02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3493 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Torfason:

Jeg á brtt. við þetta frv. á þskj. 468, og ber að skoða þær sem nokkurskonar greinargerð fyrir atkvgr. minni við 2. umr. málsins. Jeg greiddi þá atkv. gegn því, að frv. gengi til 3. umr. Brtt. mínar eru vottur um það, hvers vegna jeg var á móti því, að málið gengi þannig lagað áfram í þinginu.

Stjórnarskrá eins lands er grundvöllurinn undir þjóðskipulagi þess, og sá grundvöllur, sem almennar lagasetningar og framkvæmdir eiga að byggjast á. Hún er alstaðar annarsstaðar, eins og kunnugt er, skoðuð sem dýrgripur eða helgidómur, sem ekki má hrófla við nema nauðsyn reki til. En hjer er því öðruvísi háttað. Það lítur svo út, sem hjer sje sú skoðun uppi, að hver maður hafi leyfi og rjett til þess að bera fram stjórnarskrárbreytingu á hverju þingi, alveg eins og menn bera fram breytingar við hrossakynbótasamþyktarlög og annað slíkt. Að þetta á sjer stað hjer, hefir sína orsök, og hún er sú, að sjálfstæðisbarátta vor var í því fólgin að búa til stjórnarskipunarlög eða breyta þeim. Það var ekki hægt með öðru móti að sækja rjett vorn í hendur erlendrar þjóðar en með því að breyta þessum lögum. Það var því ekki nema eðlilegt, eins og sú barátta var löng, að það kæmu fram margar till. um breytingar á stjórnarskránni. Nú er þessi ástæða, að berjast fyrir auknum rjetti þjóðarinnar með breytingum á stjórnarskránni, fallin burtu með sambandslögunum frá 1918, sem ekki er hægt að breyta fyr en 1943. Þess vegna hjelt jeg, að hlje yrði á því, að menn færu að breyta slíkum lögum, og að það yrði ekki gert nema alveg sjerstök ástæða væri til þess. Sjerstaklega hjelt jeg, að ein stjórn mundi ekki fara að bera fram slíkar breytingar, nema annaðhvort nauður ræki til ellegar stjórnin væri með þessu að láta þjóðina fá rjettarbót, sem henni fyndist, að ekki mætti bíða og sem þjóðin mundi tveim höndum taka. En í frv. eins og það er lagt fram er engin slík rjettarbót. Þvert á móti; þar eru eintómar rjettarskemdir. Þannig var málið, er það kom til Nd., en jeg játa það fúslega, að þessari hv. deild hefir tekist að sníða af því verstu gallana, sem horfðu til baka, en ekki fram, og voru rjettarskemdir.

Jeg verð nú að segja það um aðalbreytinguna, sem er eftir í frv., að hún er í sjálfu sjer rjettarskemd. Vitaskuld má hjer segja, að ekkert er svo ilt, eð ekki fylgi nokkuð gott. Aðalbreytingunni, sem er þing annaðhvert ár, fylgir þó væntanlega, samkvæmt áliti tillögumanna, sú bót, að þingkostnaðurinn sparast, að minsta kosti fyrstu árin. Þó skal jeg alls ekkert um það fullyrða. Því að jeg ætla ekki að ganga út frá því, að málið, eins og það hefir komið fram, sje svo ilt og óheilindin svo mikil, að jafnvel þeir, sem barist hafa fyrir því, trúi ekki á það, að sparnaður verði að því.

Það vita allir, að það hefir verið flaggað með því, að þetta sje ágæt sparnaðartill. En það er ekki þar fyrir, jeg veit, að til eru þeir menn, sem hafa haldið að kjósendum þessari stjórnarskrárbreytingu, jafnvel þó að flokkur þeirra hafi verið á móti henni. Jeg veit meira að segja af manni, sem hefir gerst upphafsmaður að því að halda þessu að þjóðinni gagnvart flokki sínum. Mjer er kunnugt um, að það eru ekki aðeins Framsóknar- og íhaldsmenn, heldur líka Jafnaðarmenn, sem hafa haldið þessari sparnaðarkenningu að kjósendum sínum. Einn jafnaðarmaður í mínu kjördæmi hjelt þessu fram, þinghaldi annaðhvert ár, og náði þó nokkrum atkvæðum á því, en allir vita þó, að flokkur hans er á móti þessu. En eitt er það, að þingmannaefni halda þessu fram til þess að afla sjer kjörfylgis, og annað hitt, að halda því fram þegar komið er inn í þingsalinn og ábyrgðin færist yfir. En annars er sú kórvilla á flutningi þessarar till., að það er ekki fyrst og fremst hugsað um þjóðskipulagið, þingstörfin eða löggjafarstörfin. Þegar slík till. um þinghald annaðhvert ár er borin fram, þá á auðvitað fyrst að hugsa um það, hvað gagnar best löggjafarstarfinu. En þegar málið er athugað frá því sjónarmiði, þá er langt frá því, að löggjafarstarfinu sje betur borgið með þessu móti. Þvert á móti, það er stórskemt.

Jeg verð að segja, að þegar breyta á stjórnarskrá eins lands til þess að spara nokkra tugi þúsunda, sem þó er óvíst að verði, þá legst lítið fyrir kappann, ef þingmenn konungsríkisins Íslands ætla að fara að rýra rjett þings og þjóðar á þennan hátt. Því að það er ekki svo vel, að þessi breyting sje meinlaus; hún er stórkostlegur rjettarspillir. Vald þingsins minkar og eftirlitið með stjórninni minkar, það er erfiðara að hafa hendur í hári þeirra stjórnarherra, sem mönnum líkar ekki við, og stjórnin getur gert ákvarðanir á löngum tíma, sem ekki verður um bætt eftir á. Að því er snertir þýðingu þessarar breytingar fyrir fjárlögin, þá eru ákvæðin mun verri og vitlausari en þau voru með gamla fyrirkomulaginu um þinghald annaðhvert ár. En það liggur í því, að þegar sumarþing voru hjer á árunum, þá liðu ekki nema 4 mánuðir uns fjárlögin gengu í gildi. Nú líða 8 mánuðir uns fjárlögin ganga í gildi, en þetta þýðir það, að fjárlög, sem samin eru í maí, ganga ekki í gildi fyr en eftir 32 mánuði. Þetta gengur á móti reynslu annara þjóða. Þar eru fjárlög samin til eins árs, og það er ekki nóg með þá takmörkun, heldur eru fjárlögin látin skríða út úr þinginu daginn áður en þau eiga að ganga í gildi. öðrum þjóðum þykir nóg, ef þingið á að sjá um fjárlög til eins árs. Meira að segja hafa nú á þingi Dana verið samþykt bráðabirgðafjárlög 31. mars, sem áttu að ganga í gildi 1. apríl. Það er svona mikil áhersla lögð á þetta þar. Í sambandi við þessa reynslu var horfið að því ráði hjer að hafa fjárlögin til eins árs. Það voru líka sjerstakar ástæður til þess. Þetta var gert í stríðslokin, af því að þá var vitanlegt, að mikill glundroði mundi verða á fjármálum manna og því ekki nokkur von til þess, að hægt væri að sjá lengra fram í tímann en eitt ár. Enda kom það í ljós, að þetta gafst vel. Þingið 1924 var kosið til þess að koma fjárreiðum ríkisins í rjett horf. Það var og gert vel og rösklega að öllu leyti. En ef fjárlög hefðu gilt til tveggja ára, þá hefði þessi mikla breyting dregist til 1925. Af þessu sjest, að tveggja ára fjárlög eru beggja handa vopn. Ef við í fyrra hefðum samið fjárlög fyrir 1928, þá hefðu vitanlega þær sparnaðartilraunir, sem gerðar hafa verið á þessu þingi, aldrei komist að. Svo yfirstandandi tími sýnir líka, að þessi breyting er beggja handa járn. Það er alveg víst, að það er fylsta ástæða til þess nú að hafa fjárlög fyrir eitt ár, eins og áður var. Nú er gjaldeyririnn og alt annað hjer á hverfanda hveli og aldrei hefir verið verra útlit fyrir fjárreiður ríkisins en nú. Því virðist mjer full ástæða til þess að geyma slíka breytingu sem þessa fyrst um sinn. Það er engin ástæða til þess að koma með hana núna. Þegar krónan er komin upp í gullgildi, eða stöðvuð og búin að standa stöðug nokkur ár, þá væri þessi breyting skiljanleg, en fyr ekki. Jeg verð að segja, að slík breyting sem þessi, á þeim tímum, sem nú eru, er einsdæmi í sögu þjóðarinnar. Jeg er sannfærður um það, að síðar verður þetta þing frægt að endemum fyrir það að samþykkja slíka stjórnarskrárbreytingu án þess að henni fylgi nokkur rjettarbót.

Þegar báðir stóru flokkarnir hjer í þinginu standa að þessari breytingu, þá geri jeg ráð fyrir því, að hún muni ná fram að ganga. Þess vegna hefi jeg borið fram brtt. mínar á þskj. 468, til þess að barnunginn verði ekki alveg eins snoðinn þegar hann fer út úr deildinni, ef þær verða samþyktar eða eitthvað í sömu átt. Jeg vil gefa hv. deild kost á því að láta þjóðina fá nokkrar rjettarbætur með þessari stjórnarskrárbreytingu.

Brtt. mínar eru í þrennu lagi. Fyrsta brtt. er þess efnis að miða kosningarrjett til Alþingis við 21 árs aldur. Jeg lít svo á, að þegar lögræðisaldurinn er miðaður við 21 ár, þá eigi kosningarrjettur til Alþingis að vera það líka. Þetta eru skyld mannrjettindi og mjer hefir altaf fundist, að allir vinnandi menn ættu að hafa þau, því að verður er verkamaðurinn launanna. Þegar maðurinn er orðinn verkamaður í víngarðinum, þá á hann líka að fá mannrjettindin.

Þá er annað atriði í þessari brtt., að menn, sem eru orðnir 30 ára, hafi kosningarrjett við hlutbundnar kosningar til Alþingis. Jeg sje, að komin er fram brtt. um að færa þetta aldurstakmark niður í 25 ár. Það er síður en svo, að jeg sje á móti því, en jeg setti nú 30 ár vegna þess, að jeg taldi það vænlegra til þess að ná fram að ganga. Jeg bjóst við, að það þyrfti að skifta rjettarbótunum, fara skemra fyrst, en þokast svo smátt og smátt áfram. Að jeg fer fram á, að 30 ára konur og karlar skuli hafa kosningarrjett við hlutbundnar kosningar, stafar blátt áfram af því, að jeg veit, að þá hafa menn náð fullum þroska, og er því ekki nema eðlilegt, að þeir hafi fullkomin þegnrjettindi. Það er ýmislegt, sem sýnir, að það er býsna hlálegt að miða þessi rjettindi við 35 ára aldur. Ef við lítum t. d. í kringum okkur hjer í salnum, þá sjáum við þingmenn fleiri en einn, sem ekki hafa kosningarrjett við hlutbundnar kosningar til Alþingis. Það er eitthvað bogið við þetta. En aðalástæðan fyrir því, að jeg kom fram með þessa brtt., er þó sú, að lífið er miklu hraðgengara nú en áður. Á árunum 1880–’90 var ekki svo mikill skoðanamunur milli þeirra eldri og hinna yngri; þá breyttist lífið svo lítið. En nú breytist lífið svo hraðfara, að gamalmennin komast fyr aftur úr því en áður og eiga erfiðara með það að fylgjast með tímanum, og því verður að færa landskjörið niður í 30 ár til þess að vega á móti þessu. Jeg komst á þessa skoðun vegna þess, að jeg sá, að það nær ekki nokkurri átt, að þjóð, sem er 100 árum á eftir tímanum, megi við því að láta gamalmennin ráða of miklu. Hún verður að reyna af öllum mætti að styðjast við framsókn hinna ungu manna, frekar en aðrar þjóðir, sem betur hafa fylgst með tímanum.

Þá er önnur brtt. á þskj. 468, en hún er aðeins afleiðing af hinni fyrri, um 30 ára kjörgengi.

Þá er þriðja og síðasta brtt. þess efnis, að þingið komi framvegis saman 20. september, í stað 15. febrúar nú. Þetta er gert til þess að færa þingið nær fjárhagsárinu en áður. Jeg hefi sett 20. september; það má ekki seinna vera vegna fjárhagsársins, en jeg býst þó við, að með þessu móti verði hægt að fá fjárlögin samþykt fyrir jól. Jeg býst nú við, að mörgum muni verða illa við að hafa samkomudag Alþingis 20. september og þyki mörgum gert erfitt fyrir um þingsetu með þessu móti. En annaðhvort verður að gera: breyta samkomudegi Alþingis eða fjárhagsárinu. Það mætti gjarnan láta það byrja 1. júlí eða 1. júní; það er okkar gamla góða fardagaár.

Jeg þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. Jeg er alveg ófáanlegur til þess að fylgja svona snoðnum breytingum, með mikilli rjettindaspilling, nema því aðeins, að við gefum þjóðinni jafnframt kost á einhverjum rjettarbótum. Annars hafði mjer dottið í hug, að það væri sjerstök ástæða fyrir mig að koma fram með brtt. viðvíkjandi tölu ráðherranna. Því hefir verið haldið fram jöfnum höndum, eftir því sem best hefir þótt henta, að þeir þyrftu samkvæmt stjórnarskránni að vera 3. Á þinginu 1924 bar jeg fram þáltill. þess efnis, að ráðherrar skyldu vera tveir. Hún fjekk heldur dauft fylgi, en var þó ekki feld með miklum atkvæðamun. Því hefði ekki verið fjarri sanni, að jeg kæmi nú með brtt. um þetta. En jeg hefi ekki gert það, vegna þess að jeg álít það staðfest af hæstv. stjórn, eftir útnefninguna 29. mars, að það sje löglegt, að ráðherrar sjeu ekki nema 2, og því er ekki ástæða til þess að koma fram með brtt. um þetta, ef þessu verður ekki mótmælt.