30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3432 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg get ómögulega gert hv. 5. landsk. (JBald) það til geðs að fara að ræða hjer um 5. gr. frv., því að jeg veit ekki til, að nokkur brtt. liggi fyrir við hana. Hv. þm. hefir hjer gefið lögskýringu á ákvæði, sem sannarlega er í núgildandi stjórnarskrá, sem jeg álít alls ekki tímabæra. Það er engin gleymska, að ekkert bráðabirgðaákvæði hefir verið sett inn um varamenn þeirra þingmanna, sem kosnir verða áður en þetta frv. verður að lögum. Eftir því sem tilstilt er í frv. líður skamt til kosninga, og alt, sem þyrfti að ákveða, mætti setja í kosningalög, sem setja þyrfti á því sama þingi og stjórnarskráin verður til fullnustu samþykt. En með þeim kosningalögum er auðvitað ekki hægt að breyta kjörtímabili þeirra þingmanna, sem búið er að kjósa.

Það var ánægjulegt að hlusta á þessa skemtilegu sögu, sem hv. þm. fór að segja af flokksbróður sínum Mussolini, sem var eldrauður sósíalisti þangað til hann tók stjórnartaumana, og á frásögn hans af viðkynningu minni af hinu fagra landi. Jeg sje enga ástæðu til að spilla þeim hugmyndum, sem hv. þm. hefir um þetta. Jeg þarf svo aðeins að leiðrjetta það, sem hv. þm. sagði, að jeg hafi jafnvel áður en jeg kom til landsins úr suðurför minni farið að ráðstafa ýmsum embættum, t. d. bankastjóraembætti og jafnvel konungsritaraembættinu. Þetta er algerður hugarburður, og hafi verið reynt að fá loforð frá mjer, þá hefi jeg látið alla þá menn, er þeirra hafa leitað, synjandi frá mjer fara. (JJ: Ekki sá, sem fjekk það). Jú, með öllu, og þess vegna fór sú veiting eins fram sem hún fór. Jeg vil taka undir það með hv. þm., að svo skemtilegt er að fara til Ítalíu, að jeg er sammála manninum úr Brjánsbardaga um það, að renna mundi jeg þangað 2. og jafnvel hið 3. sinn, ef mig ljetu lausan — ekki þeir djöflar — heldur þeir hv. þm., sem nú halda mjer rígföstum með sínum löngu ræðum hjer í þessari hv. deild.