28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Pjetur Ottesen):

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) vjek með nokkrum orðum að ræðu minni, og vil jeg svara honum aðeins stuttlega.

Það kom mjer ekki á óvart, eftir afstöðu þeirri, sem hv. þm. er vanur að taka til þjóðmála, að hann gerði lítið úr því atriði, að um sparnað væri að ræða. Það er sem sje sannreynt, að hann horfir ekki í útgjöldin úr ríkissjóðnum, á hvaða sviði sem er, og mjer finst ofur skiljanlegt, að honum þyki það lítilmótlegir hlutir að vera að tala um að halda í fje ríkisins. Vitanlega er það hliðstætt eða afleiðing af þeirri skoðun hans, að ríkið eigi að sjá öllum fyrir öllu. En burtsjeð frá því, þá kom mjög fram vanþekking hv. þm. (HjV) á störfum Alþingis í þeim ummælum hans, að afgreiðsla fjárlaganna tæki ekki nema lítinn hluta þingtímans. Jeg hjelt, að flestum hv. þm. væri kunnugt, að lengd þingtímans markast einmitt mjög mikið af afgreiðslu fjárlaganna. Þegar henni er lokið, er venjulega ekki langt til þingslita.

Þá mintist hv. 4. þm. Reykv. á núgildandi kjördæmaskipun og fann henni það helst til foráttu, að persónulegur kunningsskapur mundi koma um of til greina um val þm. Það er í mínum augum mikill kostur við núverandi kjördæmaskipun, að kjósendur geta valið menn á þing eftir nánum kynnum af starfsemi og hæfileikum frambjóðenda. Það er vitanlega fjarstæða, sem hv. þm. hjelt fram, er hann var að tala um stærri kjördæmi og hlutfallskosningar, að þá vissu kjósendur, hverja þeir væru að kjósa. Þetta er alveg öfugt. Einmitt með þeirri skipun, sem nú er um þessa hluti, vita þeir, hverja þeir kjósa, en renna annars blint í sjóinn, er miðstjórnir flokkanna ákveða, hverjir sjeu í kjöri, og mundi þá oft eða oftast teflt fram mönnum, sem kjósendur víðsvegar á landinu þekkja ekki nema af afspurn, og kannske tæplega það. Þá hneykslaðist hv. þm. á því, að jeg ljet svo um mælt, að ekki væri rjett að leggja höfðatöluna eina til grundvallar fyrir kjördæmaskipuninni. Hann sjer vitanlega engan annan rjettmætan grundvöll undir kjördæmaskipuninni en höfðatöluna. En jeg vil benda honum á annað, sem líta verður á og taka til greina. Og það er hjeraðaskiftingin. Kjördæmin eru mikið til sjálfstæðar heildir út af fyrir sig og hafa sjerstöðu um atvinnuhætti hvert fyrir sig. Eina ráðið til þess að tryggja nægan kunnugleika og þekkingu á högum og þörfum hvers hjeraðs er því að halda þeirri kjördæmaskipun, sem nú er. Annars er hætt við, að afskektari hjeruð mundu mjög fara varhluta af þeirri tryggingu, sem í því felst að hafa kunnugan fulltrúa á þingi. Ennfremur finst mjer rjettur kjósenda betur trygður með því, að hvert hjerað eigi sem óbundnast frumkvæði að því, hverjir sjeu í kjöri, heldur en ef það er gert eftir skikkan miðstjórna hinna pólitísku flokka í landinu. Þarf jeg ekki nánar að fara út í það. Háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) gerði áðan grein fyrir því öryggi og tryggingu, sem fólgin er í núverandi kjördæmaskipun, og sje jeg ekki ástæðu til að endurtaka það. En hv. frsm. meiri hl. (JakM) þarf jeg að svara örlitlu. Honum þótti jeg ekki komast að rjettri niðurstöðu um árangur af breytingu á stjórnarskránni 1919, að því er þinghaldið snertir. Hann hjelt því fram, að vitanlega hefðu þingin orðið þeim mun lengri og kostnaðarsamari, ef afgreiðsla fjárlaganna hefði farið fram fyrir tvö ár í senn. Þótt ekki sje fyllilega sambærilegt, er samt hægt að sækja samanburð aftur í tímann og taka t. d. tvö síðustu þingin, sem afgreiddu fjárlög fyrir 2 ár, 1917 og 1919. Árið 1917 varð þingkostnaður 171 þús. kr., en 1919 mun meiri, eða 234 þús., og má geta þess, að auk þess sem þingið 1919 afgreiddi tveggja ára fjárlög, gekk það frá stórvægilegum breytingum á launalögunum, en það lengdi þingið allverulega. Hinsvegar afgreiddi þingið 1921 eins árs fjárlög; það kostaði hvorki meira nje minna en 384 þús. kr., og svo t. d. þingið 1924, sem kostaði 202 þús. Þessi samanburður færir því heim sanninn um það, að þetta, sem spáð var 1919, hefir fullkomlega ræst.

Hv. frsm. (JakM) þótti kenna mótsagnar í því, að jeg hafði gert ráð fyrir, að afgreiðsla fjárlaga fyrir tvö ár í senn mundi ekki lengja þingtímann að mun, en kosta stjórnina meiri tíma og erfiði að undirbúa þau svo. Störf fjvn. á þingi fara mikið eftir því, hvernig fjárlögin eru frá hendi stjórnarinnar úr garði gerð. En jeg verð að segja það, að nú síðastliðin þing hefir það verið svo, að fjvn. hefir ekki þurft að leggja mikið verk. Í að athuga frágang fjárlaganna frá stjórninni. Hann hefir reynst vera mjög góður. Starf nefndarinnar er vitanlega fyrst og fremst að athuga þau fjárframlög, sem ekki eru lögbundin, það eru fjárframlög til verklegra framkvæmda, hvernig þeim skuli skift niður, og svo hitt, með hliðsjón af tekjunum, að ákveða, hversu langt sje fært að ganga í útgjaldaáttina. En því fer fjarri, að þetta verk aukist að tiltölu við árafjöldann. Munurinn er næsta lítill, hvort um er að ræða afgreiðslu fjárlaga fyrir 1 eða 2 ár.

Þá mintist hv. frsm. á landskjörið og brtt. þær, sem liggja fyrir, og um afstöðu hv. Ed. til þeirra. Með tilliti til þess, að í frv. er um mjög mikilsverð atriði að ræða, sem minni hl. leggur mikið upp úr að nái fram að ganga, þá virðist minni hlutanum það nauðsynleg varfærni að setja ekki nein þau ákvæði inn í frv., er gætu orsakað stríð milli deildanna, eða ef til vill orðið stjórnarskrárbreytingu að falli. Frá hálfu minni hlutans er sú aðstaða, sem hann hefir tekið gagnvart brtt. um niðurfelling landskjörs, þess vegna sprottin af því tvennu, að með því að samþ. þessa breytingu mundi málinu ef til vill teflt í tvísýnu í Ed., og auk þess mundi niðurfelling landskjörsins verða til þess að ýta undir kröfurnar um breytta kjördæmaskipun. Þetta eru ástæður minni hlutans fyrir því að leggjast á móti þessari breytingu, en ekki hitt, að landskjörið sje svo nauðsynlegt í sjálfu sjer.