25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3372 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Guðmundur Ólafsson:

Jeg hefi nú ekki talað fyr í þessu máli. Það urðu talsverðar umr. um það við 1. umr., en þá þagði jeg, eins og jeg geri oftast, en nú get jeg ekki stilt mig lengur um, af því að mikið er búið að segja um þetta mál, og sumt undarlegt, að taka til máls. Ætla jeg þá fyrst að víkja ögn að sjálfu frv. og aðalbreytingunum á því, sem sjálfsagt eru engum mjög ókunnugar, því að það hefir ætíð verið aðaltakmarkið, reglulegt þing aðeins annaðhvert ár, og það er eins í þessu stjórnarskrárfrv., sem hjer liggur fyrir, en það er bara hnýtt aftan við 18. gr. nú, þar sem sagt er, að þingið komi saman annaðhvert ár, að með lögum megi ákveða, að þing skuli koma saman árlega. Svo er lenging kjörtímabilsins, úr 4 í 6 ár, en aftan við það er einnig hnýtt, að með lögum megi líka breyta þessu aftur í 4 ár. Mjer finst, að ekkert frv. hafi borið það ljósara með sjer en þetta frv. gerir, að það er ekki sjerlega mikil alvara á bak við það, því að það er búið að fá reynslu fyrir því, að það er æðimiklu erfiðara að breyta stjórnarskránni heldur en öðrum lögum, svo að það, sem einu sinni kemst inn í hana, stendur lengur en almenn lög. En þarna er varnaglinn sleginn, svo að þarna skuli þó vera hægt að hringla aftur á bak og áfram með þessi ákvæði. Jeg hefði nú ekki tekið eins hart á þessu og jeg geri, ef þetta fyrirkomulag, sem nú er farið fram á, hefði ekki verið reynt áður og gefist sæmilega. Jeg er hissa á, að hvorugur hluti nefndarinnar skuli hafa minst á þetta, og jeg tek það svo, að þeim sje sama, hvort þessu ákvæði verður slept eða ekki, en mjer finst það miklu máli skifta, og þegar það bætist við, sem hæstv. forsrh. sagði við 1. umr., að þótt breyting yrði gerð á þessu þingi, þá gæti ekki komið til mála, að hún kæmi í raun og veru til framkvæmda fyr en árið 1932. Jeg býst helst við, að það þyrfti aldrei að fara eftir því, að það yrði aldrei reynt að hafa þing aðeins annaðhvert ár, ef þessu má breyta með almennum lögum. Það er nú ekki samt svo, þótt jeg telji þetta stóran galla, að jeg muni ekki greiða frv. atkv.; það getur líka verið, að einhver komi með brtt. um þetta við 3. umr., en jeg tel það stóran ókost hjá hæstv. stjórn að koma með þessi ákvæði og sýna algert áhugaleysi hennar fyrir framgangi málsins.

Það var sagt af hæstv. forsrh. við 1. umr. þessa máls, að þær till., sem hv. þm. Snæf. (HSteins) ber fram nú, hefðu á þinginu 1924 drepið frv. Jeg skildi ekki hæstv. ráðh. þá, og hygg, að það takist ekki öllu betur, þó að menn fari að lesa þingtíðindin frá því þingi. Jeg man ekki betur en að fremur litlar umr. yrðu þá um þær, og breytingarnar náðu þá samþykki deildarinnar.

Þá vil jeg aðeins víkja nokkrum orðum til hv. 4. landsk. (MK), sem náttúrlega, eins og nú átti við, stóð upp og talaði á móti niðurlagningu landsk. þm. Jeg skal ekki tala um virðinguna á þeim, því að það er hv. þm. Snæf. búinn að gera, en þótt hv. þm. (MK) virði þá lágt og sparnaðinn við þinghaldið, ef þeir væru lagðir niður, þá gerði hv. þm. þó kostnaðinn við þá 1 kr. á mann og kostnaðinn við þinghaldið 2 kr. á mann, og jeg býst nú við, að þeim, sem þannig reikna, þyki hjer um lítinn sparnað að ræða, og margir eru sjáanlega ergilegri á svipinn, þegar verið er að tala um að spara eitthvað, heldur en þegar þeir eiga að samþykkja lán eða ábyrgðarheimildir. En jeg er nú svo gerður, að þótt ekki sje nema um tugi þúsunda að ræða, að jeg álít, að menn þurfi ekki að blygðast sín fyrir að vera með því, ef hægt er að skaðlausu að spara slíkar upphæðir.

Þá sagði hv. 4. landsk., að það virtist svo, sem allar þessar þingmálafundargerðir, sem hingað eru sendar, væru gerðar í sömu verksmiðjunni og að lítið væri að marka, sem þar stæði. Það er þá víðtækari verksmiðja en jeg þekki til; segjum, að það komi þingmálafundargerð austan úr Múlasýslu og önnur svipuð fundargerð norðan úr Strandasýslu, og ýmsum kjördæmum á milli þessara staða. Það er þá verksmiðja, sem nær yfir mikinn hluta landsins, og naumast líklegt, að kjósendur fái sömu fræðslu í allri þessari víðlendu verksmiðju. En ef svo er, þá er það náttúrlega gott og blessað, ef fræðslan ber víða eða alstaðar góðan árangur, en ef ekki er hægt að taka tillit til þess, sem þingmálafundir segja um þetta atriði, þá held jeg, að það verði heldur ekki hægt í því, sem þeir segja um önnur mál.

Svo tók jeg eftir því, þegar hæstv. ráðh. var að svara þessum hv. þm. við 1. umr. frv., sem reyndar hafði sömu skoðun og hv. 5. landsk., að vilja engar stjórnarskrárbreytingar, þá sagði hann, að hv. 4. landsk. væri alveg á móti breytingum og að það væri heiðarlegt. Jeg vona, að hæstv. ráðh. hafi ekki átt við það, að þeir, sem vildu breytingar, væru óheiðarlegir. (Forsrh. JÞ: Nei, nei). Lakast er, eins og jeg áður hefi tekið fram, að búast má við, að altaf sje verið að hringla með þetta, ef þetta með almennu lögin verður látið standa í frv.

Hv. 5. landsk. var að tala um kosningarrjettinn hjá stærri flokkunum og aðrar breytingar þeirra við stjórnarskrána, að það væri aðeins leikur. Hv. þm. (JBald) er nú farinn að taka þátt í leiknum líka, svo að það má segja, að þetta sje auðlært, þegar þessir tveir unglingar jafnaðarmenskunnar geta hermt þetta eftir.

Þá eru örfá orð, sem jeg vildi segja um ræðu hv. 2. þm. Rang. Hv. þm. (EJ) kom með brtt. um það, að ráðherrar skyldu vera tveir. Jeg hefi, satt að segja, altaf fylgt því og álitið það alveg nóg, að ráðherrar væru tveir, svo að það er undarlegt, að slík breyting skuli ekki hafa komið í stjfrv., þar sem nú eru aðeins 2 ráðherrar. En það þykir mjer óviðkunnanlegt, að hv. þm. hafði það fyrir niðurlagsorð í ræðu sinni, að sjer stæði á sama, þó að þetta verði ekki samþykt, en jeg kann illa við það að koma með brtt. og láta sjer svo standa á sama, þótt hún verði ekki samþykt. Það hefir kannske verið búið að vara hv. þm. (EJ) við um það, að hann yrði kannske að greiða atkv. á móti sinni eigin till., til þess að hún fjelli. Annars gleður það mig, af því að jeg var dálítið við riðinn brtt. hv. þm. Snæf., að hann talaði hispurslaust fyrir þeim og að hv. þm. (HSteins) ætlar ekki að draga sig til baka, heldur halda fast við þær, þar til þær eru komnar út úr deildinni.