25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3392 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ) mintist á síðustu málsgr. 1. gr. Þar segir svo, að með lögum megi ákveða, að reglulegt Alþingi skuli háð árlega. Jeg held, að jeg hafi ekki minst á þetta, en í greinargerðinni, er frv. fylgir, stendur ástæðan fyrir því, að stjórnin tók þetta ákvæði upp. í meðferð þessa sama máls á þinginu 1923 var um samskonar breytingu að ræða, sem sje þing annaðhvert ár. En nefndin, sem hafði málið til athugunar í Nd. og var skipuð mönnum úr öllum flokkum, bar fram till. í e. hlj. um það, að breyta mætti þessu með einföldum lögum. Stjórninni þótti því rjett að taka þetta ákvæði upp í frv., til þess að greiða fyrir því, að aðalákvæði 1. gr. yrði samþ. En jeg get sagt háttv. þm. A.-Húnv. og hv. frsm. minni hl. það, að mjer er ekkert sárt um það, þótt ákvæði þetta falli burt, ef það verður ekki frv. sjálfu að falli. Í raun og veru er jeg þeim samdóma um það, að æskilegast hefði verið, að ekki hefði þurft að hafa þetta ákvæði.

Mjer þykir vænt um að hafa tækifæri til þess að leiðrjetta þann misskilning, sem kom í ljós hjá háttv. þm. A.-Húnv. viðvíkjandi því, sem jeg hafði sagt um það, hvenær þetta ákvæði um reglulegt þing annaðhvert ár kæmi til framkvæmda. Hann hafði skilið mig svo, að þetta kæmi ekki til framkvæmda fyr en 1932. Jeg vil leiðrjetta þetta, þótt jeg hafi reyndar gert grein fyrir því áður. Það er svo fyrir mælt, að annað þing verður að halda eftir að búið er í fyrsta sinn að samþ. stjórnarskrárbreytinguna, til þess að leggja á hana fullnaðarsamþykt. Ef hún verður því samþ. nú og síðan til fulls á þinginu 1928, þá verður ekki komist hjá því að halda reglulegt þing 1929, af ástæðum, sem gerð hefir verið grein fyrir. En svo kemst þetta í framkvæmd þannig, að næsta reglulegt þing þar á eftir verður háð 1931. Jeg vona, að það villi engan, enda er það kunnugt, að Alþingi mun koma saman 1930, til þess að minnast þúsund ára afmælis síns. En það kemur auðvitað ekki breytingu þeirri við, sem hjer liggur fyrir, því að það ár fellur vitaskuld niður reglulegt þing.

Jeg get vísað heim til föðurhúsanna öllum ummælum um alvöruleysi af hendi stjórnarinnar í þessu sambandi. Hjer er um samkomulagsfýsi að ræða, en ekki alvöruleysi.

Þá staðfesti hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að hann hefði ásamt hv. þm. A.-Húnv. flutt brtt. á þinginu 1924 um 6 ára kjörtímabil og leiðrjetti enga missögn hjá mjer, eins og hv. frsm. minni hl. vildi vera láta. Brtt. er skráð í skjalaparti þingtíðindanna á þskj. 169 og stendur undir töluliðnum II. Gerði hv. þm. (EÁ) svo grein fyrir till., að hann hefði ekki flutt hana vegna þess, að hann eða þeir flm. álitu þá tilhögun hina æskilegustu, heldur vildu þeir ganga inn á það til samkomulags. Jeg vil láta þá von í ljós, að vilji til samkomulags sje einnig hjer til staðar.

Jeg ætla mjer ekki að fara að karpa við hv. frsm. minni hl. um vonbrigði þau, er hann hefði orðið fyrir við framkomu frv. þessa. Jeg skal taka það fram, vegna ræðu hv. þm., að það kom ekki í fyrri ræðu minni fram nein viðurkenning um það frá minni hálfu, að lenging kjörtímabilsins fyrir kjördæmakosna þingmenn fæli í sjer skerðingu á kosningarrjetti manna, þó að jeg benti á það, að ef þannig væri á litið, þá væri líka við stytting kjörtímabilsins fyrir landsk. þm. kosningarrjetturinn að nokkru aukinn. — Mjer skildist á hv. frsm. minni hl., að hann gerði ráð fyrir því, að þing yrði háð á hverju ári, enda þótt breytingin í því efni, sem flutt er fram í frv., yrði samþykt. Jeg get vel skilið, að þeir hv. þm., sem hafa þá skoðun, haldi fast við 4 ára kjörtímabilið. En jeg fyrir mitt leyti geri ekki ráð fyrir nema einstaka undantekningum í þessu efni, þegar alveg sjerstök atvik bera að höndum. Þá vildi og háttv. frsm. minni hl. finna játun frá minni hálfu í því, að með brtt. stjfrv. væru flokkshagsmunir Íhaldsflokksins hafðir fyrir augum, — er jeg sagði, að með því fyrirkomulagi, sem nú væri á kosningu landskjörinna þingmanna, þá væru möguleikar fyrir því, að þeir landskjörnir þingmenn, sem sætu eftir í deildinni, er kosningar á nýjum landskjörnum færu fram, gætu orðið þess valdandi, að þjóðarviljinn nyti sín ekki um það, hvort stjórnarskifti ættu að fara fram eða ekki. En jeg skal taka það fram, að þetta er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm., þegar af þeirri ástæðu, að Íhaldsflokkurinn hefir nú þá tölu landskjörinna þingmanna, að hún getur ekki orðið flokknum að falli, ef hann heldur velli við næstu kjördæmakosningar. Annars nægir í þessu sambandi að benda á aths. þær, sem háttv. 1. þm. Eyf. gerði um þetta atriði á þingi 1924, er hann talaði fyrir till. sinni og hv. þm. A.-Húnv. um afnám landskjörinna þingmanna, þar sem þeir tóku upp til samkomulags 6 ára kjörtímabilið.