28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3477 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Þórarinn Jónsson:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að taka til máls að þessu sinni. Háttv. þm. Ak. (BL) hefir tekið fram eitthvað svipað og jeg vildi segja. Jeg get tekið undir með honum, að mjer sýnist ekki fylgja þessu frv. nógu mikil alvara frá hálfu stjórnarinnar, þar sem segja má, að tekið sje aftur með annari hendi, sem gefið er með hinni. Á jeg þar við það, að þessu ákvæði, þinghaldi annaðhvert ár, má breyta með einföldum lögum. Á hina hliðina er það líka álitamál, hvort það verður farsælla í framkvæmd. Störfin aukast og þættirnir margfaldast í fjárhagsviðskiftum þjóðarinnar, og því minni líkur verða í rauninni til þess, að fresta megi að gera fjárlög um eitt ár. En jeg vil þó fylgja þeim mönnum, sem þessa skoðun hafa, að því leyti, að þetta verði reynt. Og þá lít jeg á það sem hreint sparnaðarmál, sem ekki megi undir höfuð leggjast að láta reynsluna skera úr, og að það verði þá þrautreynt. Fyrir því vil jeg fella niður það ákvæði, að þessu verði breytt með einföldum lögum, því vel má vera, að þó óálitlegt sýnist í fyrstu, þá megi þó með festu og ríkri viðleitni koma því í það horf, er una megi við.

Hvort þinghaldið yrði lengra annaðhvert ár, verður ekkert um sagt, enda er það ekki nema aukaatriði. Og þingin nú sýnast geta teygt úr sjer, þó þau sjeu á hverju ári.

Það var hv. þm. Borgf. (PO), sem gat þess, að álit meiri hl. væri svo, að hann gerði að skilyrði, að ný breyting yrði samþykt til að fylgja málinu. Þetta er að því leyti rjett, að það eru nokkrir menn í honum, sem þetta skilyrði setja ófrávíkjanlega; en hvað mig snertir, þá má þó falla svo, að jeg fylgi frv. eins og það er, þótt jeg álíti aðalbreytingu nefndarinnar, niðurfellingu landskjörs, þá langsamlega þýðingarmestu. Fyrst er það, að jeg álít, að þingmönnum eigi að fækka. Við höfum miklu fleiri þingmenn en nokkur önnur þjóð. Og í öðru lagi hefi jeg heldur ekki sjeð, að landskjörið hefði nokkur áhrif í þá átt að skapa festu í þinginu. Er þetta líka það mesta sparnaðaratriði í öllu málinu. Fer þar saman, að niður fellur þingfararkaup þessara manna og hitt, að losast er við þann gífurlega kostnað, sem landskjöri fylgir.

Háttv. þm. Borgf., sem jeg hefði helst getað búist við, að væri með þessari breytingu, því að hann er alþektur sparnaðarmaður og hefir unnið af kappi að fækkun embættismanna, hefir ekki sjeð sjer fært að ljá brtt. fylgi sitt. Tek jeg það svo, að álit hans í þessa átt sje að sljóvgast.

Það má búast við, að hv. Ed. taki ekki vel slíkri till. sem þessari. En jeg get ómögulega slegið af skoðunum mínum vegna Ed. Mjer kemur heldur ekki til hugar, að það hafi áhrif á undirtektir Ed., að landskjörnir þingmenn eiga þar sæti. En þótt við gerðum ráð fyrir, að enginn þeirra 6 hv. landsk. þm. vildi fremja sjálfsmorð, þá eru þar samt nógu margir þingmenn aðrir til þess að afgreiða málið á þeim grundvelli, ef þeim þykir þetta nokkru skifta.

Það, sem haft er á móti þessu atriði, er hættan við háværar kröfur um fjölgun þingmanna, og landskjörið eigi að vera nokkurskonar uppbót fyrir hin fjölmennari kjördæmi, sem þykjast hafa of fáa þingmenn, samanborið við önnur kjördæmi, miðað við fólksfjölda, eins og t. d. Reykjavík. En þetta er hin mesta fjarstæða. Þingmannafjölgun fer ávalt eftir skoðun þingsins á þeim málum, og getur þetta, þó samþykt yrði, engin áhrif haft á það. Jeg vil og fyrirbyggja, að þetta geti orðið til þess að fjölga þingmönnum, með því að slá föstu, að þingmenn megi ekki vera fleiri en 36.

Þar sem oft hefir verið um það talað, að við ættum sem sjaldnast að gera breytingar á stjórnarskránni, þá verður ekki sjeð, að hugur hafi fylgt máli, ef dæma á út frá reynslunni. Því að undanfarið hafa margar breytingartillögur komið fram og breytingar verið gerðar. En úr því farið er að gera breytingar, þá hefði jeg kosið þær rækilegri en þetta og meiri alvöru á bak við. Jeg hefi ekki getað dregið mig svo í hlje, að stuðla ekki að því, að þessi stærsta breyting komist að. Það er ómögulegt að halda því fram í alvöru, að þetta atriði sje líklegt til að verða málinu að falli. Því að stjórnin getur unnið fyrir málið á þeim grundvelli í Ed., og þó að hún gerði það ekki, kæmi málið aftur fyrir í þessari deild, og það er aðgætandi, að hæstv. stjórn hefir ekki afl til að koma því fram hjer með þeim skilyrðisbundna stuðningi, sem það hefir, svo að frv. er þá alveg jafndauðadæmt, hvort till. er samþ. ellegar ekki.

Það eru að vísu fleiri atriði, sem jeg hefði viljað minnast á, en jeg get slept því algerlega. Jeg hefi nú tekið fram það helsta um þær breytingar, sem jeg vil fylgja fram.

Jeg sje ekki annað en að meiri hl. nefndarinnar hafi farið rjetta leið — að sjá, hvernig hv. deild liti á málið. Þó að komið hafi fram ýmsar mótbárur gegn þessari aðalbreytingu nefndarinnar, ætla jeg að sleppa þeim í þetta sinn. Jeg get búist við, að tækifæri gefist til að athuga þær við 3. umræðu.