05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3436 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Í frv. er stungið upp á þeirri málamiðlun, að kjörtímabil hinna kjördæmakosnu lengist um tvö ár, en kjörtímabil hinna landskjörnu styttist um tvö ár. Jeg skal út af ummælum hv. þm. Str. (TrÞ) segja það, að jeg tel sjálfsagt, ef breyting er gerð á stjórnarskránni á annað borð, að gera slíka breytingu eða lagfæringu á landskjörinu, að ekki þurfi að stofna til almennra kosninga að meðaltali annaðhvert ár. Er það sjálfsögð breyting. En hvernig menn vilja svo hafa kjörtímabilið, er ekkert aðalatriði og má ekki skoða sem beint skilyrði fyrir því, hvað ofan á verður um lenging kjörtímabilsins. Stjórnin hefir nú stungið upp á, að sanngjarnt væri að stytta það að nokkru og lengja að nokkru. En um það má ræða og verður náttúrlega athugað hjá nefnd þeirri, er hjer hefir verið kosin og fær mál þetta til meðferðar.