25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3400 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Jeg vildi aðeins minnast á 2 atriði viðvíkjandi brtt. í sambandi við meðferð þessa máls á þingi 1924.

Það hefir komið fram brtt. við stjfrv. frá hv. 2. þm. Rang., þar sem hann fer fram á það, að það sje skýrt tekið fram í stjórnarskránni, að ráðherrarnir skuli vera 2. — Jeg kom með svipaða brtt. á þinginu 1924, en hún var þá feld af núverandi stjórnarflokki. Jeg býst við, að ef till. þessi verður samþykt nú að þessu sinni, þá verði það til þess að stofna aðalmálinu í hættu. Jeg mun því ekki greiða till. atkv. mitt að þessu sinni, þó að jeg hinsvegar játi rjettan skilning hv. 2. þm. Rang. á þessu atriði, en rangan skilning hæstv. stjórnar á því. — Þá kom til atkv. á þinginu 1924 brtt. samskonar og sú, er hv. þm. Snæf. nú ber fram um afnám landsk. þm. Jeg hefi ekki haft ástæðu til þess að breyta þeirri skoðun, sem jeg hafði þá á landskjörinu, að það hefði ekki reynst að öllu leyti vel, þar sem við það kjör hafa komið inn í þingið menn, sem þjóðin hefir sjeð, að ekki ættu að vera þar, jafnvel maður, sem kallar sig pólitískan dverg. Till., sem tveir Framsóknarmenn komu með 1924 og var studd af fyrverandi forsrh. (Jóni Magnússyni), var fyrst samþykt með atfylgi hluta af stjórnarflokknum, en síðar var frv. alt drepið, og var því borið við, að ekki væri hægt að láta það lifa eftir að landskjörið væri lagt niður. Við Framsóknarflokksmenn höfum gert alt til þess að hægt væri að fá það samþykt, að þing skuli háð annaðhvert ár, en það hefir ekki tekist hingað til.

Af því að sami meiri hl. og sá, er drap frv. 1924, ræður nú úrslitum þessa máls hjer í deildinni, þá geri jeg ráð fyrir, að eins muni fara nú og þá, ef brtt. hv. þm. Snæf. verður samþykt, og mun jeg því ekki greiða henni atkv. að svo stöddu.