28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3437 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Það er dálítið óþægilegt fyrir mig að eiga að hafa orð fyrir hv. meiri hl., þar sem jeg mun því minst fylgjandi allra nefndarmanna að gera að þessu sinni breytingar á stjórnarskránni, a. m. k. þær breytingar, er frv. hæstv. stjórnar gerir ráð fyrir. — Eins og hv. þd. er kunnugt, eru nokkur ár síðan farið var að hreyfa því, að breyta þyrfti stjórnarskránni þannig, að Alþingi yrði aftur háð einungis annaðhvert ár. Álíta menn, að allmikinn sparnað megi af þessu leiða, og er nú svo að sjá, sem kjósendur sjeu því alment fylgjandi. Því gat jeg (með skilyrðum þó) fallist á, að tilraun verði gerð í þessa átt, enda þótt jeg sje persónulega sannfærður um það, að ekki verður langt að bíða þar til fjárlagaþing verður aftur á hverju ári. Þótt einhver sparnaður verði af þessu, er jeg viss um, að í reyndinni verður hann ekki líkt því eins mikill og fylgismenn frv. gera sjer vonir um. Þingið hlýtur að verða lengra, er starf þess eykst, sumpart af því, að meira verk er að setja fjárlög fyrir tvö ár en eitt, og sumpart af því, að almenn löggjafarstörf hljóta að aukast, ef ekki eru eilíf aukaþing. Og mjer virðist það í sjálfu sjer mjög eðlilegt, að þingtíminn verði lengri, eftir því sem löggjafarstörfin verða fjölbreyttari. Jeg álít það því tvímælalaust spor í öfuga átt, beina afturför frá því, sem nú er, að hafa þing aðeins annaðhvert ár. — Yfir því hefir verið kvartað, og ekki síst af ráðherrum á ýmsum tímum, að erfitt sje að búa til fjárlagafrv. fyrir eitt næsta ár, svo sem nú er, ekki síst sakir þess, hve löngu áður þarf að ganga frá frv. heldur en það gengur í gildi. Einu sinni bar hæstv. núv. forsrh. (JÞ) fram till. um að breyta fjárhagsárinu, mest af þessum ástæðum. Hún náði ekki fram að ganga, sakir þess, að ekki þótti víst, nema sumarþing yrðu aftur upp tekin, en því fyrirkomulagi gat frv. hæstv. ráðh. (JÞ) illa samrýmst. Verði því slegið föstu að hafa þinghald á þeim tíma, sem nú er, tel jeg sjálfsagt að breyta fjárhagsári í samræmi við þessa till. — Nú ætti það að liggja í augum uppi, þegar svo erfitt er að semja fjárlagafrv. fyrir eitt ár, að margfalt erfiðara verður að semja það, ef öðru ári er bætt við. En þar sem jeg hefi nú fallist á það til samkomulags, að fyrirkomulag frv. sje reynt um sinn, mun jeg ekki fara lengra út í þetta. — Jeg hlýt að bregðast þeim vonum, sem sumir háttv. meðnefndarmenn mínir kunna að hafa gert sjer um, að jeg mælti fyrir þessari breytingu með rökum. Það er einfaldlega af því, að jeg kann engin rök fyrir henni.

Öðru máli er að gegna um hina aðaltill. meiri hl., þá, að leggja niður landskjörið. Jeg hefi altaf verið þeirrar skoðunar, að landskjörið sje mjög óheppilegt fyrirkomulag. Upphaflega var því ætlað að koma í stað konungkjörsins, sem áður var. En það sjer hver maður, að það getur það ekki gert. Konungkjörnir þm. voru skipaðir af stjórn landsins og höfðu það hlutverk að styðja hana og mynda festu í þinginu. Jeg er ekki að halda því fram, að þetta hafi verið heppilegt fyrirkomulag, eða að æskilegt væri að taka það upp af nýju. Jeg er aðeins að sýna, hve ólíkt það er landskjörinu, sem nú er. Reynslan hefir sýnt, að ráðagerðir þær, sem í upphafi voru um, að kosnir yrðu í landskjöri reyndir stjórnmálamenn og gamlir þingmenn, hafa algerlega orðið að engu. Það er upp og ofan, svo sem um aðrar kosningar, og ráða flokksstjórnirnar mestu um það, hverjir boðnir eru. Með frv. hæstv. landsstjórnar færist skipulag landskjörsins enn fjær því, sem upphaflega var áformað, því að landskjörnir þm. eiga að kjósast til sama tíma og aðrir þm. og þingrof einnig að ná til þeirra.

Mjer finst, að úr því að farið var að breyta, þá hefði átt að stíga sporið fult og hafa sama kosningaaldurstakmark. Jeg þarf ekki að leiða rök að því, að sparnaður sje að því að fella niður landsk. þm. Með því er þm. fækkað um 1/7, og þó kostnaðurinn minki auðvitað ekki að sama skapi, þá lækkar þó þingfararkaupið að mun. Líka má búast við því, að prentkostnaður lækki o. fl. Jeg get lýst yfir því, að meiri hl. nefndarinnar er þessu eindregið fylgjandi og getur ekki fallist á, að ástæður minni hl. þessu viðvíkjandi sjeu að nokkru hafandi. Hann ber því við, að með þessu sje málinu stefnt í voða. En það er ekkert upp úr því leggjandi. Það er nógur tími fyrir þessa deild að athuga, hvað fast hún á að halda í þetta atriði, þegar hún hefir sjeð, hvernig hv. Ed. snýst við því. Þá segir hann, að þetta muni ennfremur ýta undir kröfurnar um breytta kjördæmaskipun. Jeg fæ ekki sjeð, að þær styrkist, þó landskjörið verði felt niður. Það má gera ráð fyrir því, að þm. verði fjölgað eitthvað áður en langt líður, og því frekari ástæða er til þess að samþykkja þessa brtt., svo þm. verði ekki fleiri en þeir eru nú. Jeg held, að það sje heppilegra fyrirkomulag, að þm. sjeu kosnir í einstökum kjördæmum, heldur en þeir sjeu kosnir með hlutfallskosningum um land alt eða í stærri kjördæmum. Jeg held, að með því fái einstaklingarnir betur að njóta sín og þjóðinni sjeu með því trygðir betri þm. Þegar um hlutfallskosningar er að ræða og kjördæmin eru stór, þá taka flokksstjórnirnar í raun og veru ráðin af kjósendunum. En með því fyrirkomulagi, sem nú er, getur slíkt ofbeldi ekki þrifist, sem það mundi ella gera. Það er gert ráð fyrir því, að nokkrir menn úr nefndinni komi fram með brtt. við 3. umr. um, að ekki megi breyta því með einföldum lögum, að þing skuli aftur haldið á hverju ári, og ef til vill um fleiri atriði. Jeg skal lýsa yfir því, að jeg er þeim brtt. andvígur, og geri það meira að segja að skilyrði fyrir fylgi mínu við frv., að ákvæðin um þetta efni sjeu eins og þau eru nú í stjfrv., að þessu megi breyta með einföldum lögum. Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta.