þykir það undarlegt, að þeir skuli hafa nokkuð á móti 5. gr., því að jeg held, að í henni felist sú ein leiðrjetting, sem allir eru sammála um að gera.

Háttv. 5. landsk. (JBald) var nú mótfallinn stjórnarskrárbreytingu yfir höfuð, og sjerstaklega því aðalatriði að hafa þing einungis annaðhvert ár, og mjer kom það ekkert á óvart frá þeim hv. þm. Hann kallaði þetta afturhald. Það má vel fyrir mjer. Það eru þá, svo að jeg hafi eftir orð eins látins merkismanns á þingi, „bæði íhöldin“, sem eru nokkuð sammála um þessa tegund afturhalds. Þesskonar „slagorð“ verða ljett á þeim metum, sem ætlað er að vega röksemdir.

Þá talaði hv. þm. um, að þessar breytingar, sem farið er fram á á landskjörinu, væru stefnubreytingar. Jeg skal ekki segja um það; það kann vel að vera, að það hafi vakað eitthvað annað fyrir þeim mönnum, sem settu á sínum tíma ákvæðin um landskjörið inn í stjórnarskrána, eitthvað annað en það, sem eftir stendur, ef uppástungur stjórnarinnar eru samþyktar. En ef eitthvað annað hefir vakað fyrir þessum mönnum, þá held jeg, að reynslan sje búin að sýna, að það hafi ekki náðst. Jeg held, satt að segja, að þegar ákvæðið um landskjörið, eins og það er nú, var sett í stjórnarskrána, þá hafi menn fullmikið verið að rýna í að líkja eftir því, sem áður hafði verið um þá konungkjörnu, og þó hefir, eins og sýnt hefir verið fram á með umræðunum, mistekist að ná þeirri sömu þýðingu fyrir þingið og löggjafarstarfsemina, sem því kjöri var ætlað að hafa.

Þá var hv. 5. landsk. eitthvað að tala um það, að stærsti þingflokkurinn myndi geta haft einhvern hagnað af þeirri breytingu, sem hjer er stungið upp á. Það held jeg, að ómögulegt sje að staðhæfa neitt um, svona alment. Jeg skal játa það, að atkvæðatölur geta staðið svo, að stærsti flokkurinn fái einu þingsæti fleira með því, sem stjórnin stingur upp á, heldur en því, sem nú er. En það getur líka farið svo, að hún fái einu færra heldur en með núgildandi fyrirkomulagi, svo að jeg held, hvað stærsta flokkinn snertir, að ómögulegt sje að staðhæfa neitt um það, hvort hann hefir vinning eða halla af þessari breytingu. En það er annað, sem hægt er að sjá, að sex manna kosning í einu hefir umfram tvenna þriggja manna kosningu, og það er það, að flokkur, sem er svo lítill, að hann getur ekki komið að manni við þriggja manna kosningu, hann getur þó ef til vill fengið möguleika til að koma að manni við sex manna kosningu. Yfirleitt held jeg, að óhætt sje að fullyrða, að fyrir þann flokk, sem minstur er og getur komið til greina við landskjör, er það heldur vinningur að hafa 6 manna landskjör; en jeg legg þó ekkert upp úr þessu, því að það er enginn vinningur fyrir mig að hlynna að litlu flokkunum. En það verður betur fullnægt þeirri hugsjón, sem liggur til grundvallar fyrir hlutfallskosningu, að tilhögunin geri litlum flokki, sem á nokkur ítök hjá þjóðinni, það mögulegt að koma fulltrúa á þing. Jeg held yfirleitt, ef litið er á málið frá þeirri hugsjón, sem liggur til grundvallar hlutfallskosningunni, þá næst hún betur með því að kjósa sex menn í einu heldur en ef kosið er í tvennu lagi og þrír menn kosnir í hvort sinn. Eins og nú er, tel jeg litla ástæðu til að fara út í það, sem hv. þm. sagði um kosningalögin og 28. gr. stjórnarskrárinnar, en það er varasæti landsk. þm., sem jeg tel alveg sjálfsagt að verði lagfært, svo framarlega, sem nokkur stjórnarskrárbreyting verður samþykt, sem jeg eindregið vil gera ráð fyrir. Hv. þm. var þarna með lögskýringar, sem ekki ná neinni átt, en kannaðist þó við það, að í kosningalögunum stæði, að varamenn ættu að vera jafnmargir og aðalmenn, og sagði, að þá nægði að breyta kosningalögunum; háttv. þm. hafði yfir eina málsgr. úr stjórnarskránni, en gætti þess ekki að halda nógu lengi áfram. Í 28. gr. stjórnarskrárinnar, þar stendur um landskjörið: „... en varamenn skulu vera jafnmargir og þingmenn, kosnir hlutbundnum kosningum um land alt, enda kosnir á sama hátt og samtímis“. — Stjórnarskráin segir nú einu sinni, að varamennirnir skuli vera jafnmargir, og það er einu sinni búið að slá því föstu eftir rannsókn, að það þyki ekki rjett að sniðganga þetta ákvæði stjórnarskrárinnar, þannig að líta svo á, sem fleiri menn á listanum geti þá skoðast sem varamenn en þeir aðalmenn, sem kosnir voru á listanum, af því að það stríðir á móti þessari grein stjórnarskrárinnar. Frá þessu verður ekki komist á annan hátt en að breyta stjórnarskrárgreininni, og sú skýring, sem hv. þm. heldur fram, að stjórnin megi ekki brjóta stjórnarskrána, en að þingið geti gert það með lagasetningu, það held jeg, að fái heldur fáa áhangendur.

Þó að það komi ekki málinu við, þykir mjer rjett að taka það fram, að hv. 5. landsk. hafði auðsjáanlega alveg misskilið brtt. hv. 2. þm. Rang., er hann sagði, að sá hv. þm. liti svo á, að ráðherrar gætu ekki verið tveir eftir núgildandi stjórnarskrá. En þetta er misskilningur. Það kom alveg skýrt fram hjá hv. 2. þm. Rang., að hann áleit ekki nægilega tryggingu fyrir því, að ráðherrar yrðu ekki endrum og sinnum hafðir fleiri en tveir, en hinu bar hann ekkert á móti, að það væri leyfilegt að hafa þá tvo. Loks vil jeg mótmæla þeim ummælum hv. 5. landsk., að flutningur þessa frv. sje nokkur leikur af hálfu stjórnarinnar eða hennar flokks. Jeg hefi látið það í ljósi hjer áður, að það er eindreginn ásetningur stjórnarinnar að gera alt, sem í hennar valdi stendur, til þess að þær stjórnarskrárbreytingar, sem hún veit, að mikill þorri kjósenda óskar eftir, komist í gegnum þingið, og þær aðrar lagfæringar, sem eru sjálfsagðar, ef breytingar verða gerðar á annað borð, og jeg hefi enga ástæðu til að ætla annað en að þetta muni takast.