02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3503 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Mínu starfi sem frsm. meiri hl. stjórnarskrárnefndarinnar er nú lokið. Nefndin hefir ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til brtt. þeirra, sem hjer liggja fyrir á mörgum þskj. Þó skal jeg geta þess, að brtt. hv. þm. Ak. (BL) á þskj. 381 kom til umræðu á nefndarfundi, og gat nefndin ekki fallist á hana.

Mitt erindi nú, er jeg kvaddi mjer hljóðs, verður því ekki annað en að gera nokkra grein fyrir brtt. þeim, sem jeg hefi borið fram á þskj. 475. Jeg þykist hafa samið þessar brtt. í samræmi við afstöðu hæstv. forsrh. til landskjörsins og með tilliti til þess, er hann hjelt hjer fram við 2. umr.

Fyrsta brtt. mín, við 27. gr. stjórnarskrárinnar, fer í líka átt og 4. gr. stjfrv. var orðuð upphaflega. Legg jeg til með henni, að kjörtímabilið skuli vera 4 ár. Þetta er í samræmi við anda stjfrv., að ákveða sama kjörtímabil fyrir landskjörna þm. og hina, sem kosnir eru í sjerstökum kjördæmum, og að allir landskjörnir þm. sjeu kosnir í senn. Með þessu móti getur landskjörið orðið uppbót, ekki þó sjerstaklega fyrir þau kjördæmi, sem nú þykjast fara varhluta um þingmannatölu, heldur getur það þá orðið uppbót fyrir stjórnmálaflokkana og þá stefnu, sem ofan á er í landinu í það sinn, sem kosið er.

Önnur brtt. mín fer í þá átt, að kosningarrjettaraldur til landskjörs sje hinn sami og nú gildir við almennar kosningar, en það er 25 ár. Jeg held, að allir viðurkenni nú, að landskjörið fullnægi ekki þeim kröfum, sem ætlast var til í öndverðu, því að tilgangurinn var upphaflega sá, að landskjörið kæmi í staðinn fyrir konungkjörið gamla og yrði þar af leiðandi einskonar kjalfesta þingsins. En þetta hefir farið á annan veg. Þess vegna er rjettara að líta á landskjörið sem einskonar leiðrjetting eða uppbót á rangri og ósanngjarnri kjördæmaskiftingu. Þá liggur í augum uppi, að um fullkomna uppbót getur ekki verið að ræða í þessu efni, fyr en kosningarrjettur er hinn sami.

Annars vona jeg, að það verði ekki talin nein stjórnmálakænska af mjer að bera fram þessa brtt. Hitt finn jeg ekki ástæðu til að fara í launkofa með, að ef kosningarrjetturinn miðast við 35 ára aldur, þá er það fyrst og fremst til uppbótar fyrir Íhaldsflokkinn, og það af þeirri einföldu ástæðu, sem vitanleg er, að í hinum flokkunum eiga hinir yngri menn fremur heima. Hjer er því farið fram á að skapa meira rjettlæti fyrir alla, með því að kosningarrjetturinn sje hinn sami, eða miðist við sama aldurstakmark. Þó að það sje nú svo, að Íhaldsflokknum sje það mestur ávinningur, að kosningarrjettur til landskjörs miðist við 35 ára aldur, þá er fjarri mjer að ætla, að slíkt hafi vakað fyrir hæstv. stjórn, er hún var að semja brtt. sínar við stjórnarskrána.

Þá er önnur brtt. undir þessum sama tölulið frá mjer, um að fella niður úr frv. það skilyrði fyrir kosningarrjetti, að menn sjeu ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Um þetta atriði get jeg vísað til umr. þeirra, sem hjer fóru fram þegar frv. um breytingar á fátækralögunum var hjer á ferðinni. Þá hreyfðu margir því, að ekki yrði ráðin bót á þessum ágalla, af því að þetta væri fyrirskipað í stjórnarskránni. Hinsvegar benti jeg á þá, að af því að kringum þetta ákvæði væri reynt að komast með fátækralögunum, þá væri rjettara að breyta því í stjórnarskránni.

Þriðja og síðasta brtt. mín fer í þá átt að samræma kjörgengi við kosningarrjett manna samkvæmt þeim till., sem á undan eru fluttar.

Mjer finst, að hv. þdm. geti fallist á þessar brtt. mínar. Þær eru engar byltingatill., og heldur ekki fæ jeg sjeð, að neinn geti með sanngirni skoðað þær sem fleyg, er spilla eigi framgangi málsins. Þær eru allar í þeim anda, sem stjfrv. var upphaflega flutt. Finst mjer því, að þeir, sem á annað borð gátu gengið inn á það, geti þá með góðri samvisku greitt mínum brtt. atkvæði.

Annars hafa hjer komið fram fleiri brtt., sem fara í líka átt og mínar till. Að þeim standa hv. 1. þm. Árn. (MT), hv. þm. Dal. (JG) og hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Geri jeg ráð fyrir, að brtt. hv. 4. þm. Reykv., sem lengst fara í þessu efni, verði bornar fyrst upp, og falli þær, verða þá mínar næst, og fari eins um þær, koma brtt. hv. 1. þm. Árn. til atkv., en síðast brtt. hv. þm. Dal., en þær fara skemst. Annars sje jeg ekki ástæðu til að orðlengja frekar um brtt. þessar, og um málið sjálft mun ekki hafa mikla þýðingu að ræða. Enda býst jeg við, að hv. þdm. sjeu flestir þeirrar skoðunar, að það verði ekki til mikils sparnaðar, þó að nú verði samþ. sú breyting, að Alþingi skuli háð annaðhvert ár, því að bráðlega muni að því ráði horfið aftur, að fjárlagaþing verði háð á hverju ári.

Þó verð jeg að segja það, að um meiri sparnaðarvilja er að ræða í brtt. meiri hl. stjórnarskrárnefndar en í stjfrv., þó að hæstv. forsrh. vilji ekki viðurkenna það. Hann vildi halda því fram, að með till. okkar um að færa tölu þm. úr 42 niður í 36 væri ekki um neinn sparnað að ræða, af því að þingmannatalan væri ekki fastákveðin og ekki loku fyrir skotið, að þeim mætti ekki fjölga. En það er alveg sama og nú á sjer stað; þingmannatalan er ekki fastákveðin. Þetta er því á misskilningi bygt hjá hæstv. ráðherra. Þó að svo sje fyrirskipað nú, að þm. eigi að vera 42, þá liggur beint við, að þeim geti fjölgað úr því.

Fækkun þm. um 6 þýðir því allmikinn sparnað á kostnaðinum við þinghald. Og sá sparnaður er ekki aðeins fólginn í því, sem sparast við þingfarar- og dagkaup þessara 6 þm., heldur styttir það líka þingstörfin, því að eftir því sem fleiri tala á fundum, tekur afgreiðsla málanna lengri tíma, auk þess sem umræðupartur Alþt. verður lengri og prentkostnaður allur hærri.

Þess vegna get jeg ekki tekið alvarlega þær umkvartanir yfir því, að þingin sjeu óhæfilega löng og því æskilegt að stytta þau, ef þeir, sem um það tala hæst, geta ekki fallist á þessa brtt. um fækkun þm. Að halda þing annaðhvert ár mundi ekki hafa annað í för með sjer en að þingið yrði lengra í hvert sinn, eða, sem mjer finst þó trúlegra, að haldið yrði áfram að kalla það saman á hverju ári. Hvernig sem á þetta er litið, mundi ekki um neinn sparnað að ræða, þó að inn í stjórnarskrána kæmist nú, að þing skuli háð annaðhvert ár.

Annars þætti mjer gaman í þessu sambandi að fá svar hæstv. stjórnar við spurningu, sem jeg ætla að bera upp. Að vísu skal jeg taka það fram, að sú spurning byggist ekki á öruggum upplýsingum, heldur á orðasveimi, sem borist hefir til eyrna minna utan þingsins. Jeg hefi sem sje heyrt því fleygt, að það muni vera ásetningur hæstv. stjórnar að leysa upp þingið og efna til nýrra kosninga, ef fjárlögin fyrir 1928 verða afgreidd frá þinginu með álíka tekjuhalla og þau fóru hjeðan út úr hv. deild og ef engar stjórnarskrárbreytingar verða samþyktar.

Vitanlega er þetta orðasveimur, enda dettur mjer ekki í hug að leggja trúnað á það, að hæstv. stjórn ætli sjer að efna til nýrra kosninga í þeim eina tilgangi að spara eitthvað af þessum 300 þús. kr. tekjuhalla, sem nú er á fjárlögunum.

Annars vænti jeg eftir svari hæstv. stjórnar og læt svo lokið máli mínu að sinni.