02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3487 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Halldór Stefánsson:

Jeg mun ekki fara út í almennar umr. um þetta frv., þó að til þess væri nokkur ástæða, en láta mjer nægja aðeins að gera grein fyrir þeim brtt., sem jeg flyt á þskj. 461.

Þetta frv. sjálft og þau ákvæði, sem í því eru til breytinga á stjórnarskránni, voru aðallega rökstudd með því, að þau væru til sparnaðar. Það er höfuðástæðan, sem færð hefir verið fyrir þeim, og svo í öðru lagi, að þjóðin vilji breytingarnar, og þá mun vilji þjóðarinnar einnig vera bygður á þeirri ástæðu, að það sje sparnaður.

Till. sú, sem hv. meiri hl. nefndarinnar flutti hjer við 2. umr. um niðurfelling landskjörs og fækkun þm., var líka aðallega rökstudd með því, að hún væri til sparnaðar. Sú till. er nú fallin, eins og kunnugt er, og því óþarft að ræða um hana.

Hinsvegar er það að segja um aðalatriði frv. þess, sem fyrir liggur, fækkun þinga, að þó að játa megi, að það myndi að vísu vera sparnaður, þá hygg jeg, að sá sparnaður verði minni en menn gera sjer vonir um, bæði vegna þess, að fjárlagaþingin verða lengri og eins vegna hins, að þá myndi það verða mjög títt, að aukaþing yrðu háð, og við vitum það af reynslu síðari ára, áður en ákveðið var að hafa þing á hverju ári, að þá voru aukaþing mjög tíð. Auk þess hefir sú leið, sem hjer er stungið upp á í frv., þann höfuðókost, að það dregur úr áhrifum og valdi þjóðarinnar á stjórn landsins, og af þessum ástæðum býst jeg ekki við að geta að lokum verið með þessu frv., nema því aðeins, að fleiri ákvæði, sem jeg tel að sjeu til verulegra bóta, kæmust að við meðferð málsins.

Það er nú ekki fyrir það, að jeg viðurkenni ekki, að sparnaðarleiðin sje algerlega rjettmæt ástæða í sjálfu sjer, ef hún er ekki of dýru verði keypt, en það eru til fleiri leiðir í sambandi við þetta mál til sparnaðar heldur en þær, sem enn hafa komið fram, að öðru leyti en því, sem þær liggja fyrir í mínum till.

Ef hægt væri að koma því svo fyrir, að þingin stæðu að miklum mun skemur en nú er, án þess að verulegur bagi væri að fyrir þingstörfin, þá væri að því mikill sparnaður, og það er áreiðanlegt, að þjóðin kvartar um það engu síður, hve þingin eru löng, heldur en um aðalatriði frv. — þingafækkunina —, sem hjer liggur fyrir.

Það eru eðlilegar ástæður fyrir því, hvers vegna þingin eru svo löng, og er þá fyrst að nefna þann málafjölda, sem jafnan liggur fyrir og sem lítur út fyrir að stafi af því, að þjóðlífið tekur svo margvíslegum og örum breytingum, að altaf þurfi að vera að sníða um stakkinn. Samt sem áður getur verið álitamál um það, hvort ekki mætti vel hlíta, þótt breytingar á löggjöfinni væru ekki eins örar og á sjer stað, og er vafamál, hvort mikill bagi væri að, þótt það gengi meira hægfara. En önnur ástæða til lengdar þinga er tvímælalaust þingsköpin; þau gera ráð fyrir ítarlegri meðferð málanna, og þar til heyrir þá náttúrlega tvískifting þingsins og það, að hverju máli eru áskildar þrjár umræður með hæfilegum fresti, og að málin geta svo komið til einnar umr. í hvorri deild og loks fyrir sameinað þing, svo að það geta verið 9 umr. um hvert mál. í sjálfu sjer ber ekki að lasta þetta, ef það er algerlega nauðsynlegt, en þá er það að athuga, hvort það er jafnnauðsynlegt um öll mál. Róttækasta leiðin í þessu efni væri sú, að afnema deildaskiftingu þingsins, og jeg fyrir mitt leyti gæti gengið að slíkri till. En jeg býst þó við, að þetta sje fjarri því, sem alment er álitið, og væri því þýðingarlaust að bera slíka till. fram, enda hefi jeg ekki ráðist í það. Öðru máli væri að gegna, ef tvískiftingin væri afnumin um þetta eina mál, sem jeg hefi nú stungið upp á. Fjárlögin eru að sumu leyti yfirgripsmesta mál þingsins, og jeg get bætt við, þýðingarmesta mál þess. Af þessu leiðir þó ekki, að það mál þurfi að fá sömu meðferð og önnur mál, og stafar það af því, að það er annars eðlis en öll önnur löggjafarmál. Fyrst er þá það, að það er tiltölulega einfalt atriði að taka afstöðu til fjárlaganna. Þar þarf annarsvegar aðeins að taka afstöðu til heildarniðurstöðu fjárlaganna, hver hún megi og eigi að vera, og hinsvegar til hinna einstöku till., er fyrir kunna að liggja. En til þess að menn geti gert það, ætti málið ekki að þurfa að fara í gegnum 9 umr. í þinginu. Fjárlögin, þó að umfangsmikil sjeu, eru annars eðlis en almenn löggjafarmál. Það má aftur segja, að um öll hin vandasamari mál sje miklu erfiðara að taka afstöðu, vegna þess að þau grípa inn í alt löggjafarkerfi vort og líka inn í þjóðlíf vort og verða því aldrei of vel athuguð. Þá stendur sjerstaklega á um fjárlögin að öðru leyti, en það er það, að svo er ákveðið, að ekki megi slíta þingi fyr en þau hafi verið samþykt. Eru þau eina málið, sem svo stendur á um. Það má hlaupa frá öllum öðrum málum óafgreiddum. Sá undirbúningur, sem málin hafa fengið, þyrfti ekki að verða ónýtur fyrir það, en bíður þá bara seinni tíma. Raunar tefjast málin við það, að farið er frá þeim áður en þau eru afgreidd, en þau bíða þá aðeins til næsta þings, og í flestum tilfellum gætu þau grætt við þá athugun, sem þau fengju á þessum fresti.

Af þessum ástæðum, sem jeg nú hefi nefnt, hefi jeg leyft mjer að bera fram till., sem fer í þá átt að gera undantekningu frá tvískiftingu þingsins um fjárlögin, að þau komi aðeins fyrir þingið óskift, sameinað Alþingi. Þessi næstliðnu þing, sem jeg þekki til, hafa yfirleitt verið álíka löng, þetta frá 90–100 daga. Þykir þetta langur tími og er of langur, bæði fyrir kostnaðar sakir og vegna þess, að margir þm. geta hvorki nje mega vera svo langan tíma að heiman eða frá starfi sínu. En það er nú svo, að þingin eru aldrei lengd neitt verulega eftir að fjárlögin eru afgreidd, og jeg býst líka við því, að með óbreyttum þingsköpum verði heldur ekki hægt að gera ráð fyrir, að þau verði neitt verulega styttri. Að vísu er það svo, að tíminn, sem fjvn. Nd. hefir fjárlögin til meðferðar, hefir verið þessi undanförnu þing um 5–7 vikur, og sýnist það í rauninni vera óhæfilega langur tími. En þegar rætt er um þetta við fjvn.-menn, þá vilja þeir ekki við það kannast, að þeir geti komist af með styttri tíma. Og með öllum frestum og umr. um málið er ekki hægt að búast við því, að þingin verði styttri, ef meðferð sú er höfð á fjárlögunum, sem þingsköp ákveða. En það gæti munað miklu, ef menn vildu fallast á afgreiðslu fjárlaganna í óskiftu þingi. Þingin ættu þá að geta orðið þriðjungi styttri vegna fjárlaganna sjálfra. Og þó að þá yrði kannske að fara frá mörgum málum óafgreiddum, þá teldi jeg það engan sjerstakan baga, því að þau frv., sem mest væru aðkallandi og síst mættu bíða, mætti þá láta sitja fyrir öðrum, og jeg held, að það væri ekki nema hollur hemill á hina öru og þýðingarminni löggjöf vora, þótt slík mál yrðu að bíða til næsta þings.

Jeg býst nú við, að þær ástæður verði færðar á móti till. minni, að ekki yrði þá eins örugt um, að fjárlögin yrðu eins skipulega afgreidd og nú og ekki eins trygt, að heildarniðurstaðan yrði sú, sem hún ætti að vera að rjettu lagi, með tilliti til allra ástæðna. Jeg býst við, að menn hafi einkum í huga, að þetta mundi leiða til meiri útgjalda og að hin fjárhagslega niðurstaða fjárlaganna yrði verri, meiri tekjuhalli eða minni afgangur. En jeg hyggst nú að geta stutt till. mína með því, meðal annars, að líkindi sjeu til, að afgreiðsla fjárlaganna yrði skipulegri eftir en áður og að síður væri hætt við, að samþykt yrðu ónauðsynleg útgjöld. Því að það liggur í augum uppi, að þessar mörgu umr. eru opnar leiðir og tækifæri til þess að koma inn í fjárlögin nýjum og nýjum liðum til útgjalda. Jeg þykist hafa tekið eftir því, eftir þeirri reynslu, sem jeg hefi í þessum efnum, að því lengra sem líður á meðferð fjárlaganna, því auðveldara virðist að koma inn till., sem helst mættu verða útundan og minst nauðsynlegar eru. Jeg hefi hjer fyrir mjer yfirlit yfir rekstur fjárlaganna nokkur undanfarin ár, og heildarblærinn er sá sami, sem jeg hefi lýst. Það er auðvitað ekki sönnun þess, að ónauðsynlegustu útgjöldin komi inn síðast, en það er sönnun þess, að útgjöldin hækka altaf eftir því, sem á líður. Það er ekki altaf, að fjárlögin koma fyrir Sþ., heldur annaðhvort að Nd. gengur að þeim eins og þau hafa verið samþ. af Ed. eða að Ed. gengur að þeim eins og þau hafa verið samþ. við eina umr. í Nd. Lítur út fyrir, að ástæðan sje einmitt sú, að menn óttist óþörf útgjöld og óskipulega afgreiðslu fjárlaganna, ef leiðinni er lengur haldið opinni.

Þjóðin er ekki sýtingssöm um fjárveitingar, sem hún telur að vel sje varið, en hitt hefi jeg heyrt, óánægju um ýmsar fjárveitingar, sjerstaklega til einstakra manna. Um slíkar fjárveitingar má hiklaust segja, að það orkar oft tvímælis, hvort rjettmætar eru eða þarfar, einkum þegar litið er á, hvernig ríkið fær tekjur sínar í mörgum tilfellum, með því að heimta þær með harðri hendi jafnvel af sárfátækum fjölskyldumönnum með því að tolla nauðsynlegar þurftarvörur, þá er ekki óeðlilegt, að kvartað sje yfir því, að í fjárlögum sjáist fjárveitingar, sem sje gálauslega varið. Að þessu hnígur síðasta brtt. mín, 2.b. Hún á að gera það erfiðara að fá samþ. fjárútgjöld, sem veitt eru á nöfn til einstakra manna, vegna þess að þær till. orka altaf tvímælis, hvort rjettmætar eru. Er áskilið, að það þurfi 3/5 hluta atkv. til þess að fá þær samþ. En það ætti ekki að hamla því, að þegar um er að ræða viðurkenda verðleika eða þjóðarnauðsyn, þá verði hægt að fá þann litla meiri hl., sem hjer þarf yfir einfaldan meiri hl., til þess að þær till. nái samþykki, sem eru þess eðlis, að þær hafa fylsta rjett á sjer.

Eins og jeg hefi áður vikið að, er aðalröksemdin fyrir þessu frv., sem hjer liggur fyrir, sparnaður, og ekkert annað. Jeg hefi nú borið fram þessa till. vegna þess, að jeg viðurkenni, að þessi röksemd sje rjettmæt, ef hægt væri að fá þessi gæði án þess að kaupa þau of dýru verði. Jeg vil með brtt. mínum gefa mönnum kost á að sýna, hve mikil alvara fylgir þessari höfuðástæðu, sem talin er til breytingar á stjórnarskránni. Þetta eru auðvitað nokkur nýmæli, og verið getur, að menn sjeu ekki búnir að hugsa þau til fulls eða að þeir geti ekki fallist á þá hugsun og þau rök, sem jeg hefi hjer látið fylgja. En fari svo, að till. mínar verði ekki samþ., þá vona jeg samt, af því að jeg er sannfærður um rjettmæti þeirra, að þeim muni aukast fylgi með tímanum og verða teknar til greina síðar, er hugsað verður til breytinga á stjórnarskránni.