30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3424 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. frsm. minni hl. (IP) vildi gera það að formsatriði, sem jeg hafði á móti lengd kjörtímabilsins eftir þingrof. Það var auðvitað efnisákvæði. Það er óhentugt ákvæði, og jeg benti á það, að hægt væri að ná hugsun hv. flm. á annan hátt. Mjer þótti leitt, að hv. þm. tók þeirri bendingu svo þunglega, en jeg vona, að hann við rólega athugun sjái, að það er betri leið. Að því er snertir samkomulagsfýsi mína, þá er það nú svo, að sá flokkur, sem hv. frsm. tilheyrir, er ekki í meiri hluta í Nd., svo jeg hefi enga tryggingu fyrir því, að þær brtt., sem hann stingur upp á í þessu máli, hafi meira fylgi í Nd. heldur en tillögur þær, sem felast í stjórnarfrumvarpinu. Það er því ekki nema eðlilegt, að jeg óski þess, að frv. fari til Nd. í þeirri mynd, sem jeg tel besta. Það sannar ekkert um það, að jeg sje ófús til samkomulags, ef meiri hluti hv. Nd. felst ekki á þá tilhögun. Það er ekki rjetta leiðin til samkomulags að ganga inn á eitthvað hjer, sem ekki er víst, að nái samþykki Nd. Mín endanlega afstaða til samkomulags verður að bíða þangað til vitneskja er fengin um undirtektir Nd.

Um hinar brtt. á þskj. 272, 2., 3. og 4., skal jeg vera stuttorður. Jeg hefi tekið það fram við fyrri umræður um þetta mál, að stjórnin væri því mótfallin, að tekin væru inn í þetta frv. ákvæði, sem vitanlega væri mikill ágreiningur um og ekki hefði komið í ljós, að nauðsyn bæri til. Þetta á við um þessar þrjár brtt. Þær orka allar mjög tvímælis, svo ekki sje fastar að orði kveðið, og ekki til neinna bóta fyrir lífsvonir frv. að setja þær þar inn. Með því að svifta sýslumenn og bæjarfógeta kjörgengi virðist mjer gengið fullnærri um val á nýtum starfskröftum til þingstarfa. Þetta eru menn með lögfræðilega sjermentun og mikla reynslu, sem að gagni má koma við þingstörf og lagasetningu. Á jeg þar ekki svo mjög við dómarareynslu þeirra, heldur reynslu þeirra að því er snertir umboðs- og sveitarstjórn, en sú reynsla er mikils virði fyrir löggjafarstarfsemina. Hættan á, að þeir verði hlutdrægir, er minna tilfinnanleg með þá en ýmsar aðrar stjettir. Að því er snertir dóma, sem þeir dæma, þá má skjóta þeim til æðri rjettar, og ætti það að vera nokkur trygging fyrir því, að þeir sjeu ekki hlutdrægir. Þá fara og öll þeirra störf fram í heyranda hljóði og eru því undirorpin þeim leiðrjettingum, sem dómur almennings veitir, og er það einnig aðhald fyrir þá. Öðru máli er að gegna t. d. um læknastjettina. Sjúklingurinn, sem á líf sitt undir lækninum, getur ekki áfrýjað til æðri rjettar, ef einhver mistök verða á læknishjálpinni, hvort sem það nú er óviljaverð eða hlutdrægni, sem veldur. Viðskifti læknis og sjúklings fara venjulega ekki fram í heyranda hljóði. Þar er oft enginn til frásagnar. Það virðist því ekki vera ástæða til þess að banna sýslumönnum og bæjarfógetum þingsetu frekar en t. d. læknum. Það er meira sannmæli að banna bankastjórum þingsetu. Mjer virðist mega draga þá ályktun af reynslunni, að af þingsetu bankastjóranna geti stafað hætta og óþægindi fyrir stofnanir þær, sem þeir stýra, og sýnist vera rjett að hlífa þeim við því.

Um flutning Alþingis til Þingvalla get jeg sagt það, að það mál var mikið rætt hjer í Nd. í fyrra, en tillaga, sem laut að undirbúningi þess, var feld, og hætt er við, að það mál hefði ekki meira fylgi nú. Það er eitt, sem formælendur þess máls virðast ekki hafa komið auga á, sem sje það, að það er óhjákvæmilegt, að stjórnin hafi aðsetur sitt á Þingvöllum um þingtímann. En þær byggingar og umstang, sem af því leiddi, mundi hleypa kostnaðinum fram úr öllu hófi. Þing er hvergi í heiminum haldið annarsstaðar en þar, sem stjórnin hefir aðsetur, enda mundi afgreiðsla sumra mála ekki ganga greiðlega, ef stjórnarskrifstofurnar með tilheyrandi skjalasöfnum væru ekki nálægar.

Ekki get jeg heldur fallist á síðustu brtt., um að ræða fjárlögin við þrjár umræður í sameinuðu þingi. Sú tilhögun veitir ekki næga tryggingu fyrir góðri afgreiðslu fjárlaganna. Hitt atriðið, að láta fjárveitinganefndirnar koma saman fyrir þing til þess að stytta setu þingsins, hygg jeg, að ekki sje framkvæmanlegt nema annaðhvert reglulegt þing. Enda eru auðsæir erfiðleikarnir á þessu, þegar engin vissa er um endurkosningu. En þýðing þessa sparnaðarverður lítil, þegar ekki er gert ráð fyrir þingi nema annaðhvert ár.